Færslur: 2011 Febrúar
06.02.2011 00:27
"Resolution"- strandið
Skonnortan "Resolution" hóf siglingar til Eyrarbakka vorið 1795 og kom í staðinn fyrir "Forellen" (hún hóf siglingar á Eyrarbakka 1788) sem fórst við Vestmannaeyjar í svarta þoku vorið áður (23.04.1794) og var "Resolution"í reglulegum siglingum til Eyrarbakka næstu 18. árin, eða þar til hún fór í sína hinstu för. Skipstjórinn Niels Bierun lagði upp frá Kristiansand í Noregi 9. maí 1813 og viku síðar var skipið komið í landsýn (16.maí). Það var brim á Bakkanum þann 18. maí þegar skonnortan kom til Eyrarbakka og sundin þá ófær. "Resolution" lagðist því fyrir akkeri á 16 faðma dýpi úti fyrir Þorlákshöfn og beið þess að brimið lægði. Heldur gekk brimið niður næsta dag og þann 20. maí komst lóðsinn um borð í skipið og færði það á leguna fyrir utan höfnna, (Ytri leguna) og fór að því búnu aftur til lands. Næstu daga var unnið af kappi við að afferma skipið um borð í ferjurnar. Þann 27. hófst svo útskipun á varningi til útflutnings, en þann dag fóru fjórir bátsfarmar af ull (45 stórsekkir) um borð í skonnortuna. Þá var komið gott lag til að færa skipið inn á hafnarleguna í meira öryggi, en af einhverjum ástæðum fórst sú ráðstöfun fyrir. Þess hefndi nú "Kári" með suðaustan hvassviðri og sneri síðan fljótlega í suðvestan rosa og var þá orðið um seinan að færa skipið inn á höfnina. Skipið barðist nú um í brimköstunum og brátt slitnaði annað haldreipið.
Þá var skipverjum ljóst að snör handtök þyrfti til að forða skipinu frá því að hrekjast upp í skerjagarðinn, þar sem öllum væri mikil hætta búin ef seinna haldið gæfi sig. Var þá skipið undirbúið fyrir sína hinstu siglingu og síðan höggvið á seinna haldreipið. Skipinu var svo stýrt upp í Hafnarskeið við Ölfusárósa þar sem það lagðist í sandinn og var öllum bjargað þar. Varningurinn og skipsflakið var síðan selt á uppboði.
Heimild: Saga Eyrarbakka.
04.02.2011 23:48
Vetrarlegt
04.02.2011 01:05
Ólafsvíkurskipið
"Fru Elisabet" var tvímastra seglskip, eða svokallað "briggskip" og var eigandi og skipstjóri þess Fredrik Feddersen. Vorið 1801 var skipið hlaðið matvörum og öðrum varningi frá Johannes Kellnes kaupmanni, við höfnina í Altona (Hamborg) og sigldi svo þaðan fullfermt áleiðis til Ólafsvíkur, en áður með viðkomu á Eyrarbakka.
Skipið lagðist fyrir akkerum fyrir utan Bússusund á Eyrarbakka að kvöldi 20.júlí, en þá var veltubrim svo skipið gat ekki athafnað sig inn sundið og beið því átekta. Briminu slotaði ekkert daginn eftir og þann 22. júli brast á stormur og slitnuðu þá festar skipsinns. Þegar skipið tók að reka, gerði áhöfnin þau mistök að yfirgefa skútuna og fóru í skipsbátinn. Aðeins sást til þeirra af Bakkanum stutta stund og voru þeir þá fyrir utan brimgarðinn. Skútan hraktist fyrst á sker en dreif svo að landi. Þegar heimamenn komu á strandstað var skútan mannlaus, en fljótlega barst eitthvað af líkum skipverja á land.
Lambertsen kaupmaður á Eyrarbakka stýrði björgunaraðgerðum á strandstað og náðist mestmegnis af varningi úr skipinu en matföng (korn og mjöl) eiðilögðust mestmegnis af sjó. Allt strandgóss sem til náðist var selt á uppboði.
Stykkishólmsskipið:
Samskonar atvik átti sér stað árið 1806 þegar "Anna" lítið verslunarseglskip (galeiða) strandaði á Hafnarskeiði við Þorlákshöfn 18. maí það ár. Skipstjórinn Kristinn Andersen Knöe hélt til hafs frá Danmörku 12. apríl 1806 áleiðis til Stykkishólms með viðkomu á Eyrarbakka, og lagði úti fyrir sundum vegna brims, en sennilega hafa akkeri ekki náð festu og dreif skipið upp í Skötubót. Allir bjöguðust í land nema kaupmaðurinn í Stykkishólmi Peter Holter, og var hann jarðsettur á Hjalla í Ölfusi.
Heimild: Saga Eyrarbakka
02.02.2011 21:50
Göteborg-strandið
Á árunum í kringum 1718 áttu Danir í stríði við Svía. Vegna stríðsins var kaupförum, er til íslands sigldu, raðað í skipalestir og herskip látið fylgja þeim. (Þó tókst Svíum að hertaka Hofsósskipið á útsiglingu árið1717). Seint í ágúst 1718 kom kaupfaraflotinn hingað frá Noregi og með honum stórt herskip, sem Göteborg ("Giötheborg") hét. Höfðu Danir náð þessu skipi af Svíum nokkrum árum áður. Skipherrann hét Jochum Friis, en áhöfnin 190 norskir sjóliðar. Göteborg lá í Hafnafirði það sem eftir lifði þetta sumar og ætlaði herskipið að fylgja kaupskipunum út um haustið. Sunnudaginn 23. okt var herskipið ferðbúið og kvaddi Hafnarfjörð með þremur fallbyssuskotum.
Herskipið sigldi suður með Reykjanesi og "tíndi upp" kaupskipin í leiðinni. Í Keflavík lá "Hvalfisken" og fylgdi það þegar eftir, þegar herskipið hafði gefið því merki. Síðan var förinni heitið til Eyrarbakka þar sem haustskipin biðu brottfarar. Þegar herskipið var statt djúpt vestur af Reykjanesi lenti það í stormi og varð "Hvalfisken" þá viðskila. Herskipið barðist áfram við illan leik næstu daga í mislyndu veðri og snjókomu. Föstudaginn 2. nóvember var skipið statt á Eyrarbakkabugt, skammt undan landi í snjókomu, illviðri og stórsjó og vörpuðu þar tveim akkerum. Daginn eftir gerði mikið brimrót og stórsjóir gengu yfir herskipið. Var það að bjargráði að högva niður möstrin þrjú og varpa í sjóinn með rá og reiða til að hlífa skipbroti og bíða þess síðan að lægði og hleypa þá upp í fjöru. Um kvöldið lægði, en brim var enn mikið. Þá var skotið þrisvar úr fallbyssum í von um eftirtekt úr landi og heyrðist það m.a. að Hrauni í Ölfusi. Síðan var efstu fallbyssuröðinni (9 stk) varpað í sjóinn til að létta skipið.
Sunnudaginn 7. nóvember voru 6 menn undir stjórn Brynjólfs Jónssonar frá Hrauni mættir í fjöruna og sáu hvers kyns var. Tunna ein í flæðarmálinu vakti strax athygli komumanna, en á hana var ritað stórum stöfum "Slaa mig op og læs Brevet" (Brjótið mig upp og lesið bréfið) en það var leiðarvísir um hvernig til ætti að haga björguninni frá landi. Það var svo mánudaginn 8. nóvember sem höggvið var á akkerisfestar og skipinu hleypt upp í strand. Af skipinu var sendur fleki í land með 8 menn ásamt björgunarkaðli. Flekanum hvolfdi hinsvegar í briminu og þeir sem á honum voru fórust allir, en flekinn barst á land ásamt kaðlinum og hófst þá björgunin og komust 170 manns lífs frá strandinu. (Nokkrir sjóliðar höfðu tínst á leiðinni)
Skipið braut svo í hluta 22. nóv, sumt sökk en annað rak á land og rifið þar næstu tvö árin og selt á uppboði. Talið er að aldrei hafi náðst í allar fallbyssurnar, en þær voru steyptar úr kopar. Skipverjar dvöldu svo víðsvegar um veturinn og hlutust af því margar barneignir að sagt var.
Heimild: Lesb.Morgunbl 7.tbl. 1953 og Saga Eyrarbakka.
- 1
- 2