03.08.2010 23:19
Þurrabúðarlíf
Þurrabúðir eða Tómthús voru þau hreysi nefnd er hrófluð voru upp af grjóti og torfi við sjávarsíðuna á 19. öld. Á Eyrarbakka voru slík húsakynni mýmörg. Þurrabúðarmenn réðu húsum sínum, höfðu litla lóð til afnota, unnu hjá öðrum til sjós og lands. Áttu kanski litla garðholu og einhverjar hænur og kanski nokkra sauði. Hvað leiddi til þess að fólk yfirgaf sveitina og settist að í þessum hrófla tildrum? Hér er saga eins þeirra:
Þórarinn Jónsson snikkarasonur frá Hátúnum í Landbroti er 12 ára árið 1865 og við fylgjum honum úr hlaði þar sem forfeður hans hafa búið frá því snemma á 17. öld. Hann fer í vist á Ásgarði sem er bær í sömu sveit og vex þar úr grasi. Um fermingu er hann orðinn smali á Maríubakka og 15 ára er hann ráðinn vinnumaður að Hólmi. Síðan flakkar hann í vinnumensku á milli ýmsra bæja í Landbroti og Síðu næstu árin. Hann er orðinn þrítugur þegar hann nær sér í konu. Árið 1883 gekk hann að eiga Rannveigu Sigurðardóttur fædd á Kálfafelli V-Skaftafellsýslu, en ólst upp hjá vandamönnum á Hörgslandi. Er hér var komið 24.ára vinnukona, í Mörtungu. Faðir hennar var Sigurður Magnússon bóndi í Hruna á Brunasandi, en hann var áður vinnumaður hjá Jóni Sigurðssyni á Kálfafelli. Sigurður lést úr lungnabólgu þegar Rannveig var barn að aldri.
Hjónakornin yfirgefa sveitina með sinn litla heimanmund (Rannveig fékk 1000 ríkisdali í föðurarf, sem gengu til fósturforeldra hennar og sá ei neitt af þeim síðan.) og halda vestur yfir sanda, fljót og græna velli. Þau láta loks staðar numið á Haugi í Gaulverjabæjarhreppi en þar gerist Þórarinn bóndi í fyrstu en síðan í Garðhúsum í sömu sveit 1895. Þórarinn er orðinn tveggja barna faðir og ræður sig til sjós á Stokkseyri, hjá formanninum Jóni Guðmundssyni frá Gamla-Hrauni. Fjölskyldan unga dvelur um skamma hríð að Stjörnusteinum. Árið 1901 kaupir Þórarinn Grímsstaði á Eyrarbakka sem er þurrabúð, þröng og lítil, steinninn ber, moldargólf og ein hlóð við annan vegginn . En það fylgir þeim svo sem ekki mikið hafurtask, því veraldlegar eigur þeirra komast vel í eina kistu. Í þessu tildri búa þau í tæp 10 ár, elda sinn mat á hlóðunum sem jafnframt voru notaðar til upphitunar yfir veturinn.
Þórarinn stundar sjóinn af elju yfir vertíðirnar en um heyannir er hann sláttumaður hjá Stóra-Hrauns bóndanum og sóknarpresti. Rannveig stundar hin hefðbundnu heimilisstörf, barnauppeldi, prjón og aðra handavinnu ásamt öðrum tilfallandi viðvikum hér og þar. Árið 1910 kaupir Þórarinn aðra þurrabúð sem hét Vegamót og byggir þar lítinn bæ á tóftinni sem rúmar eitt sæmilegt herbergi, eldhús og dálítið fordyri. Undir var kjallari þar sem áður var gólf Þurrabúðarinnar. Í stað hlóðanna var nú kominn forláta kolaeldavél og sá hún einnig um uphitun húsnæðisins.
Skömmu eftir Jónsmessuna þetta ár söfnuðust menn við sjávarborðið þar sem sjávarbændurnir stóðu við báta sína samkvæmt gamalli hefð. Það var að falla út og gera stórstraumsfjöru. Hæðstu skerin voru kominn upp og menn drifu sig þá í bátana, því nú skyldi haldið til sölvatekju. Fram eftir morgni var fólk að tínast út á skerin eftir því sem fjaraði betur út. Allir máttu afla sér sölva þangað sem vætt var, en aðeins sjávarbændur máttu nýta sker sem róa þyrfti út í. Sumir voru með kuta eða hníf en aðrir berar hendur og slitu upp sölina og settu í laupa, sem síðan var losað úr í hrúgur efst á skerinu eða borið beint í bátana og róið með í land þar sem breitt var úr sölinni á bökkunum og hún hreinsuð og þurkuð í sólinni yfir daginn. Um kvöldið var sölin tekinn samann og sjávarbændur komu sölinni fyrir í sölvakofa þar sem hún var förguð undir striga og torfi, en almenningi nægði að koma sínum hluta fyrir í tunnu og grjót borið á til að pressa sölina. Eftir nokkrar vikur var sölin orðin hneit, kominn á hana hvít sykurhúð og þótti hið mesta sælgæti.
Eftir sölvatekjuna sem staðið hafði í þrjá daga fór Þórarinn í skelfjöru með öðrum körlum. Uppskeran stóð í tvo daga um lokastrauminn og sjór ládauður. Farið var alveg út á ystu sker við brimgarðinn og grafið eftir öðuskel með stangarjárnsbút er sleginn hafði verið spaði á annan endann og kallað skeljajárn.Menn pikkuðu oft margar skeljar upp úr sömu holunni þar sem þær voru í hrúgum. Skelin var síðan borin í land og dreift í innlónin þar sem straumur var og sjór hitnaði ekki í sólinni. Þarna var svo hægt að ganga að henni vísri þegar á þurfti að halda til beytu á haustin og vorin.
Er færi gafst var líka farið í grasa fjöru rétt fyrir sláttinn, þar sem tíndir voru grænþörungar sem síðan voru látnir útvatnast en þar á eftir pressaðir niður í tunnu. Sumum þótti þetta gott saxað út á skyr.
Enn á ný fór Þórarinn í sláttinn hjá landeigeigandanum að Stóra-Hrauni sem var prestsetur í þá daga. Voru þá slegin tún og engjar, hagarnir voru notaðir undir kýr en sauðfé oftast beitt á fjöruna. Fyrir sláttinn var greitt með varningi, lambi, smjöri og tólg. Heima fyrir áttu allir smá garðholu sem í voru ræktaðar kál og kartöflur, Þessu var sinnt eftir tökum yfir sumarið en sjómennskan var þó aðal starf Þórarins, og það sem mest gaf úr býtum.
Einhverju sinni þegar verið var að grafa áveituna á engjunum fyrir ofan þorpið og Þórarinn ráðist þar til vinnu eins og margir menn í þorpinu um þær mundir. Þórarinn gengur því upp á mýri og kemur þar að sem tveir menn hafa staðið við skurðgröft að undanförnu. Hann stendur dágóða stund og lýtur yfir verkið en verður svo að orði "Þetta er nú ljótasti skurður sem ég hef nokkru sinni séð".
Þórarin var sterkur og hraustur. Einhverju sinni var hann fenginn til að flytja tvo hveitisekki austur á Stokkseyri, (um 6 km) en þar var þá orðið hveitilaust. Voru nú bornir á hann hveitisekkirnir, sinn á hvora öxlina og gekk hann svo af stað frá verslunarhúsunum á Eyrarbakka. Er Þórarinn kemur að Hraunsá er hann nokkuð tekinn að lýjast en hættir þó ekki á að taka af sér sekkina til að hvílast, vitandi það að óvíst væri að hann kæmi þeim á axlirnar aftur. Heldur hann því áfram það sem eftir var og kemur móður og másandi inn í þorpið og hendir af sér sekkjunum við búðina og segir "Étið nú helvítin mjölið og berið mig svo heim"
Þurrabúðarmenn Lestarferðir út á Eyrar. Róið til fiskjar um aldamótin 1900 Vegamót