Færslur: 2010 Desember

10.12.2010 01:14

Siglingar um sundin

Sundin á Eyrarbakka eru einkum þrjú. Þ.e. "Rifsós" sem er austast (Mundakotsvarða). það var oft ófært þegar lágsjávað var, og einhver alda úti fyrir. Næst er sund fyrir vestan þorpið, sem nefnist "Einarshafnarsund" og  oft var notað sem þrautalending á Eyrarbakka, en þar urðu eigi að síður sjóslys, þegar mjög lágsjávað var, eða undir og um stórstraumsfjöru. Þar fyrir vestan er sund er heitir "Bússa" eða "Bússusund", (Sundvörðurnar vestast) en var lítið notað fyrir fiskibáta, nema ef sérstaklega stóð á ládeyðu, því ef brim var, gekk hafaldan að nokkru leyti á það flatt eða yfir það, en þetta sund er einna dýpst og breiðast, og stefna þess þannig, að aldan gekk yfir það. Það var notað til innsiglingar verslunarskipana (Skonnorturnar voru kallaðar "Bússur") meðan þau komu til Eyrarbakka, og aldrei nema að brimlaus sjór væri. Eftir að vélbátaútgerð hófst var það notað í meira mæli og urðu þar stundum skæð sjóslys.

Heimild: Sigurður Þorsteinsson í Sjómannablaðinu Víkingi 1.tbl.1950

08.12.2010 00:58

Birkibeinar

Aðalsteinn SigmundssonAðalsteinn Sigmundsson kennari á Eyrarbakka stofnaði skátaflokkinn "Birkibeina" 1920 og voru það einvörðungu strákar. Birkibeinarnir á Eyrarbakka fóru í útilegur víða um nálægar sveitir, svo sem við Reykjafoss í Ölfusi og Þrastaskógi þar sem Aðalsteinn var umsjónarmaður skógarins á sumrin, Birkibeinar bökuðu þar og brösuðu eins og vanar húsfreyjur. Skátaflokkurinn hafði aðsetur í Sandprýði hjá Aðalsteini og æfðu þar skyndihjálp, lærðu á landabréf og áttavita og stunduðu hnýtingar. Aðalsteinn kynntist skátastarfinu í Svíþjóð, Danmörku og víðar. Átti hann ríkan þátt í uppbyggingu skátastarfsins hér á landi og árið 1924 tóku Birkibeinar þátt í stofnun Bandalags Íslenskra skáta. Árið 1926 voru allir komnir með merki og búninga og var Sigurjón Valdimarsson útnefndur til aðstoðar-sveitarforingja það ár. Eftir að Aðalsteinn fór af bakkanum lagðist félagsskapurinn í dvala en var síðan endurreistur 1940 og aftur 1958 og höfðu þá aðsetur í Fjölni, og síðast voru Birkibeinar endurvaktir um 1990 og voru þá jafnt strákar sem stelpur í skátunum. Þá var farið í lengri ferði en út í Þrastaskóg. Þá var farið til Lillesand í Noregi og var sú heimsókn endurgoldin árið 1994. Birkibeinar voru mjög virkir fram undir aldamótin 2000.

Þegar Sverrir Sigurðsson tekst það í fang, að brjótast til ríkis í Noregi, sem honum var sagt að faðir hans hefði átt og hann því ætti að erfa, en sverrir var munaðarlaus drengur, allslaus, einmana, en ríkinu hafði náð maður, er naut styrks margra voldugra höfðingja. Sverrir fékk í lið með sér 70 menn, er birkibeinar nefndust, vopnlausa, klæðalausa svo að kalla. Með þeim lagði hann undir sig allan Noreg, rak af stóli konung þann, er ríkið hafði tekið frá föður hans, og sat að völdum um langan tíma, eða til 1250. Lönd Birkibeina voru við Hamar í Noregi nokkru fyrir norðaustan Osló.

Birkibeinar koma fram í ævintýrinu "Konungssonur" eftir Gunnar Gunnarsson sem er byggð á sögu Hákonar konungs Hákonarsonar Sverrissonar og eru menn hans svo nefndir Birkibeinar en andstæðingarnir þeirra eru hinsvegar  "Baglar" sem réðu Upplöndum.

Árið 1897 stofnuðu Skútustaðamenn í Mývatnssveit bindindisfélag undir nafninu "Birkibeinar". Um 1911 gaf Bjarni frá Vogi út stjórnmálablað undir sama nafni.

Myndaalbúm Birkibeina

04.12.2010 22:46

Leikfélagið á Eyrarbakka

Úr Manni og Konu, Guðrún, Sigurveig og Kjartan.Leikfélag var stofnað formlega á Eyrarbakka 1943. Þetta var áhugamannaleikhús með 9 leikurum, 5 körlum og 4 konum. Meðal leikara og vildarvina Leikfélagsins voru Guðrún Bjarnfinnsdóttir, Kjartan Ólafsson, Sigurveig Þórarinsdóttir, Guðmundur Þorvaldsson, Helga Guðjónsdóttir, Kristján Guðmundsson og Lárus Andersen. Félagið var mjög virkt fram á 6. áratug síðustu aldar.

Með vinsælustu sýningum félagsins var "Lénharður fógeti" eftir Einar H Kvaran og undir leikstjórn Ævars Kvaran. Aðstaða  leikfélagsins var í samkomuhúsinu "Fjölni" á Eyrarbakka. Leiklist ýmiskonar var þó stunduð á Bakkanum löngu fyrr eða frá 1880.
sr. Þorvarður Þorvarðsson síðar prófastur í Vík, dvaldi á Eyrarbakka um eða fyrir 1890 og stóð þá að sjónleikjahaldi á Bakkanum og samdi sjálfur leikrit.

02.12.2010 00:13

Hvatning til verkalýðsins

Nú eru kjarasamningar alþýðunnar útrunnir og ekki veitir af að brýna þá sem við samningaborðið sitja fyrir hönd verkalýðsins að berjast nú með oddi og egg fyrir hina lægst launuðu, þannig að hverjum og einum verkamanni og verkakonu verði tryggð mannsæmandi lífskjör í þessu volaða landi.


"Þegar mótbyr mæðir þyngst

mörgum þykir nóg að verjast.

En eins og þegar þú varst yngst

þannig skaltu áfram berjast".


Þessi vísa var samin til Bárunnar á Eyrarbakka 1941. Höfundur ókunnur.
Flettingar í dag: 182
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 70
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 219672
Samtals gestir: 28926
Tölur uppfærðar: 3.10.2024 19:24:00