17.04.2017 17:58

Veiðibjallan

-Svartbakurinn er hin mesta veiðikló. Hann stundar mjög hrognkelsaveiðar, og þar sem mikið er af hrognkelsum, er hann svo matvandur, að hann leggur sig helzt eftir rauðmaganum og meira að segja étur aðeins lifrina, en lætur krumma eftir fiskinn. Víða um land hafa börn og unglingar iðkað það sér til gamans að sitja um svartbakinn, þegar hann er að draga, og taka af honum veiðina, jafnóðum og hann lendir. Dregur hann þá oftast aftur. Gerir hann sjálfur aðvart um veiðar sínar, því að þegar hann er að drætti, heyrist frá honum hátt og hljómmikið hljóð, sem ekki er samfellt, en hækkar og lækkar til skiptis, eins og hljómur í bjöllu. Áður fyrrum, þá er vorsultur var tíður í búi þeirra, sem bjuggu við brimasama strönd, lögðu menn sig eftir því að ná veiði svartbaksins sér til lífsbjargar. Voru þá höfð ströng varðhöld á drætti hans. Þannig var þetta á Eyrarbakka og Stokkseyri, en þar er brimasamt, útfiri mikið og myndast víða lón og lænur. Sagt er, að þar hafi verið kallað, þegar heyrðist hið háttbundna hlakkhljóð svartbaksins: "Þar heyrist í bjöllunni!" eða: "Nú kveður bjallan við!" Síðan þutu þeir af stað, sem björgina vildu handsama, og var stundum kapp í unglingunum. Svo var þá farið að kalla svartbakinn veiðibjöllu þarna eystra, og hið einkennilega og tilkomumikla nafn flaug síðan út um nálægar sveitir og loks til fjarlægra héraða.- Dýraverndarinn 1955.
Flettingar í dag: 755
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 1863
Gestir í gær: 241
Samtals flettingar: 381699
Samtals gestir: 43195
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 00:28:28