Færslur: 2008 Febrúar
05.02.2008 14:22
40 ár frá harmleiknum á Ísafjarðardjúpi.
Fárviðri og ísingarveður á Íslandsmiðum tóku stóran toll af sjómannastéttinni á síðustu öld og skemst er að minnast Halaveðursins fræga árið 1925 þegar þrír íslenskri togarar fórust og með þeim 67 menn, þar af 61 Íslendingur og 6 Englendingar. Laugardaginn 7. febrúar 1925 skall á mikið norðanveður með særoki og ísingu á Vestfjörðum en flestir togaranna voru þá að veiðum á svonefndum Halamiðum. þ.á.m. togararnir Leifur Heppni og Robinson sem tíndust í hafi en þau voru stödd norðvestur af Hala þegar veðrið skall á, en með þeim voru 68 menn. (þriðji báturinn var Sólveig frá Sandgerði)
Fyrir 40 árum (febr.1968) kom veður úti fyrir Vestfjörðum sem svipaði að mörgu til Halaveðursins, en í því veðri fórust 25 sjómenn, meðal annars áhöfnin á breska togaranum Ross Cleveland H-61 frá Hull.
Á fyrri hluta síðustu aldar fórust að meðaltali 40 sjómenn á Íslandsmiðum árlega, en þá var björgunarbúnaður fábrotin í flestum skipum og fjarskipti ekki eins örugg og í dag og engin björgunartæki í landi sem hægt var að beita við þessar aðstæður. Veðurfræðin hefur einnig tekið stórstígum framförum frá þessum árum til hagsbóta fyrir sjófarendur auk tilkynningaskyldunar og GPS eftirlits. Það var bresk sjómannskona Lily Bilocca að nafni sem barðist fyrir því að tilkynningaskylda yrði tekin upp meðal breskra togara í kjölfar atburðanna á Ísafjarðardjúpi fyrir 40 árum.
Frá Eyrarbakka og Stokkseyri hefur margur sjómaðurinn fengið vota gröf þær tvær síðustu aldir sem útræði var stundað frá þessum sjávarplássum, en meira um það síðar.
04.02.2008 13:28
Gefum fuglunum.
Nú er frost á Fróni og harðfenni víða svo nú hefur harðnað á dalnum hjá smáfuglunum. Þeir eiga erfitt með að afla fæðu af sjálfsdáðum í þessari tíð og lítið er um vatn þar sem lækir og tjarnir eru frosnar. þeir flögra nú á milli húsþaka í von um að einhver kasti fyrir þá korni eða brauðmylsnu. það er ekki mikið mál að gaukla einhverju að þeim svona rétt á milli þess sem við mannfólkið hámum í okkur bollurnar.
Í hádeginu var N 3 m/s á Bakkanum og skýjað en gott skygni. Sjólítið. Frost -7,0°C. Það þykknar upp með kvöldinu, segir spáin og á morgun má búast við NV 10 m/s -2°C frosti og e.t.v. lítilsháttar úrkomu. það horfir til hlýinda um næstu helgi og jafnvel lýkur á stormi segir sjálfvirka véfréttin.síbreytilega.
02.02.2008 15:31
Hel frost
Það var mikið frost á Suðurlandi í dag og hér í suðvesturhéruðum fór frostið víða yfir -20°C, en þó einna mest var frostið í uppsveitum. Á Kálfhóli var t.d.-22°C kl.03 í nótt sem leið. Á Bakkanum var mest -17.8°C kl.04 í nótt og telst það dagsmet fyrir 2.febrúar. Áður hafði mælst mesta frost þennan dag á Eyrarbakka -15,8°C 1985 en mesta frost á Eyrarbakka í febrúarmánuði var -19,3°C árið 1969.
Það er efitt hjá smáfuglunum í þessum kulda sem hýma á trjágreinum og bíða þess að hlýni, en spár gera ráð fyrir að eitthvað dragi úr frostinu.
02.02.2008 00:09
Á Kyndilmessu 2.febrúar
Um þennan dag er kveðið:
Ef í heiði sólin sést
á sjálfa kyndilmessu,
frosta og snjóa máttu mest
maður vænta úr þessu.
(Höf. ókunnur)
En það er einmitt spá dagsins, sól í heiði og 12 stiga frost. En einhvern veginn finnst manni nóg komið af snjó!
Í byrjun janúar var hægviðri á Bakkanum af norðaustri, en smám saman kólnaði í veðri og um miðjan mánuðin voru norðanáttir ríkjandi með vægu frosti og fyrstu snjókornin létu kræla á sér. Þriðjudaginn 15 janúar var kominn kafalds snjókoma og slæm færð á vegum enda var sjódýptin á Bakkanum komin í 20 cm undir kvöld. En þetta var bara byrjunin á öllum ósköpunum þennan janúarmánuð. það hélt áfram að snjóa og færðin var slæm hvern dag því illa gekk að sinna snjómokstri. Þann 19. gekk enn á með éljum og helkalt því frostið rauk upp í -19°C. Þann 22. gerði SA hvassviðri með asahláku og stórbrimi með miklu særoki. Síðan tók snjókoman aftur völdin og setti allt á kaf og þann 24 var 29cm snjódýpt á Bakkanum og svo fór að hvessa með skafrenningi á Bóndadag sem setti allt úr skorðum og þurfti að loka Þrengslunum um tíma en síðan Hellisheiði. Ef menn hafa dreymt um að nú væri nóg komið, þá var það bara byrjun á nýrri veðurfarslegri martröð því enn einn stormurinn gekk á land þann 27. og fóru vindhviður yfir 30m/s og lá veðrið yfir allann þann dag. Ekki var hér öllu lokið því vonskuveður af norðan gerði síðasta dag mánaðarins með miklum kulda.
Úrkoma mánaðarins var 163mm á Bakkanum sem gæti verið í meðallagi.
01.02.2008 11:16
Sjálvirk veðurspá- áfram frost.
Á vef veðurstofunar má nú finna sjálvirka veðurspá fyrir Eyrarbakka og er hægt að nálgast hana á myndrænan hátt hér. annars lítur spáin svona út.
Fös 1.feb kl.12 Vindur: 5 m/s Hiti:-9°
Lau 2.feb kl.12 Vindur: 11 m/s Hiti:-9°
Sun 3.feb kl.12 Vindur: 11 m/s Hiti:-2°
Mán 4.feb kl.12 Vindur: 10 m/s Hiti:1°
Þri 5.feb kl.12 Vindur: 7 m/s Hiti:1°
Mið 6.feb kl.12 Vindur: 10 m/s Hiti:1°
Heildarúrkoma hvers sólarhrings:
Fös: 0 mm Lau: 0 mm Sun: 0 mm Mán: 1 mm Þri: 7 mm Mið: 5 mm
Búist er við mikilli heitavatnsnotkun nú um helgina í Árborg vegna kuldakastsins og hafa báðar sundlaugarnar í Árborg, það er að segja Sundhöll Selfoss og sundlaugin á Stokkseyri verið lokaðar í dag vegna heitavatnsskorts.
Verður svo um óákveðinn tíma segir á vísir.is
- 1
- 2