29.09.2013 22:59
Álfar og Huldufólk.
Fyrr á öldum hófst landnám álfa og huldufólks á Eyrarbakka og var byggð þeirra nokkuð víðfem um lönd þorpsins á 18 og 19. öldinni, en a.m.k tíu álfaheimili eru þekkt enn í dag. Sumir telja að íslensku álfarnir séu náskyldir hinum færeysku álfum, þó er ekki vitað með neinni vissu hvernig og hvaðan þeir bárust hingað, en álfatrúin hefur þó lifað lengi með þjóðinni. Álfar eru ósýnilegt fólk sem birtast aðalega í draumi, eða við sérstakar aðstæður og búa þeir yfirleitt í hólum eða klettum. Á Hulduhóli í landi Steinskots er bústaður álfa, en sagt er að álfar geti orðið mörghundruð ára gamlir. Simbakotshóll var álfabústaður í eina tíð og er sú þjóðsaga um hann, að strákur einn hafi tekið upp á því, að reka staf svo langt sem hann gat inn í hraunglufu, sem var á hólnum. Nóttina eftir vitjaði álfkona móður sveinsins í draumi og lagði fast að henni að vanda svo um við son sinn, að hann hætti þessum óvanda, gerði hún það eftir megni, en kom þó fyrir ekki, því strákur færist heldur í aukana, gengur svo þrisvar sinnum, en í hið síðasta sinn er álfkonan kom til móðurinnar er hún reiðilegust og segir, að nú hafi svo illa til tekist, að sonur hennar hafi meitt barn sitt með stafnum og skuli hann fyrir það aldrei ná þeim þroska, sem honum sé ætlaður og bera alla æfi sína merki heimsku sinnar og óhlýðni. Hermir þjóðsagan svo frá, að strákur hafi náð Iitlum þroska, orðið haltur og bægslaður og hinn mesti ólánsmaður.
Í Medíuhól vestan
Álfstéttar bjuggu álfar fyrr á tímum. Fyrir neðan hann var staraflóð er
nefndist Medíuflóð, segir
ein þjóðsagan, að nýgiftur bóndi frá Steinskoti, hafi spýtt frá sér í allar
áttir yfir þeim bábiljum og kerlingaþvaðri er af því gengu, að ekki mætti slá
flóðið og ýmsum öðrum álögum staðanna og vísað því öllu norður og niður, haldið
svo einn góðan veðurdag til flóðsins með orf og ljá um öxl og slegið flóðið, en
við sláttinn hafi hann skyndilega veikst og dregist heim með veikum burðum og
síðan aldrei meir á fætur stigið.
Í Skollhól við
Hjalladæl er trúlega enn bústaður álfa, en um hann er sú þjóðsaga, að strákur
frá Eyvakoti, hafi haft þar í frammi ærsl mikil, þess vegna hafi álfkona komið
til móður sveinsins í draumi og beðið móðurina, sem hét Guðrún, að sjá um að
sonur hennar legði niður ferðir sínar á hólinn, því annars muni hann sjálfa sig
fyrir hitta. Vandar nú Guðrún um við son sinn og leggur ríkt á við hann að koma
aldrei framar á Skollhól. Ekki er þess getið að hann héti móður sinni neinu
góðu um það, en skamma stund mundi hann skipan hennar, því fám dögum síðar fannst
hann dauður norður á Skollhól og var nálega brotið í honum hvert bein.
í Gunnhildarhól á
Háeyrartúni bjuggu álfar, en ekki fara sögur af samskiptum þeirra við menn.
Í landi Hrauns neðan þjóðvegar eru hólarnir, Strokkhól, Miðmorgunshól og Krókhóll
er voru bústaðir huldufólks og í eina tíð heyrði fólk þar rokkhljóð og
strokkhljóð og sá loga þar ljós á kvöldum.
Í Litla-Hraunsstekkum
búa álfar og flóðið þar mátti ekki slá því það var engi huldufólksins í
Litla-Hraunsstekk. Er sú saga sögð, að Gísli Einarsson á Litla-Hrauni, hafi
einu sinni slegið flóðið. Gísli átti þá tvær kýr, var önnur tímalaus, en hin
snemmbær. Seint um haustið ætlaði Gísli að slátra tímalausu kúnni og fór með
hana út á Bakka til þess, en þegar búið var að slátra kúnni, kom í ljós, að
hann hafði tekið snemmbæruna í misgripum og mátti sjá á kálfinum, að kýrin var
komin að burði. Eitt
sinn tók Gísli Gíslason á Hrauni einn stein úr hólnum. Fótbrotnaði þá hryssa er
hann átti og festi fótinn í holu, og varð að skera hana á staðnum þar sem
fóturinn náðist ekki upp úr. Var þó fóturinn laus um leið og búið var að skera
hana. Jónas Halldórsson í Borg, hafði eitt sinn reynt það að taka starartuggu
úr flóðinu, er kýr veiktist og gefið henni það, og brást þá varla að henni
batnaði.
Í Landi Skúmstaða norður af Einarshafnarhverfi, rétt norðan
við þorpið, er lítill strýtumyndaður grjóthóll, sem heitir Katthóll og er hann bústaður álfa, en fyrir norðan hann er flóð,
sem heitir Katthólsflóð. Enginn mátti slá flóðið og börnum var stranglega
bönnuð öll ólæti við hólinn. Sagan segir að þegar Guðmundur kaupmaður á
Eyrarbakka rak búskap með versluninni lét hann slá flóðið. Tvö fyrstu árin
missti hann sinn stórgripinn hvort árið. Þriðja árið lét hann slá tjörnina, en
þá dó Jónína dóttir hans. Hætti hann þá búskap og sigldi.
Í landi Óseyrarnes í svokallaðri Nautagirðingu eru Skollhólar og átti þar að vera álfakirkja
og hvíldi mikil helgi á þeim.
Efst og austast í Háeyrarlandi er
Vestri-Blakktjörn. Gömul munnmæli eru um að í henni sé nykur annað hvert ár, en
hitt árið sé hann í Traðarholtsflóði.
Heimild:
Eyrarbakki.is (Þjóðsögur Jóns Árnasonar og Guðna Jónssonar) http://sagnagrunnur.razorch.com.