19.08.2019 22:35

Saga áraskipana

Mynd frá: https://nafar.blog.is/blog/nafar/Saga áraskipana nær allt frá landnámi og fram á fyrsta áratug 20. aldar.  Þessir bátar nefndust eftir stærð, Tveggja manna far, Sexæringur og Teinæringur. Íveruhús sjómanna nefndust "Sjóbúðir" eða "Verbúðir" og í "beituskúrunum" hömuðust "beitustrákarnir" við að skera beitusíldina og stokka upp bjóðin. "Lending" var í "vör" og í lok vertíðar voru skipin sett upp í "naust", og fiskurinn hengdur upp á "hjalla". Þetta orðfæri er nú liðin tíð. Áraskipin höfðu nokkuð mismunandi lag eftir landshlutum, en hér Sunnanlands er þekkt svokallað "Steinslag" eftir Steini Guðmundssyni skipasmið í Steinsbæ. Þar er stefnið skásett ca 45 gráður sem gerir skipið hæfara til að skera sig í gegnum brimölduna. Eitt slíkt skip hefur varðveist á Eyrarbakka, en það er áraskipið Farsæll, tólfróinn teinæringur.

Á 19. öld óx mjög útgerð áraskipa á Eyrarbakka og skiptu þau tugum, en það voru einkum sexæringar sem dugðu best hér við ströndina. Árið 1884 var ábyrgðasjóður opinna áraskipa stofnaður á Eyrarbakka og  sjómannasjóður árið 1888 og sjómannaskóli Árnessýslu um 1890. Stuðlaði það mjög að aukinni útgerð þrátt fyrir einhverjar erfiðustu aðstæður á landinu til sjósóknar fyrir skerjum og brimi. Sumir formenn kusu að gera út frá Þorlákshöfn þar sem tryggari lending var fyrir skipin, en alla jafna var Þorlákshöfn þrautarlending ef sund lokuðust á Eyrarbakka og Stokkseyri. Formennirnir urðu stundum að kljást við ægi í sínum versta ham, þegar brast á bræla og brim nær fyrirvaralaust og sumir urðu að lúta í lægra haldi í þeim bardaga. Þessir sægarpar voru miklar hetjur og gjarnan kveðnar um þá >vísur og >sögur sagðar. Síðasti formaður á opnu áraskipi á Eyrarbakka var Guðmundur Ísleifsson á Háeyri. Hann var farsæll formaður og fyrir marga bjargvættur á ögurstund. >Hér er um hann kveðið.


Myndin hér að ofan er frá: Sigmar Þór Sveinbjörnsson blog.is

Flettingar í dag: 996
Gestir í dag: 221
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261286
Samtals gestir: 33848
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:39:06