05.03.2016 23:29
Sú var tíðin, 1952
Útgerðin: Eyrbekkingar voru að sækja í sig veðrið um þessar mundir og snemma árs bættist fimmti vélbátur Eyrbekkinga í flotann. [Bakkabátar voru þessir: Faxi, Gunnar, Mímir, Pipp og Gullfoss.] Það voru aðalega ungir menn sem stóðu nú að útgerðinni á Bakkanum, og gekk þar á ýmsu. Vélbáturinn Gullfoss sökk á legunni á Eyrarbakka, en náðist upp á fjörunni óskemdur. Þá slitnaði vélbáturinn Pipp upp af legunni og rak á land. Náðist að bjarga honum óskemdum. Þennann bát áttu þeir Steinn Einarsson í Vatnagarði og Helgi Vigfússon útibústjóri KÁ. Vélarbilun varð í "Mími" 17 mílur frá landi og þurfti báturinn aðstoðar við. Hraðfrystistöðin bætti við sig saltfiskverkun og lifrarbræðslu svo það horfði til þess að næg störf sköpuðust [70-100 störf] þegar gaf á sjó og aflaðist, þá ekki síst störf fyrir konur í fiskvinnslunni, en sjaldan er ein báran stök, því gæftarleysi og aflatregða hamlaði oft störfum í vertíðarbyrjun, [vertíðin hófst ekki fyrr en í byrjun febrúar þennann vetur] en rættist allvel úr er leið á og þótti góð í heildina. Í byrjun mars var landburður af fiski um nokkra daga skeið og fast sótt þá er gaf á sjó. Í apríl var hver bátur stundum að fá vel yfir 1000 fiska í róðri, en í heildina var apríl nokkuð rír. Aflahæstur á vertíðinni var Mímir með 236 smál. í 58 róðrum, en skipstjóri á honum var Sverrir Bjarnfinnsson. Heildaraflinn, sem á land kom á Eyrarbakka, nam tæpar 924 smálestir. Á undanförnum árum hafði frystihúsið með höndum sauðfjárslátrun og kjötsölu. Var þar slátrað allt að 300 fjár. Þá leigði og stöðin út frystiskápa fyrir matvælageymslu gegn 100 kr. ársleigu. Byggingu saltfiskvinnsluhússins ásamt lifrarbræðslu lauk þá um veturinn, en verkið var fjármagnað að mestu með frjálsum framlögum íbúanna sjálfra og sjálfboðavinnu eins og svo mörg önnur framfararmál á Bakkanum í gegnum tíðina. Hraðfrystistöð Eyrarbakka var hlutafélag, sem flestir þorpsbúar áttu hlut í. Forstjóri hennar var lengst af Vigfús Jónsson þáverandi oddviti hreppsins. Á Stokkseyri gengu einig fimm bátar þessa vertíð. Hafnarbætur voru nokkrar um sumarið, endurbættar voru báðar bryggjurnar og innsiglingin inn Skúmstaðarós bætt og dýpkuð. Höfðu 25 manns vinnu við þetta. Þá höfðu frystihúsin á Eyrarbakka og Stokkseyri sameinast um byggingu beinamjölsverksmiðju mitt á milli þorpanna. Átti hún að geta afkastað 35 tonnum á sólarhring. Haustvertíð brást lengst af og hættu menn að mestu róðrum, en seint í nóvember urðu menn varir við miklar fiskigöngur ungýsu og þóttu það tíðindi. Undirbúningur var hafinn fyrir skreiðarframleiðslu á næstu vertíð og efni keypt í fiskitrönur sem reistar voru þá um haustið á Einarshafnarflötunum.
[Stokkseyrarbátar voru
eftirfarandi: Hásteinn, Hersteinn, Hólmsteinn, Sísí, og Ægir.]
[Gullfoss ÁR 205 frá
Eyrarbakka var tekinn í landhelgi af varðskipinu Ægi. Var það í fyrsta sinn sem
Bakkabátur er tekinn fyrir landhelgisbrot. Þá var reindar skamt síðan ný
fiskveiðitakmörk voru sett. Sektin var 4000 kr. Afli og veiðarfæri gerð upptæk.]
Garðyrkja og landbúnaður: Garðyrkja er almenn og mikil á Bakkanum svo að allur þari er uppnýttur til áburðar. Skólafólk og fullorðnir keppast við sáninguna. Aðalega er ræktað gulrætur, rófur og kartöflur. Vorkuldar höfðu farið illa með túnin á Eyrarbakka, og garð- ávöxtum verið hætta búin. Fokið hafði ofan af kartöflum. Fólk var þó á verði og settu mold og sand yfir þær jafnharðan aftur. Gulrætur höfðu hinsvegar eyðilagst allmikið. Eyrarbakki var á þessum tímapunkti orðið landbúnaðarþorp fyrst og fremst svo mikið valt á uppskeru garðávaxta um afkomu fjölda fólks. Grasmaðkur gerði síðan út um gulrótauppskeruna, á meðan þurkakafli gekk yfir. Eyddi hann gersamlega gulrótaplöntum í heilum görðum og olli líka miklum skemmdum á öðrum gróðri. Var það ráð manna að úða DDT skordýraeitri yfir garðana. Rófum var sáð í litlum mæli, enda kálmaðkur landlægur á þessum tímum og uppskera jafnan rýr. Kartöfluuppskera var hinsvegar framar vonum og um miðjan ágúst voru kartöflubændur búnir að taka upp 600 tunnur af söluhæfum kartöflum. Bændur úr fjórum hreppum (Biskupstungum,Grímsnesi, Stokkseyri og Álftanesi) fengu leigð slægjulönd á engjum Eyrbekkinga, en spretta var í meðallagi þetta sumar, svo allt var slegið sem unnt var. Vegur 8 km. var byggður upp að engjalöndunum er Eyrarbakkahreppur stóð fyrir um sumarið. Bakkabændur juku mjög á túnrækt og stórir mýrarflákar voru ræstir fram þetta sumar. Heyskapur og afrakstur var því orðinn meiri á Bakkanum en áður fyr. Síðla ágústmánaðar gerði næturfrost og féllu þá kartöflugrös í görðum. Töldu menn að nokkurt tjón hlytist af þar sem vöxtur kartaflna mundi stöðvast.
Félagsmál: "Árshátíð U.M.F.E var haldin 15. janúar og var dagskráin hin fjölbreyttasta. Sýndur var sjónleikurinn Húsbóndaskipti, 20 manna félagskór söng, undir stjórn Guðjóns Guðjónssonar. Tvær stuttar ræður fluttar, lesið upp, sýnd kvikmynd og að lokum dansað. Félagsstarfið þótti blómlegt. Stöðug íþróttakennsla hafði verið, bæði leikfimi og frjáls- íþróttaæfingar inni. Kennari var Hermann Sigtryggsson frá Akureyri. Kór félagsins hafði æft söng, skákmenn stunduðu vikulegar taflæfingar og æfður var leikþáttur fyrir árshátiðina, eins og áður segir. Þá var farið í skemtiferð í Þórsmörk og 28 sundferðir voru farnar á vegum félagsins.
Félagar UMFE tóku þátt í HSK mótinu á Þjórsártúni.: Í þrístökki náði Sigurður Andersen 1. sæti fyrir UMFE. [13,24m] Tómas Sæmundsson UMFE náði 4. sæti í 1500 m hlaupi.
UMFE og UMFS tókust á við Knarrarósvita á sameginlegu móti og hafði UMFE betur. Síðar um sumarið háðu UMFE og UMF Ölfusinga kapp í Hveragerði. Í 100 m hlaupi sigraði Sigurður Andersen UMFE. Í 400 m hlaupi náði Einar Þórarinsson UMFE 2. sæti á eftir Ölfusingum og Jón Sigurjónsson UMFE 4. sæti. Í 1500 m hlaupi sigraði Tómas Sæmundsson UMFE. Í 80 m hlaupi kvenna náði Alda Guðjónsdóttir UMFE 2. sæti og Jónína Kjartansdóttir 4. sæti. Í boðhlaupi karla sigruðu Eyrbekkingar en Ölfusingar í kvennahlaupinu. Í Hástökki sigraði Sigurður Andersen fyrir UMFE. Langstökkið sigraði Einar Þórarinsson fyrir UMFE. Þrístökk keppnina sigraði Sigurður Andersen fyrir UMFE. Stangastökkið sigruðu Ölfusingar en Sigurður Andersen UMFE náði 2. sæti. Kúluvarp, Kringlu og Spjót sigruðu Ölfusingar. Langstökk kvenna sigraði Ósk Gísladóttir UMFE. Þegar allt var talið höfðu Ölfusingar unnið mótið með 72 stig gegn 68.
Verkamannafélagið Báran boðaði til vinnustöðvunar í samúðarskyni 18. desember en þá voru yfirstandandi vekföll frá 1. desember í félögum vítt og breytt um landið er áttu í kjarabaráttu. (m.a.V.l.f. Þór á Selfossi). þá voru við völd landsins íhaldsmenn og bændur. Báran bar uppi á fundum sínum ýmsar tillögur til ríkisinns, svo sem um auknar fjölskyldubætur, t.d. styrki með 3ja barni. Niðurfellingu söluskatts af kornvöru. Stuðningur við neytendasamtök. Fjármagnist með sérstökum "sjoppuskatti" og auknum tollum á erlendan glysvarning. Formaður félagsins var Kristján Guðmundsson.
Afmæli:
80 ára: Þórunn Gestsdóttir (Tóta Gests) í Garðbæ, Filippia Árnadóttir
Mundakoti, Guðrún Vigfúsdóttir Skúmstöðum.
70 ára: Guðmundur Björnsson Strönd, Þóranna
Theodóra Árnadóttir Strönd, Rannveig Jónsdóttir Eyri.
60 ára: Ásta Gunnarsdóttir Gunnarshúsi, Guðrún Sigurðardóttir, Hannes
Andresson Staðarbakka, Ingveldur Guðjónsdóttir Háeyri, Jóhann B Loftsson (Jói
Lofts) Háeyri, Jón Þ Tómasson Nýhöfn, Rannveig Jónsdóttir Búðarstíg, Sigfús
Árnason Garðbæ, Sigríður I Hannesdóttir Sandprýði, Sigurður Ingvarsson Hópi,
Sigurður Ari Sveinsson (Siggi skó) Sunnuhvoli.
50 ára: Gestur Sigfússon Frambæ, Guðmundur Andrésson Skúmstöðum, Guðný
Bergþórsdóttir Grímsstöðum, Gunnar Gunnarsson (Gunnsi) Gistihúsi, Sigríður
Ólafsdóttir Breiðarbóli, Sveinn Jónsson frá Traðarhúsum.
Hjónaefni: Eiríkur Guðmundsson trésm frá Merkigarði og Vigdís Ingibjörg Árnadóttir Bjarnarborg Stokkseyri. Dagbjört Árnadóttir Helgasonar Akri og Gustav Magnússon Simsen.
Látnir: Þorbjörg Jónsdóttir (93) frá
Strönd. [Maður hennar: Gunnar Halldórsson
og bjuggu þá í Reykjavík] Bergþór
Jónsson (76) frá Grímstöðum. Guðmundur
Ásbjörnsson kaupmaður í Reykjavík. [fæddur á Eyrarbakka 11. september 1880. Foreldrar hans, Ásbjörn Ásbjörnsson
tómthúsmaður og Guðríður Sigurðardóttir. Guðmundur átti í félagi, verslunina
"Vísi" og togaraútgerðina "Hrönn".] Hálfdán
Ólafsson frá Stóra-Hrauni. [Kona hans
var Bjarnheiður Þórðardóttir.] Þorbergur
Guðmundsson (66) í Sandprýði. [Kona
hans var Sigríður Hannesdóttir.] Guðmundur Halldórsson (65) frá Hraungerði, bókari og bjó þá í Reykjavík. Jóhann Guðmundsson frá Gamla-Hrauni. [Foreldrar hans voru Guðmundur bóndi á Gamla-Hrauni Þorkelssonar í
Mundakoti og Þóra Símonardóttir bónda á Gamla-Hrauni Þorkelssonar skipasmiðs
og hreppstjóra. Fyrri kona: Guðrún Runólfsdóttir frá Arnkötlustöðum í Holtum.
Sonur þeirra Axel skipstjóri í
Sandkorn:
Barnaskóli Eyrarbakka 100
ára 25. oktober 1952
Skólastjóri var Guðmundur Daníelsson. Mikil hátíðarhöld voru í tilefni þessa. Forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson var viðstaddur hátíðahöldin
og var Eyrarbakki fyrsti staðurinn, sem hinn nýkjörni forseti heimsótti. Var
hátíðinni síðan útvarpað um land allt.
Björgunarsveitin Björg aðstoðaði við leit að tíndum manni við Hlíðarvatn.
Héraðslæknir á Eyrarbakka var um þessar mundir Bragi Ólafsson.
Á Eyrarbakka og Stokkseyri voru stofnaðar deildir innan skóræktarfélags
Árnesinga.
75 ára var þetta ár Jón Helgason prentari er hér bjó um hríð og starfaði
við Prentsmiðju Suðurlands er hér var og gaf út Heimilisblaðið.
Drengur 10 ára varð fyrir vörubifreið og slasaðist nokkuð á höfði.
Á Holti Stokkseyrahr. var byggður fyrsti súrheysturn í Flóanum og sá stærsti hér á landi. Turn þessi var16 metra hár og 5 metrar í þvermál.
Guðmundur Jónsson frá Gamla-Hrauni komst í hann krappann.
Hann var þá skipstjóri á vélbátnum "Sigrún" frá Akranesi er fárviðri gerði.
Týndist með skipi og áhöfn á regin hafi en náði landi heilu og höldnu eftir
mikið brak og brambolt á 4 degi.
Þrjú börn af Stokkseyri, 5, 7 og 9 ára ætluðu fótgangandi að
bænum Traðarholti austan Stokkseyrar en villtust. Þau höfðu haldið í átt að
Selfossi og komu að bænum Eyði-Sandvík skammt neðan Selfoss eftir 14 klst göngu. Þá
höfðu 60 manns hafið leit að þeim.
Þjóðhátíðin í Eyjum naut hilli ungafólksins, en 140 manns
fóru þangað með bátum frá Eyrarbakka og Stokkseyri.
Vélbáturinn "Gullfoss" veiddi furðufisk. Gulrauður og líktist
marhnhúti.
Félagar í Alþýðuflokki Reykjavíkur komu í skemmtiferð til Eyrarbakka og
stóðu fyrir samkomu og balli í samkomuhúsinu Fjölni.
"Austantórur III" eftir Jón Pálsson kom út þetta ár. Áður
útgefið Austantórur I &II er fjalla að stórum hluta um lífið og tilveruna á
Eyrarbakka í gamla daga.
Sr. Árelíus Níelsson kvaddi Eyrarbakkasöfnuð og hóf störf í
Langholtskirkju. Hélt Eyrarbakkasöfnuður honum veglegt kveðjuhóf sem lengi var
í minnum haft.
Aðalgeir Sigurðsson frá Canada, sonur Pálínu Jónsdóttur
Þorkelssonar frá Eyrarbakka, er flutti til vesturheims 1880 með manni sínum
Tryggva Sigurðssyni, kom til landsins.
Guðmundur Daníelsson rithöfundur og skólastjóri á Eyrarbakka
er nú einnig ritstjóri nýs blaðs sem stendur til að gefa út í fyrsta sinn í
janúar 1953, en það er fréttaritið "Suðurland".
Tíðin: Janúar var óvenju snjóþungur og var um tíma alófært um þjóðveginn niður á Bakka, en vegurinn lokaðist títt vegna skafrennings. Á Eyrarbakka mældist tvöföld meðaltalsúrkoma í janúar. Gríðarlegan veðurham með óskaplegu særoki gerði á Bakkanum snemma í janúar 1952. Nýhlaðinn holsteinsveggur saltgeymsluhús hraðfrystistöðvarinnar hrundi og járnplötur fuku af húsum. Sjór gekk þó ekki á land en brim geysimikið. Gekk svo hvert ofviðrið eftir annað. Frost náði 13 stigum á Eyrarbakka. Hlána tók í febrúar með rigningum. Apríl var rigningasamur og votur en síðan tóku við vorkuldar. Sumarið var þurrviðrasamt og gott. 27. ágúst gerði næturfrost.
Á Selfossi var byggt mikið jarðhús fyrir grænmetisgeymslu. Einnig var kirkjan byggð þetta ár og skólinn stækkaður. Nær allar sýslur og bæir landsins áttu son eða dóttur búandi á Selfossi. Á Selfossi bjuggu þá 62 Eyrbekkingar og 44 Stokkseyringar. Flestir Selfyssinga eru upprunnir úr Reykjavík og Rángárvallasýslu. Þá eru um 30 manns erlendir, aðalega danir. Árið 1952 töldust Selfyssingar vera 1087. Selfoss var afar ungur bær um þessar mundir og sá bær landsins sem óx hraðast að Kóbavogi undanskildum. Verslun og þjónusta auk framleiðslu á landbúnaðarafurðum var helsta einkenni þessa unga bæjar.
Á Stokkseyri hafði starfað vikursteypa um hríð. (Pípu og steinagerð Stokkseyrar.) Þar er framleiddur holsteinn úr Hekluvikri sem sóttur er að Þórólfsfelli.
1951 1950 1949 1948 1947 1946 1945 1944 1943 1942
1941 1940 1939 1938 1937 1936 1935 1934 1933 1932
1931 1930 1929 1928 1927 1926 1925 1924 1923 1922
Heimild: Alþýðubl. Eining, Frjáls verslun, Lögberg, Morgunbl. Skinfaxi, Sveitarstjórnarmál, Tíminn, Vísir, Þjóðviljinn, Ægir