04.12.2013 20:54

Sú var tíðin, 1932


Um þessar mundir var kreppan að herða tökin á landinu, eins og um víða heimsbyggðina, en fyrir Eyrbekkinga skipti þar ekki öllu, því allt var hvort sem er í kalda koli í atvinnulífi þorpsins og hafði svo verið um hríð, eða frá því að verslunarveldið á Bakkanum fjaraði út. Íbúar í Eyrarbakkahreppi voru þá um 600 manns. Mjög var horft til ræktunarmála Eyrarbakkahrepps, en þorpið stóð þar fremst kauptúna í allri ræktunarstarfsemi. Ræktarland tilbúið til sáningar var á þessu vori 43ha. Hreppurinn hafði til umráða 2.249 ha land, en mest af því var í eigu Landsbankanns og leigt heimamönnum, húseignir margar voru einnig komnar undir bankann og stóðu sumar þeirra auðar. Ræktunarmálunum stjórnaði Haraldur Guðmundsson frá Háeyri, en til ráðgjafar var Guðjón A Sigurðsson Eyrarbakka og Ásgeir L Jónsson mældi fyrir skurðum. Hér við ströndina voru framleiddar um 1000 tunnur af kartöflum árlega og gulrætur voru í vaxandi mæli ræktaðar hér. Landbúnaður var nú um stundir aðalatvinnugrein þorpsbúa. Eyrarbakkahreppur þurfti að greiða 3000 kr. í vexti af lánum auk 2000 kr. í afborganir árlega sem hélt hreppnum föstum í "skrúfstykki" þannig að ekkert var afgangs til framkvæmda og atvinnusköpunar. Aðeins tveir vertíðarbátar gengu frá Eyrarbakka í upphafi vertíðar en frá Stokkseyri gengu 6 bátar. Bátarnir sóttu vestur í Selvogssjó, en þar var mokafla að hafa. Það voru þeir Árni Helgason og Jón Helgason sem gerðu út þess mótorbáta héðan. Árni stundaði aðalega síldveiðar en Jón fiskveiðar og gekk þeim báðum vel. Þegar á leið taldi útgerðin 3 mótorbáta og 2 róðrabáta. (vertíðarafli 765 sk.p.) Sölvafjörur voru ávallt nýttar á Bakkanum og frekar nú í atvinnuleysinu verkuðu menn sölina til fæðubótar.

Skipakomur: "Súðin" kom hér með áburð til bænda, en ekki tókst að losa sökum brims og hélt það á brott.

Báran: Félagið átti fund með Rússlandsförum nokkrum og töluðu þeir fyrir fullu húsi um ferð sína þangað austur. Verkamönnum þótti ljósagjöldin of há og kröfðu hreppinn lækkunar, enda fátt um vinnu og kreppa alsráðandi. Fundir Bárunnar voru iðulega vel sóttir og oft 100 manna samkomur. Kröfur Bárunnar voru beittar þetta árið og oft bornar upp af Kommunistum í samræmi við frumvarp flokksins um atvinnuleysistryggingar og 8 stunda vinnuviku svo dæmi sé tekið. Atvinnulausir á Eyrarbakka voru 61 eða liðlega 10% íbúa. Þar af voru fjölskildufeður 27 með 56 einstaklinga á framfæri. Meðaltekjur verkafólks munu hafa verið liðlega eittþúsund krónur á ári. Formaður Bárunnar um þessar mundir var Einar Jónsson bifreiðastjóri í Túni. Þegar hús hans brann fórust allar fundagerðabækur félagsins í eldinum. Eftir brunann flutti Einar til Reykjavíkur, en þá hafði hann mist konu sína.

Pólitík: Sjálfstæðismenn um 20 stofnuðu með sér félag hér, en fyrir var félagsskapur ungra sjálfstæðismanna  F.U.S.E. með 34 félagsmenn. Í kommunistaflokki Eyrarbakka voru nú 25 verkamenn, eða jafn margir og í félaginu á Akureyri.

Heilsufar: Skarlatsótt kom hér upp og á Stokkseyri um sumarið og var setti sýslumaður á samkomubann í kjölfarið til að hefta útbreiðslu sóttarinnar. Gekk þá ekki þrautalaust fyrir Leikfélag Reykjavíkur sem hugðist setja hér á fjalirnar  farandsýninguna "Kallinn í Kassanum" um sumarið. En loks síðsumars þegar banninu var aflétt beið leikfélagið ekki boðanna og kom hingað austur. Eitt tilfelli af taugaveiki kom hér upp í byrjun vetrar og annar veiktist af skarlatsótt.

Látnir: Guðrún Jónsdóttir (91) vinnukona að Gistihúsi (Gunnarshúsi). Þórarinn Bjarnason (89) að Nýjabæ Eb. Guðmundur Jónsson (75) frá Skúmstöðum. Guðrún Sigmundsdóttir (71) frá Litlu-Háeyri. Þorgerður Jónsdóttir frá Einarshúsi. Ingunn Sveinsdóttir (66) frá Vorhúsum, en hún var gift Guðmundi Jónssyni. Þórður Þórðarsson (62) að Laufási Eb. Páll Pálsson (64) frá Skúmstöðum. Sigríður Árnadóttir (59) að Túni (Frá Hóli V-Le). Kristín Jónsdóttir (57) að Brennu. Halldóra Bjarnadóttir (31) í Túni, hún var kona Einars Jónssonar bifreiðastjóra þar. Hús þeirra brann til kaldra kola skömmu áður.  Hjörtur Þorbjarnarson frá Akbraut (26). Hann var háseti á togaranum "Þórólfi" og lenti í vírnum og limlestist svo á kálfa svo taka varð fótinn af og var það gert á Landakoti. Leiddi það til ígerðar og sótthita að ei varð við ráðið. Hann var sonur Elínar Pálsdóttur og Þorbjarnar Hjartarsonar. (Þetta slys varð til þess að vekja athyggli á afleiddum aðstæðum togarasjómanna og slysahættunni um borð í nýsköpunartogurunum.) Jón Þórðarson (24) kennaranemi, Jónssonar frá Regin (kendur við Bjarghús). Baldur Anton Antonsson (3), barn Jónínu Gunnarsdóttur og Antons V Halldórssonar á Háeyri. Stúlka Árnadóttir (0) apotekara. Tvíburastúlkur Bjarnadætur (0) að Steinsbæ.

Eyrbekkingar fjarri: Eggert Bjarnason (26) bankaritari og formaður F.U.J í Reykjavík. af veikindum. Hann var sonur Hólmfríðar Jónsdóttur (ættuð úr Þorlákshöfn) og Bjarna Eggerts búfræðings á Tjörn Eyrarbakka. Eggert var jarðsettur hér á Eyrarbakka. Ólafur Bjarnason söðlasmiður, en hann bjó nú í Reykjavík. Eíríkur Pálsson (72), hjá dóttur sinni í Reykjavík. Hann var frá Eiríksbæ (Þurrabúð í Litlu-Háeyrarhverfi). Hann var jarðsettur hér. Lúðvik Schou Emilsson (34) dó úr heilablóðfalli í Reykjavík. Hann var frá Stöðvarfirði  en búsettur í Nýjabæ Eb. og jarðsettur hér. Margrét Jónsdóttir kona Samúels Jónssonar trésmiðs er lengi bjó á Bakkanum en síðan Reykjavík. Sigríður Sigurðardóttir (1) að Höfn Selfossi.

Af Eyrbekkingum: Á föstudeginum langa brann húsið Tún til kaldra kola. Þar bjó Einar Jónsson bifreiðastjóri. Eldurinn braust út með þeim hætti að olíuvél (prímus) sem logaði á datt niður stiga og sprakk. Einar hafði nýlokið við að hita sér kaffi á vélinni og ætlaði síðan að flytja hana inn í herbergi til upphitunar fyrir háttinn, en með þessum afleiðingum. Svo illa vildi til að í þessum bruna fóru fundargerðabækur verkamannafélagsins Bárunnar forgörðum. Þá brann austurbærinn á Litlu-Háeyri til kadra kola um miðja nótt. Ferðamaður sá eldinn og vakti fólkið, en þar bjó Guðjón Jónsson formaður með fjölskyldu sína. Talið er að eldurinn hafi átt upptök sín í gömlu hlóðareldhúsi sem var áfast við bæinn, en hann hafði verið byggður upp nokkrum árum áður. Jón Helgason átti mótorbátinn "Freyr" og gerði hann bátinn út frá Sandgerði fyrri hluta vertíðarinnar, en á leið þaðan til Eyrarbakka bilaði mótor bátsins og var hann dreginn til Hafna, en þá var farið að óttast um hann. Öðru sinni á sumarveiðum komst "Freyr" ekki til lands sökum brims og var þá farið að grenslast fyrir um bátinn, sem fanst þó ekki. Daginn eftir kom hann fram í Vestmannaeyjum.

Sóttu Bakkan heim: Félagar í Ung-kommunistahreyfingunni F.U.K sóttu Bakkann heim, hátt á annað hundrað. Það gerðu líka meðlimir félags matvörukaupmanna er komu hingað í skemtiferð á 11 bifreiðum. Þá komu í skemmtiferð hingað 40 peyjar og meyjar í Ungliðahreifingu sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum. Ritstjóri trúarritsins "Norðurljósins" Artur Gook hélt hér trúarsamkomu. Eitt hús steinsteypt byggði Guðjón Jónsson að Litlu-Háeyri þetta ár.

 Heimild: Alþýðubl. Alþýðumaðurinn, Búnaðarrit, Heimdallur, Jörð, Morgunbl, Norðurljósið, Tíminn, Verkamannabl. Vísir, 1.maí Reykjav

Flettingar í dag: 2163
Gestir í dag: 191
Flettingar í gær: 489
Gestir í gær: 178
Samtals flettingar: 266490
Samtals gestir: 34328
Tölur uppfærðar: 24.11.2024 11:10:52