Flokkur: Grúsk

30.11.2010 23:43

Litla skræpótta landnámshænan

Landnámsmenn frá Noregi höfðu með sér flest þau húsdýr sem enn eru ræktuð hér á landi og eru þau yfirleitt í nokkru frábrugðin sömu tegundum sem nú eru við lýði erlendis, svo sem íslenski hesturinn, íslenska kúin, íslenska kindin og íslenska hænan o.s.frv. Í frásögnum landnámsmanna er fátt getið um íslensku landnámshænuna en þó má finna spor hennar í fornum ritum. Hjá Þorgils örrabeinastjúpa í Traðarholti á Stokkseyri voru hænur árið ca 960 sbr," þá er haninn barði hænuna, tók hann af því tilefni til að gefa konu sinni Helgu, er var honum lítt unnandi, bendingu".

Hænsa-Þórir fékk auknefni sitt af því, að eitt af varningi þeim, sem hann fór með norður um land að sunnan, voru hænsni sbr. Hænsna-Þóris saga og má e.t.v. þakka honum fyrir að stofninn hafi dreifst um landið og haldið velli fram á þennan dag, en vart mátti þó tæpar standa er nýir áhugamenn tóku að rækta upp stofninn undir lok síðustu aldar, svo sem að Tjörn í Vatnsnesi og Sólvangi á Eyrarbakka ofl, en þá voru aðeins nokkurhundruð landnámshænur eftir í landinu og næstum farið illa þar sem stofninn var ekki nægilega dreifður til að tryggja hann fyrir áföllum. Hænur hafa verið á flestum bæjum á Bakkanum allt frá upphafi, en um miðbik 20. aldar voru það nær einvörðungu svokallaðar "ítalskar hænur" en þær þóttu frjósamari. Undir lok aldarinnar var "ítalska hænan"  nánast horfin af Bakkanum en örfáir héldu landnámshænur. Á síðustu árum hafa þó fleiri og fleiri tekið til við að fóstra íslensku landnámshænuna víða um landið og tryggja þannig viðhald stofnsins.

20.11.2010 23:42

Fjársjóður Hafliða.

Háeyri (Reginn)Hafliði Kolbeinsson, var einn af "Kambránsmönnum" og varð að taka út sinn dóm fyrir það á Brimarhólmi í danmörku 1827. Hafliði Kolbeinsson átti eftir dóminum, að sitja æfilangt í fangelsi, en fékk þaðan lausn 1844 og kom hann aftur hingað 1848. Hafliða var margt vel gefið, hann var gáfumaður og góður læknir, og fyrir þá sök gekk hann eigi að útivinnu í Kaupmannahöfn, eins og altítt var um menn í hans stöðu á þeim tímum, en í þess stað var hann öllum stundum í sjúkrahúsi þeirra. Í frítimum sínum hafði hann á 16 árum eignast og dregið saman eitthvað um 800 rdl. Eftir heimkomuna settist hann að hjá bróður sínum Þorleifi á Háeyri og ræktaði kartöflur sem hann kom með að utan, líklega fyrstur manna á Eyrarbakka.

Svo bar til einn morgun veturinn eftir, að formaður einn hér á Eyrarbakka, Magnús í Foki, gengur í bæinn á Háeyri, spyr Þorleif Kolbeinsson, hvort hann geti ekki léð sér mann til róðurs þennan dag, því að einn af hásetum hans sé veikur. Þorleifur kveðst engan mann hafa. Í þessu vaknar Hafliði og segir: "Eg held það sé mátulegt að ég komi, mig langar til að vita hvort eg er búinn að týna áralaginu." Við það fer Magnús, en Hafliði fer að klæða sig. Meðan hann er að því, segir hann við Þorleif bróður sinn: "Það var kynlegur draumur, sem mig dreymdi i nótt. Mig dreymdi, að ég var að hlaupa upp brimgarðinn hérna útifyrir og þótti mér sjórinn vera svo heitur, að hann ætlaði að brenna mig um bringspalirnar." Veður var gott þenna dag, hægur á útsunnan, en milli dagmála og hádegis var komið svo mikið brim við Eyrarbakka, að brimdrunurnar heyrðist upp að Hjálmholti. I því brimi fórst Hafliði Kolbeinsson og þeir allir á skipinu með Magnúsi í Foki.

Sigríður var Hafliðadóttir, Kolbeinssonar. Hún var vinnukona hjá síra Guðmundi Vigfússyni, er síðar varð prófastur, er hann fluttist að austan vestur að Borg á Mýrum. Hún giftist ári síðar Jóni bónda Sigurðssyni frá Hjörsey; hún var síðari kona hans. Þau eignuðust son er Guðjón hét, síðar bóndi á Ánabrekku á Mýrum. Sigríður erfði það sem eftir Hafliða lá, m.a. það fé er honum áskotnaðist erlendis og var þar geimt, en ekkert fé fanst í fórum hans hér heima og furðaði það margan. Munir hans voru síðan seldir á uppboði. Nokkuru síðar dreymir Sigríði dóttur hans, að faðir hennar kemur til hennar og segir við hana: "Peningarnir eru í gaflinum". Hann sagði ekki í hvaða gafli, og því hafði hún ekki gagn af draumnum. En draumurinn styrkti grun hennar, að faðir hennar hefði látið peninga eftir sig og falið vandlega, svo sem hann átti lund til. Honum hafði einhverju sinni orðið það að orði, að utanlands, þar væru vandgeymdir peningar. Dóttir hans vakti einu sinni máls á því, að hann segði sér í túnaði, hvar hann geymdi peninga sína. "Nei, ekki gjöri eg það", svaraði hann-. "Þú átt vin og þú segir honum, og svo á hann vin og hann segir honum." Meira fékk hún ekki. En í hvaða gafli voru peningarnir geymdir?

Vigfús Halldórson bóndi í Simbakoti á Eyrarbakka keypti í maímánuði 1888, kistu nokkra á uppboði eftir Hjört bónda Þorkelsson á Bolafæti i Ytrihrepp. Tveimur árum síðar, eða þann 15 mars 1890 ákveður Vigfús að rífa kistuna í eldinn, Hann byrjaði á þeim enda kistunnar, sem handraðinn var í og þá varð hann þess var, að nokkrir peningar hrundu úr leynihólfi, sem var innan á kistugaflinum undir handraðanum. Þegar hann fór að aðgæta þetta betur, fann hann þar peningapoka með 79 spesíum 42 ríkisdölum einum fírskilding og einum túskilding. Leynihólf þetta var fyrir öllum gafli kistunnar, frá handraða niður að botni og út til beggja hliða. Peningunum var raðað í pokann þannig, að þrír og þrír voru hver við hliðina á öðrum. Pokinn var úr lérefti og var saumaður í gegn milli hverra raða, svo ekki gat hringlað neitt í þeim. Hann fyllti einnig mátulega út i allt hólfið. 27 spesíurnar voru frá ríkisstjórnarárum Kristjáns VII.; 48 frá ríkisstjórnarárum Friðriks VI. og tvær frá ríkisstjórnarárum Kristjáns VIII. - Elsta spesían hefir verið slegin árið 1787, sú yngsta 1840. Yngsti ríkisdalurinn 1842, og fírskildingurinn 1836 og túskildingurinn 1654. Allir peningarnir vógu 6 pund. Hvort hér var kominn fjársjóður Hafliða er þó með öllu óvíst.


Heimild: Vísir, jólabl.1944,- Þorlaug Árnadóttir, ættuð af Mýrum.

19.11.2010 00:21

Draugur vakinn

Stokkseyrardraugurinn var í flokki sjóbúðardraugaÍ Ranakoti á Stokkseyri var grjótbyrgi sem talið var að álög hvíldu á og ekki mátti hrófla við, en var þó gert og byggt saltbyrgi úr grjóthaugnum. Eftir það hófust miklir reimleikar í sjóbúðinni í Ranakoti og færðust þeir úr einni sjóbúð til annarar svo plássið var undirlagt af draugagangi. Kvað svo rammt að þessu að vermenn hrökkluðust úr mörgum búðum. Reimleikarnir stóðu alla vertíðina og létti ekki fyrr en um vorið þegar sjómennirnir fóru heim. Sumir þóttust hafa séð draugsa á ferli í plássinu. Nokkrir sjómenn sáu drauginn í líki grárrar meri. Á meðal sjónarvotta voru karl nokkur og kerling, einkennileg bæði og forn í skapi. Þau ristu rúnir á móti draugnum og komu honum þannig fyrir og var þeim launað það ríkulega. Var þessi draugur jafnan nefdur Stokkseyrardraugurinn eða Ranakotsdraugurinn. En á Stokkseyri var þó ekki laust við draugagang, því þar kvað oft að öðrum draugum, svo sem Stokkseyrar-Dísu, Skerflóðs-Móra og Traðarholts-draugnum. Var þetta félegur söfnuður að mæta.

Heimild: Alþ.bl.151 tbl 1943- Valgerður Þórðardóttir frá Traðarhollti ofl.

15.11.2010 01:37

Töfradrykkurinn

Það hefur sennilega verið árið 1765 sem Sunnlendingar gátu keypt sér te í fyrsta skipti, en það ár flutti Eyrarbakkaverslun inn 20 kíló (40 pund) af telaufi, en árið 1762 hafði verið flutt inn lítið eitt af tei á Faxaflóahafnir. Sá eðaldrykkur sem Sunnlendingar urðu sólgnastir í, kaffi var flutt inn 1791, tæp 50 kíló og fór innflutningur á kaffibaunum hægt stigvaxandi upp frá því. Það hafa þó aðeins verið prófastar, verslunarstjórar og sýslumenn sem ánetjuðust kaffinu, því þessi drykkur var nær alveg óþekktur meðal almennings fram að aldamótunum 1800 en þá fóru bændur að kaupa kaffi til hátíðarbrigða. Var þá svo lítið drukkið af kaffi að 1 kg dugði alþýðuheimili í eitt ár. Hálfri öld síðar var almenn kaffineysla komin í 100 kg á ári á venjulegu heimili, sem voru að vísu mannmörg á þeim árum, en í dag mætti áætla að kaffineysla íslendinga sé svipuð að meðaltali á heimili árlega. Árið 1855 var flutt inn 15.5 tonn af kaffi á Eyrarbakka og árið 1859 kemur kaffibætirinn (Export) til sögunar og er Eyrarbakkaverslun sú eina sem flytur hann inn fyrst í stað. Um miðja 19.öld er kaffi daglega á borðum á næsta öllum heimilum á Eyrarbakka. Þá var farið að nota rjóma út í kaffið og kom það víða niður á smjörframleiðslu, þar sem eftirspurn eftir rjómanum jókst mjög eftir því sem kaffidrykkja varð almennari. Upp úr miðri 19. öld fór að bera á ýmsu framandi kryddi og rúsínum og árið 1866 var sennilega boðið upp á hrísgrjónagraut í fyrsta skipti á Eyrarbakka, en það ár hóf Eyrarbakkaverslun innfluttning á hrísgrjónum. Um svipað leiti og te og kaffinnflutningurinn hófst kom einnig sykurinn í búðirnar og hefur hann verið óaðskiljanlegur þessum töfradrykkjum síðan.


Heimild: Fálkinn 17.árg. 1944

13.11.2010 23:57

Franska skútan "Isabella"

Skerjagarðurinn á StokkseyriÖldum saman stunduðu frakkar fiskveiðar ásamt fleiri þjóðum á Íslandsmiðum og þegar leið fram á 19. öldina jukust athafnir þeirra við strendur landsins til mikilla muna. Talið er að á milli 200-300 franskar skútur hafi stundað veiðar við landið þegar mest var.
 

 

Dag einn síðari hluta vetrarveríðar árið 1898 voru öll skip Stokkseyringa að veiðum þar útundan í góðu veðri. Þegar menn voru í óða önn við línudráttin, sáu þeir hvar frönsk skonnorta kemur af hafi með neiðarflagg uppi. Þegar hin hvíta og fríða seglþanda skúta hafði nálgast Stokkseyrarskipin, tóku flestir formennirnir til við að róa skipum sínum á móts við hana. En um leið og þeir lögðu upp að síðu hennar komu skipverjar með pínkla sína og hentu þeim niður í bátana og komu svo sjálfir á eftir (18 menn). Skildist Stokkseyringum að skútan væri hrip lek og mundi sökkva þá og þegar. Jón Sturlaugsson var þá einn kunnasti formaður á Stokkseyri og fór hann ásamt nokkrum formönnum öðrum um borð í skútuna til að kanna ástand hennar, en frakkarnir fengust hvergi til að vera lengur um borð. Jóni lék hugur á að vita hvort ekki væri ráðlegast að sigla skútunni inn á skipalægi eða til lands, því ekki væri þessi skúta Stokkseyringum ónýtur fengur þó lek væri. (Hún hét "Isallai" en sumir kölluðu hana "Ísabellu")

                    

Á Stokkseyri var þá aðeins eitt stórskipasund er nefnt var "Hlaupós" og liggur nokkru austar en Stokkseyrarsund. Á sundinu var þá dálítill brimsúgur, og  hægur SA kaldi, en formönnunum kom saman um að skútan væri ekki svo nærri því að sökkva að óhætt væri að sigla henni um Hlaupósinn og inn á skipalægið. Jón Sturlaugsson tók nú að sér stjórn skútunnar og hafði með sér nokkra af hásetum sínum og gekk sú sigling að óskum og hinu tignarlega skipi var síðan lagt inn á legunni, en ekki var afráðið hvað skildi síðan við það gera.

 

Var nú afráðið nokkru síðar að bjóða skonnortuna á uppboði og kom þá fyrir nokkuð óvænt að hæstbjóðandi var bóndi austan úr fljótshlíð, Guðmundur Jónsson í Múlakoti, en ei sagði hann neitt um hvað hann vildi með þetta hafskip gera. Komst þá sú saga á kreik að Eyrbekkingar, erkiféndur þeirra Stokkseyringa hefðu fengið bónda til að bjóða í það svo það færi á lægra verði en ef Eyrbekkingarnir hefðu sjálfir att kappi um þetta fagra fley, og líklega hafa þeir ætlað að gera við það og selja síðan með miklum hagnaði, enda var lekinn ekki ýkja mikill þegar betur var að gáð. En hvað sem því leið, þá hafði forsjónin þegar ákveðið að þessi knerri skildi ei framar sigla, eins og Fransmennirnir höfðu óttast þó á annan veg væri.

 

Stuttu eftir uppboðið gerði mikið veður af hafi og slitnaði skipið af festum og brotnaði í skerjagarðinum og var það síðan rifið. En Fransmennirnir fengu inni í húsi sem var í smíðum á Stokkseyri og eflaust hefur þar verið glatt á hjalla, en sagt er að Fransmennirnir hafi fúlsað við hangiketi, en þótt betri matur í hrafnakjöti og frönsku kexi.

Heimild: Fálkinn 26.04.1940 http://sites.google.com/site/franskispitalinn/

08.11.2010 23:52

Gæðingurinn Goti

HestarGuðmundur Thorgrímsen verslunarstjóri á Eyrarbakka átti um sína daga marga og góða reiðhesta og keypti þá jafnvel langt að. Einn þeirra var grár gæðingur er Goti hét og ættaður norðan úr Skagafirði. En hestinn átti áður Ari Arasen læknir á Flugumýri. Goti var mikill gæðagripur og vitrastur allra hesta og hafði Thorgrímsen á honum miklar mætur.

Eitt sinn ætlaði Thorgrímssen að ríða til Reykjavíkur og var þá Goti sóttur og rekinn heim ásamt mörgum hestum, en þá kom í ljós að hann hafði misstigið sig og var drag haltur. Hann var því ekki notaður í ferðina, heldur sleppt aftur í hagann. Öðru sinni er Thorgrímsen ætlar til Reykjavíkur var Goti sóttur með hestunum, en er þá aftur orðinn draghaltur án þess að sjá mætti einhverja ástæðu fyrir heltunni og var Gota þá sleppt í hagann eins og í fyrra sinnið. Hálfri stund eftir að menn voru farnir var Goti orðinn alveg heill. Í þriðja sinnið sem verslunarstjórinn hugði til Reykjavíkur fór á sömu lund, klárinn var drag haltur og stakk við fót, en nú sá Thorgrímsen við honum, því hann grunaði klárinn um tilraun til skrópa, og tók hann því með engu að síður. Það reindist líka svo, því hálftíma síðar var Gota batnað af skrópasýkinni og stakk hann ekki lengur við fót. Í hvert sinn þegar Goti var sóttur með mörgum hestum, vissi hann að langferð væri fyrir höndum og tók þá til bragðs að leika sig haltann til að sleppa við ferðina.

Heimild: Oscar Clausen-Vitrir hestar, lesb.mbl 24.09.1939

06.11.2010 22:29

Eyjólfur sterki á Litla-Hrauni.

 

Skipin á legunniEyjólfur hét maður, er uppi var um miðja 18. öld. (1729) Hann bjó á Litla- Hrauni í Stokkseyrarhreppi er þá hét. Hann var orðlagður fyrir afl og hreysti, og þar að auki var hann glímukappi mikill. Kaupmaðurinn, sem þá var á Eyrarbakka, átti eitt sinn tal við skipherrann á skipi sínu um íslendinga. Gerði skipherra lítið úr íslendingum, og sagðist skyldu koma með þann mann frá útlöndum, sem enginn íslendingur stæði fyrir, en kaupmaður sem hélt íslendingum fram, sagðist skyldu koma með þann íslending, sem enginn útlendingur bæri af. Þeir veðjuðu um þetta. Sumarið eftir kom skipherra með blámann, vígalegan og tröllslegan. Kaupmaður fekk Eyjólf til að glíma við hann. Var Eyjólfur þó tregur til, því að hann var við aldur, og bjóst þar við vægðarlausum viðskiptum. Áður en hann gekk til glímunnar, sívafði hann sig með snæri um kropp og útlimi undir ytri klæðunum. Gat blámaður því hvergi klipið hann til meiðsla. Lengi gerði Eyjólfur ekki annað en að verjast, og þóttist fullreyndur, en blámaðurinn ólmaðist hvað af tók. Loks kom Eyjólfur þó bragði á blámann og feldi hann. Lét hann þá kné fylgja kviði og þjarmaði svo að bringuspölum blámannsins, að blóð gekk af munni hans. Voru þeir þá skildir að, og blámaðurinn leiddur fram á skip. Eyjólfur var þó aldrei samur eftir viðureignina. Sagt er að kaupmaður hafi gefið Eyjólfi veðféð og meira til fyrir þennan sigur. Gekk þessi gíma undir nafninu "Veðmálaglíman".
 

 

Sögu þessa skráði Brynjúlfur frá Minna-Núpi eftir munmælasögu og birti í ritinu Huld I, en Brynjúlfur var Eyrbekkingum af góðu kunnur. Saga þessi er afar lík sögunni um þjóðsagnapersónuna Jón Sterka frá Eyrarbakka í ritum Jóns Árnasonar. En að auki eru til margar ýkjusögur um þessa glímu og stundum eignuð öðrum þjóðsagna hetjum. En þessi saga um glímu Eyjólfs er sennilega raunsönnust, en auk þess var Eyjólfur söguleg persóna.
 

 

Hann var sonur Símonar i Simbakoti á Eyrarbakka (f. 1681) Björnssonar á Háeyri (f. 1649) Jónssonar. Frá Eyjólfi er komin fjölmenn ætt sem of langt mál er að telja upp hér. En Grímur Gíslason frá Óseyrarnesi var fjórði maður frá Eyjólfi og voru þeir Brynjúlfur samtíða menn.

Heimild: Guðni Jónsson/Fálkinn 22.01.1938

28.10.2010 22:31

Síberíuvinnan

"Síbería"Síberia var hún kölluð, en átti þó ekkert skylt við Rússland. Mýrlendi ofan við Eyrarbakka var kölluð þessu nafni og þar sóttist margur verkamaðurinn eftir vinnu við að grafa skurði og framræsta mýrina í fyrri kreppunni, en vinna þar hófst fyrst 1935. Það voru þúsundir atvinnulausra sem mældu  götur höfuðborgarinnar og ástandið í sunnlennskum þorpum var lítt skárra. Þetta var fólk úr ýmsum áttum, með alskonar skoðanir og margskonar áhugamál. Allir áttu það þó sameiginlegt að vera kúgaðir og sviptir réttinum til mannsæmandi lífs og tryggðar framtíðar. Það voru því mikil gleðitíðindi fyrir hvern þann sem var svo heppinn að fá vinnu í "Síberíu" þó vinnubúðirnar þar væru lítt frábrugðnar fangabúðum  einhversstaðar í Síberíu Rússlands þess tíma eða jafnvel verri og vetrarkuldinn mikill og líklega nafnið þannig til komið. Í byrtingu hvers morguns þrömmuðu um 60 karlar út í frostið sem oft var um 10 stig á þessum vetrum, íklæddir stígvélum með vetrarhúfu bretta niður fyrir eyru og gekk hver flokkur að sínum skurði og var svo unnið framm í myrkur en þá dunduðu menn við tafl og spil fram að háttatíma. Nokkrar bækur voru til úr bókasafni vegavinnumanna og voru þær lesnar spjaldanna á milli. Síberíuvinnan var atvinnubótavinna á vegum ríkisinns og  var 12 daga úthald. Í mýrinni höfðu verið reistir nokkrir timburbraggar sem voru alveg óeinangraðir og í þeim ávalt mikill saggi. Syðsti bragginn var kallaður "Róttæki bragginn" af einum vinnuflokknum, því þar voru margir róttækir menn saman komnir og ræddu og funduðu gjarnan um þjóðfélags og verkalýðsmál og fundu menn þar mest að lýðræðisskortinum í vekalýðsfélögunum og þá einkum í "Dagsbrún" sem þá hét og var félag verkamanna í Reykjavík. Það fundu menn því til foráttu að þar hafði alræði fámenn klíka en allur þorri félagsmanna var að heita valdalaus.

Á næstu 70 árum á eftir ávannst þó margt í bættum kjörum verkafólks sem svo fáeinum "snillingum" tókst að eiðileggja á einni örskot stund. Á margan hátt standa atvinnulausir nú í sömu sporunum og mennirnir í mýrinni árið 1937, að vera sviptir réttindum til mannsæmandi lífs og standa nauðugir frammi fyrir ótryggri framtíð.

heimild: Þjóðviljinn jan.1937

19.09.2010 01:46

Einn liður í Concorde ævintýrinu gerðist á Eyrarbakka.

Dectramastur í BretlandiÍ júní árið 1967 var hafist handa við að reisa Dectravita á Eyrarbakka með mestu leynd og um tveggja ára skeið var þetta eitt best varðveitta leyndarmál Póst og fjarskiptastofnunar. Í þá tíð þótti ekki æskilegt að veita of miklar upplýsingar vegna þeirra tækni nýjunga sem í þessu kerfi fólust. Dectravitinn á Eyrarbakka var annað tveggja staðarákvörðunarkerfa sem Decca Navigator Company LW í Bretlandi kom upp, en það fyrirtæki rak fjölda Decca staðsetningarkerfa víðsvegar um heiminn, en þau voru þó ekki nærri eins fullkomin og Dectrakerfið sem sérstaklega var hannað fyrir breska flugherinn en einnig fyrir Concorde þoturnar sem gátu flogið í 40-80 þúsund fetum, en fram að því gátu þotur aðeins flogið upp í 35 þúsund fet. Dectravitinn saman stóð af tveim möstrum ca 80 metra háum og einu stöðvarhúsi sem stóðu á flötunum fyrir austan Borg. Höfðu tveir menn á Eyrarbakka eftirlit með þessu merkilega hernaðarleyndarmáli. Einhverju sinni þurfti að mála möstrin og voru þá fengnir til þess Indíánar, en þeir þóttu alveg lausir við lofthræðslu. Möstrin voru síðan felld einhverntíman á 7.áratugnum þegar betri staðsetningatækni (GPS) var komin til sögunar. Verst er þó að eiga ekki mynd af þessu fyrirbæri en hér til hliðar er mynd af litlu (18m) Dectramastri í Bretlandi.

11.05.2010 22:15

Freyja ÁR 149

Freyja ÁR 149Báturinn var smiðaður á Eyrarbakka 1916 úr eik 9.br.l. með 10 ha.Dan vél. Eigendur af Freyju voru Jóhann E Bjarnasson o.fl. Eyrbekkingar. Báturinn slitnaði af legu á Eyrarbakka í des. 1936 og sökk. Engan sakaði.


Heimild Íslensk skip.

10.05.2010 23:55

Björgvin ÁR 55

Björgvin ÁR 55Báturinn var smíðaður á Eyrarbakka 1916 og voru eigendur Jóhannes Sigurjónsson, Þorkell Þorkellsson og Guðmundur Sigurjónsson á Stokkseyri.1942 var Báturinn seldur til Bolungarvíkur. Hét þá Björgvin ÍS 48. Báturinn slitnaði upp af festingum í illviðri og brotnaqði í spón.

07.04.2010 09:23

Morinsheiði eða Morrisheiði

FimmvörðuhálsMargir hafa velt því fyrir sér í tengslum við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi, hvernig sérkennilegt nafn á títtnefndri heiði "Morinsheiði" sé til komin.

Nafnið á heiðinni er búið til af Jóni Söðla Jónssyni * frá Hlíðarendakoti í Fljótshlíð sem var leiðsögumaður ensks Íslandsvinar, á þessum slóðum á seinni hluta 19. aldar. Sá hét William Morris (1834-1895) rithöfundur og skáld og kom hann tvívegis til Íslands. Heiðina nefndi Jón eftir honum og kallaði Morrisheiði. William Morris nam svo vel íslenska tungu, að hann þýddi á ensku íslendinga sögur, þar á meðal Völsungu og Eyrbyggju. Jón söðlasmiður, eða Jón söðli, eins og hann var almennt kallaður, átti heima í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð, þekktur fræðaþulur en þótti sérkennilegur. Hann var stundum fenginn til að fara í lestaferðir og sagnir gengu um það að honum hafi hætt við að vera nokkuð lengi í ferðalögum. Eitthvert haust var hann sendur suður í Reykjavík með tvo hesta í taumi. Segir fátt af ferðum hans, fyrr en hann kom að Sandhólaferju á austurleið. Þá hafði tognað ískyggilega úr reisunni hiá Jóni, enda veisla orðið einhvers staðar á vegi hans. Á Hlíðarenda bjó Gunnar Hámundarson, þar átti Bjarni skáld Thorarensen einnig heima um hríð, í Nikulásarhúsum, eyðibýli hið næsta, ólst Nína Sæmundsson, myndhöggvari upp, í Hlíðarendakoti voru æskuslóðir Þorsteins skálds Erlingssonar.
           Jón Söðli Jónsson            William Morris
                          Jón Söðli                               Morris
* Menn eru þó ekki á einu máli um hvort Jón Söðli hafi í raun búið þetta nafn til og verið getur að það sé seinni tíma tilgáta. Einnig þarf að hafa það í huga að áræðanlegar heimildir um nafngiftina hafa ekki fundist.

Við sjávarsíðuna var stundum talað hér áður fyrr um að  mor og mistur byrgði allt útsýni frá Austurfjöllum fram til Vestmannaeyja, og er svo tekið til orða í "Vöku 1.árg. 1927"

05.04.2010 00:21

Þá fóru allir í sauna

Finnskt sauna frá fyrri tíð."Á Eyrarbakka hefir verið opnuð gufubaðstofa á vegum Ungmennafélagsins á staðnum". Svo hljóðandi fyrirsagnir mátti finna í víðlesnustu blöðum landsins árið 1940. Gufubaðstofa þessi var byggð haustið 1939 fast við samkomuhúsið Fjöni og var þetta baðhús einkum í tengslum við leikfimisalinn. Baðstofan var 22 fermetrar og innréttuð á þrem pöllum að hætti finnskra baðhúsa eða Sauna. Ofninn var einnig af finnskri gerð sem hitar grjót, sem vatni er síðan stökkt á. Þá var í húsinu aðstaða fyrir gæslumann. Baðhúsið var fjármagnað með styrkjum og samskotafé. Í forustu fyrir þessu framtaki voru að öðrum ólöstuðum, hinir drífandi ungu menn Vigfús Jónsson og Bergsteinn Sveinsson.

Þessi mynd er af ofninum og blásara, sem Haukur Magnússon í Reynisdal smíðaði úr strandjárni og var í baðstofunni í MýrdalViða tíðkuðust gufuböð á vegum ungmennafélaga í tengslum við héraðsskólanna þar sem aðgangur var að heitu vatni, svo sem á Laugarvatni, en sennilega var gufubaðstofan í Reynishverfi í  Mýrdal sú fyrsta hérlendis að finnskum hætti, eðaTeikning af gufubaðstofu UMFE a.m.k. til almenningsnota og naut hún mikilla vinsælda. Var sú baðstofa  tekin í notkun 1939, en ungmennafélagið Reynir stóð að gerð hennar og var hún byggð við barnaskóla sveitarinnar.

Hér má sjá uppdrátt af saunabaði UMFE sem var áfast samkomuhúsinu Fjölni.

21.03.2010 00:42

Bakka-Oddur

Einarshöfn Eyrarbakka
Strandferðabátar Lefolii verslunar voru í þessari röð: "Skjöldur" gufubátur í notkun um og eftir 1884. "Den Lille"  frá 1889 og var skipstjóri á honum Bjarni Elíasson. "Oddur" gufubátur um og eftir 1895 og var dani
Theilland Hansen að nafni skipstjóri á Oddi. "Njáll" einig gufubátur í notkun frá 1905 og til ársins 1906 er hann strandaði á Eyrarbakka. "Hjálparinn" vélbátur tekinn í notkun 1907 og var skipstjóri lengst af Jón Sigurðsson í Túni. Þessir bátar sigldu á flestar nálægar hafnir, svo sem  til Þorlákshafnar, Grindavíkur, Hafnarfjarðar, Keflavíkur, Þórshafnar, Sandgerði og Reykjavíkur venjulega einu sinni í mánuði yfir sumarið. Þess utan var siglt til Stokkseyrar, Landeyjar (Hallgeirseyjar), Vestmannaeyja, Þorlákshafnar, Selvogs og Grindavíkur þegar svo bar undir. Stundum var siglt undir Eyjafjallasand (Holltsvör) Víkur í Mýrdal, Loftstaða, Gaðs, Hafnarleirs og jafnvel til Borgarness. Voru ferðir þessar eftir samningi við Sýslunefndir og jafnan auglýstar í dagblöðum. Ferðir þessar hafa örugglega skipt miklu máli fyrir veglausar byggðir Suðurlands á sínum tíma.

Gufubátnum Oddi á

ég mun héðan flakka,

þegar kæri knörrinn sá

kemur frá Eyrarbakka.

(Jón Þórðarson Fljótshlíðarskáld)

Oddur LBHCOddur var 35-40 tonn að stærð. Hann var talinn ágætis sjóskip og vel gerður að lagi. Skipstjóri á Oddi var danskur maður, Theilland Hansen, sömuleiðis vélstjórinn. Hásetar voru fjórir, allt íslendingar. Helsta verkefni bátsins var að aðstoða seglskipin sem athöfnuðu sig á Einarshöfn. Ferðalög með Oddi þóttu spennandi fyrir almenning sem gáfu sig oft til vinnu við uppskipun á salti út á verstöðvarnar. Eitt af mörgum verkefnum bátsins var að sækja skreið og herta þorskhausa til umboðsmanns verslunarinnar í Grindavík. Lefolii átti hús í Grindavík sem kallað var "Anleggshús" sem var vörugeymsla þar, en auk þess flutti báturinn salt og matvæli til vertíðarmanna. Í þessa ferð fór Oddur venjulega um lokin (Vertíðarlok 11. maí) og svo aftur á haustin. Með Oddi fóru einnig vertíðarmenn austan úr Árnessýslu. Í síðustu strandferð sinni haustið (9. nóvember) 1904 var Oddur á leið til Hafnafjarðar með viðkomu í Grindavík, en um þá ferð ritaði sr. Gísli Brynjólfsson frá Járngerðarstöðum í sjómannablaðið Víking:
 

"Veður var gott þegar báturinn kom, en þegar hann var nýlagstur gerði suðaustan rok og svo vondan sjó að báðar akkeriskeðjurnar slitnuðu. Var þá ekki að sökum að spyrja. Odd rak á land. En svo happalega vildi til, að hann komst yfir alla fjöru og lenti uppí kampi lítið brotinn og allir mennirnir komust í land óhraktir. En svo fór, að sjórinn braut hann að nokkru. Var hann svo rifinn og fluttur um borð í þýzka skonnortu, sem "Minna" hét, sem var að taka annað brotajárn til útflutnings. En nú tókst svo illa til, að nokkru eftir að Oddur var allur kominn þar í lest sem brotajárn, að aftur gerði versta veður. Þá sleit "Minnu upp og rak hana á land, einmitt í lendingunni í Járngerðarstaðahverfi. Varð þá Odddur strand í annað sinn. Og enn var hann fluttur út ásamt því skipi, sem áður hafði hann í lest sinni. Svo að ekki verður annað sagt en að örlög Bakka-Odds hafi orðið allsöguleg áður en lauk".

Heimild: Sjómannablaðið Vikingur 6.tbl.1972 sr.Gísli Brynjólfsson. -10.tbl 1972 Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri. Þjóðólfur 22.tbl. 1895

Flettingar í dag: 678
Gestir í dag: 187
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260968
Samtals gestir: 33814
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:18:00