Flokkur: Grúsk
29.11.2008 23:13
Tíminn bíður ekki
Á árunum 1890-1920 var Eyrarbakki í miklum blóma. Árabátunum fjölgaði mikið og Lefoliverslunin var öflug miðstöð fyrir allt Suðurland. Þegar höfn var byggð í Reykjavík kippti það fótunum undan versluninni. Leofoliverslunin lagði upp laupana en margar aðrar færðust upp að Ölfusárbrú. Eftir sátu útgerðarmenn og verkafólk sem áttu ekkert annað en vinnuafl sitt. Samstaða verkafólksins var mikil og sterk. Á Eyrarbakka var líka óvenjulega sterkt og öflugt verkalýðsfélag sem mótaði þorpið næstu áratugi.
Um aldamótin 1900 óx Eyrarbakki gífurlega hratt og síðan þegar hrunið kemur verður það mikið og eymd yfir öllu. Svo þegar stóra kreppan kemur 1929 þá vesnar ástandið ekki í sjálfu sér svo mikið. Það var allt í volæði hvort sem var. Þetta varð til þess að harka færðist í orðræðuna og verkamannafélagið Báran óx hröðum skrefum. Félagið tók nýja stefnu í þá átt að aðstoða sína meðlimi með öðrum hætti en áður tíðkaðist. Báran stofnaði m.a. vörupöntunarfélag og hlutafélag um byggingu brauðgerðarhús (Skjaldbreið) ásamt stórtækri kartöfluræktun.
Báran varð mjög sterkt stjórmálalegt afl á árunum um og eftir fyrra stríð. Þá fékk Báran menn í hreppsnefnd. Á árunum milli 1920 og 1940 varð Báran geysi öflug og má halda því fram að félagið hafi í raun stjórnað Eyrarbakka. Það sem félagið sagði, það gerði hreppsnefndin. Með tilkomu hernáms breta 1940 gjörbreyttist allt. Á bilinu 40 til 140 menn fengu að jafnaði vinnu mest allt árið við bækistöðvar breta í Kaldaðarnesi meðan á hernáminu stóð. Í örfá skipti sló í brýnu milli Bárunnar og herráðsins, en þann ágreining tókst jafnan að leysa. Báran var hvergi bangin, hvort sem átti í hlut bretaveldi eða ríkistjórn Íslands. Þannig var félagið oft leiðandi fyrir önnur félög á Suðurlandi.
Árið 1943 sendi Báran á Eyrarbakka frá sér svohljóðandi ályktun:
Fundurinn mótmælir harðlega frumvarpi ríkistjórnarinnar um dýrtíðarráðstafanir,þar sem í því felst stórfeld skerðing á kaupi launþega í landinu og skorar á Alþingi að fella það.
Í stríðslok byggðu Eyrbekkingar upp fiskvinnslu sem var þó oft stopul á köflum, einkum yfir vetrartímann. Við þetta bættist iðnaður ýmiskonar eins og t.d. Plastiðjan og síðar álpönnuverksmiðjan. Báran var virkur þáttakandi í atvinnusköpun og atvinnuþróun á Eyrarbakka nær allan sinn starfsferil. Um síðustu aldamót fór svo að halla undan fæti á nýjan leik. Kraftur sá sem bjó í verkalýðnum hafði líka dvínað með árunum og að lokum sameinaðist Báran á Eyrarbakka verkalýðsfélaginu Þór á Selfossi. Í dag hefur útgerð, verslun og þjónusta lagst algerlega af.
Nú má segja að Eyrarbakki sé aftur á byrjunarreit í þeirri volæðiskreppu sem ríður yfir land og þjóð, en gleymum því ekki að tækifærin til framtíðar liggja víða í ferðaþjónustutengdri atvinnustarfsemi og hefur vísir af því þegar skotið rótum. Eyrbekkingar ættu nú að taka höndum saman einu sinni enn með lærðum og leiknum og stofna með sér framfarafélag eða atvinnuþróunarfélag sem gæti orðið leiðandi afl á Eyrarbakka og fyrirmynd eins og Báran forðum daga.
05.11.2008 20:56
Róið til fiskjar um aldamótin 1900
Þá voru allir bátar á Eyrarbakka róðrabátar og veitt var á línu. Beitan var fjörumaðkur í vertíðarbyrjun en síðan altaf hrogn eða þar til síðar að farið var að nota síld. Því grynnra sem fiskurinn gekk því betur aflaðist. Fatnaðurinn var úr skinni og skórnir líka. Þá var róið í þriggja tíma túra og myrkrana á milli ef vel fiskaðist. Fiskurinn var seilaður á grunnenda bátsinns, en þar tók landmaðurinn við honum og dró frá skerjum til lands þar sem heimafólk, konur og krakkar tóku við honum. Í stórstraumsfjöru var það stundum langur vegur sem landmaður þurfti að draga seilina og þótti það íllt verk.
Formenn báru sig saman um það hvort væri sjófært og var þá flaggað ef svo var. En þar til flaggið var komið upp mátti enginn halda til sjós, því svo fljótt gat brimað á Bakkanum.
Vertíðarnar voru þannig að byrjað var að róa seint í september og róið til jóla. Haustvertíðinni lauk á Þorláksmessu. Stundum var róið milli jóla og nýárs. Vetrarvertíð byrjaði á kyndilmessu en venjulega tók ekki að fiska fyrr en seint í febrúar. Aðkomumenn voru einungis til sjós á vetrarvertíðum, en á vorin reru aðeins fáir bátar.
Þegar vorvertíð lauk tók við svokölluð eyrarvinna hjá sjómönnunum, en það var uppskipunarvinna fyrir verslunina. Í þann tíma var fjölmennt á Bakkanum þegar bændur komu hvaðanæfa af Suðurlandi til innkaupa. Þá fóru einnig fram vöruskipti mill bænda og þorpsbúa. Bændurnir fengu söl, fisk og herta þorskhausa, en létu í staðinn smjör, tólg, kjöt og skinn. Þá jafngiltu 20 fiskar 4 krónum.
Heimild: Byggt á viðtali Þjóðviljans við Ólaf Sigurðsson frá Naustakoti á Eyrarbakka. Þjóðviljinn 4.júní 1950.
Ps. Fékk þessa vísu hjá bloggvini http://gummiste.blogcentral.is/
Frá Eyrarbakka út í [Sel] vog.
Sumar útgáfur vísunar eru með eftirfarandi hætti:
Frá Eyrarbakka út í Vog
er svo mældur vegur
átján þúsund áratog
áttatíu og fjegur.
Rétta útgáfan er svona:
Frá Eyrarbakka út í Vog
er svo mældur vegur
átján hundruð áratog
áttatíu og fjegur.
Vegalengdin á sjó, frá Eyrarbakka út í Selvog, mun vera 25-30 km. og í logni 4-5 kl. stunda
róður. Þegar tekið var langræði höfðu menn, að öllum jafnaði, langdregin áratog, 7 áratog á mínútu, og það eru 420 áratog á klukkustund, en 1890 áratog á 4.5 kl. stund.
02.11.2008 21:19
Mórinn
Framan af 20. öldinni voru allflest íbúðarhús hituð upp með kolum. Hitaveitudraumar voru enn víðs fjarri á landsbyggðinni og enn langt í að olíuhitun yrði almenn.
Veturinn 1939 verður almenningi á Eyrarbakka ljóst að kol myndu hækka mikið í verði, enda kreppa í efnahagslífinu og að auki virtist heimstyrjöld vera að brjótast út. Varð það þá að ráði að verkamannafélagið Báran og Eyrarbakkahreppur hófust handa við móupptekt til eldsneytis fyrir hreppinn.
Það varð úr að stofna félag sem hét Mónám Eyrarbakka hf og lagði hver félagsmaður til 100 kr til fyrirtækisinns sem m.a. nota átti til kaupa á móvinnuvél sem áætlað var að mundi kosta 1000 kr. Fyrst varð þó að fá gott móland, en nægilegan mó var nefnilega ekki að finna á Eyrarbakka. Var því fenginn sérfróður maður til að finna besta mólandið í nágreni Eyrarbakka og reyndist það best í landi Árbæjar í Ölfusi í svonefndri Árbæjarmýri undir Ingólfsfjalli.
Félagið tók nú á leigu þrjá hektara af Ólafi Einarsyni bónda í Árbæ og hóf að framræsa landið til þurkunar enda blaut dýjamýri auk þess þurfti að leggja í tímafreka og kostnaðarsama vegagerð út á mótekjulandið. Mikil rigningartíð setti þó strik í reikninginn og menn horfðu uggandi i framtíðina. Fjöldi verkamanna voru ráðnir í mógröftinn og urðu þeir fyrst um sinn að hafast við án skjóls í hinum mislindu veðrum undir Ingólfsfjalli og söknuðu þeir þess að hafa ekki hinar fornu vatnsheldu heljarslóðar duggarabandspeysur sem voru nú löngu hættar að fást. En brátt fengu verkamennirnir skúr sem fyrirtækið keypti af vegagerðinni og var nú unnið að mótekjunni af fullum krafti.
Þetta fyrirtæki var þó ekki stofnað til langrar framtíðar, heldur til að mæta brýnni þörf og það væri kanski eitthvað til að hugsa um í kreppunni okkar þó við látum það nú vera að stinga upp mó.
Heimild: Byggt á grein eftir Þ.J. í Þjóðviljanum 29.júní 1940
27.03.2008 18:05
Gamla bakaríið
Gamla bakaríið 1960. Bíllinn fyrir framan er af Austin gerð og var í eigu Sigurðar Andersen.
Húsið var upphaflega í eigu Lefolii verslunar og reist á þessum stað 1884.
Gamla bakaríið 1966. Billin fyrir framan er Moscwitc og var hann einnig í eigu Sigurðar.
Takið eftir að skorsteinnin á þakinu er horfinn.
Gamla bakaríið í dag. Skorsteinninn hefur verið endurbyggður.
Lengi vel var Gamla bakaríið stoppistöð fyrir rúturnar og oft brugðu bílstjórarnir sér inn og þáðu kaffisopa.
Hér stendur Sigurður bakari í bakarísdyrunum. Árið 1927 keypti Lars Lauritz Larsen Andersen húsið af þáverandi eigendum kaupfélagsins Heklu og hóf að baka upp á eginn reikning, en hann hafði áður verið bakari hjá Lefolii versluninni. Eftir fráfall hans tók sonur hans Lárus Andersen við rekstrinum og starfaði bakaríið í þessu húsi fram undir lok 5. áratugs síðustu aldar eða þar til Lárus setti upp bakarí í kjallaranum í Skjaldbreið.
Meira á Eyrarbakki.is
12.03.2008 20:35
Bátar í fjöru
þessi bátur ber einkennisstafina ÁR 24 -sjá comment Jóhann Þorkelsson ÁR 24-
(Stundum kom það fyrir að bátar slitnuðu upp eða strönduðu í fjörunni. Sumum tókst að bjarga en aðrir enduðu ævi sína í fjöruborðinu eins og t.d. Jón Helgason sem var að koma úr slipnum og strandaði á leið á leguna.)
Fjalar hét þessi bátur og strandaði hann skamt frá landi vestan hafnarinnar í febrúar 1969. (Vélin hafði bilað á ögurstund og því fór sem fór). Áhöfninni var bjargað í land af björgunarsveitinni Björg og var notuð til þess björgunarlína og "stóll". Nokrir létu sig þó reka í land á gúmmítuðru enda var veður gott. Þegar fjaraði undan komu í ljós nokkrar skemdir og var því ákveðið að draga skipið upp í fjöru og gera við það þar eins og sést á myndinni. Fjalar var svo sjósettur á ný á sjómannadaginn og tókst sú aðgerð giftusamlega. Báturinn var settur á tvo 20 hjóla vagna sem hengdir voru á tvo öfluga trukka, sem einnig nutu dyggrar aðstoðar jarðýtu. Síðan var ekið með bátinn út í sjó og þess beðið að félli að þar til sjálft hafið lyfti skipinu af vögnunum.
10.03.2008 23:45
Gamli góði Bakkinn
Hér er gömul götumynd af Eyrarbakka. Takið eftir vindhananum ásamt skorsteininum á kirkjunni og brunninum fyrir framan Kirkjuhús. Einnig athyglisverð girðingin á garðshleðslunni. Rafmagnsstaurar komnir en raflínurnar vantar. Á myndinni eru mörg hús sem eru löngu horfin.
25.11.2007 16:50
þeir tóku veðrið
Veðrið á Bakkanum hefur nú verið tekið í 127 ár. Þessir voru Veðurathugunarmenn á Eyrarbakka.
Peter Nielsen í Húsinu frá 1880-1910
Guðmundur Ísleifsson Háeyri 1911-1923
Gísli Pétursson Læknishúsi 1923-1939
Pétur Gíslason Læknishúsi 1939-1981
Sigurður Andersen Mörk 1980-2001
Emil Hólm Frímannsson frá 2002
11.11.2007 22:48
Tveggja gulltunna virði í flæðarmálinu.
Einhver talaði um að af þessu væri fýla, en rétt nef gæti e.t.v. fundist það vera peningalykt.
Á Eyrarbakkafjöru vex mikið þang sem kann að vera vannýtt auðlind. Fyrr á öldum var þangið nýtt til sauðfjárbeitar, en einnig var það þurkað og brent til upphitunar í hallæri þegar erfitt var um kol eða mó. Hin síðari ár hefur þangið verið að nokkru nýtt sem áburður á kartöflugarða, en nú eru kartöflubændur aðeins örfáir eftir á Bakkanum og því rotnar þangið í fjörunni engum til gagns.
Árið 1853 var þangbrensluverksmiðja á Eyrarbakka og stóð hún þar sem nú stendur húsið Brenna, en það dregur einmitt nafn sitt af þangbrensluni. Úr þangöskunni var unnið joð og Glaubersalt (Sodium sulfate) sem þótti sérlega heilsusamlegt og voru bæði þessi efni notuð til lyfjagerðar og gáfust vel sem heinsandi efni. Árið 1854 var búið að framleiða eitt og hálft tonn af Glaubersalti sem flutt var til evrópu en einnig var Glaubersaltið selt hér innanlands og notað til lækninga bæði á dýrum og mönnum og var pundið selt á 32 skildinga.
Dr. J. Hjaltalín stóð að þessu fyrirtæki og skrifaði hann ágæta grein í Þjóðólf 1854 um þangbrensluna á Eyrarbakka og það gagn sem af þessari auðlind má hafa. Þangbrensla var fyrst stunduð í verulegum mæli frá 1730-1830 á Bretlandseyjum, einkum Orkneyjum og Hjaltlanseyjum. Afurðirnar af þangbrensluni voru í fyrstu Lútarsalt (Natríum) til sápuframleiðslu, glersmíði og lyfjagerðar og lifðu af þessari framleiðslu um 80 þúsund manns í Bretlandi.
Um aldamótin 1800 ætlaði Skoti nokkur Mc Auly að nafni að kenna Íslendingum þessa framleiðslu en ríkistjórn Íslands í Kaupmannahöfn stóð í vegi fyrir því og mistu því Íslendingar af lestinni, en talið var að hagnaðurinn gæti numið tveim tunnum gulls á ári.
Árið 1807 lofaði ríkisstjórnin nokkrum áhugamönnum um þangbrenslu að gera tilraun með hana hér á landi og kom í því skyni hingað til lands danskur sápugerðarmaður nokkur Morten Reidt að nafni og brendi þang í Skildinganesi um mánaðar tíma og var sú framleiðsla um eitt tonn af þangösku sem úr mátti vinna Glaubersalt til sápu gerðar (Talsvert notað í sjampo). Ekkert var þó úr að raunveruleg framleiðsla hæfist hér á landi og fékk þangið að rotna í fjöruborðinu engum til gagns.
Árið 1830 fundu Frakkar aðferð til að vinna Natron beint úr sjávarsalti þá lækkaði verðið og framleiðslan úr þanginu varð því ekki eins arðbær og að lokum var framleiðslunni víða hætt í þessum tilgangi. En þá hafði efnafræðingur nokkur fundið aðferð til að vinna efni sem hann kallaði Joð úr þangöskunni sem mátti nota til lækninga. Þangtegundir eru þó misríkar af joði en þangið á Eyrarbakka virtist lofa góðu um Joð framleiðslu auk Glaubersaltsins (neft eftir Johann Rudolf Glauber) sem úr mátti gera góða heilsulind með því að blanda það hveravatni. Dæmi um þannig heilsulind er heilsubrunnurinn í Karlsbad í Þýskalandi.
Eina þangbrensla landsins í dag er þörungaverksmiðjan í Karlsey á Reykhólum þar sem framleitt er þangmjöl en úr því má vinna efni sem kallast alignöt og ensím til ýmiskonar efnaiðnaðar. Árið 1939 til 1941 var unnið að þangmjölframleiðslu í Hveragerði þar sem var notast við hverahita til fraleiðslunar eins og nú er gert á Reykhólum. Árið 1959 var svo gerð tilraun með þangmjölsframleiðslu í svokallaðri beinamjölsverksmiðju sem Eyrbekkingar og Stokkseyringar áttu og stendur á milli þorpana en sú verksmiðja er í dag auð og tóm.
07.06.2007 21:07
Fjallasperringur og önnur fyrirbæri.
Einhverju sinni hafði óþurkatíð gengið um lágsveitir sunnanlands og kom þaðan einn bóndi út á Bakka með ull sína sem ekki var sem þurrust. Nielsen gamli hjá Lefolii verslun kemur þar að og skoðar ullina,vegur hana og metur en líst ekki nógu vel á. Hann segir því við bónda " Hver í helvide, kan du ikke thurka dína ull í fjallasperr sem Olaf í Selslæk?"
"Fjallasperringur" hét algengt veðurfyrirbæri í uppsveitum Rángárvalla, Á vorum og sumrum, fram til haustnátta, mynda austanvindarnir, fyrir atbeina jöklanna, ýmist stórfellt regn eða helliskúrir, sem steypast vestur yfir allt Suðurlandsundirlendið að norðanverðu, en ná þó sjaldnast ofar en upp á Rangárvöllum, á móts við Tindafjallajökul. Norður af Heklu er þá aftur á móti norðlægari vindstaða, ýmist með þeyvindum eða þræsum á vorum, þurrviðrum á sumrum og frostum á vetrum. Önnur fyrirbæri af sama toga nefnist "Hornriði" þ.e. sterkviðrisstrengurinn og dembuskúrirnar, niður við sjávarströndina. Því var nefnt í tengslum við sjólagið, "hornriðaalda", "hornriðabrim", og "hornriðasjór".í illmúruðum hornriða og harðindatíð á vetrum renna afarháar kviköldur og hvítfyssandi fallsjóir undan sterkviðrinu á vesturleið til djúpanna og valda ógurlegu brimi við suðurströnd landsins, einkum í Eyrarbakkabugðunni. Eru kvikur þessar nefndar harðindakvikur, enda jafnan fyrirboði mestu illtýruharðinda, og brimið, sem undan þeim rennur, er kallað hornriðasjór eða harðinda-brim. "Austantórur" þ.e. austan skúraveður en þó bjart yfir austurfjöllum.
06.03.2007 22:18
Elsti barnaskólinn.
Barnaskólinn á Eyrarbakka var stofnaður föstudaginn 25 oktober 1852. Skólahúsið var byggt fyrir samskotafé almennings í héraðinu. Forgöngu fyrir þessari skólastofnun höfðu þeir sr. Páll Ingimundarson í Gaulverjabæ, Guðmundur Thorgrímsson verslunarstjóri á Eyrarbakka og Þorleifur Kolbeinsson á Háeyri sem þá var hreppstjóri Stokkseyrarhrepps.
Undirbúningur fyrir stofnun barnaskóla á Eyrarbakka hafð staðið um nokkur misseri og menn í héraðinu sem aðrir landsmenn hvattir til að leggja þessu góða máli lið og kom það því hvatamönnum undarlega fyrir sjónir að aðeins Árnesingar léðu þessu máli lið, en þó með nokkrum undantekingum. Þessum hugmyndum um stofnun barnaskóla fengu mikinn mótbyr frá 41 bónda í héraðinu sem undirskrifuðu skjal þann 16.apríl 1851 þar sem fyrirhugaðri stofnun var mótmælt og afsagt að styrkja til hennar eða að láta börn sín í skólann og þá einkum ef ekki yrði hjá því komist að taka af opinberu fé rentu-sveitarkassans til að reka skólann.
En þrátt fyrir þessa mótspyrnu bændanna var skólahúsið reist að Háeyri, timburhús sem rúmaði 30 nemendur auk kennarastofu og kostaði nálega 500 kr.(rbd) Þess má geta að Eigendur Lefolii verslunar og margir mætir Árnesingar styrktu rekstur skólans fyrsu árin.
Í haust verður þessi stofnun 155 ára. Vonadi verður þá búið að taka fyrstu skóflustunguna að nýju húsnæði fyrir þessa elstu barnaskólastofnun landsins.
Heimild:Þjóðólfur 9.apr.1853
Ps. Bændurnir 41 hættu fljótlega að sýna opinbera andstöðu við skólastofnunina,enda öllum einsýnt að þetta væri mikið framfara skref.
Hér er þó ekki alveg rétt með að aðeins Árnesingar hafi stutt skólastofnunina því stuttu eftir að bréfritari þjóðólfafs hafði byrt bréf það sem ofangreindar upplýsingar eru byggðar á barst skólanum styrkur frá fólki utan Árnessýslu og byrtist í 5 árg.þjóðólfs bls 75 og 131
Styrkjendur voru þessir:
- Jón Guðmundsson lögfræðingur Reykjavík. ..........10 rbd.
- Dr. Jón Hjaltalín Kaupmannahöfn...........................5 rbd.
- P.Gudjonsen organisti Reykjavík...........................5 rbd.
- Sk. Thorarensen héraðslæknirMóeyðarhvoli............4 rbd.
- L. A. Knudsen kaupmaður Hafnafyrði.....................3 rbd.
- M. J Matthiesen kaupmaður Hafnafyrði...................3 rbd.
- sr.Páll Matthiesen Dvergverðarnesi.........................2 rbd.
- Egill Jónsson bókbindari........................................1 rbd.
- pr.f. sr. Ásmundur Jónsson....................................4 -
Styrkir frá hreppum í Árnessýslu utan Stokkseyrarhr:
Hraungerðishreppur.
- dbr. Árni Magnússon Stóraármóti............................10 rbd.
- TH. Gudmundsen kamerráð Hjálmholti........................8 -
- sr. Sigurður Thorarensen Hraungerði...........................2 -
- Þormóður Bergsson Langholti....................................2 -
- Bjarni Símonsson kirkjueigandi Laugardælum..............1 -
Ölvershreppur.
- sr.Jón Matthiesen Arnarbæli.......................................4 -
- Magnús Sæmundsson Auðsholti.................................2-
- Guðmundur Jónsson Núpum.......................................1-
Selvogshreppur.
- sr.Þorsteinn Jónsson Vogsósum..........................samt.6 -
- Guðmundur Magnússon Minnahofi................................1 -
- Einar Hafliðason Helgastöðum......................................1 -
- Filippus Stefánsson Vatnsdal........................................1-
- Jón Jónsson Gaddstöðum............................................." 32 sk.
- Guðmundur Pétursson Minnahofi..................................." 16 sk.
- Börn sr.B. Jónssonar á Stórafljóti...................................2 -
Grímsneshreppur.
- Jón Halldórson kirkjueigandi Búrfelli..............................3 -
- Gísli Guðmundsson Gíslastöðum...................................5 -
Biskupstungnahreppur.
- sr.Björn Jónsson Stórafljóti...........................................2 -
- Eyjólfur Guðmundsson hreppstj, Auðsholti......................1 -
- Eiríkur Jónsson bóndi Skálholti......................................2 -
- Helgi Gíslason bóndi Iðu................................................" 24sk
Hrunamannahreppur.
- J. K. Briem prófastur Hruna..........................................5-
- Jón Jónsson bóndi í Hörgsholti,.....................................2-
- Jón Halldórsson bóndi Efraseli.......................................1-
- dbr.Jón Einarsson á Kópsvatni.......................................3-
- Einar Jónsson hreppstj. Galtarfelli..................................." 64sk
- Alþ.m. Magnús Andresson Syðra-Langholti.....................4
Skeiðahreppur.
- Ófeigur Vigfússon hreppstj. Fjalli....................................5 -
Sandvíkurhreppur.
- Snorri Jónsson Selfossi...............................................2-
- Jón Símonarson ingismaður Selfossi.............................." 48sk,
Gaulverjabæjarhreppur.
- 33 gefendur samtals...............................................44 rbd 88 sk,*
- Þorvarður Jónsson hreppstj. Sviðnugörðum.................4 -
(*dönsk mynt sem notuð var á þessum tíma)
Gjafir úr Rángárvallasýslu samtals.9 rbd
- sr.Markús Jónsson Odda
- Hannes Bjarnason bóndi á Unuhól
- Brynjólfur Stefánsson bóndi Kirkjubæ
- sr.Guðmundur Jónsson á Stóruvöllum.
Gjafir úr Skaftafellssýslu samt. 7 rbd.
- sr.Gísli Thorarensen á Felli
- Sýsl,m. Árni Gíslason Heiði
Aðrar árlegar gjafir og áheit. 41 rbd 51 sk.
- Gísli Magnússon kennari Reykjavík
- sr. Jakop Árnason Gaulverjabæ
- sr. Sigurður Thorarensen Hraungerði.
- J.K. Briem Hruna
- dbr.Árni Magnússon Stóra - Ármóti
- V.Finsen bæjarfóg. Reykjavík
- Sveinn Eiríksson Hvaleyrarkoti
- Guðmundur Þorsteinsson Hlíð Árn.
- Guðmundur Guðmundsson Króki Árn.
- Jón Guðmundsson ritstj. Reykjav.
18.02.2007 22:46
Bakkasögur frá því í gamladaga!
Að undanförnu hef ég tekið saman nokkrar sögur af Eyrarbakka og skipt þeim í tvo flokka, annarsvegar Sjóferðasögur en þar er t.d.lítil saga af samskiptum Þorleifs Þorleifssonar á Háeyri við hinn norska kaptein Jacopsen sem endaði á voflegan hátt. Svo Brennusögur en þar eru teknar saman helstu sagnir um eldsvoða á 19 og 20 öld.
Fleiri sögur koma svo við hentugleik.
Tíðin: Mild og góð með frískandi sjávarlofti,en dálítið vætusöm.
Lítil verðkönnun: 1 lítr.nýmjólk frá MBF í Bónus á Selfossi kr.75 Smjörvi 300gr kr.158 MS Matreiðslu rjómi 1/2 ltr. kr.167 og Bónusbollur fyrir Bolludaginn 14stk á kr.259
Í Samkap á Selfossi kostar 1ltr.nýmjólk kr.85 Matreiðslurjómi 1/2 ltr. kr.185
29.01.2007 09:40
300 ár frá Stóru bólu.
Á þessu ári eru 300 ár síðan stóra bóla barst til Eyrarbakka með farskipi sem kom með varning og farþega inn á Einarshöfn. Sóttin herjaði um allt Ísland og var mannskæð farsótt sem barst um land allt árið 1707.
220 ár frá því að einokun á verslun var aflétt.
110 ár eru liðin frá því að Eyrarbakkahreppur og Búnaðarfélag Eyrarbakkahrepps var stofnað.
90 ár eru síðan hinn þekkti kaupmaður Guðlaugur Pálsson hóf verslunarrekstur á Eyrarbakka.
80 ár frá því að Sæfari ÁR fórst á Bússusundi.
60 ár frá stofnun ræktunarsambands Eyrbyggja.
50 ár frá því að Eyrbekkingar eignuðust fyrsta slökkvibílinn.
30 ár frá Aðventuflóðinu svokallaða árið1977 þegar Eyrbekkingar og Stokkseyringar urðu fyrir stórtjóni af völdum sjávarflóða. Einnig eru 30 ár frá því að fyrsti og eini togari Eyrbekkinga og nágranabyggðalaga Bjarni Herjólfsson var vígður.
20 ár frá því að dvalarheimili aldraðra að Sólvöllum var tekið í notkun.
10 ár frá því að framkvæmdum lauk við hina nýju sjógarða.
08.12.2006 11:57
Þá kom stormsveipur á Bakkann.
Það var í fréttum á dögunum að stormsveipur eða skýstrokkur hafi valdið talsverðu tjóni í London. Þetta fyrirbæri er ekki algengt á þessum slóðum en er þó árlegt veðrabrygði einhverstaðar á Bretlandseyjum. Árið 1950 var skýstrokkur 2 mönnum að bana á suður Englandi. Þetta fyrirbæri er þó mun algengara á sléttum norður Ameríku og geta orðið gríðar öflugir og valdið skelfilegu tjóni. Saga sem ég heyrði fyrir magt lögu segir frá skýstrokk, en að vísu ekki ýkja stór, sem kom á Eyrarbakka einhverntíman fyrir miðja síðustu öld. Það var þannig að þrír menn voru staddir í sjógarðshliði við Vesturbúðirnar þegar skýstrokkurinn kom austur með fjörunni og sogaði upp mikið af sandi og var kolsvartur ásýndum. Mennirnir í hliðinu höfðu aldrei séð því líkt áður og töldu sjálfan djöfulinn vera þar á ferð, tveir mannana ákváðu að forða sér í skindingu en þriðji maðurinn sagðist ekki óttast djöfulinn. Þega skýstrokkurinn var kominn á móts við sjógarðshliðið breytti hann skindilega um stefnu og æddi upp um hliðið og tók þar með sér manninn sem þar stóð og lyfti honum upp frá jörðu. Maðurinn snerist þar í ótal hringi í lausu lofti þá ca. 50 metra sem skýstrokkurinn dró hann áður en fyrirbærið sleppti af honum taki. Maðurinn sem í þessu lenti varð aldrei samur eftir og átti aldrei síðan eftir að mæla nokkurt orð af vörum eftir þessa reynslu.