06.02.2011 00:27
"Resolution"- strandið
Skonnortan "Resolution" hóf siglingar til Eyrarbakka vorið 1795 og kom í staðinn fyrir "Forellen" (hún hóf siglingar á Eyrarbakka 1788) sem fórst við Vestmannaeyjar í svarta þoku vorið áður (23.04.1794) og var "Resolution"í reglulegum siglingum til Eyrarbakka næstu 18. árin, eða þar til hún fór í sína hinstu för. Skipstjórinn Niels Bierun lagði upp frá Kristiansand í Noregi 9. maí 1813 og viku síðar var skipið komið í landsýn (16.maí). Það var brim á Bakkanum þann 18. maí þegar skonnortan kom til Eyrarbakka og sundin þá ófær. "Resolution" lagðist því fyrir akkeri á 16 faðma dýpi úti fyrir Þorlákshöfn og beið þess að brimið lægði. Heldur gekk brimið niður næsta dag og þann 20. maí komst lóðsinn um borð í skipið og færði það á leguna fyrir utan höfnna, (Ytri leguna) og fór að því búnu aftur til lands. Næstu daga var unnið af kappi við að afferma skipið um borð í ferjurnar. Þann 27. hófst svo útskipun á varningi til útflutnings, en þann dag fóru fjórir bátsfarmar af ull (45 stórsekkir) um borð í skonnortuna. Þá var komið gott lag til að færa skipið inn á hafnarleguna í meira öryggi, en af einhverjum ástæðum fórst sú ráðstöfun fyrir. Þess hefndi nú "Kári" með suðaustan hvassviðri og sneri síðan fljótlega í suðvestan rosa og var þá orðið um seinan að færa skipið inn á höfnina. Skipið barðist nú um í brimköstunum og brátt slitnaði annað haldreipið.
Þá var skipverjum ljóst að snör handtök þyrfti til að forða skipinu frá því að hrekjast upp í skerjagarðinn, þar sem öllum væri mikil hætta búin ef seinna haldið gæfi sig. Var þá skipið undirbúið fyrir sína hinstu siglingu og síðan höggvið á seinna haldreipið. Skipinu var svo stýrt upp í Hafnarskeið við Ölfusárósa þar sem það lagðist í sandinn og var öllum bjargað þar. Varningurinn og skipsflakið var síðan selt á uppboði.
Heimild: Saga Eyrarbakka.