23.03.2013 22:00
Sú var tíðin, 1922
Íbúar í Eyrarbakkahreppi voru árið 1922 samtals 945. Hafði fjölgað um 15 manneskjur frá fyrra ári, en það var fækkunnar ár. Bryggjugerðarmálin voru í brennideppli, enda löndunarskilyrði fyrir mótorbátana afleitar. Alþingi samþykkti 16.000 kr. styrk til bryggjugerðarinnar. Sjúkrahúsið* var nú í byggingu og vonir stóðu til að starfsemi þess gæti hafist að ári, enda þörfin brýn. Hreppsnefndarkosning fór fram á árinu og má segja að verkamannafélagið "Báran" hafi verið kosin, eða þeir Bjarni Eggertsson formaður félagsins, Einar Jónsson sem var ritari fyrir verkamannafélagið og Tómas Vigfússon. Þá var kosið til Alþingis og á Eyrarbakka greiddu 128 kjörgengir atkvæði**. Á Stokkseyri 98 og í Sandvíkurhreppi 39 og aðeins 30 í Ölfusi, en þar voru 150 manns á kjörskrá. Fram buðu 5 listar.
[*Sjúkrahúsið átti að heita "Eyrarspítali" og var Eyrarbakkahreppi fært það til eignar og reksturs af sýslunefnd haustið 1922. Það kom þó aldrei til þess að sjúkrahúsið tæki til starfa eins og til stóð. Fé var veitt úr sýslusjóði 1923, til að ljúka gerð þess en Eyrarbakkahreppur hafði ekki fjárhagslegt bolmagn til að hefja rekstur í húsinu á egin reikning og pólitísk sátt um ríkis-eða sýslufé til rekstrarins ekki fyrir hendi. Málgagn Samvinnumanna "Tíminn" skrifaði mjög harkalega gegn þessu framtaki Sunnlendinga því væntingar stóðu til að hefja byggingu Landspítalans í Reykjavík um þessar mundir og átti sá spítali að uppfylla þarfir Sunnlendinga fyrir sjúkrarúm er til kæmi. "Eyrarspítali" varð síðar fangelsi.] ( "Tíminn" gerði einnig harða atlögu að Sparisjóði Árnssýslu í skrifum sínum.)
[**D-listi Íhaldsmanna
vann kosningarnar á landsvísu, þá B-listi Samvinnumanna, C-listi kvennaframboð
sem kom að manni (Ingibjörgu H. Bjarnason), A-listi verkamanna og E-listi, hægra
sinnað framboð rak lestina.]
Útgerðin: Aflabrögð sögð góð hér við ströndina í byrjun
vertíðar og uppgripa afli er á leið. Tilraunir voru gerðar hér með snurrvoð (snurrevaad),
en þær veiðar þóttu ekki borga sig. Afli mest steinbitur og koli. Um haustið
aflaðist vel og dag einn komu 21.000 fiskar að landi. Það var kallað "Mokfiskirí".
Skipaferðir: Hingað á Eyrarbakka og Stokkseyri kom Es.
Gullfoss að taka ull, í stað Es. Suðurlands sem hafði verið í slipp um langan
tíma. Ekki er getið um önnur skip hingað þetta sumar.
Verslun: Kf. Hekla og Kf. Ingólfi, héldu enn velli þrátt fyrir erfiðleika ýmiskonar. Nú var orðið erfiðara um aðföng og fluttningar dýrir þegar skip fengust
ekki til að sigla til Eyrarbakka, beinustu leið, eins og fyrum. Samkeppni var
einnig mikil við litlu búðirnar, bæði hér og við Selfoss og síðan einkaleyfisverslun
sem ríkið var að koma á með ýmsar vörur. Kaupmenn sumir, hér og á Selfossi
freistuðust til að halda í góða kúnna með því að veita þeim áfengi, en það var
einkar illa séð af Templaramönnum.
Samgöngur: Bifreiðaferðir milli Reykjavíkur og Eyrarbakka
voru u.þ.b. þrisvar í viku fyrst um sinn en daglega er á leið sumarið. Um
farþega á þessari leið kepptu tveir aðilar: Bifreiðastöð Steindórs Einarssonar
og Bifreiðastöð Reykjavíkur, en fyrir þá ók Eyrbekkingurinn Steingrímur Gunnarsson.
Félagsmál: Samkomuhúsið Fjölnir var vinsæll og fjölsóttur
fundarstaður fyrir hin ýmsu málefni sýslunnar. Verkamannafélagið "Báran" á
Eyrarbakka samþykkti eftir 5 klst. fundarhöld að ganga inn í Alþýðusamband
Íslands og sömu leiðis gerði verkamannafélagið "Bjarmi" á Stokkseyri eftir 6
tíma fund. Félagar í "Bárunni" voru þá 150 talsins og 110 félagar í "Bjarma". Í
fiskideildinni "Framtíðin" á Eyrarbakka sátu: Guðmundur Ísleifsson óðalsbóndi á
Stóru-Háeyri. Bjarni Eggertsson, búfræðingur Eyrarbakka. Sigurjón Jónsson,
útvegsmaður Eyrarbakka. Oddviti Eyrarbakka var Guðmundur Jónsson. Á Bakkanum
birtust pólitískar kanónur snemma sumars í kosningasmölun, * annarsvegar
Moggamennirnir Jón Magnússon fv. forsetisráðherra og Magnús Guðmundsson, fv. ráðherra
og fimm manna her Alýðuflokksins, þ.á.m. Þorvarður Þorvarðsson og Ottó
Þorláksson.
[* Fyrr á árum skipuðu
Eyrbekkingar sér í tvær fylkingar, annarsvegar "Austurbekkinga" er fylgdu gjarnan
Háeyrarbóndanum að málum og "Vesturbekkinga" er oft fylgdu Lefolii gamla að
málum, en þessir höfðingjar elduðu stundum grátt silfur út af skipalegunni á
meðan þeir réðu hér ríkjum. Nú skipuðust fylkingar á annann veg, enda hagsmunirnir
aðrir. "Íhaldsmenn" er gættu sinna hagsmuna í verslun og þjónustu, (einkum
gagnvart "Samvinnumönnum" er voru að ná völdum yfir bændaversluninni í landinu.)
og "Krata" er höfðu völdin í verkamannafélaginu og sveitarstjórninni. Þessar
tvær fylkingar íhaldsmanna og krata hafa síðan lengi eldað gráa silfrið á
Bakkanum.]
Menning: Eggert Stefánsson söngvari og Sigvaldi Kaldalóns
komu hér á Bakkann og Stokkseyri, héldu tónleika í kirkjunum á báðum stöðum.
Skóli: Herdís Jakobsdóttir frá Húsavík hélt nokkur
handavinnunámskeið við barnaskólann. Merkastar afurða þóttu gólfmottur, sem
gerðar voru af úrgangsköðlum, er mikið féll til af á verstöðvum, og skór úr
hrosshári, er fengu sérstakt lof gagnrýnenda. Þá var m.a. kennari hér, Ingimar
Jóhannesson.
Slysfarir: Í apríl 21. druknaði á Eyrarbakka Þórarinn Jónsson
í Frambæ [f. Stóra-Núpi],kvæntur Guðrúnu Jóhannsdóttur og átti 2 börn. Vélbátur,
sem var á heimleið utan af sjó, tók niðri á skerjagarðinum úti fyrir höfninni
og stóð fastur. Hann dró á eftir sér róðrarbát hlaðinn fiski. Róðrarbáturinn losnaði
aftan úr, hvarf og sökk. Tveir menn lentu í sjónum og náðist annar með
lífsmarki. Eigandi bátsins var Guðm. Guðmundsson kaupfélagsstjóri og formaður
var Gísli Jónsson frá Þorlákshöfn. Atli frá Stokkseyri fórst þar í innsiglingu
á boða sem"Skjótur" nefnist og með honum 7 menn af Stokkseyri: Bjarni
Sturlaugsson formaður frá Starkaðarhúsum, Einar Gíslason bóndi frá Borgarholti,
Þorvarður Jónsson, sonur Jóns kaupmanns Jónssonar á Stokkseyri, Þorkell
Þorkelsson frá Móhúsum, Guðmundur Gíslason frá Brattsholtshjáleigu, Markús Hansson
frá Útgörðum og Guðni Guðmundsson frá Móhúsum. Fjögur skip reru frá Stokkseyri
og tvö af Eyrarbakka þennan dag, er skyndilega gerði brim allmikið, en þeim
tókst að lenda.
Látnir: Vilborg Erlendsdóttir,ekkja á níræðis aldri. Aldís Vigfúsdóttir frá Gygjarsteini
(83). Snorri Þórðarson frá Bráðræði (77). Guðleif Sæmundsdóttir frá Gamla-Hrauni
(75). Vilborg Erlendsdóttir frá Búðarstíg (75). Sveinbjörn Ólafsson, frá Hvoli
(66). [bróðir Sig. Ólafssonar sýslumanns í Kaldaðarnesi]. Pétur Guðmundsson kennari, af
langvarandi veikindum (63). [Hann var barnakennari Eyrbekkinga nálægt aldarfjórðung og bjó í Pétursbæ].
Oddný Guðmundsdóttir í Grund
(56) [ Hún var frá Steinum
undir Eyjafjöllum]. Þórarinn Jónsson í Búðarhúsum (37) [Fæddur á Stóra-Núpi en
bjó í Frambæ. Fórst af slysförum]. Reynir Sveinn Vilhjálmsson frá Skúmstöðum (1). Þríburar,
tveir drengir og stúlka frá Bakaríinu eftir fæðingu.
Hagtölur: Dollarinn kostaði 4 kr. og 71 aura. Fasteignamat á
Eyrarbakka nam samtals 8.173 kr.
Heimildir: Dagblöð 1922: Alþýðublaðið, Morgunblaðið,
Lögrétta,Tíminn,
Tímarit 1922: Skinfaxi,
Ægir, Tímarit Verkfræðifélags Íslands, Templar.