16.08.2014 23:27

Sú var tíðin, 1939

                        " Vissara að vera edrú þegar heimurinn ferst"

Um þessar mundir var styrjaldarbálið mikla að kvikna í Evrópu með öllum þeim hörmungum sem á eftir fylgdu, en á Bakkanum var allt með kyrrum kjörum og áhyggjur heimamanna af ástandinu voru litlar í fyrstu. Eyrbekkingar, Stokkseyringar og Sandvíkingar biðu eftir rafmagninu frá Sogsvirkjun, en virkjunin var í eigu Reykjavíkurkaupstaðar. Verkfræðilegri hönnun línunar var löngu lokið og áætlað var að framkvæmdir gætu hafist á þessu ári, og nú þegar virtist vera að koma hreyfing á það mál á Alþingi, ógnaði stríðsástandið í Evrópu nauðsynlegum efnisfluttningum til Íslands. Þegar leið á árið fóru áhyggjur manna vaxandi, Rússar voru komnir í stríð við Finnland og þjóðverjar albúnir að sölsa undir sig vesturhluta evrópu og enn meiri dýrtíð yfrvofandi. Stokkseyringar söfnuðu undirskriftum og báðu þess að áfengisversluninni í Reykjavík og Hafnafirði yrði lokað á meðan styrjöldin stæði yfir. Samtals voru 191 stokkseyringur þess sinnis að betra væri að vera edrú í þessu ástandi. Eyrbekkingar ætluðu ekki vera eftirbátar Stokkseyringa frekar en fyrri daginn og skrifuðu 248 kjósendur á Eyrarbakka undir samskonar bænaskjal, Voru það nær allir kjósendur þorpsins, nema presturinn. "já vissara að vera edrú þegar heimurinn ferst" varð einhverjum að orði. Hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps sendi svo sérstaka áskorun til Alþingis um að taka fyrir allan innfluttning á áfengi á meðan styrjöld stæði yfir.

Úr verinu: 

Fiskimálanefnd veitti styrk til bátakaupa, Jóni Guðjónssyni og félögum hans fyrir 15 tonna báti. Annars hófu einungis tveir bátar vetrarvertíð héðan af Bakkanum með 20 mönnum, en í Þorlákshöfn sem var orðin er hér er komið sögu, stærsta verstöðin austanfjalls og voru gerðir út þaðan 10 vélbátar og 9 frá Stokkseyri og viðbúnaður því mikill á þessum stöðum. Tveir bátar frá Stokkseyri, Hersteinn og Hásteinn voru leigðir til síldveiða fyrir norðurlandi. Brim og straumar hömluðu sjósókn, en ársafli Bakkabáta voru 57 lestir. Í Þorlákshöfn var byggð ný bryggja 45 m löng. Maður féll fyrir borð af mótorbátnum "Ingu" frá Stokkseyri þegar ólag reið yfir og druknaði. Hann hét Magnús Kristjánsson háseti og var aðkomu maður. Annað ólag hvolfdi "Ingu" og menn fóru í sjóinn, en fengu björgun. Þangi var safnað á Eyrarbakka fyrir landi Stóra-Hrauns og Stokkseyri til þurkunnar í Hveragerði. Var þangið flutt á land með fjórum prömmum.

 

Skemtanir: Álfadans héldu "Brimverjar", Stokkseyringar þann 12. janúar og Eyrbekkingar 13. janúar. Margt var um aðkomumenn úr nærsveitum. Sjálfstæðisflokkurinn hélt skemtun í Fjölni 4. febr. með kaffidrykkju, ræðuhöldum og ættjarðarsöngvum, en hátíðinni lauk með dansleik. Ræðumenn voru þeir Sigurður Kristjánsson, Jón Jónsson bóndi á Hnausi, Bjarni Júníusson bóndi á Seli, Ólafur Helgason kaupm. Sigurður Kristjánsson kaupm, Ólafur Ólafsson kaupm, Selfossi og Jón Sigurðsson á Hjalla í Ölfusi. Söngmenn voru þeir Pétur og Árni Jónssynir frá Múla ásamt Helga Hallgrímssyni. Menntaskólanemendur úr Reykjavíkurbæ komu á Bakkann og settu upp leiksýninguna "Einkaritarinn" eftir Charles Hawtrey. Ólafur Ólafsson kristniboði sýndi í Fjölni kvikmynd um kristniboðið í Kína. en auk þess hélt hann almenna kristnisamkomu og barnaguðþjónustu í kirkjunni.

Pólitíkin á Bakkanum: Nýverið hafði verið stofnað Sjálfstæðisfélag á Eyrarbakka fyrir forgöngu Gunnars Thoroddsen og kosin stjórn til bráðabirgða. Ný stjórn var nú kjörin: Jóhann Ólafsson form. Pálína Pálsdóttir ritari og Kristinn Jónsson gjaldkeri.

 

Verkalýðsmál:   Báran mótmælir ríkislögreglunni

Bandalag stéttarfélaga hélt fund á Eyrarbakka og Stokkseyri um vorið og sóttust eftir því að félögin hér gengju til liðs við BS og segðu sig úr ASÍ, en Vlf. Bjarmi á Stokkseyri hafnaði því í kosningu þann 1. maí, en málið féll á jöfnum atkvæðum. Formaður Bjarma var Helgi Sigurðsson. Framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins Óskar Sæmundsson var mættur á staðinn. Lét hann hengja upp auglýsingu í glugga Landsímahúsins á meðan atkvæðagreiðsla fór fram, en þar stóð eftirfarandi: " Að gefnu tilefni tilkynnist hér með, að meðlimum sambandsfélaga Alþýðusambands Íslands er óheimilt að vinna ásamt mönnum, sem eru utan Alþýðusambands Íslands". Eftirmál urðu allnokkur af þessari hótun og á það bent að samkvæmt því væri ASÍ félögum óheimilt að starfa með Dagsbrúnarfélögum. [ Félagslögin voru þó strangt tiltekið þau sömu hjá öðrum félögum hvað þetta varðaði. ]

  Hinn 2. nóvember 1939 var haldinn fjölmennur aðalfundur í Vlf. "Báran" á Eyrarbakka og þar rætt um erindi Bandalags stéttarfélaga og borinn upp til atkvæðagreiðslu, tillaga þess efnis að félagið segði sig úr Alþýðusambandinu og gengi til liðs við BS. Tillagan var felld, en gagntillaga samþykkt. Þar er tilraunum BS til stofnunar sérstaks landsabands mótmælt og "Telur fundurinn, að stofnun slíks sambands, sem getið er í nefndu bréfi. mundi einungis leiða til sundrungar innan verka lýðssamtakanna, þar sem víst er að meginið af þeim félögum, sem eru í Alþýðusambandinu.verða þar áfram, og samþykkir því fundurinn að félagið standi áfram sem hingað til innan Alþýðusambandsins og skorar á önnur verkalýðsfélög að gera hið sama......." [ Bandalag stéttarfélaga var að hluta til sósialísk hreyfing, en í það gengu 22 félög. Alþýðusambandinu var hinsvegar í stórum dráttum stýrt frá skrifstofu Alþýðuflokksins.]  Þá skoraði Vlf. Báran á sitjandi Alþingi að breyta lögum um gengisskráningu, svo haga mætti gengi til að vega kaupgjald upp sem nemur verðbólgu. Annar fundur var haldinn í Vlf. Bárunni á Eyrarbakka 27. nóvember 1939. Fundurinn mótmælti harðlega frumvarpi Hermanns Jónssonar um fjölgun lögreglumanna. Taldi fundurinn að fjölgun lögreglumanna vera viðbúnaður yfirstéttarinnar til að berja niður verkalýðsbaráttuna.

 Sandkorn: Eyrbekkingurinn Sigurjón Jónsson gerðist skipstjóri á Gísla J Johnsen VE, Nýjum bát í eigu Guðlaugs Brynjúlfssonar frá Vestmannaeyjum. Báturinn var sérstakur að því leiti, að hann var útbúinn raflýsingu og talstöð. Sigurjón ferjaði einnig nýjan bát, "Baldur VE" frá danmörku til eyja og var sá bátur einnig útbúinn talstöð.> Íshúsið á Eyrarbakka var til sölu, en það átti Jón Stefánsson á Hofi. >Barnastúka var stofnuð, og bar heitið "Árroði nr. 112" með 40 félaga. Talsmaður stúkunnar var Guðmundur Þorláksson skólastjóri. Þá var stúkan "Eyrarrósin" endurvakin, en áhugi á bindidismálum var vaxandi um þessar mundir. >Fyrrum beitustrákur og áflogaseggur, sr. Sigurgeir Sigurðsson frá Túnpríði, var á þessu ári vígður biskup yfir Íslandi. Hann var sonur Sigurðar regluboða og Svanhildar Sigurðardóttur. Annar Eyrbekkingur hafði verið prestur í ameríku í áratugi án þess að hingað spyrðist, en það var sr. Hans Thorgrímsen er héðan fór 18 ára. Þá má nefna sr. Bjarna Þórarinsson sem tengdason Eyrarbakka, en hann var giftur Ingibjörgu Einarsdóttur borgara Jónssonar, systir Sigfúsar Einarssonar tónskálds. Ennfremur skal nefna sr. Eirík J Eiríksson er síðar var prestur á Þingvöllum. Svo er rétt að nefna  Gunnar Benediktson kennara, en hann var prestlærður. Þá var þjónandi prestur sr. Gísli Skúlason á Stóra-Hrauni, svo því fór fjarri að Eyrbekkingar þyrftu að örvænta um sáluhjálp á þessum tímum.  >10 fjölskyldur voru valdar af Eyrarbakka, sem víðar til manneldisrannsókna, er fyrir stóð dr. Skúli Guðjónsson fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar, en hvað sem því leið hafa Eyrbekkingar löngum þótt alveg sérstakt rannsóknarefni. >Frá Gamla-Hrauni hafa einatt komið fræknir skipasmiðir í aldanna rás. Gunnar Marel Jónsson stýrði smíðinni á "Helgi" VE 333 sem byggður var í Vestmannaeyjum fyrir Helga Benediktsson, og var þá stærsta vélskip sem byggt hefur hér á landi til þessa, en það var 33,3m á lengd og 7,3m á breidd og taldist 119 tonn. "Helgi" var 11. skipið sem Gunnar hafði smíðað. Bræðraborg Eyrarbakka var byggt þetta ár.

 Sóttu Bakkann heim: Félagar í Skósmíðafélagi Reykjavíkur gerðu sér glaðan dag á Bakkanum.

 Látnir: Helga Grímsdóttir (83) í Norðurbæ (Einarshöfn). Guðni Jónsson, (77) frá Hausthúsum, [síðar að Óseyrarnesi]. Guðrún Jóhannsdóttir (74) bónda frá Mundakoti. Hennar maður var Jón Einarsson hreppstjóri, frá Heiði á Síðu en móðir hennar Elín Símonardóttir. Gísli Pétursson læknir (72) hér og veðurathugunarmaður, fyrrum héraðslæknir, en hann var fæddur í Ánanaustum Rvík. Kona hans var Aðalbjörg Jakopsdóttir. Margrét Guðbrandsdóttir (72) frá Bráðræði. Vilhjálmur Ólafsson (72) frá Deild. Ingveldur Eiríksdóttir (69) frá Stíghúsi. Lars Lauritz Andersen Larsen (69) bakarameistari í Gamla-Bakaríinu. Hann var fæddur í Horzens í Danmörku og kom til Íslands á vegum Lefolii. Hann andaðist á sjúkradeild Elliheimilisins Rvík. Kona hans var Kolfinna Þórarinsdóttir. Vilbergur Jóhannsson (40) sjómaður frá Helgafelli. Kona hans var Ragnheiður Ólafsdóttir. Vilbergur var sonur Jóhanns V Daníelssonar kaupmanns.

 Eyrbekkingar fjarri: Guðrún Björnsdóttir, (75) ekkja bjó í Reykjavík, en frá Akri Eyrarbakka og jarðsett hér. Guðjón Guðmundsson, maður á sextugsaldri lést af völdum eldsvoða á bænum Kotvogi í Höfnum. Próf. Sigfús Einarsson (62) [borgara] tónskáld af hjartaslagi. Hann var fæddur að Skúmstöðum 1877.

 Náttúran: Þurkasumar og sólríki á Bakkanum. Mesta eldingaveður í manna minnum gekk á 24. júlí og stóð í eina og hálfa klukkustund. Mest var þrumuveðrið í Ölfusinu með skýfalli og eldglæringum sem lustu niður hvað eftir annað, en heppilega varð engin fyrir tjóni. Viku áður höfðu kviknað miklir mosaeldar í Eldborgarhrauni í Ölfusi [Umhverfi Raufarholtshelli] og reyk lagt yfir byggðina, ef þannig stóðu vindar. Úrhellið dugði hvergi til að slökkva þessa miklu elda og tilraunir manna til þess dugðu ei heldur, svo eldarnir loguðu samfellt vikum saman, fram til hausts. Landskjálftar fundust á Eyrarbakka og víðar í Flóanum snemma í ágústmánuði og svo um mánuðinn miðjan bærðist aftur jörð, en skaðlaust. Hvað harðast, bæði skiptin í Hveragerði. Katöfluuppskera þótti góð, þrátt fyrir sumarþurka og svo var einig með gulrætur. Gullbrá nemur land á Eyrarbakka, blómið svipar til sóleyjar, gult blóm en með rauðum doppum. [Virðist ekki hafa náð að festa sig í sessi á þessum slóðum til langframa.]

 Úr grendinni: Búnaðarfélag Stokkseyrar var 50 ára á þessu ári, en það var stofnað 22. nóvember 1889. Bakaríið á Stokkseyri, eign "Bjarma" brann til kaldra kola, en það var síðasta byggingin sem eftir stóð af svokallaðri "Ingólfstorfu", sem fyrrum varð eldi að bráð. Í húsinu var starfsemi Pöntunarfélags verkamanna á Stokkseyri og Ólafur Þórarinsson rak þar brauðgerð. Mótorbáturinn "Vonin" hélt úti fólksflutningum frá Stokkseyri til Vestmannaeyja. Knarrarósviti var tendraður 31. ágúst þetta ár. Vitinn var þá talin hæsta bygging á landinu, eða 25 m og fyrsti vitinn sem byggður er úr járnbentri steinsteypu. Ljósmagn vitans var mælt 6000 kerti/watt sem var í meðallagi íslenskra vita. Páll Gunnarsson bóndi á Baugstöðum var ráðinn vitavörður, en yfirsmiður var Sigurður Pétursson frá Sauðárkróki.

 

Heimild: Alþýðubl. Bjarmi, Búfræðingurinn, Morgunbl. Tíminn, Veðráttan, Vísir, Þjóðviljinn, Ægir
Flettingar í dag: 678
Gestir í dag: 187
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260968
Samtals gestir: 33814
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:18:00