20.10.2013 23:26
Sú var tíðin 1928
Alþýða þorpsins uppgötvaði skyndilega að
borgarastéttin var nærri með öllu horfin á braut og nú yrðu þurrabúðarmenn,
bændur og vermenn að byggja þorpið upp á sínar eigin spítur, sem ekki voru
margar. Sýslumaðurinn, læknirinn og presturinn voru einna helst þeir
æðristéttarmenn sem enn tórðu á Bakkanum. En á meðan deildu þingmenn á Alþingi
um það, hve hentugt eða óhentugt væri að taka Eyrarspítala undir letigarð og
hegningarhús fyrir vesalinga og húðlata götukarla höfuðstaðarins. Það var við
ramman reip að draga hjá verkafólki sem bjó við lág laun og minni vinnu en fyr.
Vegavinna og brúargerð fjarri heimahögum var þá helst í boði. Sendinefnd frá
Verkalýðsfélögunum héðan héldu til Reykjavíkur til að herja út kjarabætur við
vegavinnu í sýslunni. Einn róðrabátur var enn gerður út á Eyrarbakka auk mótorbáta.
Afli var þó hálfu minni en Stokkseyrarbáta. Þorpsbúar kepptust um að rækta
hinar heimsfrægu Eyrarbakkakartöflur fyrir Reykvíkinga í harðri samkeppni við
innfluttar danskar, Akraneskartöflur og Eyvindarkartöflur (skoskar-Kers Pink).
Verslun: Litlu búðirnar lifðu ágætu lífi nú þegar
sunnlensku verslunarrisarnir voru fallnir.
Á Stokkseyri
var verslunin "Brávellir" er jón Jóhannson átti, en keppinautur hans þar var
Ásgeir Eiríksson. Á Bakkanum var timburverslun Sigurjóns, Ólabúð og Laugabúð.
Menning: Mikil gróska var í starfsemi
ungmennafélagsins sem hélt upp á 8 ára afmæli um þessar mundir (stofnað 5. mai
1920, en löngu fyr hafði verið til um nokkur ár álíka félag er P. Nielsen
stýrði) og sömu sögu var að segja af félagslífi alþýðfólks á Eyrarbakka og
Stokkseyri. Verkamannafélögin "Báran" (form. Einar Jónsson) og
"Bjarmi" (form. Zóphónías Jónsson) héldu uppi góðri samvinnu sín á milli í
félagslífi þorpana. Aðalsteinn Sigmundsson skólastjóri þýddi barna bókina
"Njáls saga þumalings" (Nils Holgersons underbara resa) eftir Selmu Lagerlöf.
Kvenfélagið hélt upp á 40 ára afmæli sitt, en það var stofnað 31. mars 1888. Þá voru stofnaðar deildir Slysavarnarfélagsins bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri þetta ár (1928).
Hilsufar: Heilsa var almennt með ágætum á Suðurlandi
og helst Kvefsótt sem hrjáði.
Látnir:
Ingibjörg Sigurðardóttir (84) frá Haustúsum. Ólafur Snorrason (84) þurrabúðarmaður frá
Einarshöfn. Guðrún Sveinsdóttir (78) frá Brennu. Einar Jónsson (68) þurrabúðarmaður Traðarhúsum.
Jón Guðbrandsson (61) skósmiður í Sandvík.
Guðmundur Álfur Halldórsson (31) sjómaður,
úr Reykjavík. Sigurbergur Þorleifsson (13) frá Einkofa. Sigurður Vilbergsson Haga
(0) Sveinbarn Vilbergsson (0) frá Skúmstöðum.
Eyrbekkingar fjarri: sr.Eggert Sigfússon (88) trésmiðs
(Fúsa snikkara) og Jarðrúðar Magnúsdóttur á Skúmstöðum. Guðrún Jónsson (82)
Whasington Island. Faðir hennar var danskur og hét Ruut en móðir Íslensk.
Sýslan og sveitin: Kaupfélag Grímsnesinga fekk vörur
með skipi út á Eyrarbakka. Umboðsmaður þess á Eyrarbakka var Jón B Stefánsson á
Hofi. Mjólkurbú voru Flóamenn að stofna. Í Flóahreppunum voru á 11. hundrað kýr
mjólkandi, en dagleg mjólkurneysla á Eyrarbakka og Stokkseyri var ¾ litir á
mann að meðaltali.
Tíðarfarið: Meðalhitinn í janúar var -1,3°C og -0,5 í
febrúar, snjór var mikill og færð ill. Þennan vetur voru óvenju fáir hrafnar á
Bakkanum. Meðalhiti í maí var 8,6°C.
Sandkorn: Þann 30 september 1928 stofnuðu konur úr Sunnlendingafjórðungi, Samtök Sunnlenskra Kvenna. (S.S.K.) Forgöngukona fyrir þessum samtökum var Halldóra Bjarnadóttir þá búsett í Reykjavík. Undirbúningsfundur var haldinn á Selfossi 5 maí þetta ár og samtökin síðan stofnuð formlega þá um haustið. Í fyrstu stjórn samtakana voru: Formaður, Herdís Jakopsdóttir Eyrarbakka.- Ritari, Guðrún Sigurðardóttir Stokkseyri. - Gjaldkeri: Jarþrúður Einarsdóttir Eyrarbakka.
Heimildir: Hlín, Morgunbl. Vísir, Alþýðubl.Lögberg,
Lögrétta, Heimskringla,Tíminn, Fálkinn,
Búnaðarrit