Flokkur: Sögur
10.12.2008 21:06
Waldemar
Kaupskip eitt nefnt Waldemar 70 lestir að stærð strandaði á skeri utan við höfnina í innsiglingunni á Eyrarbakka 14. september árið 1855. Um borð í skipinu voru m.a. um 800 tunnur af matvæum sem skipa átti upp í Eyrarbakkaverslun. Skipið brotnaði í spón áður en tókst að bjarga farminum. Flestar tunnurnar hurfu í hafið en annað ónýttist. Það sem síðar náðist að bjarga úr skipsflakinu var selt á uppboði. Skipsskrokkurinn seldist á 270 ríkisdali, korntunnan á 2 rd, en sykur, kaffi, brennivín og fleyra seldist ærnu verði.
Heimild: Norðri 3.árg. 22.tbl. 1855
08.12.2008 21:37
Sögulegt atvik
Þann 5.ágúst árið 1809 lá enska herskipið Talbot við akkeri á ytrihöfninni á Eyrarbakka. Skipið hafði leitað þar vars undan óveðri undir stjórn kapteins Alexander Jones. Á Eyrarbakka fær hann þær fréttir að í Reykjavik liggi þrjú ensk skip (þ.á.m.ensku víkingakaupskipin Margrét og Anna, þau höfðu uppi hinn nýja íslenska fána, bláfeld með þrem hvítum þorskflökum) og að enskur sápukaupmaður (Samuel Phelps) væri orðinn höfuðsmaður eyjarinnar. Alexander Jones lét þegar létta akkerum og stefndi skipi sínu til Hafnafjarðar til þess að taka málin í sínar hendur.
Þetta sumar hafði orðið "bylting" á Íslandi á meðan Napoleonsstyrjöldin geysaði í Evrópu og landið var í raun stjórnlaust frá dönsku yfirvaldi. Danskur túlkur Samúels Phelps, Jörgensen að nafni (Jörundur hundadagakonungur) fór þá með völd landsins í umboði sápukaupmannsins. Hann lýsti því yfir að Ísland væri laust og liðugt frá dönsku ríkisvaldi og hefði frið um alla veröld. Kanski gat Jörgensen kent Eyrbekkingum óbeint um að valdatíð hans og "sjálfstæði Íslands" lauk svo skindilega.
Jörgensen þessi hafði sem ungur maður verið á kolaflutningaskipi, en síðar munstraður sem miðskipsmaður á einu skipa breska flotans þar til hann gekk til liðs við Samúel kaupmann sem sérlegur túlkur í viðskiptum hans við íslendinga.
Heimild: Bréf frá Alexander Jones-Íslensk sagnablöð 1816-1820
24.11.2008 22:38
Draugurinn Keli
Eitt sinn er er Skaftfellingar voru í verslunarferð á Eyrarbakka fældi strákur fyrir þeim hrossin. Sá var nefndur Keli og hafði ekki sem best orð á sér. Skaftfellingum þótti þetta óþvera hrekkur og reiddust þessu mjög. Greip þá einn þeirra klyfbera og henti í strákinn. Varð það honum að bana og þótti sú hefnd meiri en til var ætlast, en varð þó ekki aftur tekin. Keli fékk ekki frið hinumegin grafar og fylgdi banamanni sínum, sem fékk sig fljótt fullsaddan á þeim förunaut.
Þekking á fornum fræðum var nú ekki útdauð á þessum tíma, því banamaður Kela tókst með hjálp lærðra manna að koma Kela í skjóðu, en honum sjálfum ráðlagt að flytja sig til Vestmannaeyja og koma aldrei í land aftur.
Skinnskjóðu þessa sendir svo banamaður Kela til hálfsystur sinnar Sigríðar Þorkellsdóttur í Holti í Álftaveri sem verður það á að opna skjóðuna, og gaus þá út blá gufa með því sama. Keli gekk nú meðal Álftveringa eins og flækings piltur. Var haft fyrir satt að orðið hefði að skamta honum mat og ef það gleymdist þá spillti hann mat þar í Holti og gerði ábúendum ýmsar skráveifur.
Eitt sinn að kvöldi til átti maður nokkur þar í sveitinni leið framhjá Holti. Þarf hann þá að bjarga brókum sínum og þótti honu ágætis aðstaða til þess undir túngarðinum. Er hann hafði lokið sér af, veit hann ekki fyrir en Keli er kominn að honum. Þykist maðurinn illa staddur að mæta draugsa við þessar aðstæður. Greip hann það sem hendi var næst og kastaði framan í Kela "Hana hafðu þetta" sagði bóndinn. Lét Keli sér þetta að kenningu verða og snautaði burt.
Heimild:Lesbók Morgunblaðsins - 7. janúar 1995
16.11.2008 22:55
Lestarferðir út á Eyrar.
Fyrr á öldum sóttu bændur Sunnanlands verslun á Eyrarbakka, jafnvel alla leið austan af Meðallandi og var það löng og ströng ferð sem gat tekið 10 til 14 daga. Sú var venjan að þegar lestin var kominn að Baugstöðum þá riðu tveir á undan lestinni til að hitta menn að máli og útvega stað fyrir tjöld og flutning. Þegar lestin kom svo á staðinn, var tekið ofan í flýti og hestarnir merktir og komið í hendur gæslumanna. Ef ös var við verslunina gátu lestarmenn þurft að bíða í þrjá til fjóra daga. Þá var tjaldað á sandi og þótti það nú síður aðlaðandi viðverustaður enda tjöld í þá daga án botns. Þá var til siðs hjá lestarmönnum að borða hangikjöt að heiman og skola því niður með brennivíni. Lestarmenn afhentu ull sína í versluninni þar sem hún var vegin og metin að gæðum. Að því búnu fóru menn í búð til að fá kaffimiða, en það var ávísun á heitt kaffi sem verslunin lét viðskiptamönnum ókeypis í té daglega á meðan þeir stóðu við. Þeir sem voru með viðskiptareikning fengu það sem kallað var "innleggsstaup". Þessi staup voru mis stór enda innleggið mis mikið hjá hverjum viðskiptamanni.
Allt gekk fyrir sig í stakri röð og reglu, oft svo undrun sætti. Morgunverðartími var þá almennt milli kl.9 og 10 f.h. en ekki var venja að loka búðum á matmálstímum í aðalkauptíðinni. Menn voru kallaðir upp til vöruúttektar í sömu röð og lagt var inn og varð þá hver að vera viðbúinn þegar röðin kom að honum eða eiga það annars á hættu að mikill dráttur yrði á að viðkomandi kæmist að. Að kveldi stunduðu menn gjarnan lausakaup en það var það kallað þegar hönd seldi hendi og höfðu bændur oft til þess sérstakann mann til að tefja ekki önnur viðskipti.
Snemma að morgni heimferðadags sóttu hrossagæslumenn hestana út á hagann og var þá þegar drifið í að koma klifjunum fyrir svo hrossin þyrftu ekki að híma lengi á berum sandinum. Frá Eyrarbakka var svo haldið til lögbundna áfangastaða sem voru þessir þegar lestir gengu austur: Baugstaðaklöpp, Nesbakki, Sandhólaferja í Holtum, Rauðalækjarbakkar í sömu sveit, hjá Varmalæk á Rángárvöllum, í Þverárbríngu í Hvolhreppi, hjá Voðmúlastaðaseljum í Landeyjum, Holtsoddi undir Eyjafjöllum, Steigardalur í Mýrdal og Fall í sömu sveit og Baugkrókur í Meðallandi. Á þessari leið þurftu lestarmenn að glíma við mörg vötn og fljót sem voru alsendis óbrúaðar langt frameftir 19. öldinni.
Heimild: Úr frásögn Jóns Sverrissonar í Lesbók Mbl 35.árg.1960 29.tbl.
05.11.2008 20:56
Róið til fiskjar um aldamótin 1900
Þá voru allir bátar á Eyrarbakka róðrabátar og veitt var á línu. Beitan var fjörumaðkur í vertíðarbyrjun en síðan altaf hrogn eða þar til síðar að farið var að nota síld. Því grynnra sem fiskurinn gekk því betur aflaðist. Fatnaðurinn var úr skinni og skórnir líka. Þá var róið í þriggja tíma túra og myrkrana á milli ef vel fiskaðist. Fiskurinn var seilaður á grunnenda bátsinns, en þar tók landmaðurinn við honum og dró frá skerjum til lands þar sem heimafólk, konur og krakkar tóku við honum. Í stórstraumsfjöru var það stundum langur vegur sem landmaður þurfti að draga seilina og þótti það íllt verk.
Formenn báru sig saman um það hvort væri sjófært og var þá flaggað ef svo var. En þar til flaggið var komið upp mátti enginn halda til sjós, því svo fljótt gat brimað á Bakkanum.
Vertíðarnar voru þannig að byrjað var að róa seint í september og róið til jóla. Haustvertíðinni lauk á Þorláksmessu. Stundum var róið milli jóla og nýárs. Vetrarvertíð byrjaði á kyndilmessu en venjulega tók ekki að fiska fyrr en seint í febrúar. Aðkomumenn voru einungis til sjós á vetrarvertíðum, en á vorin reru aðeins fáir bátar.
Þegar vorvertíð lauk tók við svokölluð eyrarvinna hjá sjómönnunum, en það var uppskipunarvinna fyrir verslunina. Í þann tíma var fjölmennt á Bakkanum þegar bændur komu hvaðanæfa af Suðurlandi til innkaupa. Þá fóru einnig fram vöruskipti mill bænda og þorpsbúa. Bændurnir fengu söl, fisk og herta þorskhausa, en létu í staðinn smjör, tólg, kjöt og skinn. Þá jafngiltu 20 fiskar 4 krónum.
Heimild: Byggt á viðtali Þjóðviljans við Ólaf Sigurðsson frá Naustakoti á Eyrarbakka. Þjóðviljinn 4.júní 1950.
Ps. Fékk þessa vísu hjá bloggvini http://gummiste.blogcentral.is/
Frá Eyrarbakka út í [Sel] vog.
Sumar útgáfur vísunar eru með eftirfarandi hætti:
Frá Eyrarbakka út í Vog
er svo mældur vegur
átján þúsund áratog
áttatíu og fjegur.
Rétta útgáfan er svona:
Frá Eyrarbakka út í Vog
er svo mældur vegur
átján hundruð áratog
áttatíu og fjegur.
Vegalengdin á sjó, frá Eyrarbakka út í Selvog, mun vera 25-30 km. og í logni 4-5 kl. stunda
róður. Þegar tekið var langræði höfðu menn, að öllum jafnaði, langdregin áratog, 7 áratog á mínútu, og það eru 420 áratog á klukkustund, en 1890 áratog á 4.5 kl. stund.
04.09.2008 20:19
Þorleifur ríki og svindlarinn snjalli.
Þorleifur Kolbeinsson var á sínum tíma hreppstjóri Stokkseyrarhrepps og kaupmaður á Háeyri á Eyrarbakka og gekk gjarnan undir nafninu Þorleifur ríki.
Svo bar við eitt sinn á efri árum Þorleifs að maður nokkur óþekktur kom að hlaðinu á Háeyri með þrjá klifjahesta í taumi og var þá nokkuð áliðið dags. Maðurinn tók baggana af hestunum og gekk síðan í búð Þorleifs og tók þar út ýmsar vörur. Nú bjó hann um þær vörur sem hann hafði tekið út en baggar hans voru þá enn óleystir á hlaðinu. Áður en til þess kom að gera upp reikninginn baðst hann leyfis að fá að skreppa í Vesturbúðina því þá var komið að lokunartíma þar. Þorleifur taldi sér nú óhætt að verða við beiðni mannsins enda biðu baggar hans óhreyfðir á hlaðinu. Nú leið tíminn drjúga stund og ekki skilaði maðurinn sér til baka og var þá spurst fyrir um hann í Vesturbúðinni en þangað hafði maðurinn þá aldrei komið. Þorleifur lét nú leysa baggana og kom þá í ljós að í þeim var aðeins mold og sandur. Þorleifi þótti nú sýnt að hann hafi verið gabbaður. Eyrbekkingar buðust nú til að ríða eftir manninum sem allir töldu að væri fjarsveitarmaður þar sem enginn Bakkamaður hafði borið á hann kensl. Menn töldu að hann væri ekki kominn svo langan veg að lausríðandi mönnum yrði skotaskuld um að ríða hann uppi og hafa hendur í hári hans. Þá mælti Þorleifur "Það vil ég ekki og best að láta kyrrt liggja því annars kemst upp að hann hafi verið klókari en ég og það yrði nú mikil skömm fyrir mig"
19.08.2008 21:47
Smátt þótti þeim tóbakið skorið
Árið 1804 gengu af Eyrarbakka ríflega þrjátíu skip og var ætíð margróið þrisvar til fjórum sinnum á dag ef gott var í sjóinn. Á útmánuðum þetta ár mátti oft sjá örlitinn hnokka á reiki um sandinn með einhverja skjóðu um öxl. Hann hljóp að hverju skipi sem kom að landi og sjómenn áttu jafnan við hann erindi. Í skiptum fyrir besta fiskinn í þeirra hlut bauð hann tóbaksklípu eða örlitla brennivínslús. Þessi litli stubbur varð síðar þekktur undir nafninu Þorleifur ríki.
Þannig var að árið eftir að Þorleifur fermdist kom húsbóndi hans honum fyrir hjá formanni einum á Eyrarbakka til þess að vera beitudrengur hjá honum. Þorleifur var ráðinn upp á hálfan hlut sem rann þó allur til húsbóndans. Þorleifur littli hafði mötu sína meðferðis sem í var smjör og kæfa. Það var þó til siðs í öllum veiðistöðvum að hásetar máttu borða blautfisk af veiðinni svo sem þá listi þó þeir ættu ekki hlutinn sjálfir. Þegar vertíðin hófst þá fiskaðist þegar vel og var vertíðin hin aflasælasta allt til loka. Þoleifur litli gerði sér blautfiskinn að góðu en opnaði aldrei mötu sína til þess að éta úr henni sjálfur. Aðrir vermenn í búðunum voru ekki eins sparir á mötur sínar sem Þorleifur litli og því komust þeir í þrot löngu fyrir vertíðarlok.
Vermenn leituðu nú til Þorleifs eftir góðgæti því er hann átti í mötuskrínu sinni og vékst þorleifur vel við en þó ekki ókeypis. Hagnaðinn varði svo Þorleifur til þess að kaupa tóbak og brennivín í Eyrarbakkaverslun vitandi að senn þrytu byrgðir af þessari eftirsóttu munaðarvöru í versluninni. Þegar sá tími rann upp leituðu sjómennirnir enn á ný til Þorleifs litla sem enn varð vel við en smátt þótti þeim Þorleifur skera tóbakið og naumt skamtað vínið en alltaf krafðist Þorleifur sama endurgjalds, þ.e. vænsta fisksins í hlutnum.
17.08.2008 00:21
Þar gekk margur á rekann.
Háeyrarjörðinni fylgdi nokkur reki, en þar var Þorleifur ríki Kolbeinson bæði landsdrottinn og heimabóndi og átti því allan reka, en hjáleigumenn og þurrabúðamenn höfðu engin afnot af rekanum en máttu þó hirða fiskritjur nokkurar svo sem karfa og keilur, en algengt var að menn gerðust full hirðusamir á rekanum og hirtu upp spítu og spítu sem að landi bar ef þeir sáu svo færi á. Einhverju sinni hafði Þorleifur orðið þess áskynja að horfið hafði góður staur af rekanum og hafði hann Mundakotsmenn grunaða um hvarfið og lét gera leit hjá þeim en án árangurs. Þegar leitarmenn voru að fara segir Mundakotsbóndinn hróðugur -En að þið skilduð nú ekki leita í fjóshaugnum? -Þá er að gera það segir Þorleifur og þar fannst staurinn.
Af því tilefni kvað Þorleifur þessa vísu.
Í Mundkoti mæna
menn á hafið græna
viðnum vilja ræna
vaskir nóg að stela
þraut er þyngri að fela
Mangi og Jón
eru mestu flón
og minnstu ekki á hann Kela.
Bakkamenn er nú löngu hættir að ganga rekann, enda orðið fátítt að nytsamlegir hlutir reki að landi. Fyrir einhverjum áratugum voru það einkum börn og ungmenni sem gengu á rekann til að næla sér í vasapeninga. Þá var leitað eftir netahringjum og netakúlum sem mátti selja útgerðarmönnum og ekki þótti ónýtt að finna belg eða bauju því fyrir það mátti fá góðan pening. Í þá tíð þegar rekinn var ekki lengur í einkaeign giltu aðrar reglur, en þær voru að ef hluturinn var rekin á land þá átti hann sem fyrstur sá, en ef hluturinn var enn á sjó þá átti hann sem fyrstur til náði.
14.08.2008 20:43
Með hlandkoppinn að veði!
Árið 1833 fékk Þorleifur ríki Kolbeinsson Stórahraun á Eyrarbakka til ábúðar og bjó þar til ársins 1841 en þá keypti hann Stóru Háeyri á Eyrarbakka með öllum hjáleigum þeim er jörðinni fylgdu og má segja að þá hafi Þorleifur eignast hálfan Bakkann.
Þorleifur hóf snemma að versla í smáum stíl meðfram búskapnum á Stóru Háeyri. þá var aðeins ein verslun á Eyrarbakka undir merkjum Lefolii og var hún sú stæðsta og víðfemasta á Íslandi en þó þraut þar ýmsar vörur að vetrinum til og fór Þorleifur nærri um það hvað einstökum vörutegundum leið og keypti hann því upp nægar byrgðir að haustinu til af vörutegundum þeim sem hann vissi að ganga mundu til þurðar í Eyrarbakkaverslun. þær vörur voru helst sykur, tópak, brennivín, eldspítur, kerti, álnavörur ýmiskonar, veiðarfæri, línur og lóðarönglar. Þessar vörur geymdi Þorleifur til vetrarins. Þegar leið að jólum og lengra á veturinn átti þorleifur nægar byrgðir handa sínum viðskiptamönnum og öðrum sem leituðu til hans um flest það sem þá vanhagaði um og var þá egi við aðra að metast um verðið.
Árið 1868 eða þar um bil hóf Einar Jónsson borgari verslun sína á Eyrarbakka og var Þorleifur í ráðum með honum og með þeim efldist verslun á Bakkanum en jafnframt var Lefolii verslun á þessum tíma ein besta verslun landsins og orðlögð fyrir hóflegt verðlag og príðis vörugæði. Fyrst um sinn versluðu þeir Þorleifur og Einar í smáum stíl með vörur sem þeir höfðu byrgt sig af frá Lefolii verslun og seldu svo að sjálfsögðu dýru verði þegar vöruskorts tók að gæta, enda sigldu vöruskipin einungis vor og haust til Eyrarbakka.
Það var háttur sumra Bakkamanna þegar þeir komu úr róðri að grípa vænan fisk úr hlut sínum og labba með upp í búð til þorleifs í skiptum fyrir pela af brennivíni. Brennivínspotturinn kostaði þá 32 aura, en engu skipti hversu stór fiskurinn var í þessum viðskiptum. Stundum lánaði Þorleifur brennivínspela gegn tryggu veði. Einn var sá maður sem hafði veð það að bjóða sem hann leysti undantekningalaust úr veðböndum að kveldi sama dags, en það var Jón gamli strompur, en þetta dýrmæta veð var næturgagnið hans.
Heimild: Útvarpsþáttur á RUV.
13.08.2008 20:26
Að hafa heimsku sína í kaup!
Þorleifur Kolbeinsson var kaupmaður á Stóru Háeyri á Eyrarbakka. Hann efnaðist vel og á síðari tímum gekk hann undir nafninu Þorleifur ríki. Þorleifur var fæddur í Brattholtshjáleigu 6. júní 1798 í mikilli fátækt og ólst upp í þeirri vesöld og ómegð sem einkenndi kotbúskap á þessari öld. Þorleifur var vesældlegur í vexti og lítill bógur til erfiðisvinnu, þá er hann var seldur á barnsaldri í vistarbönd á hina ýmsu bæji við hin kröppustu kjör.
Einhverju sinni eftir fermingu var Þorleifur sendur sem vikapiltur til Jakops bónda í Skálholtshrauni og eftir árið falaðist Jakop eftir því við Þorleif að hann yrði hjá sér annað ár og bauð honum 8 dali í kaup. þá sagði Þorleifur "Þá á ég eitthvað inni hjá þér fyrir liðna árið" Jakop sagði honum þá að ekki hafði verið um það samið. Þorleifur gekk nú eftir því við hreppstjórann að fá eitthvað fyrir sinn snúð en sagði sem var að ekki hafi verið samið um kaupið fyrir hið liðna ár. Jæja sagði hreppstjórinn- hafðu þá heimsku þína í kaup. Þorleifur lét það aldrei henda síðan að ráða sig til vinnu án þess að vera búinn að semja um kaupið fyrirfram, eða eins og hann sagði sjálfur "Á engu árskaupi græddi ég meira en þessu"
Árið 1833 fékk Þorleifur Stórahraun á Eyrarbakka til ábúðar og bjó þar til ársins 1841 en þá keypti hann Stóru Háeyri á Eyrarbakka með öllum hjáleigum þeim er jörðinni fylgdu.
Heimild: Útvarpsþáttur á RUV
05.02.2008 14:22
40 ár frá harmleiknum á Ísafjarðardjúpi.
Fárviðri og ísingarveður á Íslandsmiðum tóku stóran toll af sjómannastéttinni á síðustu öld og skemst er að minnast Halaveðursins fræga árið 1925 þegar þrír íslenskri togarar fórust og með þeim 67 menn, þar af 61 Íslendingur og 6 Englendingar. Laugardaginn 7. febrúar 1925 skall á mikið norðanveður með særoki og ísingu á Vestfjörðum en flestir togaranna voru þá að veiðum á svonefndum Halamiðum. þ.á.m. togararnir Leifur Heppni og Robinson sem tíndust í hafi en þau voru stödd norðvestur af Hala þegar veðrið skall á, en með þeim voru 68 menn. (þriðji báturinn var Sólveig frá Sandgerði)
Fyrir 40 árum (febr.1968) kom veður úti fyrir Vestfjörðum sem svipaði að mörgu til Halaveðursins, en í því veðri fórust 25 sjómenn, meðal annars áhöfnin á breska togaranum Ross Cleveland H-61 frá Hull.
Á fyrri hluta síðustu aldar fórust að meðaltali 40 sjómenn á Íslandsmiðum árlega, en þá var björgunarbúnaður fábrotin í flestum skipum og fjarskipti ekki eins örugg og í dag og engin björgunartæki í landi sem hægt var að beita við þessar aðstæður. Veðurfræðin hefur einnig tekið stórstígum framförum frá þessum árum til hagsbóta fyrir sjófarendur auk tilkynningaskyldunar og GPS eftirlits. Það var bresk sjómannskona Lily Bilocca að nafni sem barðist fyrir því að tilkynningaskylda yrði tekin upp meðal breskra togara í kjölfar atburðanna á Ísafjarðardjúpi fyrir 40 árum.
Frá Eyrarbakka og Stokkseyri hefur margur sjómaðurinn fengið vota gröf þær tvær síðustu aldir sem útræði var stundað frá þessum sjávarplássum, en meira um það síðar.
20.01.2008 09:24
Lognflóðið 1916
Aðfararnótt 21.janúar árið 1916 var stillilogn og blíðu veður á Bakkanum. Það kom því íbúum hér við ströndina á óvart þegar skyndilega gerði óvenjumikinn sjógang og brimöldur sem gengu upp á land og ollu töluverðu tjóni. Sjórinn braut sjóvarnargarðinn vestur af Bakkanum milli Einarshafnar og Óseyrarnes á pörtum til grunna og var talið að tjónið hafi numið á bilinu 1000 til 1500 kr. sem þá var töluverður peningur eða um tvö árslaun verkamanns.
Olíugeimsluskúr frá versluninni Einarshöfn brotnaði í spón og 30 til 40 olíuföt frá kaupfélaginu Heklu skoluðust út í sjó, en þau náðust þó aftur lítið skemd. Nokkrar skemdir urðu einnig á bryggjum og dráttarbrautum. Á Stokkseyri brotnuðu tvo skip í spón, en þau höfðu staðið fyrir neðan sjóvarnargarðinn. Í Þorlákshöfn gekk sjórinn inn í sjóbúðir og braut gafl í nýrri steinsteyptri sjóbúð sem stóð á hátt á sjávarkambinum framan við lendingarnar, auk þess sem mörg önnur mannvirki löskuðust.
Í framhaldi var það mikið rætt hvernig mætti styrkja sjóvarnargarðana betur og var einn fróðasti maður um garðhleðslur kallaður til og þótti honum augsýnilegur galli hversu lóðréttir garðarnir væru sjávarmeginn og þyrftu þeir að hlaðast með meiri flága, auk þess væri til mikilla bóta að steinlíma þá með sementssteypu. Bjarni Eggertsson sem einnig var vel aðsér um garðhleðslur og hafði tilsjón með viðhaldi sjóvarnargarðanna fyrir landi Einarshafnar fyrir hönd Búnaðarfélags Íslands sem kostaði gerð þeirra, lagði til að þeir yrðu byggðir upp ávalir og þannig myndu þeir standast betur þunga sjávarinns. Ekki var þó farið í þá framkvæmd að steinlíma sjóvarnargarðana á Bakkanum nema rétt í endana, í svokölluðum 'hliðum' en tvö hlið voru á görðunum við Skúmstaði og var annað svokallað Vesturbúðarhlið þar sem gengið var út á bryggjuna, en hún var rifin fyrir allmörgum árum og Skúmstaðahlið gengt Skúmstalendingu, en þar fyrir innan var skipanaust allt frá kaþólskri tíð.
Garðarnir fyrir landi Einarshafnar sem voru endurhlaðnir eftir flóðið eru nú komnir á kaf í sand og uppgrónir svo af þeim sést vart tangur né tetur. Það gæti orðið staðnum mikið aðdráttarafl að grafa upp þessar fornminjar, a.m.k þeim megin sem snýr inn til lands og þannig fengju þessi mannvirki fyrri aldar að njóta sín til fulls.
10.01.2008 21:56
Heimavarnarliðið á Eyrarbakka
Það var eitthvað í fréttum ekki alls fyrir lögu að við íslendingar ættum einn hermann sem í haust var kallaður frá störfum í hinu stríðshrjáða landi Írak og er hér náttúrlega um valkyrju að ræða og þokkadís af Bakkanum.
Fyrir margt löngu áttu Eyrbekkingar vel æfðann og vígreifan her, þó ekki stór væri og ekki hátt færi. Þegar fyrri heimstyrjöldin skall á 1914 tók J.D.Níelsen (f.1883) í húsinu sig til og æfði um 15 menn undir strangri herþjálfun að danskri fyrirmynd. Herflokkur þessi hlaut fljótt viðurnefnið "Leikfimiflokkurinn". Níelsen var þaulvanur æfingum úr danska hernum og þeim aga sem þar tíðkaðist. Þannig þjálfaði hann mannskapinn bæði í líkamsæfingum og byssuæfingum, sem og skotfimi. Æfingarnar minntu íbúa þessa friðsæla þorps einkennilega á ófriðarbálið út í heimi þegar Leikfimiflokkur Níelsens gekk marserandi fram og aftur með byssur við öxl í garðinum við Húsið. Ekki er vitað til að nokkur maður hafi meiðst við æfingarnar eða að nokkurn tíma hafi þurft að grípa til vopna þessa heimavarnarliðs í raun.
J.D. Nielsen verslunarstjóri hélt þessum æfingum áfram um nokkur ár og báru æfingarnar stöðugt meiri keim af íþróttum, en skotæfingar voru þó fastur liður eins og áður. Stöðugt bættust fleiri ungir menn í hópinn og voru einkum tveir sem sköruðu fram úr, en það voru þeir Níls Ísakson og Gísli Jóhannsson.
(Byggt á heimildum úr Suðurlandi 1915-1916.)
06.01.2008 20:46
Hundurinn Tígull
Maður hét Þorsteinn Helgason bóndi á Hala í Ölfusi og átti hann hund. Hundur sá hét Tígull og var hann líklega einn vænsti smalahundur héraðsins. Einhverju sinni vorið 1859 á Þorsteinn bóndi erindi út á Eyrarbakka, en þangað sóttu bændur verslun hvaðanæva af Suðurlandi. Hundurinn Tígull fylgdi húsbónda sínum að venju þennan dag. Þegar Þorsteinn hefur lokið erindi sínu, verður hann þess var að Tígull er horfinn og finnst hundurinn ekki þrátt fyrir eftirgrenslan og köll. Þorsteinn heldur því heim á Hala án hundsins góða.
Þorsteinn gat þó ekki vænst þess að Tígull rataði heim, því yfir Ölfusá var að fara og engin var brúin í þá daga, heldur voru menn ferjaðir yfir ána á ferjustað, sem í þessu tilviki var á Óseyrarnesi. Líklega hefur Þorsteinn ályktað að Tígull hafi elt einhverja tíkina sem sveimaði um þorpið.
Miðsumars á þorsteinn aftur erindi út á Bakka og spyr hann hundsins á leið sinni. Þá er honum sagt af kunnugum að Tígull hafi flækst að heimili prestsins síra Björns Jónssonar á Stóra Hrauni og ílengst þar, en prestur hafi síðan ljáð syni sínum Markúsi á Borg hundinn til brúks. Þorsteinn fer nú rakleitt að Borg (Bær sá stóð miðja vegu milli Eyrarbakka og Stokkseyrar.) og heimtar hundinn og lýsir hann eign sína. Þorsteinn kallar svo á hundinn sem gegnir þegar og halda þeir svo heimleiðis.
Þegar Þorsteinn er kominn út á Bakka kemur Markús eftir honum ríðandi og vill nú taka af honum hundinn góða og segir eign föður síns, en Þorsteinn vill ekki láta lausan og kemur til riskinga milli þeirra og barsmíða og beittu hvorir um sig svipu og fúkkyrðum í ríkum mæli og stóð slagurinn lengi vel og bar marga að fyrir forvitnis sakir. En þar kom að um síðir að slagnum lauk og hvor um sig hélt til síns heima. Það er svo skemst frá því að segja að Tígull gengdi Þorsteini og fylgdi honum heim.
Af þessu leiddi síðan kæru og klögumál fyrir landsdómi og urðu lyktir málsins þær árið 1863 að báðir væru sýknir saka og hélt Þorsteinn hundinum.
05.01.2008 17:02
Þorleifur ríki Kolbeinsson
Þeir báru ekki alltaf mikið úr býtum, verkamennirnir á Eyrarbakka í eina tíð og þannig var það þegar sjógarðarnir voru hlaðnir á Bakkanum. (1830 og síðar.) Verkamenn við hleðsluna í þá tíð töldu laun sín vart hrökkva fyrir fatasliti. Þó var þar í hópi einn maður sem lést vel við una. Það var Þorleifur Kolbeinsson (1798-1882),sem þá var ungur maður, seinna kaupmaður á Háeyri og gekk þá undir nafninu Þorleifur ríki. Sagt var að á kvöldin eftir að vinnu lauk, hafi hann gert leit umhverfis búðir verslunarinnar að skinnsneplum og vaðmálssnifsum sem lestarmenn höfðu látið eftir liggja, en notuðu annars undir reiðinga. Hafði Þorleifur sitthvað upp úr þeirri leit og sat á kvöldum við að bæta flíkur sínar og skó með ræksnum þessum, enda mun honum hafa enst sami búnaðurinn meðan á vinnu hans stóð, sem var eitthvað á þriðja ár.
Eitt sinn þegar Þorleifur ríki Kolbeinsson frá Háeyri stóð yfir fátækum sveitabónda einum sem var að losa um böndin á böggum sínum fyrir utan búðina hans á Eyrarbakka með þeim hætti að skera á böndin með kuta sínum, lék bóndanum forvitni á að vita hvernig Þorleifur hefði orðið svona ríkur sem sögur fóru af og innti hann Þorleif svars. "Ég leysti hnútana en skar þá ekki" svaraði Þorleifur.
Þorleifur var á sínum tíma hreppstjóri Stokkseyrarhrepps og átti hann ótal jarðir, þar með talið Þorlákshöfn. Hafði hann góðar tekjur af jörðinni, einkum af gjöldum sem hann heimti af formönnum sem þar lögðu upp og höfðu þar aðstöðu. Efri-Vallarhjáleigu í Gaulverjarbæjarhreppi arfleiddi hann að Barnaskólanum á Eyrarbakka og hálft afgjald jarðarinnar átti að nota til að kosta fátæk börn til náms en hinn hlutann átti að setja á vöxtu. Kvað hann svo á um að aldrei mætti jörðin seljast og skildi um aldur og ævi vera eign Barnaskólans á Eyrarbakka.