13.05.2019 21:34

Ásgautsstaðir I ábúendur

Ásgautur hét leysingi Hásteins Atlasonar og sona hans er byggði Ásgautsstaði. Ekkert er kunnugt um ábúendur á miðöldum.

1675-1705 Eyjólfur Þorsteinsson

1700-1705 Brynjólfur Jónsson

Um 1708 Gísli Gunnarsson, síðar á Höskuldsstöðum og þórðarkoti í Sandvíkurhreppi. f.1681 d.1762

1729-1735 Guðmundur Jónsson f.1681 og Valgerður Hinriksdóttir

1740-1747 Sigurður Jónsson

1747-1750 Nikulás Jónsson silfursmiður frá Suður-Reykjum í Mosfellssveit og Anna Einarsdóttir lögréttumanns Ísleifssonar á Suður-Reykjum.

1750-1770 Anna Einarsdóttir ekkja Nikulásar Jónssonar.

1768-1776 Sigurður Þorláksson búðarþjóns á Eyrarbakka, Brynjólfssonar lögréttumanns á Stóra-Hrauni Eyrarbakka Þórðarsonar, og Sólveig Nikulásdóttir silfursmiðs Jónssonar.

1779-1782 Jón Ingimundarson yngri

1782-1795 Grímur Snorrason frá Gýgjarhóli í Biskupstungum, Guðmundssonar lögréttumanns frá Miðfelli Jónssonar, og Gróa Hafliðadóttir frá Flóagafli Egilssonar.

1795-1801 Jón formaður Símonarsson Eyjólfssonar sterka frá Litla-Hrauni , síðar Óseyri og Selfossi, (f.1767-d.1856) og Guðrún Snorradóttir frá Kakahjáleigu Knútssonar.

1801-1815 Magnús ríki fyrrv. hreppstjóri og hafnsögumaður á Eyrarbakka, Bjarnasonar hafnsögumanns og hreppstjóra á Litlu-Háeyri Magnússonar í Simbakoti Beinteinssonar. [ Magnús og hans menn björguðu Salthólsfólkinu úr stórflóðinu 1799 er flóðið tók bæinn, en að öllu venju þótti Magnús ekkert góðmenni og helst til skapstór] Magnús var tvíkvæntur og var fyrri kona hans Halla Filippusdóttir frá Skúmstöðum Þorsteinssonar og þótti hið mesta valkvendi. Seinni kona Magnúsar var Þóra Magnúsdóttir frá Stóru-Sandvík Gunnlaugssonar. Magnús hélt einnig við Jórunni Alexiusdóttur frá Salthól.

1815-1831 Jón skipasmiður Snorrasonar á Hól Ögmundssonar í Kotleysu, og Þuríður Jónsdóttir frá Mið-Kekki Þórólfssonar.  Ásgautstaði keypti hann 1793 Óseyrarnes með Rekstokki 1797 og hjáleigurnar Gerða og Hól í Stokkseyrarhverfi. Frá þeim hjónum er kominn Nesætt.

1831-1835 Jón Egilssonar frá Hrútastaðahjáleigu Jónssonar Þórarinssonar hreppstjóra á Hæringsstöðum, Sigurðssonar. Í Móðurætt var Jón kominn af Eyjólfi sterka. Jón var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Þuríður formaður Einarsdóttir, en þau skildu eftir stutta sambúð. Seinni kona hans var Ingunn Jónsdóttir skipasmiðs Snorrasonar, er áður er getið.

1835-1853 Snæbjörn Sigurðsson frá Ósgerði í Ölfusi, Snæbjörnssonar, Sigurðssonar í Skálmholtshrauni, Ísólfssonar. Hann var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Vigdís Einarsdóttir  frá Norðurkoti í Votmúlahverfi, Eiríkssonar í Brúnavallakoti, Sveinssonar á Syðri-Brúnavöllum, Rauðssonar á Fjalli. Hún varð bráðkvödd. Seinni kona hans var Halla Þorsteinsdóttir frá Hól, Jónssonar.

1853-1859 Helgi skipasmiður Jónsson, Bjarnasonar í Grímsfjósum. Fóstursonur Margrétar Guðnadóttur  í Efra-Seli, bróðurdóttur Brands skipasmiðs í Roðgúl. Hann eignaðist hin fræga smíðahamar Brands, en með honum voru m.a. byggð mörg skip og endurbyggðir a.m.k. 9 bæir. Kona Helga var, Ingunn Jónsdóttir skipasmiðs Snorrasonar, áður Jóns Egilssonar, er fyrr er getið.

1859-1867 Helgi Snorrason í Hellukoti.

1867-1873 Páll Jónsson Mathiesen prestur. Ásgautsstaðir urðu þá prestsetur. Kona hans var Guðlaug Þorsteinsdóttir frá Núpakoti undir Eyjafjöllum.

1873-1874 Gísli Thorarensen prestur Sigurðssonar Gíslasonar Thorarensen í Hraungerði. Kona hans var Ingibjörg Pálsdóttir amtmanns Melsteðs Þórðarsonar.

1874-1876 Ingibjörg Pálsdóttir prestsekkja er áður er getið.

1876-1884 Jón Björnsson prestur, síðar á Litla-Hrauni og Eyrarbakka, en hann gekk þar fyrir kirkjubyggingu þeirri er þar stendur. Hann fannst síðar örendur í flæðamálinu utan við kaupstaðinn. Kona hans var Ingibjörg Hinriksdóttir bátasmiðs frá Hákoti á Álftanesi.

1884-1885 Jón Bjarnason söðlasmiður og Sigríður Davíðsdóttir úr Vestmannaeyjum, Ólafssonar. Þau skildu. Síðari sambýliskona Jóns var Guðrún Sigurðardóttir í Bjálmholti í Holtum Björnssonar.

1885-1888 Jón Magnússon í Efra-Seli og síðar Nýja-Kastala.

1888-1890 Vernharður Jónsson í Efra-Seli.

1890-1893 Jón formaður Vernharðsson eldri og Finnbjörg Finnsdóttir frá Hvammi á landi. Þau fluttu til Ameríku með fjölskyldu sína.

1893-1909 Gísli söngvari Gíslason Þorgilssonar á Kalastöðum. Gísli var hreppstjóri á Stokkseyri  en sagði af sér. Kona hans var Halldóra Jónsdóttir  frá Syðsta-Kekki Sturlaugssonar.

1909-1910 Júlíus Gíslason, sonur Gísla söngvara er hér er getið.

1910-1916 Jón Jónatansson búfræðingur frá Litlu-Þúfu í Miklaholtshreppi Þorleifssonar og Kristjana Benediktsdóttir frá Vöglum í Fnjóskadal Bjarnasonar.

1916-1918 Björn Gíslason fésýslumaður var þar síðastur ábúenda sem  getið er.

Heimild: Guðni Jónsson Magister/Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi.

Flettingar í dag: 97
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 2887
Gestir í gær: 206
Samtals flettingar: 229370
Samtals gestir: 29867
Tölur uppfærðar: 14.10.2024 03:28:05