Færslur: 2007 September

09.09.2007 22:09

Ágætt haustveður.

Þessi sunnudagur var með ágætum á Bakkanum og brimið gljávraði við ströndina og sólin skein á milli skýjanna. Það var semsagt ágætasta haustveður í dag en á morgun koma skýin  aftur með rok og rigningu segja þeir á veðurstofuni.

Á Bakkanum vex mikil hvönn vestur undir söndum. Hvannabreiðurnar eru eins og skógur á að líta eins og sést hér á myndinni. Ef hvönn væri einhvers virði, ætti hana líklega einhver greifinn.

08.09.2007 23:38

Gabriella.

Trakking GabbyÞess hefur líklega verið beðið lengi með mikilli eftirvæntingu af veðuráhugamönnum að geta fylgst með tilurð veðurfyrirbæris sem nefnt er Subtrobical stormur og nú kemur loks einn SUBtrobical nefndur Gabriella sem á uppruna sinn til lægðar á Atlantshafi og stefnir þessa stundina til strandar í Norður Karolínu USA. Gabriella er hinsvegar ekki raunverulegur hitabeltisstormur (Trobical). Subtrobical þýðir að stormurinn hefur bæði eginleika venjulegra hitabeltisstorma og veðurkerfis svokallaðra ofurhitabeltisstorms (extratrobical storm). Einstaka sinnum getur subtrobical stormur orðið að raunverulegum hitabeltisstormi og er þá orðið "Sub" tekið framan af nafninu en það á einmitt við með Gabríellu.

Eitt athyglisverðasta við marga subtrobical storma (mætti kanski þýða sem hálfhitabeltisstorm) er að vindurinn er ekki altaf sterkastur nálægt miðju eins og í venjulegum hitabeltisstormi eða fellibyl. Þá geta subtrobical stormar "Sprungið út" mjög skyndilega eins og hitabeltis hvirfilvindar (cyclone).

Það er einnig athyglisvert að Gabríella eða "Gabby" verður til nokkuð norðarlega á Atlantshafi þar sem sjór er mun tempraðari heldur en sunnan 30 breiddargráðu þar sem hitabeltisstormar eru algengastir.

"Gabbý" mun líklega sigla eitthvað norður á bóginn á næstu dögum samkv. tölvuspám og því ekki útilokað að áhrifa hennar gæti gætt hér á landi síðar meir, en vindhraði í storminum er nú 64 km/klst en það er svona temmilegt hvassviðri 17-18m/s.

07.09.2007 15:14

Nýtt brim 2.ára og fær nú nýtt nafn.


Heitir nú Brim á Bakkanum.

Þessi síða með nafninu Nýtt brim fór á vefinn fyrir um 2 árum hjá 123.is, þá líklega eina veður og brimbloggsíðan hér á landi og kom hún í stað eldri brimbloggsíðu sem var uppsett í blog,central kerfinu og hét hún Brim. Veðurbloggsíðum hefur fjölgað töluvert hérlendis sem og erlendis síðan þá.

Þó þessi síða sé ekki lengur ný af nálinni hvað veðurblogg varðar þá er hún líklega enn sú eina sem bloggar um brimið, og svo er að sjá hvernig þessi síða þróast. Brimbloggsíður hafa skotið upp kollinum víða erlendis, einkum í tengslum við brimbretta sport.

05.09.2007 12:06

Brima brunnur bragna fríði

Brimið leikur sér léttilega á sundinu eins og barn að biðukollu og grágrænar skriðfannir skríða að landi í sunnan beljandanum í gær. Brimið er mikil auðlind, full orku, sem enginn kann að nýta sér. Kanski sem betur fer, því hver annars væri búinn að kaupa það. Þeir yrðu þá kallaðir brimfjárfestar.

05.09.2007 09:41

Sumri hallað.


Það má segja að hið sunnlenska sumar sem nú er liðið hafi verið harla óvenjulegt hvað veðráttuna varðar. Mánuðirnir júní til ágúst 2007 voru óvenjuhlýir um allt sunnan- og vestanvert landið og sólin brosti við landsmönnum. Júlí var sá þurrasti síðan 1993 og komst hitinn hæðst í 22,4°C þann 9.júlí á Bakkanum, grasspretta var treg vegna þurkana og víða sviðin jörð. það tók loks að rigna í lok mánaðarins og má segja að ágústmánuður hafi verið í meðallagi. Júní var einig óvenju þur og hlýr og fór hitinn oft upp í 20°C.

Í lok ágústmánaðar urðu næturfrost á Suðurlandi og féll hitinn á Bakkanum amk. tvisvar niður í 2 stiga frost sem kom sér illa fyrir kartöflubændur hér við suðurströndina. Kaldast varð í Árnesi aðfaranótt 28., -4,0 stig.

Samkv. skoðanakönnun Brims þá álíta 93,1% þáttakenda að sumarið hafi verið frábærlega gott, enda var það vel fallið til útiveru.

04.09.2007 14:17

Stormurinn gnauðaði

Það var úrhellis rigning og hvassviðri á ströndinni í nótt og í morgun og fóru einstakar rokur upp í 21m/s á Bakkanum. Laufin rifnuðu af trjánum í stormhviðunum og þyrluðust um allar tryssur. Nú er kólgubrim og særót mikið.

03.09.2007 11:44

Nú er vinda von

Stormlægð nálgast nú landið vestanvert og ýfir upp báru. Veðurstofan varar við hressilegum vindi á höfuðborgarsvæðinu og hér á Bakkanum má gera ráð fyrir Sunnan18 m/s næsta sólarhringinn og þessu veðri fylgir vaxandi alda enda gerir siglingastofnun ráð fyrir ríflega 6 m ölduhæð á Eyrarbakkaflóa sem táknar að sjálfsögðu hressilegt og ógnþrungið brim á morgun.

það er því upplagt að bregða sér á Bakkan  og berja augum svarrandi brimið og æðisgengin boðaföllin,sem hvergi eru tignarlegri að sjá nema einmitt þar.

02.09.2007 15:25

Felix færist allur í aukana.

Fellibylurinn FelixFellibylir eru einhver mögnuðustu veðurfyrirbæri á jörðinni og valda oft gríðarlegu tjóni á mannvirkjum þegar þeir skríða á land og ofsafenginn veðurhamurinn dregur á eftir sér stórsjói og risavaxnar öldur sem steypast yfir strandbyggðir eins og íbúar New Orleans í Bandaríkjunum fengu að kynnast fyrir nokkrum árum þegar fellibylurinn Katarína gekk þar af göflunum. Nú bíður fólk þar suðurfrá með ugg í brjósti, því veðurfræðingar hafa spáð því að í ár muni þessum ógnaröflum fjölga og færa íbúm á karabísku eyjunum og strandbyggðum við Mexicóflóa nýjar ógnir.

Nú beinast allra augu þar suðurfrá að fellibylnum Felix sem geysar nú á karabíska hafinu norður af Aruba og stefnir að ströndum Honduras. Talið er að Felix sem nú er 2.stigs fellibylur muni láta að sér kveða í Nicaragua, Belize og Yucatan í Mexicó og muni þá búin að ná 4.stigi, en óliklegt er talið að hann nái ströndum Bandaríkjana.

01.09.2007 00:18

Sú var tíðin á ströndinni.


Á ströndinni þar sem brimið svarrar og tröllaukin úthafsaldan utan af Atlantshafi teygjir hvítfextan fald sinn á þessum fyrstu haustdögum standa sjávarþorpin Eyrarbakki og Stokkseyri eins og hljóð systkyni hlið við hlið og bíða þess að eftir þeim verði tekið.

Sú var tíðin að þessi þorp voru aðeins tvö í Flóanum og áttu sitt blómaskeið en svo kom tími hnignunar eins og hjá svo mörgum sjávarþorpunum nú til dags. Bakkinn var á sínum tíma snertipunktur Suðurlands við umheiminn. Þangað komu skip og þaðan fóru skip yfir Atlantsála suður til framandi landa og þar var miðstöð verslunar og viðskipta fram eftir öldum. Á Bakkanum er líka eina húsið á landinu sem skrifað er með stórum staf, þar stóð vagga menningar við músik og selskapslíf fína fólksinns. Á Stokkseyri bjó þá Þuríður formaður, Jón í Móhúsum og draugurinn Móri þar sem sjósókn, landbúnaður og verslun var stunduð af mikilli eljusemi.

Svo kom sá dagur að verslunin hvarf á braut til hins nýja staðar sem Selfoss heitir og þá hljóðnaði músikin í heilan mannsaldur frá píanóinu góða í Húsinu. En þorpsbúar lögðu ekki árar í bát heldur efldust í útgerð og fiskvinnslu, byggðu höfn og frystihús og virtust bara geta horft björtum augum til framtíðar, en svo fór allt öðruvísi en ætlað var og þessi undirstöðu atvinnuvegur þorpana hvarf í kalda brimöldu kvótakerfis og uppkaupa Sægreifa.

Þá var brugðið á það ráð að sameina Flóafjölskylduna í það sem Árborg heitir í von um að hefja mætti þessi þorp til vegs og virðingar á ný og á meðan brimið þvær hin skreypu sker tóku heimamenn, einkum á Stokkseyri að sækja ný mið sem byggir á ferðaþjónustu. Þar er Töfragarðurinn og Drauga og álfasafn svo eitthvað sé nefnt og á báðum stöðum eru eftirtektaverðir veitingastaðir og ekki má gleima Húsinu með stórum staf og Sjóminjasafninu á Bakkanum.

Þorpin sjálf eru þó mesta aðdráttaraflið, gömlu húsin, sjóvarnargarðurinn, fjaran og brimið og þennan vísir að ferðamannaiðnaði þarf að hlúa að og byggja undir. Það sem hér þarf að rísa er ferðamannamiðstöð þar sem ferðafólk getur haft athvarf, hreinlætisaðstöðu og fengið upplýsingar um það sem þorpin hafa upp á að bjóða, merkja gönguleiðir og sögulega staði annara en Hússins og Þuriðarbúðar sem nú þegar eru gerð góð skil og mætti nefna þar til Sandvarnargarðinn, höfnina fornu, sjógarðinn og þau hús sem hafa sögulega tilvísun ásamt helstu örnefnum á gönguleiðum og stígunum sem var eitt sinn lofað. Nú mættu forsvarsmenn sveitarfélagsinns líta upp frá þungbæru miðbæjarskipulagi Selfoss litla stund og koma að þessu máli og hrinda í framkvæmd.

Flettingar í dag: 700
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 530
Gestir í gær: 80
Samtals flettingar: 155717
Samtals gestir: 18372
Tölur uppfærðar: 9.6.2023 23:23:10