Færslur: 2010 Nóvember
06.11.2010 22:29
Eyjólfur sterki á Litla-Hrauni.
Eyjólfur hét maður, er uppi var um miðja 18. öld. (1729) Hann bjó á Litla- Hrauni í Stokkseyrarhreppi er þá hét. Hann var orðlagður fyrir afl og hreysti, og þar að auki var hann glímukappi mikill. Kaupmaðurinn, sem þá var á Eyrarbakka, átti eitt sinn tal við skipherrann á skipi sínu um íslendinga. Gerði skipherra lítið úr íslendingum, og sagðist skyldu koma með þann mann frá útlöndum, sem enginn íslendingur stæði fyrir, en kaupmaður sem hélt íslendingum fram, sagðist skyldu koma með þann íslending, sem enginn útlendingur bæri af. Þeir veðjuðu um þetta. Sumarið eftir kom skipherra með blámann, vígalegan og tröllslegan. Kaupmaður fekk Eyjólf til að glíma við hann. Var Eyjólfur þó tregur til, því að hann var við aldur, og bjóst þar við vægðarlausum viðskiptum. Áður en hann gekk til glímunnar, sívafði hann sig með snæri um kropp og útlimi undir ytri klæðunum. Gat blámaður því hvergi klipið hann til meiðsla. Lengi gerði Eyjólfur ekki annað en að verjast, og þóttist fullreyndur, en blámaðurinn ólmaðist hvað af tók. Loks kom Eyjólfur þó bragði á blámann og feldi hann. Lét hann þá kné fylgja kviði og þjarmaði svo að bringuspölum blámannsins, að blóð gekk af munni hans. Voru þeir þá skildir að, og blámaðurinn leiddur fram á skip. Eyjólfur var þó aldrei samur eftir viðureignina. Sagt er að kaupmaður hafi gefið Eyjólfi veðféð og meira til fyrir þennan sigur. Gekk þessi gíma undir nafninu "Veðmálaglíman".
Sögu þessa skráði Brynjúlfur frá Minna-Núpi eftir munmælasögu og birti í ritinu Huld I, en Brynjúlfur var Eyrbekkingum af góðu kunnur. Saga þessi er afar lík sögunni um þjóðsagnapersónuna Jón Sterka frá Eyrarbakka í ritum Jóns Árnasonar. En að auki eru til margar ýkjusögur um þessa glímu og stundum eignuð öðrum þjóðsagna hetjum. En þessi saga um glímu Eyjólfs er sennilega raunsönnust, en auk þess var Eyjólfur söguleg persóna.
Hann var sonur Símonar i Simbakoti á Eyrarbakka (f. 1681) Björnssonar á Háeyri (f. 1649) Jónssonar. Frá Eyjólfi er komin fjölmenn ætt sem of langt mál er að telja upp hér. En Grímur Gíslason frá Óseyrarnesi var fjórði maður frá Eyjólfi og voru þeir Brynjúlfur samtíða menn.
Heimild: Guðni Jónsson/Fálkinn 22.01.1938
04.11.2010 23:50
Fárviðrið 1938
Aðfararnótt 5. mars 1938 gerði mikið aftakaveður um allt land, en stóð þó aðeins yfir í tvo tíma. Veðurhæðin náði víðast 12 vindstigum sem eru um 33 m/s og urðu skemdir víða um suðvestanvert landið. Á Eyrarbakka ætlaði allt af göflunum að ganga og mundu menn ekki annað eins veður enda urðu þá miklar skemdir á húsum. Þakið fauk af barnaskólanum og kastaðist um langan veg. Veiðafærahjallur Jóns Helgasonar fauk um og reykháfar hrundu niður af húsum. Menn töldu það heppni að fjara var þegar mesta veðrið gekk yfir annars hefði ver farið.
04.11.2010 00:43
leituðu að gulli, en fundu silfur
Sumarið 1930 dvaldi Björn Kristjánsson náttúrufræðingur á Eyrarbakka. Hann ásamt Oddi Oddsyni gullsmið og símstöðvarstjóra hófu að leita að málmum aðalega þó gulli í skerjunum og í sandinum við sjóinn. Notuðu þeir m.a. hefðbundin verkfæri gulleitarmanna við þær athuganir. Ransóknir þeirra á sandinum við þvottaklett ásamt skeljum og steini úr Gónhól leiddi í ljós eftir efnafræðilega meðferð að bergið í skerjagarðinum og fjörugrjótið innihélt þrjá málma, Vismút sem er í ætt við Bismút og notað í snyrtivörur, einnig fundu þeir tin og silfur en gull fundu þeir ekki.
Heimild: Náttúrufræðingurinn 1931
02.11.2010 22:22
Rjúkandi brim
Það var rjúkandi brim í hvassri norðanáttinni í dag og fallegt á að horfa. Vindur í hviðum náði upp í ríflega 20 m/s og vindkæling því mikil þar sem hitastig er lágt. Heldur mun draga úr vindi þegar líður á morgundaginn segja spárnar, en búast má við éljum og köldu veðri fram að næstu helgi.
- 1
- 2