16.11.2008 22:55
Lestarferðir út á Eyrar.
Fyrr á öldum sóttu bændur Sunnanlands verslun á Eyrarbakka, jafnvel alla leið austan af Meðallandi og var það löng og ströng ferð sem gat tekið 10 til 14 daga. Sú var venjan að þegar lestin var kominn að Baugstöðum þá riðu tveir á undan lestinni til að hitta menn að máli og útvega stað fyrir tjöld og flutning. Þegar lestin kom svo á staðinn, var tekið ofan í flýti og hestarnir merktir og komið í hendur gæslumanna. Ef ös var við verslunina gátu lestarmenn þurft að bíða í þrjá til fjóra daga. Þá var tjaldað á sandi og þótti það nú síður aðlaðandi viðverustaður enda tjöld í þá daga án botns. Þá var til siðs hjá lestarmönnum að borða hangikjöt að heiman og skola því niður með brennivíni. Lestarmenn afhentu ull sína í versluninni þar sem hún var vegin og metin að gæðum. Að því búnu fóru menn í búð til að fá kaffimiða, en það var ávísun á heitt kaffi sem verslunin lét viðskiptamönnum ókeypis í té daglega á meðan þeir stóðu við. Þeir sem voru með viðskiptareikning fengu það sem kallað var "innleggsstaup". Þessi staup voru mis stór enda innleggið mis mikið hjá hverjum viðskiptamanni.
Allt gekk fyrir sig í stakri röð og reglu, oft svo undrun sætti. Morgunverðartími var þá almennt milli kl.9 og 10 f.h. en ekki var venja að loka búðum á matmálstímum í aðalkauptíðinni. Menn voru kallaðir upp til vöruúttektar í sömu röð og lagt var inn og varð þá hver að vera viðbúinn þegar röðin kom að honum eða eiga það annars á hættu að mikill dráttur yrði á að viðkomandi kæmist að. Að kveldi stunduðu menn gjarnan lausakaup en það var það kallað þegar hönd seldi hendi og höfðu bændur oft til þess sérstakann mann til að tefja ekki önnur viðskipti.
Snemma að morgni heimferðadags sóttu hrossagæslumenn hestana út á hagann og var þá þegar drifið í að koma klifjunum fyrir svo hrossin þyrftu ekki að híma lengi á berum sandinum. Frá Eyrarbakka var svo haldið til lögbundna áfangastaða sem voru þessir þegar lestir gengu austur: Baugstaðaklöpp, Nesbakki, Sandhólaferja í Holtum, Rauðalækjarbakkar í sömu sveit, hjá Varmalæk á Rángárvöllum, í Þverárbríngu í Hvolhreppi, hjá Voðmúlastaðaseljum í Landeyjum, Holtsoddi undir Eyjafjöllum, Steigardalur í Mýrdal og Fall í sömu sveit og Baugkrókur í Meðallandi. Á þessari leið þurftu lestarmenn að glíma við mörg vötn og fljót sem voru alsendis óbrúaðar langt frameftir 19. öldinni.
Heimild: Úr frásögn Jóns Sverrissonar í Lesbók Mbl 35.árg.1960 29.tbl.