19.11.2019 22:30

Einar Jónsson brunavörður

Einar hét maður Jónsson Einarssonar bónda og Marínar Jónsdóttur í Egilsstaðakoti í Villingaholtshreppi, járnsmiður á Eyrarbakka, síðar bifreiðarstjóri í Reykjavík (f. 1887)

 

Einar bjó í Túni og var slökkviliðsstjóri á Bakkanum (1913-20 og 1925-31) og bar svo til í hans tíð stórbruni einn, (15.12.1914) er nefndur hefur verið "Igólfsbruninn" en svo hétu verslunarhúsin á Háeyri. Í kjölfar brunans sköpuðust miklar deilur milli Einars og Guðmundar Ísleifssonar á Háeyri þegar hinn síðarnefndi lét miður heppileg orð falla um tildrög brunans og vildi kenna Einari um. Varð af þessu málarekstur sem Einar vann bæði í héraði og Landsyfirrétti. En þannig voru mál með vexti að eftir að handslökkvidæla (Nú á sjóminjasafninu) barst til landsins var byggt sérstakt hús yfir hana og þann fylgibúnað sem henni fylgdi eins og fötur og slöngur. Skúrinn, sem kallaður var slökkviáhaldaskúr, var áfastur Háeyrarpakkhúsi, sem var fyrir miðju þorpsins. (Háeyrarpakkhúsið var flutt vestur í Skerjafjörð en nýr "Brunaskúr" byggður þar í staðinn. [Frystihúslóðin]) Dælan var m.a. notuð í þessum bruna og þótti reynast vel. Guðmundur hafði selt Stokkseyrarfélaginu reksturinn árið 1912 en var í húsi í eigu Jóhanns V Daníelsonar sem jafnframt var sölustjóri og leigði hann Kaupfélaginu Ingólfi  húsnæðið en hugði á að setja þar upp egin verslun í byrjun árs 1915.

Ólafi Helgasyni þá búðarmanni í versluninni var einig um kennt og sat hann í gæsluvarðhaldi um tíma vegna þess, en hann setti síðar (1920) upp verslun í Túnbergi. Þessar umkenningar urðu eins og olía á ófriðarbálið sem geysað hafði í þorpinu um skeið. [1926 brunnu öll verslunarhús kaupfélagsins Ingólfs á Stokkseyri]

Árið 1916 þann 26.janúar brann "Samúelshús" til kaldra kola, en það var læknisbústaðurinn og stendur þar nú steinsteypt hús, svonefnt "Læknishús" byggt sama ár. (Læknir var Pétur Gíslason).

Árið 1930 kviknaði í austurbænum á Litlu-Háeyri við Eyrarbakka, en þar bjó Guðjón Jónsson formaður. Brann bærinn, en innanstokksmunm var bjargað.

 Að lokum kom upp eldur í húsi Einars "Túni" og glötuðust þar fundarbækur verkalýðsfélagsins Bárunnar frá stofnun þess 1903 en Einar var virkur í verkalýðsbaráttunni á Eyrarbakka og um tíma formaður félagsins. Flutti hann til Reykjavíkur í kjölfar þess, þá orðinn ekkill.

 

 

Einar var hagmæltur og til er eftir hann lausavísa svohljóðandi:

 

Hefur Bakkur hvofta tvo

höldum fláir reynast.

Gleður fyrst og grætir svo

gröfin býður seinast.

 

Slökkvilið Eyrarbakka-slökkvistörf og stórbrunar:

1887 Veitingahúsið Ingólfur

1895 Oddstekkur

1914 Ingólfsbruninn á Háeyri

1916 Samúelshús

1926 Kaupfélagið Ingólfur Stokkseyri

1930 Litla-Háeyri Eystri

1934 Lyfjabúðin á Eyrarbakka.

1939 Brauðgerðarhúsið á Stokkseyri

1947 kaupfélagssmiðjur Selfossi

1948 Sláturhús S. Ólafssonar o.co Selfossi

1963 Braggi í Kaldaðarnesi

1966 Búðarstígur 8

1975 Veiðafærahús og Trésmiðja Eyrarbakka.

1979 Hraðfrystihús Stokkseyrar

1980 Smiðshús (Tjón takmarkað)

1982 Allabúð á Stokkseyri

1987 Saltfiskverkunarhús Meitilsins í Þorlákshöfn

1991 Götuhús á Stokkseyri

1997 Merkisteinn

2000 Alpan (Tjón var takmarkað)

Eldar höfðu margoft komið upp í húsum, byggingum og bátum á þessu tímabili, en slökkvistarf tekist. Líklega er Litla-Hraun það hús sem oftast hefir komið upp eldur. Þá hafa ýmsir kofar,skúrar og hlöður brunnið á þessu tímabili.

 

 

Heimildir:

Vísnasafn Sigurðar J. Gíslasonar í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga. bls.Lbs. 3793, 4to

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3951842 (Ísafold)

https://baekur.is/bok/001194492/9/802/Landsyfirrettardomar_og (Bækur.is)

http://www.gopfrettir.net/gop_id/AJ_GOP/index.htm (vefsíða)

https://www.babubabu.is/brunavarnir_arnessyslu/slokkvilid_eyrar/ (Brunavarnir Árnessýslu)

http://eyrarbakkinews.blogspot.com/2017/04/vagnstjori-verur-bilstjori.html (vefsíða)

http://www.brim.123.is/blog/yearmonth/2013/12/ (Brim á Bakkanum)

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1113705 (Tímarit.is)

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2272605 (Tímarit.is)

Skrár - Brim á Bakkanum - 123.is

 Bruni Kaupfélagsinns Ingólfs 1914 - 123.is

Flettingar í dag: 1296
Gestir í dag: 247
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261586
Samtals gestir: 33874
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 21:00:07