05.02.2014 20:42

Sú var tíðin 1935

Hvorki gengu Bakkamenn með hendur í vösum né lágu þeir á liði sínu, nú frekar en endranær. Garðrækt var í miklum blóma og talsverður landbúnaður sem fór vaxandi með hverju árinu. Smiðirnir Beggi og Fúsi unnu í Trésmiðjunni með mönnum sínum og var meira en nóg að gera. Laugi og Óli afgreiddu sinn í hvorri búðinni og Siggi Kristjáns passaði upp á hreppsjóðinn. Kristinn Jónasar keypti bát og fór að róa. Bjarni Eggerts hélt uppi félagsandanum og gætti að samheldni þorpsbúa. Júlli Ingvars var uppi á Hellisheiði að stjórna byggingaframkvæmdum við "Skíðaskálann" í Hveradölum. Helga símamær beið við símann á stöðinni nýtan dag sem nótt. Lúlli læknir hlustaði á hjártsláttinn og tók púlsinn. Fólkinu hafði fækkað en lífið á Bakkanum gekk að mestu sinn vanagang, og nýr uppgangstími virtist vera að renna upp. [Íbúafjöldi á Eyrarbakka voru á þessum árum  milli 550-570, eða mjög svipað og er í dag.]

 

Kaupfélagið fer til sjós með "Framsókn" og "Jónas ráðherra"

 Tvær opnar trillur Kaupfélags Árnesinga hófu útgerð frá Eyrarbakka, en þær hétu "Framsókn" og "Jónas ráðherra"  og hafði Egill Thorarensen í Sigtúnum (Selfossi) umráð með útgerð þeirra. [Þriðju trillunar töldu Eyrbekkingar vænst og voru gárungarnir þegar búnir að gefa henni nafnið "Egill attaníoss, en aðrir töldu að nafnið yrði "Eiður".] Annars gengu þennan vetur auk trillubátanna, einn 12 tn bátur og svo annar sem lagði upp í Sandgerði. Vertíðin var sæmileg að þessu sinni, en mestur afli kom á Stokkseyri og aflahæsti báturinn þar var "Haukur" er átti Jón Magnússon kaupmaður þar en formaður á Hauki var Ólafur Jónsson. Á aflahæsta Bakkabátnum var formaður Guðmundur J Guðmundsson. Allur fiskur af Eyrarbakka og Stokkseyri var fulluninn á staðnum, en Þorlákshafnarfiskur blautverkaður og fluttur hingað í vöruskip á vegum Kaupfélagsins. Sjósókn var lítil yfir sumarið, ógæftir og fiskleysi. Á Stokkseyri voru gerðir út 9 vélbátar og 1 trilla. Meðal Stokkseyrarbáta voru "Hersteinn" "Hólmsteinn og " Hásteinn"  15 tn. Bátar smíðaðir í danmörku. "Sísí"  13 tn. keypt frá Vestmannaeyjum, "Silla" og "Inga". Hafnaraðstæður voru nokkuð bættar fyrir þessa báta. [Ný bryggja hafði verið steypt utan yfir gömlu bryggjuna, innsiglingin breikkuð og vörður steyptar þar nokkrum árum fyr. Stokkseyri var nú um þessar mundir stærsta verstöð sýslunnar.]  Á Eyrarbakka voru gerðir út 3 vélbátar, Freyr ÁR 150, [Þó mest af vertíðinni frá Sandgerði] Freyja ÁR 149 og Öldungur ÁR 173 er Kristinn Jónasson ofl. keyptu nýlega frá Stokkseyri, og að auki 2 trillur KÁ eins og fyrr er getið. Bryggju fyrir þá og vöruuppskipun hafði Kaupfélagið látið steypa á grunni gömlu lefoli-bryggjunar. Í Þorlákshöfn gerði Kaupfélagið út 4 stórar trillur og hafnarmannvirki þar bætt. Áhugi var fyrir því að hefja skreiðarframleiðslu og var Guðmundur Jónsson í Einarshúsi nokkuð að skoða þau mál. [Þessi verkunaraðferð var óþekkt hér um slóðir og nú þurfti að finna kunnáttumann í skreiðarfrmleiðslu og trönusmíði, en sandflæmin hentuðu einkar vel til að herða fisk].

 

Síldin kom og síldin fór

 Í byrjun nóvember gekk mikil síld á fiskimið Eyrbekkinga og Stokkseyringa. Árni Helgason í Akri kastaði netum sínum rétt undir Þorlákshöfn og stökk síldin svo í netin að þau fylltust á svipstundu og hafði bátur hans ekki undan að flytja síldina til lands, þó um skamman veg færi. Brátt varð urmull báta um allann Eyrarbakkasjó, en eitthvað fór fiskurinn í manngreiningarálit, því sumir fengu sama og ekkert í netin. [Árni átti gömul og afar þéttriðin net er hann notaði við þessar veiðar og gáfust þau best] Síldin var bæði söltuð og fryst hér og máttu menn hafa sig við að höggva klakann. Brátt varð mönnum ljóst að ekki hafði sjórinn eingöngu síld að geyma, því nú voru hvalir búnir að þefa hana uppi og kepptust við menn um veiðarnar. Meðal síldveiðibátanna sem komu frá öðrum verstöðvum voru "Björgvin" í Sandgerði, "Bjarnarey" í Hafnafirði og "Snyggur" frá Vestmannaeyjum, en leki kom að bátnum á heimleið og varð hann að sigla upp í Ragnheiðarstaðafjörur. Fyrsta lotan stóð í viku, en ný ganga hélt inn í Eyrarbakkabugt viku síðar og á eftir henni floti Eyjabáta. Fjórar trillur og einn stærri bátur héðan þá tóku þátt í síldarslagnum. [Á Eyrarbakka voru saltaðar 530 tunnur, en Stokkseyringar gerðu betur, söltuðu í 1.146 tunnur eftir fyrri lotuna].

 

Seglskipin komu aftur á Eyrar, en verslunarstéttin í Rvík ærist.

Strax á vormánuðum komu hingað tvö seglskip dönsk með vörur fyrir Kaupfélag Árnesinga. Alls komu 7 skip þetta sumar með timbur kol og aðrar nauðsynjar fyrir félagið.[ 4 skonnortur með timbur, 1 skonnorta með 170 tonn af kolum, 2 gufuskip með sement, matvörur og aðrar nauðsynjar. Meðal þessara skipa sem hingað komu voru skonnorturnar "Pax" og "Lydia"] Einarshöfn var þá eign félagsins og lágu vöruskipin þar eins og forðum. [Verslunarstéttin í Reykjavík varð æf og blóðrauð í framan vegna þess að þeir töldu að KÁ  hafi flutti inn byggingarvörur langt fram úr innflutningskvótum, og höfðu í því nokkuð til síns máls] Samgöngur milli lands og Eyja teptust í júlí sökum brims. Sandvarnargarðurinn nýji hefur nú sannað gildi sitt, þar sem sandur er um þessar mundir að hverfa úr höfninni og fjörunni framan við. [Jón Þorláksson gerði upphaflega teikningu að sandvarnargarðinum, og Guðmundur Ísleifsson hvatti einna  mest til framkvæmdanna. Sandvarnargarðurinn er 446 m langur og hálfur metir að breidd efst. Framkvæmdin var í höndum vitamálastjóra sem þá var Th. Krabbe, síðar þetta ár var garðurinn lengdur um 80 metra, en hálfu lægri] Sjógarðurinn var endurbættur fyrir Hraunslandi og lét Landsbankinn framkvæma það verk. [sjógarðurinn í heild sinni er 8 km. langur]

 Kvenfélagið stundar ljóslækningar

 Til félagsins var ráðin heimilishjúkrunarkona til að sinna fátækum heimilum og sjúkum. Ljóslækningar var félagið farið að stunda undir lækniseftirliti og keypti það til þess nauðsynleg tæki. Félagið hafði undangengin tvö ár unnið að skrúðgarðinum [í Einarshafnargerði] ásamt U.M.F.E. [Kvenfélagið var stofnað í mars 1888. en forustusveitina skipuðu Herdís Jakopsdóttir og Elínborg Kristjánsdóttir um þessar mundir.]

 

Báran og Bjarmi í deilum við stjórnvöld.

Formaður beggja vegna borðs, er verkamenn gera friðarsamning.

Verkamenn á Eyrarbakka og Stokkseyri sendu nefnd manna til Reykjavíkur með kröfur um að þeir fengju aðgang að vinnunni við Sogið [Sogsvirkjun]. Árangur af þeirri sendiför mun enginn hafa orðið.  Félagið krafðist þess líka að fangavinna við Suðurlandsbraut yfir Hellisheiði yrði stöðvuð, svo frjálsir verkamenn mættu taka þau störf, en það fór á sama veg. Verkamenn og smábændur sem unnu þá að vatnsveitu á Selfossi mótmæltu einig vinnu fanganna við vegagerðina, en bentu á að formaður verkamannafélagsins á Eyrarbakka væri jafnframt verkstjóri yfir fangavinnunni. Undir þetta tóku verkamenn sem unnu við Sogsbrúnna og þóttu ótækt með öllu að formaður Bárunnar stýrði fangavinnunni fyrir ríkið og stæði þannig beggja vegna borðs í þessari deilu. Um síðir var verkamönnum á Eyrarbakka nóg boðið, en þeir höfðu jafnan unnið við vegavinnu í héraðinu með innansveitarmönnum þar til nú. Fóru þeir fylktu liði á vinnustöðvarnar við Suðurlandsbraut og skipuðu yfirstjórn vegagerðarinnar og verkstjóra fanganna að leggja niður vinnu og var það gert. Stjórnvöld urðu að semja um frið þegar í stað og var samkomulagið þannig: Ríkissjóður veitir fé til atvinnubóta í þorpunum fyrir verkamenn, en þeir geri á móti ekki kröfu um að sitja fyrir vegavinnunni. [Gárungarnir töldu að þessu atvinnubótafé yrði brátt varið til betrumbóta í Þorlákshöfn, en þar réði Kaupfélagið lögum og lofum og þangað voru verkamennirnir kallaðir til vinnu.] Trúlega hefur verkamönnunum á Eyrarbakka brugðið í brún, þegar 20 Reykvískir verkamenn stormuðu hingað austur í Flóann til að vinna í atvinnubótavinnu við "Samyrkjuna" -nýbýlin er átti að reisa við Kaldaðarnesveginn. [Svonefnt Sandvíkurhverfi, og voru sumir verkamannana handan fjalls, tilbúnir til að setjast þar að við samyrkjubúskap, en staðinn uppnefndu Reykvikingar og kölluðu "Síberíu".] Bifreiðastjórar í Reykjavík hófu verkfall 21. desember og lögðu bifreiðastjórar hér á Eyrarbakka einnig niður vinnu þann dag, en verkfallið var mótmæli við hækkun benzínskatssins. Mjólkurbú Flóamanna reindi að koma mjólkinni og jólarjómanum til höfuðstaðarins með mjólkurbíl Kaupfélagsins, en bifreiðin var stöðvuð af verkfallsvörðum ofan Elliðarár. Nýr formaður var kjörinn fyrir Vf. Bjarma, Björgvin Sigurðsson af Samfylkingu.

 

Fangar strjúka og ræna bíl, annar í læri hjá Al Capone

 Holræsi lét ríkið byggja til að framræsa fyrirhugað ræktunarland vinnuhælisins að Litla-Hrauni. (Holræsið er 205 m langt og 0,75 m vítt að innanmáli, úr steinsteyptum pípum sömu gerðar og Skúmstaðaholræsið sem byggt var 1929). Fangavinna var einig við vegavinnu, t.d. voru fangar af Hrauninu látnir vinna við gerð Suðurlandsbrautar. Um sumarið tókst þrem föngum að strjúka með því að saga rimla úr glugga og héldu tveir þeirra upp í óbyggðir. Höfuðpaurinn Vernharður Eggertsson átti ævintýranlegan brotaferil í Ameríku [Var sagður í flokki Al Capone og sat um tíma í hinu alræmda fangelsi "Sing-Sing"] og héldu þau ævintýri áfram þegar heim var komið. Vernharður hélt dagbók um afbrot sín en tapaði henni á flóttanum. Fanst sú bók á Kárastöðum og var henni komið í hendur yfirvalda. Þriðji fanginn náðist í Reykjavík ofurölvi. [Töldu gárungarnir á Bakkanum að nú væri réttast að loka þá úti!-Eitt sinn var haft eftir dönskum sprúttsala sem sat inni á Hrauninu að vistina þar mætti líkja við dvöl á hressingarhæli og fæðið ekki síðra en á dönskum herragarði.] Hugmyndir voru að byggingu 40 kúa fjósi við Litla-Hraun um þessar mundir.

 

"Rauðka" sækir Bakkann heim

Skipulagsnefnd Atvinnumála [kölluð "rauðka" af sjálfstæðismönnum] sótti Bakkann heim og könnuðu lönd til kaups sem voru í eignarhaldi Landsbankanns. Sat nefndin fund með hreppsnefndarmönnum af Eyrarbakka og Stokkseyri, en oddvitar þeirra voru Sigurður Kristjánsson Eb. og Sigurgrímur Jónsson í Holti Stk. Leizt nefndinni vel á að rækta kartöflur í stórum stíl á umræddum löndum. Fleiri sóttu Bakkann heim, svo sem félag ungra jafnaðarmanna í Rvík.

 

Stofna á samyrkjubú og nýbýlahverfi við Eyrarbakka og Stokkseyri

Frumvarp var í smíðum, sem gerði ráð fyrir að gerð yrði tilraun til stofnunar nýbýla-og Samyrkjuhverfis á löndum þeim í Flóanum sem ríkið hafði nú keypt af Landsbankanum. Um sumarið hófust framkvæmdir við ræstingu lands í hinu fyrirhugaða nýbílahverfi, í svokallaðri "Síberíu" í Sandvíkurhreppi.

 

Sýslumaðurinn yfirgefur bændaflokkinn og gerist útkastari í Tryggvaskála

Magnús Torfason sýslumaður hér og alþingismaður ákvað að hætta samstarfi við Bændaflokkinn, í kjölfar þess að á bændafundi í Tryggvaskála var skipuð 3ja manna nefnd til þess að tala vinsamlega við sýslumann [Átti að hlýðnast íhaldinu]. Hélt sýslumaður þá um vorið sinn eginn stjórnmálafund í Tryggvaskála. Íhalds og Bændaflokksmenn úr Reykjavík fjölmenntu þá í Tryggvaskála og fylgdi þeim mikill skríll úr bænum. Tók Magnús til sinna ráða og henti einum óróabelgnum [Axeli Þórðarsyni] út með egin hendi, sem flaug út um dyrnar eins og vængi hefði. [Magnús hafði áður verið fyrir Framsókn, en ekki líkað vistin.]

Um sumarið var svo haldinn stjórnmálafundir á Eyrarbakka og víðar um héruð. Virtist sem Íhaldið væri á hröðu undanhaldi í gervallri sýslunni. Á Stokkseyri mætti enginn á boðaðan fund Íhaldsins og var honum aflýst.[Ferming var á Stokkseyri þennan dag] Margt manna beið hinsvegar fundarins á Eyrarbakka og þar tók Jakop Möller til máls fyrir íhald og lýsti því yfir að bretar ásældust Ísland og miðin allt um kring. Sigurður Einarson fyrir allaballa, talaði um spillingu íhaldsins. Fleiri tóku til máls, svo sem Egill Thorarensen sem hafði mjólk efst í huga og Einar Olgeirsson talaði fyrir komma og öreiga alla. [Það vakti eftirtekt þegar 20 manna sveit jafnaðarmanna gekk um göturnar á Bakkanum þennan dag í bláum skyrtum undir rauðum fánum. Má ætla að sumir hefðu ráðið að þar væru skátar á ferð]. Sjálfstæðismenn héldu flokksfundi á Eyrarbakka og Stokkseyri um haustið og af innansveitarmönnum tóku til máls Friðrik Sigurðsson á Gamla-Hrauni, Lúðvík Norðdal læknir og Björn Blöndal Guðmundsson.

 

Sjómaður frá Eyrarbakka skotinn á kvikmyndasýningu í Vestmannaeyjum.

Bjarni Bjarnfinnsson sem stundað hafði sjó frá Vestmannaeyjum í vetur, hafði brugðið sér í bíóhús þar í bæ til að horfa á kvikmynd. Fimmtán ára piltur dró þar upp skammbyssu og særði tvo menn. Bjarni var annar þeirra og fékk hann skotið í brjóstið aftan til á síðunni og var hann þegar fluttur til Einars Guttormssonar læknis sem skar eftir kúlunni sem lá allnærri hjartanu og náðist hún. Varð Bjarni strax svo hress að hann gat farið í bíóið aftur.

 

Af öðrum Bakkamönnum: Sigurjón Ólafsson myndhöggvari getur sér frægðar erlendis. Vigfús Guðmundsson frá Haga safnar ritum til sögu Eyrarbakka, sem ekki er þó lokið um þessar mundir.

 

Leggur til að byggður verði alþóðaflugvöllur í Kaldaðarnesi

Fréttaritari "Daily Herald" Harold Butcher í New York viðrar þar hugleiðingar sínar um framtíðar flugsamgöngur yfir Atlantshafið, þar sem landflugvélar verða notaðar og Ísland yrði miðstöð flugsamgangna yfir N-Atlantshaf. Harold var hér á ferð þetta sumar að kynna sér landið og taldi hann að Ísland ætti góða möguleika á að verða ferðamannaland í framtíðinni. Í grein sinni í "Daili Herald" bendir hann á að í Kaldaðarnesi væri fyrirtaks flugvallarstæði. [Um þessar mundir áttu íslendingar engann flugvöll sem gat tekið á móti stórum landflugvélum á leiðinni milli Íslands og Bretlands, en tvö flugfélög gátu haslað sér völl á þessari leið, annarsvegar breska félagið "Imperial Airways" og hinsvegar ameríska félagið "Pan American Airways"]

 

Látnir: Arnbjörg Guðmundsdóttir (76) Eiði-Sandvík. Gunnar Einarsson (77) á Hópi. Sláttumaður framúrskarandi var hann, en heilsutæpur og lifði við lítil efni á efri árum. Kona hans var Guðrún Jónsdóttir og áttu eina dóttur, Jónínu á Stóru-Háeyri. [Hún og maður hennar Anton Halldórsson briti, bygðu það hús sem nú er kennt við Háeyri.] Jakop Jónsson (77) bóndi í Einarshöfn. [Jakop byggði Einarshöfn, 1913 er nafn hans er ritað á framhlið] Hróbjartur Hróbjartsson (76) í Simbakoti [f. í For Rang.1858] Hann var stórvaxinn og rammur að afli. Hann stundaði sjómennsku og heyskap og síðar lítinn fjárbúskap. Kona hans var Bjarghildur Magnúsdóttir frá Oddakoti V-Landeyjum og áttu þau 5 börn. Erlendur Jónsson (?) Litlu-Háeyri. Jakop Sigurðsson Steinsbæ (0). Eiríkur Ásbjörnsson (0) Háeyri.

 

 

Eyrbekkingar fjarri: Guðmundur Guðmundsson (Gvendur Gamli) í Washington Harbour Wisconsin. Hann var formaður fyrir skipi aðeins 19 ára og sjóhetja á Eyrarbakka, en auk þess fyrsti og elsti íslenski landnámsmaðurinn í USA frá því að vesturferðirnar hófust, en hann var einn fjögra manna sem lögðu upp frá Eyrarbakka 1870 vestur um haf. Hann var fæddur á Litla-Hrauni 8.7.1840 Foreldrar hans voru Guðmundur Þorleifsson og Málmfríður Kolbeinsdóttir, systir Þorleifs ríka á Háeyri. Kona Guðmundar var Guðrún Ingvarsdóttir frá Mundakoti og settust þau að á Washingtoneyju á Michicgan vatni. Jónína Steinsdóttir skipasmiðs frá Steinsbæ. Hún átti heima í Reykjavík [Seljavegi11]. Ólafur Árnason, frá Þórðarkoti,[fyrrum Sandvíkurhr.] en hann dvaldi á Elliheimilinu í Reykjavík. Kona hans var Guðrún Gísladóttir. Dethlef Tomsen konsúll í Dk. Árin 1883-1885 var hann á Eyrarbakka hjá Guðmundi Thorgrímsen verslunarstjóra. Steinn Guðmundsson kaupmanns Guðmundssonar á Selfossi, bjó og starfaði í Reykjavík. Bjarni Vigfússon járnsmiður er bjó hér á Eyrarbakka um 7 ára skeið, en hann var faðir Vigfúsínu í Garðbæ. Ingibjörg Sveinsdóttir í Reykjavík, en hún var frá Grímsstöðum Eyrarbakka.

 

 

Ofsaveður og Bakkinn ljóslaus

 Mikið ofsaveður gerði í byrjun febrúar 1935. Fauk þá þakið af Garðbæ og af hlöðu. "Byrgið" [saltgeymsluhúsið] brotnaði og fauk þakið af því yfir rafstöðina og lenti á ljósastaur sem bar uppi rafleiðslur frá stöðinni og brotnaði hann svo að slitnuðu allar raftaugar og Bakkinn varð því ljóslaus allt kvöldið. Margvíslegt tjón varð víða um sýsluna í þessu veðri, svo sem á Selfossi brotnuðu 11 símastaurar og á Stokkseyri fauk bílskúr. Með vorinu gerði öndvegis tíð á Eyrarbakka svo jafnvel elstu menn urðu svo brúnir á hörund sem aldrei fyr en sumarið var þó síðra, kuldatíð, rigningar og brim í júlí. Stelkur sást á Eyrarbakka 13. apríl og sandlóa 14. apríl. Í oktober fundu menn hér í tvígang snarpa jarðskjálftakippi.

 

Stokkseyringar halda sundmót.

Íþróttastarf var öflugt á Stokkseyri og hélt ungmennafélagið þar íþróttahátið og sundmót sem fór fram við "Gálgakletta", en 13 ungmenni tóku þátt. Knattspyrnukvikmynd var sýnd á Stokkseyri og var gerður góður rómur að uppátæki þessu, en Þýska Knattspyrnusambandið gaf Í.S.Í myndina.

 

 

Heimild: Alþýðubl. Búnaðarrit, Heimskringla, Hlín. Morgunbl. Nýji Tíminn, Nýja dagbl. Óðinn, Samvinnan, Skutull, Tíminn, Veðráttan, Verkalýðsblaðið, Vísir, Ægir.

Flettingar í dag: 2087
Gestir í dag: 189
Flettingar í gær: 489
Gestir í gær: 178
Samtals flettingar: 266414
Samtals gestir: 34326
Tölur uppfærðar: 24.11.2024 10:12:44