Flokkur: Fréttir
18.10.2010 23:03
Í bleikri birtu
Eyrarbakkakirkja skartar nú bleikum ljósum á þessari fyrstu frostnótt vetrarins. Það er spáð allt að 4 stiga frosti í nótt og á morgun er ekki gert ráð fyrir meira en 4 stiga hita að deginum.
07.10.2010 14:25
Atlaga að landsbyggðinni
Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisins verður 16% niðurskurður á Heilbrigðisstofnun Suðurlands eða um 412 milj. króna og þar af 56.5 % á sjúkrasviði að því er fram kemur í fjölmiðlum dagsins. Samkvæmt heimildum þarf að segja upp 50 til 60 stöðugildum hjá stofnunni. Sömu sögu er að segja frá öðrum sjúkrastofnunum víða á landsbyggðinni. Frumvarpið er raunveruleg atlaga að landsbyggðarfólki og þar með Sunnlendingum. Þegar hafa tapast um 700 störf í héraðinu sem er illa leikið eftir bankahrunið og óstjórn fyrri ára. Það er því að bæta gráu ofan á svart ef núverandi ríkisstjórn ætlar að vega ennfrekar að héraðinu og ógna störfum fólks og þar með heimilum þess og þar með flæma menntað fólk og þekkingu þess úr landi. Ófaglærðir eiga litla möguleika á störfum erlendis og virðist eiga fáa kosti aðra en að sitja fast í fátæktargildrunni sem af þessari stefnu hlýst. Um leið er frumvarpið atlaga að heilsu landsbyggðarfólks, en eins og allir vita hættir fólk ekki að veikjast þó sjúkraþjónusta sé höfð sem lengst í burtu. Þó sjálfsagt sé af stjórnvöldum að ætlast til ráðdeildar, sparsemi og hagræðingar, þá virðast þessar tillögugr ekki til annars fallnar en að spara aurinn og kasta krónunni, þegar litið er á þær afleiðingar sem þessi niðurskurður mun hafa á landsbyggðina til langframa.
Sjá einig ályktun VG Árborg
SLFÍ
BSRB
Báran
SASS
11.09.2010 23:29
Björgunarbátur vígður
Björgunarbáturinn Atlantic75 sem björgunarsveitin Björg keypti nýlega að utan var vígður í dag með viðhöfn á Vesturbúðarhól og hlaut báturinn nafnið "Gaui Páls" eftir Guðjóni Pálssyni er lengi var formaður sveitarinnar. En það voru þeir heiðursmenn Jóhann Jóhannsson og Hlöðver Þorsteinsson sem afhjúpuðu nafn bátsins. Núverandi formaður sveitarinnar Guðjón Guðmundsson hélt tölu, en síðan blessaði sr. Sveinn Valgeirsson bátinn. Að lokinni athöfn var boðið upp á veitingar í Skýlinu. Björgunarsveitin Björg var stofnuð 21.desember 1928 en áður hafði Bergsteinn Sveinsson í Brennu verið skipaður umboðsmaður SVFÍ á Eyrarbakka.
11.09.2010 23:12
Réttað í rjómablíðu
Það var réttað í Tungunum í dag og fjölmenntu bæði fé og fólk, en það eru ekki bara bændur og heimafólk sem sækir réttirnar, heldur ekki síður ferðamenn víða að. Eins og sjá má kemur fé vænt af fjalli eftir sumarbeitina. En það var líka sumar og sól í réttunum og 15 stiga hiti, sem varð til þess að menn urðu að láta af þeim þjóðlega sið að mæta í réttir í íslenskum lopapeysum.
19.08.2010 11:01
Kirkjuviðgerð þokast
Kirkjusmiðirnir á Bakkanum eru þessa dagana að leggja lokahönd á viðgerðir á kirkjuturninum, sem er mikil listasmíð. Á innfeldu myndinni má sjá glitta í Stundaklukku sem var sett upp í turni kirkjunnar árið 1918 og slær á heilum og hálfum tíma. Jakob A. Lefolii, kaupmaður gaf hana. Árið 1977 til 1979 var kirkjan endurbætt að stórum hluta.
Meira um Eyrarbakkakirkju.
http://brim.123.is/blog/record/419244/
http://brim.123.is/blog/record/306544/
http://brim.123.is/blog/record/298889/
15.08.2010 23:00
Fjölmargir sóttu Bakkan heim
Fjöldi fólks var á Aldamótahátíðinni á Eyrarbakka, einkum á laugardeginum, en þá var veður skaplegt. Margir viðburðir voru á dagskrá sem hófst með skrúðgöngu frá barnaskólanum. Á Gónhól var slegið upp hlöðuballi fyrir fullu húsi þar sem Klaufarnir héldu uppi fjörinu. Dagskránni var fram haldið í dag, en mikil rigning setti mark sitt á hátíðarhöldin. Um hádegi var úrkomumagnið 4,5 mm á klukkustund í austan strekkingi. Hátíðinni lauk svo í kvöld með flugeldasýningu sem björgunarsveitin stóð fyrir við Gónhól.
11.08.2010 08:52
Útkall á nýja björgunarbátnum
Björgunarsveitirnar í Þorlákshöfn og Eyrarbakka voru kallaðar út á fjórða tímanum síðastliðinn laugardag þegar leki kom að Stormi-Breka suður af Herdísarvík, en myndir af björgunaraðgerðum má sjá á Sunnlenska.is. Björgunarsveitarmenn af Bakkanum héldu af stað á nýja "Hjálparanum" Atlantic 75 björgunarbát sem er einn af þeim sex björgunarbátum sem nýverið voru keyptir til landsins og er þetta fyrsta útkallið á hann. "Hjálparinn" frá Björgu fylgdi Stormi-Breka til hafnar ásamt lóðsbátnum Ölveri frá Þorlákshöfn. Um verslunarmannahelgina starfaði sveitin við gæslu um borð í Herjólfi og umferðarstjórn í nýju Landeyjarhöfn.
09.08.2010 08:59
Aftur til fortíðar
Um næstkomandi helgi 14-15. ágúst verður blásið til stórhátíðar á Eyrarbakka. Hestarnir, kindurnar, geiturnar og hænurnar, mennirnir, konurnar og börnin bjóða ykkur velkomin á hina árlegu þorpshátíð. Íbúar og gestir klæða sig uppá í anda aldamótanna 1900. Fornbílamenn og konur eru heiðursgestir hátíðarinnar og margir bjóða á rúntinn í glæsivögnum fortíðar. Bakkablesa dregur aldamótavagninn góða og Thomsensbíllinn rennir sér um göturnar. Við opnum húsin okkar og bjóðum gestum að kíkja inn í kaffi og pönnsu. Harmonikkur duna og það má sjá söluborð og markaðstorg um allar götur, tún og engi auk hins vinsæla skottmarkaðar sem haldinn var í fyrsta sinn á Eyrarbakka í fyrra. Listsýningar, hlöðuball með Klaufunum, tónleikar, skrúðganga, kappsláttur , fornbílar, bændamarkaður, kaffihús, veitingahús, gisting og síðast en ekki síst fá allir að smakka kjötsúpuna okkar góðu sem er hvergi eins góð og á Bakkanum.
Á Eyrarbakka má finna hið heimsfræga veitingahús Rauða-húsið, menninga og listaverstöðina Gónhól, en þar er líka gott kaffihús. Vesturbúðina, landsfrægu sem selur næstum allt milli himins og jarðar og litla kaffiskúrinn Bakkabrim við höfnina, litla kósí gallerýið hennar Regínu, Söfnin þjóðkunnu, Húsið og Sjóminjasafnið, þar sem er að finna afar gamalt og merkilegt dót. Tjaldstæðið góða þar sem auðvelt er að sofna við sjávarnið. Búðargluggana gömlu með minningum um horfna tíð. Gamlir karlar munu svo örugglega bjóða í nefið við brúsapallinn. Þá mun bakaraættin halda ættarmót á Bakkanum og rifja upp gömlu góðu daganna.
06.08.2010 14:55
Við höfnina
Hafnargerð hófst á Eyrarbakka árið 1963 og stóð með hléum til 1977. Höfnin leysti af gömlu löndunarbryggjurnar sem kendar voru við Kaupfélagið Heklu og Vesturbúðina. Þegar brúin kom yfir ósinn 1988 færðist útgerðin til Þorlákshafnar og hafnirnar á Eyrarbakka og Stokkseyri lögðust af. Við höfnina er nú risið lítið "Take a way" kaffihús sem heitir því skemtilega nafni "Bakkabrim". Nú til dags gera Eyrbekkingar og Stokkseyringar út á ferðamenn sem fá jafnan góðar móttökur hjá vertunum við sjávarsíðuna.
Fiskveiðar hafa verið stundaðar frá þessum fornfrægu brimstöðum frá upphafi byggðar. Einhverju sinni voru tveir útvegsbændur á Eyrarbakka, annar á Skúmstöðum en hinn á Stóru-Háeyri. þeir áttu sinn áttæringinn hvor sem þeir létu ganga á Eyrarbakka. Stokkseyrar-dísa (Þórdís Magnúsdóttir d.1728 og þótti rammgöldrótt) lét um sama leyti teinæring ganga á Stokkseyri. þegar hún frétti að skipum þeirra gekk töluvert betur að fiska en hennar brá hún sér um miðja nótt út á Eyrarbakka, tók öll færin úr báðum skipum, bar þau austur að Stokkseyri og fleygði þeim upp á bæjardyraloft og lét þau liggja þar þangað til þau fúnuðu og urðu ónýt, en um morguninn kemur hún út og gengur fram á sjávarbakkann. Sér hún þá bæði skipin fara sundið og mælti hún þá: ,,hjálpað hefur fjandinn þeim til að komast út á sjóinn fyrir þessu."
Heimild Þjóðsögu: http://sagnagrunnur.raqoon.com/index.php?target=home05.08.2010 22:17
Brúsapallurinn kominn aftur
Þorpið er óðar að taka á sig mynd löngu liðins tíma. Nú eru komnir brúsapallar á hvert götuhorn og mjaltakonurnar geta farið að gera sig klára. Hver man ekki eftir Bjössa á mjólkurbílnum eða hvað þeir hétu bílstjórarrnir úr Flóanum sem komu og sóttu mjólkina og litu dömurnar hýru auga í leiðinni. Það vantar eginlega ekkert nema beljurnar hans Villa í Tröð, hana Stjörnu og Flugu eða hvaða nöfn þær báru nú allar saman. Kanski var frægasta beljan á Bakkanum kýrinn hennar Tótu Gests, Allavega nú í seinni tíð en hér má sjá grein um þá merkilegu kú sem hét "Gulrót". Svo er hér grein um Tótu og búskap hennar. En óneitanlega minna brúsapallarnir okkur á þá tíð, þegar lífið á Bakkanum var blanda af búskap, verslun og sjósókn.
Hér er svo brúsapallsvísa Guðmundar í Hraungerði.
21.07.2010 10:20
Stundum gerir bakkabrim
Það bætist senn við veitingahúsaflóruna á Eyrarbakka, því innan skams mun opna nýtt kaffihús "Bakkabrim" sem staðsett er í fjörunni við höfnina. Það er Arna Ösp Magnúsdóttir sem mun bjóða ferðalöngum og heimamönnum upp á kaffisopa og meðlæti eftir göngutúrinn í fjörunni. Fjaran á Eyrarbakka er vinsælt útivistarsvæði með brimsvorfnum skerjum og ríkt af fuglalífi. Algengt er að fólk komi í fjöruna til þess að tína skeljar og kuðunga sem hægt er að nota í alskonar punt heimafyrir og njóta sjávarlofts og brimóms um leið.
21.07.2010 09:16
Kirkjan í viðhaldi
Þessa daganna standa yfir endurbætur á Eyrarbakkakirkju, en smiðir vinna nú að nýrri þakklæðningu.
Eyrarbakkakirkja vígð 14. desember 1890 af Hallgrími Sveinssyni biskup. Kirkjan var teiknuð af Jóhanni Fr. Jónssyni húsasmið.
Altaristafla kirkjunar er eftir Lovísu Danadrottningu, máluð árið 1891. Nýtt pípuorgel var tekið í notkun 7. september 1948. Í stað krossins sem nú trónir á turninum var vindflagg slegið úr járni og nefndist "Járnblómið". Kristinn Jónasson í Garðhúsum smíðaði klukkuskifuna sem snýr að austurbekkingum, en auk þess smíðaði hann líkanið af teinæringi þeim sem hangir í kirkjuloftinu. Hann var auk þess organisti kirkjunar í 40 ár. sr. Jón Björnsson var fyrsti presturinn sem þjónaði Eyrarbakkakirkju, en í dag þjónar sr. Sveinn Valgeirson og er hann 8.presturinn sem þjónað hefur kirkjunni.
19.07.2010 22:31
Híf og hoy!
Þetta hús sem híft var af stalli í dag og flutt burt, þjónaði síðast sem heilsugæslustöð á Eyrarbakka. Áður var það trésmíðaverkstæði Guðmundar Einarssonar smiðs, en hann byggði húsið einhverntíman á áttunda áratug síðustu aldar. Á þessari lóð stóð eitt sinn lítill bær sem hét Vegamót. Þar bjuggu Þórarinn Jónsson (f.6.3.1853) og kona hans Rannveig Sigurðardóttir (. f.10.júlí1859), en þau voru langafi og langamma undirritaðs og bjuggu áður að Grímsstöðum sem stóð rétt sunnan við bæinn Ós á Eyrarbakka.
Vegamót var upphaflega Þurrabúð, torfbær með tveim hálfþilum og einu hálfþili og taldi tvö herbergi.Veggir hlaðnir grjóti en rekaviður notaður í sperrur og klæðningu,Þak og veggir klæddir torfi. Lítill gluggi á suðurstafni.Gólfið var moldargólf og rúmstokkur með vegg. Eina mublan var trékista til að geima í föt og aðra muni. Eldað var við hlóðir eða eldstó og var það eini hitagjafinn. Hvorki var rennandi vatn né hreinlætisaðstaða innan dyra. Við þesskonar aðstæður bjó fjöldi fólks á Eyrarbakka um aldamótin 1900.
Seinna byggir Þórarin bæ á tóftinni klæddan bárujárni og einangraðan með reiðingi eins og farið var að tíðkast um 1920. Vegamót stóðu sem áður segir á þessum stað fyrir austan Skjaldbreið við hlið Ásheima en alveg framm í götu og var bærinn rifinn 29.ágúst 1983.
06.06.2010 14:47
Björgunarsveitin með nýjan bát
Björgunarsveitin Björg á Eyrarbakka hefur keypt notaðn björgunarbát frá Konunglega breska sjóbjörgunarfélaginu (RNLI) en Landsbjörg hefur keypt báta frá félaginu síðan árið 1929.
Hér á myndinni er hinsvegar einnn elsti Zodiac bátur sveitarinnar.