30.04.2021 23:23

Sjóminjasafnið og Farsæll

Það mun hafa verið árið 1962 þegar Sigurður Guðjónsson á Litlu-Háeyri byrjaði að sinna safnamálum á Eyrarbakka við litla hrifningu hreppsnefndarmanna. Hóf hann því þetta þrekvirki upp á eigin spýtur. Hann byrjaði á að grafa skipshræ nokkurt upp úr sandinum við Háeyrarvör, það eina sem eftir var sinna tegundar og hét Farsæll og Páll Grímsson þá nýfluttur vestur í Nesi í Selvogi átti og gerði út frá Þorlákshöfn. Þetta er mikið skip, svokallur teinæringur sem Steinn Guðmundsson í Steinsbæ skipasmiður á Eyrarbakka hafði smíðað árið 1915.

Hið næsta verkefni Sigurðar var að byggja skýli yfir skipið það sama ár og á eigin kostnað, því hvorki hreppurinn né aðrir vildu gefa þessu gaum eða styrkja á nokkurn hátt. Skýlið mun hafa staðið á þeim slóðum sem þvottaplan 'sjoppunnar' stendur í dag og fékkst reist fyrir velvilja lóðarhafa. Þessi skúr stóð þar til Sjóminjasafnið var reist. Sigurður reif síðan skúrinn og stóð skipið þar úti í eitt ár, þar til unt var að koma því fyrir í nýja húsinu.

Nýja húsið reisti Sigurður á tímabilinu 1969 til 1979 einnig upp á eginn reikning, því enginn hreppsmaður eða opinber aðili vildi leggja nafn sitt við varðveistlu á gömlu og úreltu skipsflaki.
Húsið er háreist svo skipið geti notið sín undir fullum seglum.

Það var ýmislegt annað tengt sjósókn og lífinu í þorpinu sem Sigurður dró í skjól og varðveitti.

Farsæll er tólfróið skip, en hér um slóðir þurftu sjómenn að reiða sig meira á árarnar fremur en seglin, því hér er stöðugt vesturfall sem erfitt var viðureignar og máttu menn stundum þakka fyrir að geta haldið í horfinu.

Árið 1923 seldi Páll skipið Kristni Jónssyni, síðar byggingameistara á Selfossi. Hann gerði það út nokkur ár, en þá tók við Halldór Magnússon frá Hrauni í Ölfusi í tvö ár. Þá tók við skipinu Jón Jakobsson frá Einarshöfn. Þá kemur skipið austur á Eyrarbakka og notað sem "farþegaskip". En það var kallað svo á Bakkanum þegar hóað var í mannskap til að taka einn og einn róður þegar vel gaf á sjó og aflavon var.

Mótor var settur í skipið til að gera það nýtískulegra þegar ekki fengust lengur menn undir árar, en það dugði skamt og var skipinu lagt upp í Háeyrarvör skamt vestan við Sunnuhvol og grófst þar í sandinn og skældist undan farginu.
Skipið var nokkuð illa farið og mjög fúið í umgjörð og efstu borðum. Áður hafði Fiskifélagið látið gera nokkuð við skipið því þeir voru með áform um að varðveita það, en þau áform runnu út í sandinn bókstaflega.

Jóhannes Sigurjónsson skipasmiður á Gamla-Hrauni gerði síðan við skipið að fullu og lauk því tæpu ári fyrir andlát sitt.

Skip af þessu tægi voru mæld með hnefamáli, t.d var einn hnefi frá þóftu undir hástokkinn. Farsæll var smíðaður úr furu og voru 14 menn í áhöfn.

Í dag er sjóminjasafnið mikil þorpsprýði og hið eistaka djásn kúrir þar til sýnis forvitnum ferðalöngum.

Páll Grímsson var frá Óseyrarnes, en þegar hann var formaður á Stokkseyri var ort um hann þessi vísa:
Bjarni slynga happa-hönd, 
hefir á þingum vanda, 
djarfur þvingar ára-önd 
út á hringinn-landa. 

Frækinn drengur fram um ver, 
fiskað lengi getur. 
Stýrir "Feng" og eitthvað er 
ef öðrum gengur betur.
Flettingar í dag: 129
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 70
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 219619
Samtals gestir: 28925
Tölur uppfærðar: 3.10.2024 18:41:14