Flokkur: Fréttir

14.10.2008 09:48

Ásgarður rifinn.

Ásgarður
Skipulags og bygginganefnd Árborgar samþykkti á fundi sínum í síðustu viku heimild til niðurrifs á Ásgarði. það verður óneitanlega sjónarsviptir af þessu reisulega húsi en það stórskemdist í jarðskjálftunum þann 29.maí sl.

02.10.2008 21:58

Margur vill messa yfir Bakkamönnum

EyrarbakkakirkjaNíu prestar viðsvegar af landinu hafa sótt um embætti sóknarprests í Eyrarbakkaprestakalli, þar af fjórar konur. Biskup Íslands skipar í embættið eftir umsögn níu manna valnefndar úr prestakallinu. Embættið veitist frá 1.nóvember nk.

 

Nú hafa Eyrbekkingar og grannar þeirra verið prestlausir í rúmann mánuð og því orðið afar brýnt að messa duglega yfir Bakkamönnum sem eru farnir að blóta í miklu óhófi þessa dagana yfir brimum, stórsjóum, fárviðrum og brælum efnahagslífsinns.

18.09.2008 22:39

Loksins hraðahindrun á Túngötu

Nú eru hafnar framkvæmdir við gerð hraðahindrunar við Túngötu á Eyrarbakka en rúmt ár er síðan íbúar við götuna afhentu sveitarfélaginu undirskriftalista þar sem óskað var eftir að gerðar yrðu a.m.k. tvær hraðahindranir á götunni. Sveitarstjórn Árborgar brást vel við og lofaði að koma þessu verki af stað svo fljótt sem verða má. Viðbragðsflýtir framkvæmdaraðila hefur hinsvegar orðið ansi langur. Ef við hugsum okkur að brekkusnígill sem ferðast á 1mm hraða á sekúntu hafi lagt af stað frá Selfossi til Eyrarbakka á sama tíma og sveitarstjórnin samþykkti framkvæmdina og ekki unt sér hvíldar alla leið, þá hafi snígillinn komist á Bakkann eftir fjóra mánuði en framkvæmdaraðilinn þurfti hinsvegar 12 mánuði til að komast á Bakkann. Þó má segja að betra sé seint en aldreiemoticon

17.09.2008 08:45

Ike blés hressilega

Stormlægðin IKE um miðnætti.Stormlægðin Ike lét finna fyrir sér við ströndina seint í gærkvöld en olli ekki verulegu tjóni á Eyrarbakka nema hvað vatn flæddi inn í eitt hús. Mikil úrkoma fylgdi veðrinu og var mesta vatnsveðrið skömmu fyrir miðnætti. Milli kl.01 og 03 í nótt gekk á með stormi eða 20 m/s og í hviðum fór vindur í 28m/s. Veðrið gekk svo hratt niður með morgninum. Í morgun var talsvert brim komið og sjórinn kolmórauður yfir að líta.

14.09.2008 23:22

Góð kartöfluuppskera

Kartöflurnar voru teknar upp í litla garðinum okkar í dag og var uppskeran með besta móti. Kartöflurnar yfirleitt stórar og talsverður fjöldi undir hverju grasi enda hefur veðurfar verið kartöfluræktendum hagstætt í sumar, einkum ágústmánuður en það er sá mánuður sem kartöflurna vaxa hvað mest og frostlausir dagar í september hafa hjálpað töluvert upp á vöxtinn. Líklega hafa þeir fáu kartöflubændur sem enn rækta kartöflur á Bakkanum frá sömu sögu að segja.

 

10.09.2008 21:43

Sjónarsviptir af skjálftahúsum.

Torfa húsÁsgarður
Það verður sjónarsviptir af húsunum sem skemdust mest í suðurlandsskjálftunum í sumar, en þau verða að öllum líkindum rifin innan tíðar. Þó þessi hús séu ekki íkja gömul þá hafa þau sett svip sinn á bæinn í nokkra áratugi og verið hluti af sál þorpsins. En vonandi verða byggð vegleg og reisuleg hús á þessum lóðum sem fyrst.
VatnagarðurBólstaður

01.08.2008 21:50

Heyskapartíð

 
Heyskapur er enn stundaður á Eyrarbakka þó í minna mæli sé en forðum daga þegar hvert strá var slegið hvar sem það óx. Nú orðið eru það aðalega hestamenn sem hirða tún með nútíma heyskaparaðferðum sem felst í því að rúlla öllu upp og pakka í plast og til þess þarf aðeins einn mann og viðeigandi vélakost. Í gamla daga þurfti margt fólk í heyskapinn þegar slegið var með orf og ljá og heyinu rakað saman með hrífum af harðduglegu kvenfólki og safnað í sátur eftir að búið var að þurka það sem best eins og sjá má á þessari gömlu mynd hér að ofan. Síðan var heyinu ekið í hlöður sem nú til dags er algjör óþarfi.

Í Finnlandsferð fyrir skömmu rakst ég á gamla heyskaparaðferð þar í landi sem er nú hverfandi eins og annarsstaðar, en þar var heyið þurkað á stöng eins og sést á myndinni hér að neðan. Ekki veit ég hvort sú aðferð hafi nokkurn tíman verið reynd hér á landi.



18.06.2008 00:00

Skjálftar í rénun,


Heldur hefur dregið úr skjálftavirkni við bakka Ölfusár á undanförnum dögum. Á síðustu 48 klst. hafa mælst 155 skjálftar á Suðurlandi að styrkleika 0,1-2, en í síðustu viku voru þeir vel yfir 200. Skjálftavirknin hefur nú verið viðvarandi í hart nær 20 daga, en allflestir það smáir að þeir koma aðeins fram á mælum. Hægt er að fylgjast með Skjálftavirkninni á Gogle Eart-VÍ
Jarðskjálftarnir 29. maí 2008 voru þeir mestu frá því stóru skjálftarnir tveir urðu hinn 17. og 21. júní árið 2000. Tjónið í skjálftanum 29.maí sl. var þó mun meira enda nær þéttbýli. Allflest heimili á Eyrarbakka,Hveragerði og Selfossi urðu fyrir töluverðu tjóni á innanstokksmunum og allnokkur hús á svæðinu teljast ónýt eftir skjálftanna.

Sunnlendingar hafa margir hverjir alist upp við þessa vá og glotta bara við þegar jörðin bifast undir fótum þeirra, en margir af erlendum uppruna búa einnig á svæðinu. Fólk sem er að upplifa jarðskjálfta í fyrsta sinn og bera kvíðboga fyrir hverjum degi og hverri nótt í þessu undarlega og framandi landi eldfjalla, jökla, gufuhvera og titrandi jarðar.

08.06.2008 23:48

Enn skelfur Óseyrarsprunga.


Nú eru liðnir 10 dagar frá Stóraskjálftanum undir Ingólfsfjalli. Í kjölfarið færðist mikið líf í sprungusvæðin við Ölfusá og ekki síst Óseyrarsprungu, en þar hafa mælst um 30 smáskjálftar á sólarhring og einn til tveir snarpir kippir (2-3 stig) sem hafa haft það að venju að koma reglulega að kvöldi hvers dags og segja gárungarnir á Bakkanum að eftir kl.19 sé kominn jarðskjálftatími. Mest hefur virknin verið ofarlega í Flóagafls og Kaldaðarneshverfi.

Skjálftavaktin.

05.06.2008 23:38

3 stig á richter skala

Jarðskjálfti, sem mældist rúm 3 stig á Richter, var á áttunda tímanum í kvöld á skjálftasvæðinu á Suðurlandi. Voru upptökin skamt norðan þorpsins á bökkum Ölfusár og glamraði hressilega í húsum á Bakkanum. Fólki á svæðinu er enn talsvert órótt eftir stóra skjálftann enda full virkni á skjálftasvæðinu nú viku eftir að sá stóri reið yfir.

04.06.2008 17:56

Viðvarandi smáskjálftar á Óseyrarsprungu.


Kortið er fengið af vef veðurstofunar.

02.06.2008 23:58

Enn bifast jörð.

Skrifstofa
Eftirskjálftar eftir þann stóra á fimtudag eru nú að nálgast 1.300 á sólarhring en allflestir það smáir að þeir finnast ekki. Í kvöld kom þó snarpur kippur sem fannst vel hér á Bakkanum og finnst mörgum komið æði nóg af þessum hristingi. Íbúar Árborgar, Hveragerðis og Ölfus hafa upplifað gríðarlegar náttúruhamfarir en þó tekið öllu með stakri ró eins og Íslendingum er tamt í endalausri baráttu sinni við hina óblíðu náttúru og það má segja þessari þjóð til hróss að íslensk húsagerð hefur þolað þessa raun með stakri príði. Helst eru það holsteinshús sem byggð voru um og eftir miðja síðustu öld sem hafa farið á límingunum.

Á Bakkanum eru amk. tvö hús ónýt eftir hin tröllslegu átök náttúrunnar og annað nokkuð laskað. Jarðskjálftinn sem þessu olli átti uptök sín í sprungu sem liggur rétt austan Ölfusárósa og upp að Hveragerði. Það má sjá hér á myndinni fyrir ofan af Bragganum hversu gríðarleg átökin hafa orðið, en austurstafninn hefur hreinlega kubbast í sundur.

Vísindamenn telja skjáftann núna vera framhald Suðurlandsskjálftanna árið 2000. Einig hefur komið í ljós að gufuþrýstingur í borholum á Hellisheiði snar jókst skömmu fyrir stóra jarðskjálftann sem gæti bent til ákveðinna tengsla þar á milli.

Í Suðurlandsskjálftunum1784 féllu bæjarhúsin á Drepstokki við Óseyrarnes og því ekki ólíklegt að þessi Óseyrarsprunga hafi verið að verki þá. Í jarðskjálftunum 1889 og Suðurlandsskjálftum 1896 er ekki getið tjóns á Eyrarbakka. Í Suðurlandskjálftum.6- 10 maí 1912 kom hinsvegar sprunga í húsið Skjaldbreið sem þá var nýlega steypt og má sjá þá sprungu enn í dag. Í jarðskjálftunum árið 2000 varð hinsvegar ekkert tjón á þessu svæði enda voru upptökin þá austar í Flóanum

Myndir.

29.05.2008 21:14

Suðurlandsskjálftar.


Stór jarðskjálfti
6,2 stig reið yfir kl.15:45 í dag. Fjöldi eftirskjálfta fylgdu í kjölfarið, smáir sem stórir. Mikið tjón varð á húsmunum flestra heimila á Árborgarsvæðinu og Ölfusi. Skemdir urðu á Óseyrarbrú og á veginum milli Eyrarbakka og Ölfusárósa. Á Bakkanum hrundu húsmunir og annað lauslegt niður á gólf í mörgum húsum. Garðhleðsla hrundi við eitt hús og einhverjar skemdir urðu á "Bragganum" svo dæmi sé nefnt. Fólki er talsvert brugðið og hyggjast einhverjir ætla að sofa í tjöldum eða fellihýsum í nótt.
Hér eru nokkrar nyndir af atburðum dagsins.

15.05.2008 23:10

Lesið á ljósastaura.


Venjulega eru ljósastaurar til þess ætlaðir að lýsa upp náttmyrkrið fyrir vegfarendur, en á Bakkanum eru þeir einnig notaðir til að lýsa upp sálartetrið með dálítilli lesningu, t.d. fallegu ljóði, skondinni vísu eða skemtilegri sögu. Það er því upplagt að fara í dálítinn labbitúr í vorblíðunni og lesa á ljósastaurana í leiðinni.

Það er bókasafn UMFE sem stendur fyrir þessu uppátæki í tengslum við hátíðina Vor í Árborg.

Flettingar í dag: 573
Gestir í dag: 171
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260863
Samtals gestir: 33798
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 19:57:00