Flokkur: Veðrið
29.01.2009 17:00
Púðursnjór og frostþoka
Það hefur kingt niður snjó síðustu daga og vetrarlegt um að lítast. Fyrir stuttu var vor í lofti en nú hefur vetur konungur vaknað aftur af værum blundi. Í morgun var púðursnjór yfir öllu og frostþoka.
Veðurspáin hljóðar upp á hæga vestlæga eða breytilega átt, skýjað með köflum og stöku él. Norðaustan 3-8 og léttir heldur til á morgun. Frost 0 til 5 stig. Áfram kalt.
Snjór í matinn.
Snjórinn á rafstöðvarhjólinu myndar stjörnu.
Stráin standa stjörf í snjóklæðum gengt briminu á Bakkanum.
08.01.2009 00:34
Súldartíð
Súldin læðist yfir ströndina í hlýjindunum undanfarna daga og skerjagarðurinn hverfur í þokuna.
01.10.2008 13:34
Seint mun hrafninn hvítur verða.
Krummi er kominn og með krúnki sínu boðar hann til vetrar og segir að brátt muni snjóa í heiði. Nátthrafnar íslands krúnka sig líka saman fjarri kastljósi fjölmiðlanna og reyna að bjarga útrásinni sem virðist vera farinn í hundana. Fyrsta frostnóttin liðin og blessuð sólin skín hér á Bakkann og blessar mannana börn sem ekki þurfa að fóðra hunda sína á verðbréfum. Bæði veður og efnahagsspár gera ráð fyrir að það andi köldu enn um sinn og einkum um nætur. Á meðan situr krummi hátt og bíður síns hrútshaus og gæru skinns.
26.09.2008 11:03
Rigning,rigning,rigning.
Ekkert lát er á rigningartíðinni og fólk er orðið hundleitt á veðurlaginu þessar vikurnar og víst að tíðarfarið leggst illa í sálina á fólki, svona til viðbótar við óhuggulegt efnahagsástandið. Dumbungur í lofti alla daga svo vart sést sólarglæta svo vikum skipti. þó má búast við smá sólarglætu snemma á laugardagsmorgun segja spárnar en aðeins litla stund því skjótt mun aftur draga fyrir og sama veðurlagið tekur við langt fram í næstu viku. Það sem verra er að með hverjum deginum sígur hitamælirinn nær og nær bláu tölunum þannig að um miðja vikuna gæti farið að grána í fjöllin. Já vetur konungur er að læðast að okkur með sinn hvíta her.
17.09.2008 08:45
Ike blés hressilega
Stormlægðin Ike lét finna fyrir sér við ströndina seint í gærkvöld en olli ekki verulegu tjóni á Eyrarbakka nema hvað vatn flæddi inn í eitt hús. Mikil úrkoma fylgdi veðrinu og var mesta vatnsveðrið skömmu fyrir miðnætti. Milli kl.01 og 03 í nótt gekk á með stormi eða 20 m/s og í hviðum fór vindur í 28m/s. Veðrið gekk svo hratt niður með morgninum. Í morgun var talsvert brim komið og sjórinn kolmórauður yfir að líta.
25.08.2008 13:58
Úps! Hæð yfir Azoreyjum
Fyrir okkur þýðir það vætutíð og lægðabunugang næstu daga. Við getum bráðum sagt bless við sumarið því framundan er kólnandi veður og haustið bíður handan við hornið. Hann var líka svalur í morgun, aðeins um 8°C og dumbungur í lofti. Lægðin "Jasmín" hringsólar um landið eins og hungraður gammur og sendir yfir okkur rigningargusur sem minna okkur á síðasliðið haust sem var eitt það blautasta sem menn muna. Þeir sem rækta kartöflur í görðum sínum geta þó glaðst yfir hverri nótt sem ekki frýs því nú munar um hvern dag fyrir kartöflurnar að vaxa.
24.08.2008 11:30
Jasmín sendir okkur súldina.
Það er löng hefð hjá þjóðverjum að gefa hæðum og lægðum nöfn. Síðan 1954 hefur veðurstofa Free University of Berlin gefið þessum veðurfyrirbærum viðeigandi heiti. Sérhver hæð og lægð í miðevrópu hefur þannig fengið ýmist kvenmanns eða karlmanns nafn sem sjá má í mörgum veðurspám sem birtast í blöðum eða útvarpi og sjónvarpsstöðvum og nú einnig á netinu.
Þetta er þó ekki gert til skemmtunnar heldur er um ákveðna ástæðu að ræða. Með því að gefa loftþrýstisvæðunum nöfn er betur unnt fyrir almenning t.d. sjófarendur og flugmenn að fylgjast með stöðu og breytingum á viðkomandi loftþrýstisvæði.
Annað hvert ár skipta nöfnin um kyn. Árið 2008 fá háþrýstisvæðin karlmannsnöfn og láþrýstisvæðin kvenmannsnöfn. Árið 2009 fá svo hæðirnar kvenmannsnöfn og lægðirnar karlmannsnöfn.
Ekki veit ég hvort Veðurstofa Íslands hafi hugleitt að taka upp þetta nafnakerfi en óneitanlega yrðu veðurfréttirnar mun skemmtilegri ef svo bæri við. Þetta árið gætum við til dæmis notað nöfn strákanna í íslenska handboltalandsliðinu og stúlknanna í fótboltanum.
Annars má til gamans geta þess að lægðin sem nú dormar suður af landinu og sendir til okkar súld og rigningu heitir upp á þýsku Jasmín.
30.07.2008 18:21
27,5°C Algjört met!!!
Það var metdagur í dag hvað hitastigið varðar. Kl. 6 í morgun var kominn 16 stiga hiti og hækkaði hitinn með hverri klukkustundinni þar til hámarkinu var náð kl.14 en þá sýndi hitamælir veðurstofunar á Eyrarbakka 27,5°C og hitinn orðinn óbærilegur. Skömmu síðar kom hafgolan og gerði lífið léttbærara með temmilegri hita eða um 24 stig. Þetta er því heitasti dagur sumars og sá heitasti dagur í júlí frá því 1957 og jafnvel frá því mælingar hófust á Bakkanum ef frá er talið árið 1924 (sjá fyrra blogg).
Enn var heitast á landinu á Þingvöllum en þar komst hitinn í 29,3 stig.
29.07.2008 17:51
23.7°C í dag
það var heitt á Bakkanum í dag þó það væri hálfskýjað og dálítil hafgola síðdegis. Kl.14 var kominn tæplega 24 stiga hiti en svo kólnaði nokkuð með hafgolunni. Þetta er því heitasti dagur júlímánaðar og heitasti dagur á þessu sumri. Þar að auki er um dags hitamet að ræða varðandi þennan tiltekna dag. Mesti hiti sem mælst hefur á Eyrarbakka í júlí samkv.mælingum frá 1957 var árið 2003 en þá mældist 25°C þann 18.júlí.
(Hitametið 29,9°C frá 25. júlí 1924 er talið vafasamt af veðurstofu Íslands og því ekki talið til staðfestra hitameta.)
Mesti hiti Sunnanlands í dag var 26,9°C á Þingvöllum kl.17.
22.06.2008 23:42
Þrumuveður
þrumuveður gerði víða sunnanlands með síðdegisskúrunum í dag með miklum drunum, helli dembu og éljum svona eins og algengt er í útlöndunum. Man ekki eftir því að þrumuveður hafi skollið á svona skyndilega á miðju sumri í sól og blíðu en líklega má heimfæra þetta veðurlag á hlýnandi loftslag á norðurslóðum.
Við gerum okkur kanski ekki alveg grein fyrir hættunni sem af þrumuveðri kann að leiða, því í slíku veðri getur skapast eldingahætta, en erlendis verða eldingar mörgum að bana, einkum í og við vötn.
23.04.2008 09:18
Síðasti vetrardagur.
Gróðurinn er að vakna til lífsins og grasið grænkar. Á morgun er sumardagurinn fyrsti og er nú að vita hvort sumar og vetur frjósi saman, því samkvæmt þjóðtrúnni veit það á gott sumar ef það gerist. Veðurspár eru þó ekki bjartsýnar um að það gerist hér á suðurlands undirlendinu. Um miðnætti er spáð 6 stiga hita og skúrum á Bakkanum.
13.04.2008 16:11
Hrafnahret.
Allt komið á kaf í snjó á Bakkanum, en vonandi að þetta sé síðasta hretið og þessi skelfilegur vetur senn að baki. Einhver spáði því að vorið kæmi á þriðjudaginn og víst er að öllum er farið að hlakka til að taka á móti því.
Áður fyrr var almennt álitið, að hrakviðri fylgdi oft sumarmálum. Það var oft nefnt sumarmálahret, eða hrafnahret Var því trúað, að tíð myndi batna, er slíkt hret var um garð gengið. Sagt er að hrafninn verpi 9 nóttum fyrir sumar og verði þá oft hret um þetta leiti og því nefnt Hrafnahret.
01.04.2008 13:25
Kaldur marsmánuður að baki, en lóan er komin.
Marsmánuður var kaldur venju fremur og úrkoma oft í hvítu formi. Norðaustanáttir viðvarandi flesta daga. Nú er hádegissólin tekin að verma og nær að bræða vakir á ísinn á Hópinu eins og sést hér á myndinni.
Lóan er komin:
Fulgalífið hefur tekið kipp að undanförnu eins og fuglatalningin hér gefur til kynna.
Tjöldum tjölgar og fyrsta heiðlóa ársins í fjörunni.
02.03.2008 12:42
Febrúar í fönn.
Í byrjun febrúar sást sól í heiði á sjálfa kyndilmessu og samkvæmt gamalli spávísu benti það til þess að vænta mátti mikilla snjóa, og sú varð raunin. Febrúar var nefnilega kaldur og snjóasamur. Þann 8 gekk óveður yfir með blindhríð eldingum og skafrenningi. Á skálafelli fór vindhraðinn í amk. 53 m/s og undir Hafnarfjalli 62 m/s eða þar til vindmælirinn gaf upp öndina. Í kjölfarið fylgdi mesta brim sem gert hefur á Bakkanum í vetur. Brim hefur svo verið viðvarandi allflesta daga í febrúar og hlaðið upp íshröngli úr Ölfusá.
Um miðjan mánuðinn hlýnaði með súldarviðri og rigningum svo vatn jókst mikið í tjörnum og dælum. Svo tók að frjósa og þann 25 náði frostið upp í -15°C á Bakkanum. Undir lok mánaðarins tók svo snjókoman við á nýjan leik. Úrkoma í febr. mældist 166 mm
28.02.2008 09:28
Snjókoma
það eru eflaust margir orðnir langþreyttir á þessum snjóa og frostavetri. Áfram er spáð köldu veðri fram í næstu viku að minsta kosti.
Það byrjaði að snjóa seint í gærkvöldi og enn snjóar á köflum. Í morgun var komin 15 cm jafnfallinn snjór á Bakkanum.
Brim hefur verið með mesta móti í allan vetur og vestlægar áttir óvenju algengar.