28.01.2007 17:18

Íslands forni fjandi.

Þeir fréttir berast nú á netmiðlum að hafís fyllir nú Dýrafjörð á Vestfjörðum og nær hann langt inn fyrir Þingeyri og hamlar siglingum og sjósókn. Slíkt hefur ekki gerst svo lengi sem allra elstu menn muna á þessum slóðum. Þessu veldur öflug hæð suður af landinu sem orsakað hefur stöðugar suðvestanáttir að undanförnu.

 

Það er hinsvegar 313 ár síðan  eða árið 1694 sem fyrst er heimilda getið um svo mikinn hafís að hann náði inn á Eyrarbakka og suður fyrir Vestmannaeyjar og kom í veg fyrir að vorskipin kæmust með varning sinn til Eyrarbakka. Ekki var orðið skipafært inn á Einarshöfn fyrr en um Jónsmessu það ár og líklega hafa Íslendingar þá mátt þreyja Þorran og Góuna og gera sér súpu úr handritum og skinnskóm.

 

Tíðin.

Hér á Bakkanum hefur  tíðin verið mild, hiti frá 3-6 °C og hægar vestanáttir með þokusúld. Einungis stæðstu skaflar og snjóruðningar standa eftir hér og hvar og jörð virðist koma vel undan snjó.

 

Úr þorpinu.

Eyrbekkingar héldu sítt árlega þorrablót nú um helgina og ku hafa verið uppselt á þann vinsæla mannfögnuð nú sem endranær og þeir Skúmstæðingar sem héldu sig heima við máttu heyra óm af gleði og söng bergmála um hverfið. Væntanlega munu einhverjar fréttir af þessari Jöfragleði upplýsast á Eyrarbakki.is

Flettingar í dag: 456
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 2887
Gestir í gær: 206
Samtals flettingar: 229729
Samtals gestir: 29881
Tölur uppfærðar: 14.10.2024 04:52:29