Flokkur: Veðrið
02.08.2009 20:23
Heitur í dag.
31.07.2009 19:36
Heitur dagur
Ekki var met slegið í dag, en þó vel hlýtt 19,1°C þegar best lét. Eyrarbakki og Hella börðust um hitatölurnar annan daginn í röð og höfðu Rángvellingar betur að þessu sinni með 19,7°C.
Dægurmetið á Bakkanum er hinsvegar frá 1980 22,4°C
30.07.2009 15:27
Hella með vinninginn
30.07.2009 12:52
Heitast
Eyrarbakki er heitasti staðurinn á landinu í dag með 17,7°C en sá kaldasti er á Miðdalsheiði 3°C en mesti hiti sem mælst hefur 30.júlí á Eyrarbakka 1957 til 2008 var í fyrrasumar 27.5°C
28.07.2009 23:18
Nú fór að rigna
Spurning hvað svo gerist þegar þetta er einu sinni byrjað :/
25.07.2009 10:57
Kartöflunum bjargað
Það gerði næturfrost á Eyrarbakka í nótt. Um kl 3 hafði hitinn fallið niður fyrir frostmark og var lágmarkinu náð um kl.5 -2.2°C sem var næstmesta frost á láglendi í nótt, en á Fáskrúðsfirði var -2.3°C.
Ekki veit ég til að svona mikið frost hafi áður komið í júlí á Eyrarbakka. Gögn um lægsta hitastig á Eyrarbakka 25. júlí sem ég hef var 1.9°C árið 1967.
Minsti hiti í júlí sem mælst hefur áður á Eyrarbakka var þann 15.júlí 1979 þegar lágmarkið var 1,4°C og í öðru sæti yfir lágmarkshita í júlí var 8.júlí 1973 og 18. júlí 1983 þegar lágmarkið var 1,5°C.
Um miðnætti var dagljóst að næturfrost var í vændum og varð því að gera tilraun til að bjarga kartöflugarðinum hér á bæ frá áfalli. Brugðið var á það ráð að setja upp garðúðarann og láta hann vökva alla nóttina. Tókst sú aðgerð með ágætum og sá ekki á grösum þrátt fyrir tveggja stiga frost um nokkurn tíma.
24.07.2009 09:08
Kuldakastið
Hæð við Grænland og Lægð á Noregshafi sáu til þess að heimskautaloftslag færðist yfir landið síðasta sólarhringinn með kulda og snjókomu á hálendinu.
Um kl.4 síðdegis í gær höfðu hitatölur á Eyrarbakka þokast upp í 13°C sem þykir ekki mikið á þessum árstíma, en þá tók hitastigið að falla hratt, eða um eina gráðu á hverri klukkustund og var lágmarkinu náð um kl 3 í nótt. Hitafallið hafði stöðvast í tæpum 2°C og tók að stíga á ný.
Víða á Rángarvöllum var frost í stutta stund í nótt. Í þykkvabæ var -1.1°C og á Hellu -1.6°C. Kartöflugrös eru viðkvæm og falla jafnan við fyrstu frost, en ekki hafa borist spurnir af því hvernig horfir með uppskeruna í kartöflubænum.
23.07.2009 14:21
Miðsumarhret
Nú þegar miðsumarhretið gengur yfir norðlendinga er tilvalið að rifja upp eitt versta miðsumarhret sem yfir landið gekk þennan dag 1966. Köldustu dagarnir voru 23. og 24. júlí það ár.
Eins og sjá má á kortunum hér til hliðar frá Veðurstofunni, þá eru þau nokkuð lík, annað frá hádegi í dag en fyrir neðan frá hádegi 23.júlí 1966 en þá var vindur heldur meiri en nú, en hitastigið með svipuðu móti. þá fuku hey víða og girðingar lögðust niður. þá skemdust kartöflugarðar á nokkrum stöðum. Nokkuð var um ungadauða norðan heiða og sumstaðar króknaði fé auk ýmis annars tjóns sem hretið olli. Hitinn var fyrir neðan frostmark á Hveravöllum þessa daga 1966 en komst lægst í rúma +1°C í morgun, hvað sem verður næstu nótt. Minnsti hiti í dag var á Gagnheiði -2°C
heimild: Veðráttan júlí 1966
22.07.2009 14:34
Ótíðindi
Framundan er sólarlítil helgi hjá okkur. Hitinn verður slakur í norðanáttinni á fimmtudag og föstudag en við gætum verið að tala um eins stafs tölu í því samhengi. Þá mun eitthvað skvettast úr honum , einkum á sunnudagsmorgun. Þeir sem hyggja á ferðalög til fjalla þurfa vetrarútbúnað, því gert er ráð fyrir snjókomu á hálendinu norðanverðu.
16.07.2009 08:57
Milt sumar
Fram til þessa hefur sumarið á Bakkanum verið með ágætum, fremur þurt og nokkuð sólríkt og hægviðrasamt, en engin hitamet sleginn. Í gær var mestur hiti um 18°C, en 20°C í dag. Mesti hiti sem mælst hefur á Eyrarbakka var 29.9°C þann 30.júlí árið 1924. Á sjálfvirku stöðinni sem sett var upp 2005 mældist mesti hiti 28.4°C sama mánaðardag (30.júlí) í fyrrasumar.
Á vef veðurstofunnar má nálgast hitametstölur alstaðar af landinu http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/1615
26.05.2009 23:15
Þrumuveður í Þrengslum
Það gránaði í vesturfjöllin eftir þrumuveðrið sem gekk yfir Hellisheiði í dag og slabb gerði ökumönnum erfitt fyrir á leið sinni yfir heiðina. Þessu veðri olli óstöðugt loft og kuldi í háloftunum ásamt miklu hitauppstreymi sökum sólarhita. Eyrarbakki var með þriðja hæðsta hitastig á landinu í dag 13.5°C sem varla telst mikið á þessum árstíma. Á hálendinu var víða frost og var hámarkið við Brúarjökul -6,8 °C
13.05.2009 22:52
Vindasöm vika
Frá 7.-13.maí hefur vindhraðinn aðeins einu sinni farið undir 5 m/s á stöð 1395, en það var á miðnætti 9-10. maí en þá sneri vindátt úr hvassri norðanátt í hvassa suðaustanátt. Þá hlýnaði jafnframt úr 7° hádegishita í 11° hádegishita. Á þessu tímabili hafa vindhviður farið upp í 22 m/s eða sem jafngildir stormi, en vindur hefur verið að jafnaði 10-15 m/s sem verður að teljast óvenjulegt í svo langan tíma. Vonast menn nú til að sjá fyrir endann á þessari veðráttu, enda biðin orðin löng eftir reglulegu grillveðri, en allt bendir líka til þess að hægt verði að grilla á hverjum palli um komandi helgi.
02.04.2009 23:21
Gáð til veðurs
Þjóðminjasafn Íslands er með í undirbúningi spurningaskrá um alþýðlegar veðurspár og veðurþekkingu. Á 20. öld kunnu margir að gá til veðurs en þessi þekking er nú smám saman að glatast, enda hefur þjóðin haft öfluga veðurstofu svo áratugum skiptir. Þjóðminjasafnið hefur áhuga á komast í samband við fólk, einkum sjómenn sem á einn eða annan hátt býr yfir upplýsingum um alþýðlegar veðurspár.
Veðurklúbbnum Andvara á Eyrarbakka barst spurningalisti sem áhugasamir geta svarað og sent Þjóðminjasafni Íslands. Spurningaskra110_gw.doc
Svörum er hægt að skila Hér
15.02.2009 23:55
Snjóinn tekinn upp
Allan snjó hefur tekið upp við ströndina eftir rigningar og hlýindum í lofti og kemur grasið víða grænt undan. Dálítið brim hefur verið í dag og súldarvottur. Áfram er spáð hlýju veðri og vætutíð með ströndinni fram á næstu helgi.