06.08.2011 23:16
Aflabrögð 1961
Vertíðina 1961 reru þrír bátar af Eyrarbakka, en það voru Björn ÁR, skipstj. Sigurður Guðjónsson, Helgi ÁR 10, skipstjóri Sverrir Bjarnfinnsson aflakóngur og Jóhann Þorkellson ÁR 24, en skipstjórin á honum var Bjarni Jóhannsson.
16. - 31. jan. Frá Eyrarbakka reru 2 bátar í byrjun vertíðar með línu. Fóru þeir alls 7 róðra í jan. og öfluðu 16 lestir óslægt, þar af aflaði Helgi ÁR 10, 14 lestir í 6 róðrum.
1.-15. febrúar. Héðan reru 2 bátar með línu; nam afli þeirra á tímabilinu 67 lestum í 18 róðrum, var afli þeirra nær alveg jafn.
16.-28. febr. Héðan reru 2 bátar með línu og varð afli þeirra á tímabilinu 25 lestir í 8 róðrum.
1.-15. marz. Héðan reru 2 bátar með net. Voru gæftir alveg afleitar. Fór hvor bátanna 2 róðra og nam aflinn 6 lestum.
15. - 31. marz. Héðan reru 3 bátar með net. Gæftir voru sæmilegar, en þó flest farnir 13 róðrar. Aflahæsti bátur á tímabilinu varð ms. Björn með 68 lestir.
1.apríl - 15. apríl 1961. Héðan reru 3 bátar með net. Gæftir voru mjög góðar og voru flest farnir 13 róðrar. Aflinn á tímabilinu varð 195 lestir í 33 róðrum. Aflahæstu bátarnir á tímabilinu voru: Helgi með 77 lestir í 13 róðrum og Jóhann Þorkelsson með 69 lestir í 13 róðrum.
16.-30. apríl. Héðan reru 3 bátar með net. Gæftir voru góðar og voru flest farnir 11 róðrar. Aflahæsti bátur á vertíðinni í apríllok var Helgi með 234 lestir í 57 róðrum.
1.-15. maí 1961, vertíðarlok. Frá Eyrarbakka reru 3 bátar með net, gæftir voru sæmilegar. Aflinn á tímabilinu varð 33 lestir í 5 róðrum. Aflahæsti báturinn var ms. Björn með 27 lestir (óslægt) í 3 róðrum. Heildaraflinn á vertíðinni varð 637 lestir (óslægt) í 141 róðri hjá 3 bátum. Aflahæstu bátar á vertíðinni voru: Helgi með 237 lestir í 58 róðrum og Jóhann Þorkelsson með 221 lest í 53 róðrum.
15. maí til 31. ágúst, humarvertíð. Af Bakkanum stunduðu 4 bátar humarveiðar og öfluðu allvel eða um 4 lestir í veiðiför en afli fór minkandi er áleið.
1. sept. - 31. okt. Héðan stunduðu 3 bátar humarveiðar fram til 15. september. Afli var mjög rýr frá septemberbyrjun og aðallega þorskur og langa. Algeng veiðiköst voru um 1 lest í veiðiferð, sem tekur venjulega um 2 sólarhringa.
Ekkert var róið af Bakkanum í nóvember og desember 1961.
Heimild: Ægir 1961.