Flokkur: Umhverfi

06.10.2010 22:29

Fífillinn blómstrar

Skarifífillinn blómstrar í hlýindunum þó sumar egi að heita löngu liðið, en þessi tegund er þó alltaf síðbúin. Grasvöxtur er einnig merkjanlegur þar sem skjól er og svo gæti farið að draga þyrfti fram slátturvélina á næstu dögum. Ekki var teljandi hiti í dag, en þó nægðu 12,4°C til að fella dagsmetið 12,0° frá 1959 og er það fjórði dagurinn í röð sem nýtt dagsmet er slegið á Bakkanum og spurning hvort nýju metin muni standa í hálfa öld eins og flest þau met sem fyrstu dagar mánaðarins áttu fyrir. En þennan dag fyrir ári síðan hafði fyrsti snjór vetrarins fallið hér á ströndinni, en væntanlega munum við þurfa að bíða hans eitthvað aðeins lengur að þessu sinni.

19.07.2010 22:31

Híf og hoy!


Þetta hús sem híft var af stalli í dag og flutt burt, þjónaði síðast sem heilsugæslustöð á Eyrarbakka. Áður var það trésmíðaverkstæði Guðmundar Einarssonar smiðs, en hann byggði húsið einhverntíman á áttunda áratug síðustu aldar. Á þessari lóð stóð eitt sinn lítill bær sem hét Vegamót. Þar bjuggu Þórarinn Jónsson (f.6.3.1853) og kona hans Rannveig Sigurðardóttir (. f.10.júlí1859), en þau voru langafi og langamma undirritaðs og bjuggu áður að Grímsstöðum sem stóð rétt sunnan við bæinn Ós á Eyrarbakka.


Vegamót var upphaflega Þurrabúð, torfbær með tveim hálfþilum og einu hálfþili og taldi tvö herbergi.Veggir hlaðnir grjóti en rekaviður notaður í sperrur og klæðningu,Þak og veggir klæddir torfi. Lítill gluggi á suðurstafni.Gólfið var moldargólf og rúmstokkur með vegg. Eina mublan var trékista til að geima í föt og aðra muni. Eldað var við hlóðir eða eldstó og var það eini hitagjafinn. Hvorki var rennandi vatn né hreinlætisaðstaða innan dyra. Við þesskonar aðstæður bjó fjöldi fólks á Eyrarbakka um aldamótin 1900.

 Seinna byggir Þórarin bæ á tóftinni klæddan bárujárni og einangraðan með reiðingi eins og farið var að tíðkast um 1920.    Vegamót stóðu sem áður segir á þessum stað fyrir austan Skjaldbreið við hlið Ásheima en alveg framm í götu og var bærinn rifinn 29.ágúst 1983.

18.07.2010 23:30

Gróðursælt sumar

Á síðustu 30 árum hefur gróðurfar tekið stakkaskiptum á Bakkanum og núorðið er algengt að húsagarðar séu prýddir limgerði eða trjám. Um aldamótin 1900 var sumstaðar ekki stingandi strá því sandfok var stöðugt af fjörunni og eirði engum gróðri. Lengst af 20. öldinni voru aðeins fáir húsagarðar þar sem reynt var að rækta einhvern trjágróður og þótti sumum það hin mesta firra. Nú er öldin önnur og allflestar íslenskar trjátegundir eru ræktaðar í húsagörðum Eyrbekkinga. Síðasta vor var einstaklega gott og tók allur gróður snemma við sér og áfallalaust. Þannig hefur hefur t.d. toppurinn á litla genitrénu hér á myndinni vaxið um 44 sentimetra frá því í vor og hefur annar eins vöxtur ekki orðið á líftíma þess sem gæti verið um 6-7 ár.

01.05.2010 18:27

Skjálftahrina í Breiðumýri

Nokkrir skjálftar yfir 2 stig mælast nú á Breiðumýrar sprungunni. Skjálftavirknin var mest frá því kl 9 í morgun og fram til kl, 16 síðdegis. Skjálftarnir fundust vel í Sandvíkurhreppi.

14.04.2010 11:02

Skyggni næstu daga

EyjafjallajökullEkki er líklegt að vel sjáist til nýja gossins í Eyjafjallajökli fyrr en á laugardag, en þá mun rofa verulega til á sunnanverðu landinu samkvæmt  skýjaspám. Um hádegi á laugardag eru góðar líkur til að heiðskýrt verði yfir jöklinum. Þá verður komin Norðan eða NV átt með fremur svölu veðri. Mögulegt er að eitthvað sjáist til gossveppsins af suðurlandsundirlendinu á næstu klukkustundum, en fljótlega fer útsýni versnandi á þessum slóðum þar sem skúraleiðingar munu fara vaxandi á svæðinu næstu sólahringa.

31.01.2010 19:50

Janúar í myndum

Eyjar rísa í hyllingum
Eyjarnar rísa í hillingum. Stokkseyrarfjara í forgrunni.
Baugstaðarviti
Baugstaðaviti. Eyjafjallajökull í bakgrunni.
Hekla
Hekla skartar sínu fegursta og tilbúinn í næsta gos.
Janúarsólin kveður
Janúarsól kveður með skrautsýningu.
Sólsetur á Eyrarbakka
Maðurinn og hafið.

28.04.2009 23:04

Kanínurnar komnar til að vera

Kanínur gera sig heima komnar á Bakkann
Það eru komnir nýbúar af kanínukyni í námunda við þorpið og þetta par var í óða önn að undirbúa vorverkin þegar ljósmyndara Brimsins bar að garði. Á nokkrum stöðum hérlendis eru kanínur orðnar hluti af dýralífi landsins. Í Öskjuhlíðinni eða Heiðmörk sjást iðulega kanínur á vappi og finnst mörgum þetta vera góð viðbót við fátækt dýralíf landsins. Í Heimakletti í Vestmannaeyjum hafa kanínur lagt undir sig lundaholur og verið þar lundaveiðimönnum til ama. En nú hafa kanínurnar greinilega komið sér fyrir á Bakkanum. En hvort þessir nýbúar séu upprunnir úr Eyjum eða af höfuðborgarsvæðinu verður vart um að spá, en hitt er víst að erfitt getur verið að stunda gulrófnarækt upp frá þessu.

14.03.2009 16:01

Aftur til fortíðar

Trönur á EyrarbakkaÞað eru nú all mörg ár síðan útgerð var og hét á Bakkanum og enn lengra síðan bændur á Suðurlandi hættu að sækja verslun sína á Eyrarbakka. Uppvaxandi kynslóð þekkir því aðeins þetta gamla verslunar og fiskveiðiþorp af  frásögn. En það er einmitt sú mikla saga sem er verðmætur menningararfur til næstu kynslóða. Þessa sögu er hvergi hægt að endurskapa nema hér á Eyrarbakka og gera hana þannig enn verðmætari.

 

Það yrði örugglega stórkostleg upplifun fyrir bæði innlenda sem erlenda ferðamenn, er þeir gengu um götur þorpsinns og findu angan af ilmandi engjaheyi þar sem sett yrði upp eftirliking engjaheyskapar með heysátum og lítilli tjaldborg, hrífum og ljáum og heyvögnum. Þá gætu kindur og kýr verið á beit og sett svip sinn á þorpið eins og forðum daga.

 

Fiskihjallar og árabátar myndu bera fyrir augu ferðamannsins og minnir hann á langa sögu fiskveiða frá Eyrarbakka. Þá kæmi hann að iðandi markaðstorginu þar sem bændur og handverksmenn væru með vörur sínar á boðstólnum og þar með endulífga forna verslunarhætti þar sem menn gætu prangað dálítið um verðið.

 

Að endurskapa sögu þorpsins er stórt tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila og menntastofnanir til að gera íslenskri menningararfleið hærra undir höfði en áður hefur tíðkast.

01.03.2009 01:06

Hugleiðing um perlur Árborgar

Úr HraunsfjöruFjörurnar á Eyrarbakka og Stokkseyri eru einstakar náttúruperlur á margvíslegan hátt. Þar má nefna hin sérstæða skerjagarð sem varð til fyrir 8.700 árum þegar Þjórsárhraun, mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi frá því að ísöld lauk, rann í sjó fram, og er hraunjaðarinn nú marbakki undan Stokkseyri og Eyrarbakka, um 140 km frá eldstöðvunum, þar sem hver klettur á nú sitt örnefni. Fjölskrúðugt fuglalíf þrífst í fjörunni svo til árið um kring. Seli má oft sjá kúra á skerjunum og svo að sjálfsögðu heillar brimið sem getur oft orðið stórkostlegt á að líta. Á vorin bætast svo hin ýmsu fjörugrös og fjöruarfi í þessa undraverðu flóru. Fjaran er líka merk fyrir það að vera hluti af sögu þessarar þjóðar í margar aldir. Úr þessari fjöru stigu menn á skipsfjöl og héldu út í heim og komu að landi aftur í þessari sömu fjöru.

 

Það er því nokkuð leitt að þessar perlur skuli enn vera sóðaðar út með holræsum sem ná rétt út fyrir flæðarmálið og telst mér þau vera ein sex slík á Eyrarbakka. Holræsin eru að stofni til frá árinu 1929 og þótti þá ekki tiltökumál að henda öllu í sjóinn, hverju nafni sem það nefnist. Nú 80 árum síðar ráða önnur gildi og er umverfisvernd oft á tíðum það leiðarljós sem menn vilja fylgja inn í framtíðina og því væri vert að leita annara lausna í frárenslismálum við ströndina.

 

Það mætti til að mynda fækka ræsunum úr sex í eitt og leiða það langt í sjó fram með dælingu og væri sú lausn ekki svo ýkja dýr í framakvæmd. Önnur leið væri að leiða allt frárensli vestur í Ölfusá sem er hvort sem er menguð á þennan hátt. Báðar þessar lausnir hafa þó þann galla að allt endar þetta á sama stað hvort sem er, þ.e. í hafinu. Hagkvæmasta leiðin til lengri tíma út frá umverfissjónarmiðum er sú snildarhugmynd sem ég heyrði af á dögunum sem gengur út á það að virkja frárensli í þró og framleiða metangas til eldsneytis. Þannig gætu sveitarfélög með nokkurskonar sjálfbærri þróun aflað sér tekna með öðrum hætti en með holræsagjaldinu.

06.01.2009 23:55

Gvendargrös

Chondrus Crispus Seaweed - source www.algaebase.orgGvendargras (Chondrus crispus) er sæjurt sem talsvert var höfð til matar fyrr á öldum og kom þessi jurt næst á eftir söl að vinsældum. Jurtin líkist fjallagrösum sem kölluð voru "Klóung". Sala á Gvendargrasi var einungis stunduð á Eyrarbakka en hún vex líka við Vestmannaeyjar og var talsvert nýtt af eyjarskeggjum. Þessi grös voru fyrst þurkuð og síðan látin í tunnur og selt þannig. Kostaði hver fjórðungur úr tunnu 5 fiska. Gvendargras gefur hinsvegar ekki hneitu (sykurhúð) eins og sölin. Gvendargrösin voru svo soðin í þykkan límkendan graut sem er síðan lagður í vatn og útbleyttur. Grauturinn var síðan soðin í mjólk með dálitlu mjöli eða bygggrjónum og borðaður með rjóma og þótti góður.

 

Heimild: Íslendingur 1862

06.02.2008 20:32

Kuldatíð á norðurhveli.

Snjó og ískort NOAA febr 2008
Eins og sjá má af þessu snjó og ískorti frá NOAA frá 5.febr.sl.þá ríkir heimskautavetur um allt norðurhvelið, ef frá er talin ríki vesturevrópu. Mesturhluti Skandinavíu er þakinn snjó og meginhluti allrar Asíu,enda hafa fregnir borist um mikinn kulda og snó í Kína. Ísmyndun á norðurhveli er áþekk og á sama tíma í fyrra en þó ívið minni eins og sjá má á kortinu hér að neðan frá því í janúar 2007.

Snjó ogískort NOAA jan.2007

20.11.2007 19:39

Flóinn skelfur

Kort veðurstofunarJarðskjálftahrina gengur nú yfir við Þorlákshöfn og Selfoss.Stæðsti  kippurinn fannst vel á Bakkanum og var hann eins og þungt högg sem kom á húsið en ekki það mikill að hlutir færðust úr stað.
Sjá töflu Veðurstofunar

Það rifjast e.t.v. upp hjá mörgum tilfinningin þegar sá stóri kom á þjóðhátíðardaginn 17.júní árið 2000 sem var það öflugur að Þegar skjálftinn náði hámarki var orðið tæpt að fólk gat staðið í lappirnar. Eða sá sem kom stuttu eftir miðnættið þann 21. júní sama ár og var ekki síðri en þjóðhátíðarskjálftinn eða um 6,5 á righter. það er kanski tilviljun að þegar skjálftarnir riðu yfir var veður mjög stillt rétt eins og nú. Þessir skjálftar tilheyra svokölluðum Suðurlandsskjálftum og einn öflugasti af þeirri gerð reið yfir árið 1912.

Fróðleikur um Suðurlandsskjálfta

  Jarðskjálftar -viðbrögð

25.10.2007 10:50

Selfoss leikur á reiðiskjálfi.

Jarðskjálftar skekja nú Selfoss svo hús leika þar á reiðiskjálfi með undarlegum hvin. Bækur féllu úr hillum á Sunnlenska bókakaffinu í hádeginu samkv.heimildum. Skjálftahrinan hófst kl. 3 í nótt undir Ingólfsfjalli. Í hádeginu höfðu um 15 skjálftar mælst, sá stærsti kl. 12:06 um 3 stig segir á vef Veðurstofunar.
Sjá töflu!

Eflaust er uggur í mörgum, því enn er beðið eftir seinnihluta suðurlandsskjálft á þessum slóðum.

16.10.2007 14:30

Sjógarðurinn stenst vel tímans tönn.


Á árunum 1990-1997 var gerður voldugur sjóvarnargarður framan við hina fornu sjógarða á Eyrarbakka og eru nú 10 ár liðin frá því að þessum áfanga var lokið. Árið 1999 var sjóvörnin svo framlengd austur fyrir barnaskólann og sjóvörn gerð fyrir Gamla-Hrauni. Ekki verður annað séð en að garður þessi hafi staðið sig með mestu prýði þó ekki hafi enn reint verulega á hann af völdum stórsjóa. Garðurinn veitir þorpinu einnig gott skjól fyrir svalri hafgolunni á sumrin og söltu særoki vetrarins. Fyrstu sjóvarnargarðarnir voru hlaðnir um 1788 og eftir svokallað Stóraflóð árið 1799 en skipulögð sjógarðshleðsla meðfram allri byggðinni hófst í kringum1830

Meira:

Flettingar í dag: 2069
Gestir í dag: 258
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 262359
Samtals gestir: 33885
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 22:03:21