Flokkur: vísur
04.01.2011 00:21
Bakkakonur-Ingileif
Ingileif Eyjólfsdóttir f. 15.10. 1885 kom á Bakkann árið 1907 er hún gerðist bústýra hjá Ágústínusi vagnstjóra (Kallaður Ágúst) Daníelssyni í Steinskoti sem þá var hjáleiga frá Háeyri í tíð Guðmundar Ísleifssonar. Þau giftust síðar. Hún segir svo frá flóðinu mikla 1925:
Í febrúar 1925 gerði feykilega hafátt og varð svo mikið flóð að sjórinn gekk óbrotinn inn í Hópið og upp á glugga í Steinskoti og allt í kríngum bæinn. Það braut á bænum eins og skeri í hafinu, og svo mikið var sædrifið að ekki sást til barnaskólanns. Stórgrýtið úr sjógarðinum dreifðist um öll tún og girðingar eiðilögðust. Símastaur sem lá suður í kampi flaut upp í hraun. Um þetta orti einn drengur í barnaskólanum vísu sem er svona:
Nú er dapurt drengjum hjá,
dimmt að vaka sjónum á.
Nú er hríðin næsta dimm
1925.
Heimild: Guðmundur Daníelsson- Þjóð í önn 1965
02.12.2010 00:13
Hvatning til verkalýðsins
Nú eru kjarasamningar alþýðunnar útrunnir og ekki veitir af að brýna þá sem við samningaborðið sitja fyrir hönd verkalýðsins að berjast nú með oddi og egg fyrir hina lægst launuðu, þannig að hverjum og einum verkamanni og verkakonu verði tryggð mannsæmandi lífskjör í þessu volaða landi.
"Þegar mótbyr mæðir þyngst
mörgum þykir nóg að verjast.
En eins og þegar þú varst yngst
þannig skaltu áfram berjast".
Þessi vísa var samin til Bárunnar á Eyrarbakka 1941. Höfundur ókunnur.
13.11.2010 01:39
Við hafið
Maríus Ólafsson söðlasmiðs, fæddist á Eyrarbakka. Hann var verslunarmaður í Reykjavík og ágætt vísnaskáld. Maríus Ólafsson gekk til liðs við templara með því að gerast félagi í stúkunni Einingunni 1944.Eftirfarandi vísur samdi hann um sína heimaslóð og eflaust geta margir tekið undir.
"Við hafið ég átti í æsku
minn æfintýraheim,
og síðan er sál mín alltaf
sameinuð töfrum þeim."
Svo er það vísa Maríusar um brimið:
Við hafið er hugur vor bundinn.
Við heyrum í þögninni sjávarins nið.
Við horfum á brimið, er brýtur við sundin,
og brotsjói ólgandi verja þau hlið.
Er bátarnir grípa hin geigvænu lög,
vér greipar kreppum við áranna slög.
Þá samdi Maríus kvæði í tilefni
Jónsmessuhátíðar Eyrbekkinga
Hve fagnandi opnum við æskunnar dyr,
í angandi hásumar gliti,
er draumurinn rætist, sem dreymdi okkur fyr,
í daglegum önnum og striti;
að hlusta á niðinn, sem hafaldan ber,
og hittast að nýju á ströndinni hér.
Að heilsa ykkur vinir, sem haldið hér vörð,
og hopuðu aldrei úr spori,
og önnuðust hér vora elskuðu jörð,
sem upp rís á sérhverju vori.
Þið sandinum hafið í sáðlendur breytt,
og sigrandi vonunum leiðina greitt.
Og félag vort þráir að leggja ykkur lið,
og leiðina á milli okkar brúa.
Þótt veröldin skjálfi í vopnanna klið,
að vináttu skulum við hlúa,
og takast í hendur og treysta þau bönd,
sem tvinnaði æskan á þessari strönd.
(Kvæði þetta var sungið á skemmtun, sem Eyrbekkingafélagið hélt á Eyrarbakka 26. og 27. júní 1943).
30.09.2010 23:01
Skipsvísur
Það var til siðs austur í Skaftafellsýslum og e.t.v. víðar að letra skipsvísu á bitafjalir róðraskipanna. Um 1880 reru þrjú skip frá Reynishöfn og var eitt þeirra "Farsæll" sem smíðað hafði Einar Jóhannsson og skar hann tvær vísur sem hann orti sjálfur:
Gylli "Farsæll" gæfan snjöll,
Þar gellur sjór og vindur hvell.
Stilli gæfan ókjör öll,
elli til ei fái spell.
Þeim, sem veiðimönnum ann,
unnar á meiði reiða,
heilög beiði ég hamingjan
heill fram reiði greiða.
Heimild: Sjómannabókin 1947
27.07.2010 12:00
Aldamótahátíð Eyrbekkinga
Aldamótahátíðin verður haldin 14-16 ágúst næstkomandi og verður sjálfsagt engu til sparað við að gera hana sem glæsilegasta. Sambærileg hátíð var sennilega haldi í fyrsta sinn á Eyrarbakka árið 1901 þann 2. janúar. Það var fyrir tilstuðlan P.Nielsen verslunarstjóra á Eyrarbakka. Þá voru Kirkjan, Goottemplarahúsið (Fjölnir)og flest öll verslunarhúsin skrautlýst ásamt ártölunum 1900-1901. Guðmundur Guðmundsson yngri bjó til glærur með ýmsum skemtilegum táknum og orðum sem höfð voru í búðargluggum. Lúðrasveit Gísla Jónssonar lék m.a. lagið "Kong Christian stod ved höj en Mast" á svölum samkomuhússins. Um miðnætti var kirkjuklukkum hringt og á sama tíma lét P. Níelsen þrjú fallbyssuskot dynja. Síðan tók söngfélagið lagið á svölum samkomuhússins, aldamótakvæði eftir Brynjúlf Jónsson dannebromanns frá Minna-Núpi. sem er eftirfarandi:
Stundin mikla stendur yfir,
stutt, en merk og tignarhá:
aðra slíka enginn lifir,
er nú þessa fær að sjá.
Eins og hverfur augnablikið
er hún raunar fram hjá skjót.
:,: En hún þýðir þó svo mikið
:,þessa,: stund eru' aldamót. :,:
Öldin, sem oss alið hefur,
eilífðar í djúp nú hvarf.
Hana munum! Hún oss gefur.
helgra menja dýran arf.
Framfara hún sáði sæði.
sendi not frá margri hlið.
:,: Þökkum fyrir þegin gæði,
:,Þökkum,: Drottins hjálp og lið. :,:
Straumur alda stanzar eigi:
Strax er byrjuð öld á ný.
Hver af oss þó henni deyi
hana blessum fyrir því:
Framfaranna blóm hún beri,
bæti' og auki notin góð,
:,: farsæla með guðs hjálp geri,
:,góða',: og nýta vora þjóð. :,:
Sönginum stýrði hr. Jón Pálsson organleikari. Veðrið var hið ákjósanlegasta: logn og bjartviðri, með ysjuskúrum við og við, og var minningarstund þessi öllum viðstöddum hin ánægjusamasta og hátíðlegasta.
Heimild:Þjóðólfur 1901
21.03.2010 00:42
Bakka-Oddur
Strandferðabátar Lefolii verslunar voru í þessari röð: "Skjöldur" gufubátur í notkun um og eftir 1884. "Den Lille" frá 1889 og var skipstjóri á honum Bjarni Elíasson. "Oddur" gufubátur um og eftir 1895 og var dani Theilland Hansen að nafni skipstjóri á Oddi. "Njáll" einig gufubátur í notkun frá 1905 og til ársins 1906 er hann strandaði á Eyrarbakka. "Hjálparinn" vélbátur tekinn í notkun 1907 og var skipstjóri lengst af Jón Sigurðsson í Túni. Þessir bátar sigldu á flestar nálægar hafnir, svo sem til Þorlákshafnar, Grindavíkur, Hafnarfjarðar, Keflavíkur, Þórshafnar, Sandgerði og Reykjavíkur venjulega einu sinni í mánuði yfir sumarið. Þess utan var siglt til Stokkseyrar, Landeyjar (Hallgeirseyjar), Vestmannaeyja, Þorlákshafnar, Selvogs og Grindavíkur þegar svo bar undir. Stundum var siglt undir Eyjafjallasand (Holltsvör) Víkur í Mýrdal, Loftstaða, Gaðs, Hafnarleirs og jafnvel til Borgarness. Voru ferðir þessar eftir samningi við Sýslunefndir og jafnan auglýstar í dagblöðum. Ferðir þessar hafa örugglega skipt miklu máli fyrir veglausar byggðir Suðurlands á sínum tíma.
Gufubátnum Oddi á
ég mun héðan flakka,
þegar kæri knörrinn sá
kemur frá Eyrarbakka.
(Jón Þórðarson Fljótshlíðarskáld)
Oddur var 35-40 tonn að stærð. Hann var talinn ágætis sjóskip og vel gerður að lagi. Skipstjóri á Oddi var danskur maður, Theilland Hansen, sömuleiðis vélstjórinn. Hásetar voru fjórir, allt íslendingar. Helsta verkefni bátsins var að aðstoða seglskipin sem athöfnuðu sig á Einarshöfn. Ferðalög með Oddi þóttu spennandi fyrir almenning sem gáfu sig oft til vinnu við uppskipun á salti út á verstöðvarnar. Eitt af mörgum verkefnum bátsins var að sækja skreið og herta þorskhausa til umboðsmanns verslunarinnar í Grindavík. Lefolii átti hús í Grindavík sem kallað var "Anleggshús" sem var vörugeymsla þar, en auk þess flutti báturinn salt og matvæli til vertíðarmanna. Í þessa ferð fór Oddur venjulega um lokin (Vertíðarlok 11. maí) og svo aftur á haustin. Með Oddi fóru einnig vertíðarmenn austan úr Árnessýslu. Í síðustu strandferð sinni haustið (9. nóvember) 1904 var Oddur á leið til Hafnafjarðar með viðkomu í Grindavík, en um þá ferð ritaði sr. Gísli Brynjólfsson frá Járngerðarstöðum í sjómannablaðið Víking:
"Veður var gott þegar báturinn kom, en þegar hann var nýlagstur gerði suðaustan rok og svo vondan sjó að báðar akkeriskeðjurnar slitnuðu. Var þá ekki að sökum að spyrja. Odd rak á land. En svo happalega vildi til, að hann komst yfir alla fjöru og lenti uppí kampi lítið brotinn og allir mennirnir komust í land óhraktir. En svo fór, að sjórinn braut hann að nokkru. Var hann svo rifinn og fluttur um borð í þýzka skonnortu, sem "Minna" hét, sem var að taka annað brotajárn til útflutnings. En nú tókst svo illa til, að nokkru eftir að Oddur var allur kominn þar í lest sem brotajárn, að aftur gerði versta veður. Þá sleit "Minnu upp og rak hana á land, einmitt í lendingunni í Járngerðarstaðahverfi. Varð þá Odddur strand í annað sinn. Og enn var hann fluttur út ásamt því skipi, sem áður hafði hann í lest sinni. Svo að ekki verður annað sagt en að örlög Bakka-Odds hafi orðið allsöguleg áður en lauk". Heimild: Sjómannablaðið Vikingur 6.tbl.1972 sr.Gísli Brynjólfsson. -10.tbl 1972 Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri. Þjóðólfur 22.tbl. 1895
16.03.2010 23:43
Hjálparinn
Hinum óar útá sjó,
ýtir Jóhann djarfur nóg,
aflakló um ýsumó
aldrei þó hann bresti ró.
Hafs um leiðir Hjálparinn
hraður skeiðar vélknúinn.
Hrannir freyða um hástokkinn,
hvín í reiða stormurinn.
M/b Hjálparinn var 13,20 tonn, byggður á Borgmundarhólmi og seldur, þá nýr árið1907 til Lefolii verslunar á Eyrarbakka. Vélin var af gerðinni Alfa 16-20 hestafla lágþrýstivél. Hlutverk hans var að vera lóðsbátur og til aðstoðar kaupskipunum sem þurftu að athafna sig á Einarshöfn. Þar að auki var Hjálparinn hafður til flutninga til næstu verstöðva svo sem með salt og annan varning til Vestmannaeyja og Grindavíkur. Áður höfðu tveir gufubátar gengt þessu starfi. Annar var M/S Njáll, en hann slitnaði af legufærum sínum í sunnan fárviðri og rak á land, en þó án þess að brotna og náðist hann á flot vorið eftir. Á undan Njáli var gufuvélbáturinn Oddur við þessi störf til fjölda ára, en hann rak á land í Grindavík árið 1904. Þar var hann að losa vörur frá Eyrarbakka, en átti að því loknu að halda til Reykjavíkur og hafa þar vetursetu.
Þó Hjálparinn væri minni en fyrirrennarar hans og vélarafl takmarkað, þá reyndist hann furðu vel. Í hjáverkum átti Hjálparinn að stunda fiskveiðar í þorskanet, sem þá voru svo til ný af nálinni, en þegar fram liðu stundir var lítið úr fiskveiðum sökum anna. Á haustinn var Hjálparinn tekinn upp í Skúmstaðalendingu, en þar hafði verið komið fyrir dráttarbraut og gangspili og dráttarbáturinn látinn standa þar inn af sjógaðshliði fram á næstu vertíð.
Þeir sem sigldu Hjálparanum heim frá Borgmundarhólmi þann 18. maí 1907 voru: Sigurjón P Jónsson skipstjóri frá Skúmstöðum, Friðrik Bjarnason og Vilhelm Jakop Andeas Olsen, vélamaður frá Fredrikshavn og komu þeir til Eyrarbakka 13.júní og unnu þeir á skipinu það árið, en síðasta kaupskip héðan þá um haustið var skonnortan "Svend".
Næsta ár var formaður á Hjálparanum, Jón Sigurðsson í Túni (Síðar Melshúsi) og vélstjóri var Brynjólfur Vigfússon í Mekisteini, en til skams tíma var Jóhann Bjarnason í Einarshöfn með bátinn og eru formannsvísur hans hér að ofan kveðnar á vertíð 1914. Af öðru tilefni kvað Magnús Teitsson þessa vísu:
Hjálparinn um fiskafrón
flytur drengi ósjúka.
Buddunum hann Brennu-Jón
biður upp að ljúka.
Tilefnið var að ferjutollur var rukkaður af farþegum með Hjálparanum til og frá Þorlákshöfn og sá um það Jón Ásbjörnsson í Brennu. Tollinum var síðan skilað til ferjubóndans í Óseyrarnesi. Þegar styrjöldin skall á 1914-1916 voru siglingar frá útlöndum aðeins heimilar á ákveðnar tollhafnir og var ákveðið að Reykjavík yrði tollhöfn fyrir Suðurland og lögðust þá Eyrarbakkasiglingar af. Hjálparinn var of lítill til að sinna strandsiglingum með vörur frá Reykjavík og var hann því seldur til Vestmannaeyja til fiskiveiða. Í stríðslok höfðu þau stakkaskipti orðið að Reykjavík hafði alfarið tekið við því hlutverki sem Eyrarbakki hafði áður sem höfuðstaður verslunar og menningar og þess skamt að bíða að saga Eyrarbakkaverslunar tæki enda.
Meira: Brimbarinn
Heimild: Sjómannablaðið Víkingur 2.tbl.1980- Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri.
Þennan dag:1764 Konungsveiting: Þorleifur Nikulásson á Eyrarbakka sótti um til konungs að verða vicelögmaður. 1972 Flæddi inn úr sjógarðshliðum. 1986 100 ára afmælisminning Guðmundu Nílsen í kirkjunni. 1987 Vetur gengur í garð.
28.10.2009 22:29
Formannavísur
Í sjómannablaðinu Víking 5tb.1952 mátti finna þessa vísur.
Þorkell bóndi Einarsson í Mundakoti á Eyrarbakka (f. 1802, d. 1880). Hann var bóndi í Mundakoti á árunum 1829-1864. og formaður í Þorlákshöfn. Um hann orti séra Guðmundur Torfason í formannavísum úr Þorlákshöfn 1840:
Þorkell Einars arfi snar,
ók frá Mundakoti,
víðis hreina vagni þar,
Vandils beinu traðirnar.
Um 1860 smíðaði Jón Gíslason í Austur-Meðalholtum, bróðir Gríms í Nesi, áttróinn sexæring handa Guðmundi Þorkellssyni á Gamla hrauni og hét sá bátur Bifur.
Að "Bifur" leiði um báru heiði .
og branda meiði lukku með,
gefi veiði, en grandi eyði
guðs ég beiði almættið.
Þessar formannsvísur um Guðmund á Gamla-Hrauni munu vera frá fyrri árum hans, en ókunnugt er um höfund þeirra:
Húna gammi hrindir fram,
Hrauns ráður hann Guðmundur
lætur þramma um lúðudamm,
liðugur við stjórn situr.
Hann Guðmundur Hrauni frá,
hestinn sunda keyrir,
seims með lunda landi frá,
lýra grunda brautir á.
En þessi er úr formannavísum úr Þorlákshöfn 1885, eftir Brynjólf Jónsson frá Minna- Núpi:
Gjálfurs dýr með Guðmund rann,
grund um hlýra og afla fann.
Gamla býr á Hrauni hann,
hefnir skírast Þorkels vann.
Guðmundur á Gamla-Hrauni átti f imm sonu,sem upp komust. Þeir voru kallaðir Gamla-Hraunsbræður, og stunduðu allir sjó að meira eða minna leyti, en þrír þeirra urðu formenn: Jón á Gamla-Hrauni, Guðmundur í Ólafsvík og á Litlu-Háeyri. Guðmundur Guðmundsson var formaður í Þorlákshöfn frá 1887 og fram að aldamótum, en fluttist þá til Ólafsvíkur. Þar hélt hann áfram formennsku og innleiddi sunnlenzka siglingalagið þar vestra. Var hann kallaður Guðmundur sunnlenzki, sem segir í þessari formannsvísu úr Ólafsvík:
Í aflandsvindi undan landi stýrir,
hjörva lundur hugprúði,
hann Guðmundur sunnlenzki.
Guðmundur drukknaði frá Ólafsvík 1907. - Einkasonur hans var Guðmundur, stofnandi og fyrsti forstjóri Hampiðjunnar h.f. í Reykjavík. Jóhann Guðmundsson á Litlu-Háeyri var formaður í Þorlákshöfn í 39 vertíðir (1892-1930). Um hann eru þessar formannsvísur úr Þorlákshöfn 1914, og er að minnsta kosti fyrri vísan eftir Pál skáld á Hjálmsstöðum:
Jóhann eigi hefur hátt,
Hrönn þótt veginn grafi,
hleður fleyið fiski þrátt,
fram á regmhafi.
Lætur skeiða "Svaninn" sinn,
sels um breiða flóa,
hefur leiði út og inn,
oft með veiði nóga.
Meðal sona Jóhanns er Runólfur skipasmiður í Vestmannaeyjum, en annar var Axel togaraskipstjóri í Boston og aflakóngur þar um skeið. Hann fórst með togaranum "Guðrúnu" frá Boston í janúar 1951.
05.11.2008 20:56
Róið til fiskjar um aldamótin 1900
Þá voru allir bátar á Eyrarbakka róðrabátar og veitt var á línu. Beitan var fjörumaðkur í vertíðarbyrjun en síðan altaf hrogn eða þar til síðar að farið var að nota síld. Því grynnra sem fiskurinn gekk því betur aflaðist. Fatnaðurinn var úr skinni og skórnir líka. Þá var róið í þriggja tíma túra og myrkrana á milli ef vel fiskaðist. Fiskurinn var seilaður á grunnenda bátsinns, en þar tók landmaðurinn við honum og dró frá skerjum til lands þar sem heimafólk, konur og krakkar tóku við honum. Í stórstraumsfjöru var það stundum langur vegur sem landmaður þurfti að draga seilina og þótti það íllt verk.
Formenn báru sig saman um það hvort væri sjófært og var þá flaggað ef svo var. En þar til flaggið var komið upp mátti enginn halda til sjós, því svo fljótt gat brimað á Bakkanum.
Vertíðarnar voru þannig að byrjað var að róa seint í september og róið til jóla. Haustvertíðinni lauk á Þorláksmessu. Stundum var róið milli jóla og nýárs. Vetrarvertíð byrjaði á kyndilmessu en venjulega tók ekki að fiska fyrr en seint í febrúar. Aðkomumenn voru einungis til sjós á vetrarvertíðum, en á vorin reru aðeins fáir bátar.
Þegar vorvertíð lauk tók við svokölluð eyrarvinna hjá sjómönnunum, en það var uppskipunarvinna fyrir verslunina. Í þann tíma var fjölmennt á Bakkanum þegar bændur komu hvaðanæfa af Suðurlandi til innkaupa. Þá fóru einnig fram vöruskipti mill bænda og þorpsbúa. Bændurnir fengu söl, fisk og herta þorskhausa, en létu í staðinn smjör, tólg, kjöt og skinn. Þá jafngiltu 20 fiskar 4 krónum.
Heimild: Byggt á viðtali Þjóðviljans við Ólaf Sigurðsson frá Naustakoti á Eyrarbakka. Þjóðviljinn 4.júní 1950.
Ps. Fékk þessa vísu hjá bloggvini http://gummiste.blogcentral.is/
Frá Eyrarbakka út í [Sel] vog.
Sumar útgáfur vísunar eru með eftirfarandi hætti:
Frá Eyrarbakka út í Vog
er svo mældur vegur
átján þúsund áratog
áttatíu og fjegur.
Rétta útgáfan er svona:
Frá Eyrarbakka út í Vog
er svo mældur vegur
átján hundruð áratog
áttatíu og fjegur.
Vegalengdin á sjó, frá Eyrarbakka út í Selvog, mun vera 25-30 km. og í logni 4-5 kl. stunda
róður. Þegar tekið var langræði höfðu menn, að öllum jafnaði, langdregin áratog, 7 áratog á mínútu, og það eru 420 áratog á klukkustund, en 1890 áratog á 4.5 kl. stund.
22.08.2007 12:39
Óma ægis hörpu hljóð
fagran stíga dans á sjá.
Á eftir stormi lifir alda,
undarlega brött og há,
Ómar ægis hörpu hljóð,
yfir húm og heima.
Á eftir fjöru fellur flóð,
og flæðir yfir hleina.
ok.
05.06.2007 21:00
Voldugt brim.
Það er mikilfenglegt að sjá brimið þessa dagana og einkum núna þegar rokinu og regninu hefur slotað og sólin tekin að skína í bili.
Eftir brimstiga P,Nielsens þá hefur brimið verið í 4 -5 stigum síðan síðdegis á sunnudag og telst það vera nokkuð óvenjulegt. Meðaltalið fyrir Júni er 1 dagur með svo miklu brimi.
Á síðasta sólarhring mældi veðurstofan 20 mm úrkomu á Bakkanum sem telst nokkuð. Sólahringsgsúrkomumet fyrir 5 júní var hinsvegar sett árið 1969 en þá mældist 30,5 mm, (frá kl.9 til 9 )vel blautur dagur það.
"Stormur" heitir þessi vísa eftir Björn Pétursson Sléttu, Fljótum. f.1867 - d.1953
Griðum hafnar hrannar rót
heiftum safnar brýnum.
Stríðir hrafninn húna mót
honum nafna sínum
Þakka svo Pétri Stefánssyni fyrir þessar brim og veðurvísur sem hann sendi mér eftir afa sinn og læt þær fljúga hér inn þegar á við.
08.04.2007 23:06
Um Hrafnahret.
Lítið fór nú fyrir páskahreti því sem spáð var,en þó er ekki úti öll nótt enn um smá hret á glugga. Áður fyrr var almennt álitið, að hrakviðri fylgdi oft sumarmálum. Það var oft nefnt sumarmálahret, eða hrafnahret Var því trúað, að tíð myndi batna, er slíkt hret var um garð gengið. Sagt er að hrafninn verpi 9 nóttum fyrir sumar og verði þá oft hret um þetta leiti og því nefnt Hrafnahret. En nú er eimitt 9 nætur til sumars og nú er spáð slyddu í mesta lagi hér syðra en snjókomu noðan til á landinu. Ein vísa er til um Hrafnahret og hljóðar svo:
Gat ei þolað hrafnahret
héðan flýði úr Bólu.
Um blindan svola brátt ég get.
Brenndi stolið sauðaket.
Höfundur:
Stefán Tómasson læknir á Egilsá f.1806 - d.1864
23.03.2007 10:15
Nú er hann á sunnan
Svefnsamt varla verður þér
vindar þjóta um grund og sker
brim mun æða
öldur flæða
uns til norðurs áttin fer.
Ingi Heiðmar Jónsson Meira
Annars á hann að hvessa lítilega aftur af sunnan á Laugardaginn með rigningu, en á sunnudag verður komið hið besta brimskoðunarveður með 6-7 metra háum öldum.
- 1
- 2