Flokkur: Fólkið.

04.09.2008 20:19

Þorleifur ríki og svindlarinn snjalli.

Gömul mynd frá Eyrarbakka.Þorleifur Kolbeinsson var á sínum tíma hreppstjóri Stokkseyrarhrepps og kaupmaður á Háeyri á Eyrarbakka og gekk gjarnan undir nafninu Þorleifur ríki.

Svo bar við eitt sinn á efri árum Þorleifs að maður nokkur óþekktur kom að hlaðinu á Háeyri með þrjá klifjahesta í taumi og var þá nokkuð áliðið dags. Maðurinn tók baggana af hestunum og gekk síðan í búð Þorleifs og tók þar út ýmsar vörur. Nú bjó hann um þær vörur sem hann hafði tekið út en baggar hans voru þá enn óleystir á hlaðinu. Áður en til þess kom að gera upp reikninginn baðst hann leyfis að fá að skreppa í Vesturbúðina því þá var komið að lokunartíma þar. Þorleifur taldi sér nú óhætt að verða við beiðni mannsins enda biðu baggar hans óhreyfðir á hlaðinu. Nú leið tíminn drjúga stund og ekki skilaði maðurinn sér til baka og var þá spurst fyrir um hann í Vesturbúðinni en þangað hafði maðurinn þá aldrei komið. Þorleifur lét nú leysa baggana og kom þá í ljós að í þeim var aðeins mold og sandur. Þorleifi þótti nú sýnt að hann hafi verið gabbaður. Eyrbekkingar buðust nú til að ríða eftir manninum sem allir töldu að væri fjarsveitarmaður þar sem enginn Bakkamaður hafði borið á hann kensl. Menn töldu að hann væri ekki kominn svo langan veg að lausríðandi mönnum yrði skotaskuld um að ríða hann uppi og hafa hendur í hári hans. Þá mælti Þorleifur "Það vil ég ekki og best að láta kyrrt liggja því annars kemst upp að hann hafi verið klókari en ég og það yrði nú mikil skömm fyrir mig

19.08.2008 21:47

Smátt þótti þeim tóbakið skorið

Árið 1804 gengu af Eyrarbakka ríflega þrjátíu skip og var ætíð margróið þrisvar til fjórum sinnum á dag ef gott var í sjóinn. Á útmánuðum þetta ár mátti oft sjá örlitinn hnokka á reiki um sandinn með einhverja skjóðu um öxl. Hann hljóp að hverju skipi sem kom að landi og sjómenn áttu jafnan við hann erindi. Í skiptum fyrir besta fiskinn í þeirra hlut bauð hann tóbaksklípu eða örlitla brennivínslús. Þessi litli stubbur varð síðar þekktur undir nafninu Þorleifur ríki.
Þannig var að árið eftir að Þorleifur fermdist kom húsbóndi hans honum fyrir hjá formanni einum á Eyrarbakka til þess að vera beitudrengur hjá honum. Þorleifur var ráðinn upp á hálfan hlut sem rann þó allur til húsbóndans. Þorleifur littli hafði mötu sína meðferðis sem í var smjör og kæfa. Það var þó til siðs í öllum veiðistöðvum að hásetar máttu borða blautfisk af veiðinni svo sem þá listi þó þeir ættu ekki hlutinn sjálfir. Þegar vertíðin hófst þá fiskaðist þegar vel og var vertíðin hin aflasælasta allt til loka. Þoleifur litli gerði sér blautfiskinn að góðu en opnaði aldrei mötu sína til þess að éta úr henni sjálfur. Aðrir vermenn í búðunum voru ekki eins sparir á mötur sínar sem Þorleifur litli og því komust þeir í þrot löngu fyrir vertíðarlok.

Vermenn leituðu nú til Þorleifs eftir góðgæti því er hann átti í mötuskrínu sinni og vékst þorleifur vel við en þó ekki ókeypis. Hagnaðinn varði svo Þorleifur til þess að kaupa tóbak og brennivín í Eyrarbakkaverslun vitandi að senn þrytu byrgðir af þessari eftirsóttu munaðarvöru í versluninni. Þegar sá tími rann upp leituðu sjómennirnir enn á ný til Þorleifs litla sem enn varð vel við en smátt þótti þeim Þorleifur skera tóbakið og naumt skamtað vínið en alltaf krafðist Þorleifur sama endurgjalds, þ.e. vænsta fisksins í hlutnum.

17.08.2008 00:21

Þar gekk margur á rekann.

Áður fyrr þótti reki mikil hlunnindiHáeyrarjörðinni fylgdi nokkur reki, en þar var Þorleifur ríki Kolbeinson bæði landsdrottinn og heimabóndi og átti því allan reka, en hjáleigumenn og þurrabúðamenn höfðu engin afnot af rekanum en máttu þó hirða fiskritjur nokkurar svo sem karfa og  keilur, en algengt var að menn gerðust full hirðusamir á rekanum og hirtu upp spítu og spítu sem að landi bar ef þeir sáu svo færi á. Einhverju sinni hafði Þorleifur orðið þess áskynja að horfið hafði góður staur af rekanum og hafði hann Mundakotsmenn grunaða um hvarfið og lét gera leit hjá þeim en án árangurs. Þegar leitarmenn voru að fara segir Mundakotsbóndinn hróðugur -En að þið skilduð nú ekki leita í fjóshaugnum? -Þá er að gera það segir Þorleifur og þar fannst staurinn.

 Af því tilefni kvað Þorleifur þessa vísu.

 Í Mundkoti mæna
menn á hafið græna
viðnum vilja ræna
vaskir nóg að stela
þraut er þyngri að fela
Mangi og Jón
eru mestu flón
og minnstu ekki á hann Kela.

Bakkamenn er nú löngu hættir að ganga rekann, enda orðið fátítt að nytsamlegir hlutir reki að landi. Fyrir einhverjum áratugum voru það einkum börn og ungmenni sem gengu á rekann til að næla sér í vasapeninga. Þá var leitað eftir netahringjum og netakúlum sem mátti selja útgerðarmönnum og ekki þótti ónýtt að finna belg eða bauju því fyrir það mátti fá góðan pening. Í þá tíð þegar rekinn var ekki lengur í einkaeign giltu aðrar reglur, en þær voru að ef hluturinn var rekin á land þá átti hann sem fyrstur sá, en ef hluturinn var enn á sjó þá átti hann sem fyrstur til náði.

14.08.2008 20:43

Með hlandkoppinn að veði!

Partur af EyrarbakkaÁrið 1833 fékk Þorleifur ríki Kolbeinsson Stórahraun á Eyrarbakka til ábúðar og bjó þar til ársins 1841 en þá keypti hann Stóru Háeyri á Eyrarbakka með öllum hjáleigum þeim er jörðinni fylgdu og má segja að þá hafi Þorleifur eignast hálfan Bakkann.

Þorleifur hóf snemma að versla í smáum stíl meðfram búskapnum á Stóru Háeyri. þá var aðeins ein verslun á Eyrarbakka undir merkjum Lefolii og var hún sú stæðsta og víðfemasta á Íslandi en þó þraut þar ýmsar vörur að vetrinum til og fór Þorleifur nærri um það hvað einstökum vörutegundum leið og keypti hann því upp nægar byrgðir að haustinu til af vörutegundum þeim sem hann vissi að ganga mundu til þurðar í Eyrarbakkaverslun. þær vörur voru helst sykur, tópak, brennivín, eldspítur, kerti, álnavörur ýmiskonar, veiðarfæri, línur og lóðarönglar. Þessar vörur geymdi Þorleifur til vetrarins. Þegar leið að jólum og lengra á veturinn átti þorleifur nægar byrgðir handa sínum viðskiptamönnum og öðrum sem leituðu til hans um flest það sem þá vanhagaði um og var þá egi við aðra að metast um verðið.

Árið 1868 eða þar um bil hóf Einar Jónsson borgari verslun sína á Eyrarbakka og var Þorleifur í ráðum með honum og með þeim efldist verslun á Bakkanum en jafnframt var Lefolii verslun á þessum tíma ein besta verslun landsins og orðlögð fyrir hóflegt verðlag og príðis vörugæði. Fyrst um sinn versluðu þeir Þorleifur og Einar í smáum stíl með vörur sem þeir höfðu byrgt sig af frá Lefolii verslun og seldu svo að sjálfsögðu dýru verði þegar vöruskorts tók að gæta, enda sigldu vöruskipin einungis vor og haust til Eyrarbakka.

Það var háttur sumra Bakkamanna þegar þeir komu úr róðri að grípa vænan fisk úr hlut sínum og labba með upp í búð til þorleifs í skiptum fyrir pela af brennivíni. Brennivínspotturinn kostaði þá 32 aura, en engu skipti hversu stór fiskurinn var í þessum viðskiptum. Stundum lánaði Þorleifur brennivínspela gegn tryggu veði. Einn var sá maður sem hafði veð það að bjóða sem hann leysti undantekningalaust úr veðböndum að kveldi sama dags, en það var Jón gamli strompur, en þetta dýrmæta veð var næturgagnið hans.

Heimild: Útvarpsþáttur á RUV.

13.08.2008 20:26

Að hafa heimsku sína í kaup!

Kotbændur áttu oft við kröpp kjör að etja og lítið að éta.Þorleifur Kolbeinsson var kaupmaður á Stóru Háeyri á Eyrarbakka. Hann efnaðist vel og á síðari tímum gekk hann undir nafninu Þorleifur ríki. Þorleifur var fæddur í Brattholtshjáleigu 6. júní 1798 í mikilli fátækt og ólst upp í þeirri vesöld og ómegð sem einkenndi kotbúskap á þessari öld. Þorleifur var vesældlegur í vexti og lítill bógur til erfiðisvinnu, þá er hann var seldur á barnsaldri í vistarbönd á hina ýmsu bæji við hin kröppustu kjör.

Einhverju sinni eftir fermingu var Þorleifur sendur sem vikapiltur til Jakops bónda í Skálholtshrauni og eftir árið falaðist Jakop eftir því við Þorleif að hann yrði hjá sér annað ár og bauð honum 8 dali í kaup. þá sagði Þorleifur "Þá á ég eitthvað inni hjá þér fyrir liðna árið" Jakop sagði honum þá að ekki hafði verið um það samið. Þorleifur gekk nú eftir því við hreppstjórann að fá eitthvað fyrir sinn snúð en sagði sem var að ekki hafi verið samið um kaupið fyrir hið liðna ár. Jæja sagði hreppstjórinn- hafðu þá heimsku þína í kaup. Þorleifur lét það aldrei henda síðan að ráða sig til vinnu án þess að vera búinn að semja um kaupið fyrirfram, eða eins og hann sagði sjálfur "Á engu árskaupi græddi ég meira en þessu"

Árið 1833 fékk Þorleifur Stórahraun á Eyrarbakka til ábúðar og bjó þar til ársins 1841 en þá keypti hann Stóru Háeyri á Eyrarbakka með öllum hjáleigum þeim er jörðinni fylgdu.

Heimild: Útvarpsþáttur á RUV

25.04.2008 10:22

Kvenfélagið 120 ára

Eugenia ThorgrímsenKvenfélagið á Eyrarbakka á 120 ára afmæli í dag en félagið var stofnað hinn 25. apríl 1888 af 16 konum, að tilstuðlan stúkunnar Eyrarrósarinnar og lagði hver til 1 krónu í stofnfé. Eugenia Thorgrímsen var ein stofnenda og fyrsti formaður Kvenfélagsins á Eyrarbakka.

Á undanförnum árum hefur félagið veitt ýmsa styrki til góðgerðamála.

Núverandi formaður félagsins er Eygerður Þórisdóttir.

21.04.2008 13:05

Nemendur BES voru bestir

Í stóru upplestrarkeppninni sem er tíu ára um þessar mundir atti Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri  kappi við skólana á Selfossi og í Hveragerði. Haft var á orði að krakkarnir sem kepptu í ár væru óvenjulega færir lesarar og falleg framkoma þeirra og fas vakti athygi dómenda og styrktaraðila.

Nemendur BES slógu í gegn og hlutu  Eygerður Jónasdóttir og Ágúst Bjarki Sigurðsson fyrstu og þriðju verðlaun. Þetta er þriðja árið í röð sem okkar krakkar vinna til verðlauna.
Heimasíða BES

19.03.2008 11:47

Sóknarbörn á Eyrarbakka

Smella til að stækka
Myndin gæti verið tekin á árunum 1945-1946 fyrir framan kirkjudyrnar á Eyrarbakka. Guðmundur Daníelsson skólastjóri  á Eyrarbakka stendur í þriðju röð lengst til hægri ásamt skólabörnum. Fyrir aftan hann stendur Sigurður Andersen og fyrir aftan hann er Jónas Guðvarðarson. Fyrir framan sr.Guðmund í annari röð,annar frá hægri er Erlingur Ævar frá Vatnagarði. Stúlkan í öftustu röð,fjórða frá vinstri er Þórunn Vilbergsdóttir og við hlið hennar til hægri er Aðalheiður Sigfúsdóttir (Allý).

Ef þið þekkið aðra á myndinni, þá endilega komminterið

15.03.2008 16:06

Þrír menn og strákur í skinnskóm


Þessi mynd er gömul og erfitt að setja á hana ártal en líklega tekin fyrir miðja síðustu öld við einhverja garðhleðslu á Eyrarbakka eða næsta nágreni. Mennirnir eru sennilega fiskimenn að fara að vitja um net af fótabúnaði þeirra að dæma. Fatnaður mannana gæti gefið til kynna efnahagslegar aðstæður þeirra. Ef einhver kannast við fólkið,eða myndina,gefið þá endilega komment.

21.02.2008 13:12

Hraustir krakkar á Bakkanum.

Barnaskólinn (BES) tók þátt í Skólahreysti á Selfossi fimmtudaginn 14. febrúar og stóð sig vel (7.sæti).
Þeir sem kepptu fyrir  hönd skólans voru Gunnar Bjarki, Ingibjörg Linda og Hafsteinn í 9. bekk og Ragnheiður í 8. bekk
.


Riðill Skóli Gildi
Ridill 5 2007 Barnask Eyrarbakka/Stokkseyri 14
Ridill 5 2008 Barnask Eyrarbakka/Stokkseyri 9

Þraut: Dýfur
Riðill Skóli Gildi
Ridill 5 2007 Barnask Eyrarbakka/Stokkseyri 5
Ridill 5 2008 Barnask Eyrarbakka/Stokkseyri 16

Þraut: Hraðaþraut
Riðill Skóli Gildi
Ridill 5 2007 Barnask Eyrarbakka/Stokkseyri 10
Ridill 5 2008 Barnask Eyrarbakka/Stokkseyri 03:23

Þraut: Armbeygjur
Riðill Skóli Gildi
Ridill 5 2008 Barnask Eyrarbakka/Stokkseyri 21
Ridill 5 2007 Barnask Eyrarbakka/Stokkseyri 01:47

Þraut: Hreystigreip
Riðill Skóli Gildi
Ridill 5 2007 Barnask Eyrarbakka/Stokkseyri 05:01
Ridill 5 2008 Barnask Eyrarbakka/Stokkseyri 03:59
http://www.skolahreysti.is/Default.aspx

06.01.2008 20:46

Hundurinn Tígull

Maður hét Þorsteinn Helgason bóndi á Hala í Ölfusi og átti hann hund. Hundur sá hét Tígull og var hann líklega einn vænsti smalahundur héraðsins. Einhverju sinni vorið 1859 á Þorsteinn bóndi erindi út á Eyrarbakka, en þangað sóttu bændur verslun hvaðanæva af Suðurlandi. Hundurinn Tígull fylgdi húsbónda sínum að venju þennan dag. Þegar Þorsteinn hefur lokið erindi sínu, verður hann þess var að Tígull er horfinn og finnst hundurinn ekki þrátt fyrir eftirgrenslan og köll. Þorsteinn heldur því heim á Hala án hundsins góða.

Þorsteinn gat þó ekki vænst þess að Tígull rataði heim, því yfir Ölfusá var að fara og engin var brúin í þá daga, heldur voru menn ferjaðir yfir ána á ferjustað, sem í þessu tilviki var á Óseyrarnesi. Líklega hefur Þorsteinn ályktað að Tígull hafi elt einhverja tíkina sem sveimaði um þorpið.
Miðsumars á þorsteinn aftur erindi út á Bakka og spyr hann hundsins á leið sinni. Þá er honum sagt af kunnugum að Tígull hafi flækst að heimili prestsins síra Björns Jónssonar á Stóra Hrauni og ílengst þar, en prestur hafi síðan ljáð syni sínum Markúsi á Borg hundinn til brúks. Þorsteinn fer nú rakleitt að Borg (Bær sá stóð miðja vegu milli Eyrarbakka og Stokkseyrar.) og heimtar hundinn og lýsir hann eign sína. Þorsteinn kallar svo á hundinn sem gegnir þegar og halda þeir svo heimleiðis.

Þegar Þorsteinn er kominn út á Bakka kemur Markús eftir honum ríðandi og vill nú taka af honum hundinn góða og segir eign föður síns, en Þorsteinn vill ekki láta lausan og kemur til riskinga milli þeirra og barsmíða og beittu hvorir um sig svipu og fúkkyrðum í ríkum mæli og stóð slagurinn lengi vel og bar marga að fyrir forvitnis sakir. En þar kom að um síðir að slagnum lauk og hvor um sig hélt til síns heima. Það er svo skemst frá því að segja að Tígull gengdi Þorsteini og fylgdi honum heim.

Af þessu leiddi síðan kæru og klögumál fyrir landsdómi og urðu lyktir málsins þær árið 1863 að báðir væru sýknir saka og hélt Þorsteinn hundinum.

05.01.2008 17:02

Þorleifur ríki Kolbeinsson

Þorleifur KolbeinssonÞeir báru ekki alltaf mikið úr býtum, verkamennirnir á Eyrarbakka í eina tíð og þannig var það þegar sjógarðarnir voru hlaðnir á Bakkanum. (1830 og síðar.) Verkamenn við hleðsluna í þá tíð töldu laun sín vart hrökkva fyrir fatasliti. Þó var þar í hópi einn maður sem lést vel við una. Það var Þorleifur Kolbeinsson (1798-1882),sem þá var ungur maður, seinna kaupmaður á Háeyri og gekk þá undir nafninu Þorleifur ríki. Sagt var að á kvöldin eftir að vinnu lauk, hafi hann gert leit umhverfis búðir verslunarinnar að skinnsneplum og vaðmálssnifsum sem lestarmenn höfðu látið eftir liggja, en notuðu annars undir reiðinga. Hafði Þorleifur sitthvað upp úr þeirri leit og sat á kvöldum við að bæta flíkur sínar og skó með ræksnum þessum, enda mun honum hafa enst sami búnaðurinn meðan á vinnu hans stóð, sem var eitthvað á þriðja ár.

Eitt sinn þegar Þorleifur ríki Kolbeinsson frá Háeyri stóð yfir fátækum sveitabónda einum sem var að losa um böndin á böggum sínum fyrir utan búðina hans á Eyrarbakka með þeim hætti að skera á böndin með kuta sínum, lék bóndanum forvitni á að vita hvernig Þorleifur hefði orðið svona ríkur sem sögur fóru af og innti hann Þorleif svars. "Ég leysti hnútana en skar þá ekki" svaraði Þorleifur.

Þorleifur var á sínum tíma hreppstjóri Stokkseyrarhrepps og átti hann ótal jarðir, þar með talið Þorlákshöfn. Hafði hann góðar tekjur af jörðinni, einkum af gjöldum sem hann heimti af formönnum sem þar lögðu upp og höfðu þar aðstöðu. Efri-Vallarhjáleigu í Gaulverjarbæjarhreppi arfleiddi hann að Barnaskólanum á Eyrarbakka og hálft afgjald jarðarinnar átti að nota til að kosta fátæk börn til náms en hinn hlutann átti að setja á vöxtu. Kvað hann svo á um að aldrei mætti jörðin seljast og skildi um aldur og ævi vera eign Barnaskólans á Eyrarbakka.

07.12.2007 22:21

Bjarni skíðasmiður.

Bjarni Vigfússon smiður frá Lambastöðum í Flóa starfaði á Eyrarbakka veturinn 1911-1912 við skíðasmíðar úr ask og þóttu skíðin vel vönduð og vakti þessi framleiðsla nokkra eftirtekt heimamanna, en hún fór fram í svonefndu "Prestshúsi". Skíðin voru smíðuð að norskri fyrirmynd og með tábönd af sama sniði. Ekki fara þó sögur af því hvort Bjarni hafi gert góðan díl í þessu snjóléttasta héraði landsins.

25.11.2007 16:50

þeir tóku veðrið


Veðrið á Bakkanum hefur nú verið tekið í 127 ár. Þessir voru Veðurathugunarmenn á Eyrarbakka.

Peter Nielsen í Húsinu frá 1880-1910
Guðmundur Ísleifsson Háeyri 1911-1923
Gísli Pétursson Læknishúsi 1923-1939
Pétur Gíslason Læknishúsi 1939-1981
Sigurður Andersen Mörk 1980-2001
Emil Hólm Frímannsson frá 2002


 

Flettingar í dag: 1296
Gestir í dag: 247
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261586
Samtals gestir: 33874
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 21:00:07