16.03.2013 01:03

Sú var tíðin 1920


Árið 1920 voru 956 íbúar á Eyrarbakka, hafði þeim þá fækkað um 9 manns. Það má heita af ýmsum ástæðum hafi hér ríkt neyðarástand fyrstu mánuði ársins. Kvillasamt var í upphafi árs þegar illvíg kvefpest gekk hér um ásamt skarlatsótt. Kíghósti slæmur gekk í austur-Flóanum. Kolaskortur var viðvarandi, enn einn veturinn og dýrtíð sem fyr. Kolin þraut og rúgmjölið svo egi var bakað þann veturinn. Bændur voru heylitlir og jarðlaust fram á vor. "Þjóðólfur" blað sunnlendinga hætti að koma út snemma árs. Ekki stóð hugur Bakkamanna til að leggja árar í bát, því nú var hafist handa við að undirbúa gerð bátabryggju og byggingu sjúkrahúsins* sem lengi hafði staðið til og fé safnað af sýslubúum. Rafstöð var keypt og undirbúið fyrir raflýsingu þorpsins**. Framfarir með ýmsu móti virtust á næstu grösum.

Teikning Guðj. Samúelsson[*Teikninguna af sjúkrahúsinu hefði Guðjón Samúelsson húsameistari gert. Húsinu þannig lýst: Húsið er 8,00 X 18,60 m. að stærð. Kjallari, 1. og 2. bygð. Allir útveggir steyptir einfaldir, en innan á 1. og 2. bygð verða settar korkplötur á útveggi. Öll gólf verða úr timbri, og röruð og cementsdregin að neðan. Í kjallara er eldhús, búr, þvottahús og geymsla. Á 1. bygð sjúkrastofur, skurðstofa, herbergi fyrir lækni og hjúkrunarkonu. Á 2. bygð sjúkrastofur og herbergi fyrir vinnumann og vinnukonu. í sjúkrahúsinu er ætlað rúm fyrir 25 sjúklinga. Þar er nú fangelsið Litla-Hraun]

[** Rafstöðin var prufukeyrð í fyrsta sinn þann 27.ágúst 1920]

Verslunin 1920: Ný verslun opnaði í Miklagarði, nýbyggðu húsi Guðmundu Níelsen þetta sumar. Fékk hún vöruskip hingað fyrir verslun sína og fyrsta konan sem tekst slikt verkefni á hendur. Andrés Jónson kaupmaður hér á Bakkanum, opnaði vefnaðarvöruverslun á Laugarvegi 44 í Reykjavík, en einig rak hann verslun á Stokkseyri. Kf. Hekla (st.1904) var hér umfangsmesta verslunin* og á Stokkseyri Kf. Ingólfur sem fyr**, en hagur þessara fyrirtækja var nú orðinn vart meira en bærilegur. Smákaupmenn voru mýmargir hér við ströndina enn sem fyr.

[*Kaupfélagið Hekla á Eyrarbakka hlaut 7000 kr. aukaútsvar haustið 1919. Reindist það afarþung byrði fyrir félagið, sem í raun og veru hafði engar tekjur til að mæta slíkum álögum, nema það sem leiddi af fremur litlum skiftum við utanfélagsmenn. Var félagið þá nýbúið að kaupa verslunarhús og aðrar eignir Einarshafnarverslunar.]

[** Áhrifamenn innan Samvinnufélaganna í héraðinu (Kf. Grímsnesinga) komu sér saman um að allar erlendar vörur handa Árnesingum og vesturhluta Rangárvallasýslu ættu að koma í land á Eyrarbakka eða Stokkseyri, en ekki í Rvík. Eitt kaupfélag, eða bandalag félaga, yrði fyrir alt þetta svæði. Félagið eignist 200-250 smálesta skip, sem flytti vörur yfir sumartímann milli Eyrarbakka (eða Stokkseyrar) og útlanda. Yfir veturinn fengi félagið vörur um Vestmannaeyjar, á vélbátum, því höfnin yrði þá ófær stærri skipum.]

Skipaferðir: Þann 22. janúar sást til barkskips frá Eyrarbakka, og mönnum ljóst að það var í nauðum statt, enda hið versta veður. Áhöfninni bjargaði enskur togari*, en skipið rak inn í brimgarðinn austan við þorpið og brotnaði í spón. Skpið hét "EOS" og var á leið til frá Hafnarfirði til Halmstad í Svíþjóðar til viðgerðar ofl. Ms "Svanur" kom hingað til Eyrarbakka í apríl með vörur og fór aftur í lok mánaðar. Hrepti þá allmikið veður og sjó fyrir Reykjanesi og brotnatði af annað mastrið. Skonnortan "Iris" með timbur til Eyrarbakka kom hér ekki, en lagði farminn upp í Reykjavík. M.b. "Ingólfur", eign Lofts Loflssonar, útgerðarmanns í Reykjavík kom þaðan með vörur hingað í vetrarbyrjun. Mb. "Úlfur", stærsti mótorbátur landsins, kom hér með hluta af skurðgröfu**, þeirri fyrstu hér um slóðir, til nota við Flóaáveituna. Þann 24. ágúst kom "Sieka IV" með vörur til Kf. Heklu.***

[*Togarinn var "Mary A. Johnson" frá Scarborough. Skipstjóri á Eos hét Davíð Gíslason]

[** Skurðgröfupartarnir voru fluttir héðan á tveim vögnum, er spentir voru fyrir "Tractora" þeim fyrstu er hingað komu og voru notaðir við Flóaáveituna]

[*** Ms."Sieka IV" var Hollenskt leiguskip, er átti að leggja af stað 6.maí með sement, mjöl og kartöflur til Kf. Heklu en vél þess bilaði þá og kom skipið  því ekki fyrr en 24. ágúst og var þá hluti vörunnar skemdur, er nam 15.842 kr. en leigan á skipinu var kr. 14.000.]

Útgerð: Margir bátar skemmdust á Stokkseyri í óveðri sem gekk yfir á útmánuðum. Í byrjun vertíðar var góður afli þá sjaldan gaf á sjó. Sumir mótorbátarnir sóttu allt vestur að Sandgerði svo sem mb/Freyr. Mokafli var hér um páska, alveg upp við landsteina og brá við að fjaraði undan fiskitorfunum. Frá Þorlákshöfn var róið á 15 skipum og hafði þeim fækkað mjög, en mannekla háði útgerðinni sem engöngu var stunduð á róðraskipum þaðan.

Landbúnaður: Hrossaræktarfélagið "Valur"* reisti girðingu fyrir stóðhross í landi Eyrarbakkahrepps, og var innanmál hennar 36-40 hektarar.

[*Hrossaræktarfélagið "Valur". tók yfir 3 hreppa í neðanverðum Flóa, Eyrarbakkahr., Sandvíkurhr. og Stokkseyrarhr. Það var stofnað 24. febr. 1918. Félagar þess voru í árslok 1919, 102 alls.]

Slysfarir: Tveir menn drukknuðu í lendingu á Eyrarbakka þann 6. apríl. Voru þeir að koma á smábát framan úr vélbát, er þeir höfðu róið á til fiskjar út í Hafnarsjó, en lagt á legunni hér í höfninni og tekið aflann í smábátinn. Fylti bátinn í lendingunni rétt við fjöruborð, og soguðust tveir menn út og drukknuðu, en einn bjargaði sér á sundi. *

[*Jóhann Bjarnason var sá er bjargaðist, hélt sér og öðrum félaga sínum um stund uppi á sundi, en þar kom að lokum, að hann varð að sleppa honum. Bjargaðist Jóhann með naumindum.]

Menning: Drykkjuskapur þótti mjög almennur hér um helgar meðal ungs fólks sem svo er lýst: "Svo segja kunnugir menn, að drykkjuskapur hafi aldrei í manna minni verið jafn mikill hér og nú í vetur, (1920) og fer óðum í vöxt. Kveður svo ramt að, að barnungir menn ganga i hópum, hröðum skrefum, á eyðileggingarvegi. Kemur varla fyrir nokkur helgi* - mætti næstum segja: nokkurt kvöld - svo að ekki séu ölvaðir menn á ferli og geri ónæði meira og minna...."  Stúka var stofnuð hér í framhaldi með 43 félögum, en það gerði Halldór Teplar Kolbeinsson er hér var á ferð. Hét stúkan "Eyrarrósin" og í stjórn voru: Sigurður Guðmundsson, féhirðir. Elín Sigurðardóttir, frú. Ritari var Ingvar Jónsson, verslunarmaður. Jóhannes Kristjánsson. Gjaldkeri var Vilhjálmur Andrésson, skósmiður. Þórdís Símonardóttir, lósmóðir. Guðmunda G. Bergmann, frú. Guðmundur Jónsson, oddviti. Jón Einarsson, hreppstjóri. Sigurður Kristjánsson, verslunarm. Konráð Gíslason, verslunarmaður og Elínborg Kristjánsdóttir, ungfrú. Dró mjög úr drykkjuólátum í þorpinu eftir það. Í Fjölni voru oft haldnir fundir um hin ýmsu mál.

[*Aðfaranótt sunnudags 14. mars voru drykkjulæti með meira móti hér í þorpinu, og áttu þó Eyrbekkingar miklu að venjast af þeirri vöru.]

Selfoss 1908Sýslan og sveitin: Sýslumaður var Guðmundur Eggers en síðan tók við sýslunni Steindór Gunnlaugsson. Hreppstjóri á Eyrarbakka var Jón Einarsson, í Mundakoti. Nokkuð var um að jarðir og kot væru falar í sýslunni. Svo var um Hafliðakot hér, tún var fyrir tvær kýr, fjöru og mýrarbeit fyrir nokkrar kindur og hross og dálítið fjörugagn. Fóaáveitufélagið hélt fund hér í Gistihúsinu 14. febr. Gróðabrallarar í höfuðborginni sáu ofsjónum yfir fjárhæðinni sem fara átti í landumbætur hér í Flóanum, en það var talið tveggja togara virði. Læknir var hér Gunnlaugur Einarsson, en fór utan þennan vetur til starfa á erlendum sjúkrahúsum. Greiðasöluna í Tryggvaskála við Ölfusárbrú keypti Þórður bóndi Þórðarson frá Björk í Grímsnesi. Leynileg áfengisverslun var talin vera rekin á Selfossi og sjálfsagt komið út í gróða. Stórtap var hinsvegar hjá hinu nýja útibúi Landsbankanns á sama stað, þó ekki hafi verið vegna þess að þar var í eldi særður hrafn, heilan vetur.

Samgöngur: Steingrímur Gunnarsson og Sigurður Óli Ólafsson gerði út leigubifreiðar* héðan af Bakkanum, en bifreiðar úr Reykjavík komu einnig hingað reglulega, svo sem frá Steidóri Einarssyni sem síðar var vel þekktur hér. Vestur-íslendingurinn Frank Fredriekson hugðist fljúga frá Reykjavík til Eyrarbakka** á flugvél sinni. Flaug hann svo austur 24. júlí og lenti henni á Kaldaðarnesi. Með í för var Mr. W. Turton vélamaður. Var þetta í fyrsta sinn sem flugvél lendir hér í Flóanum. Þann 26. júlí flaug Frank aftur hingað austur, kom fyrst að Kaldaðarnesi, en sýndi svo listflug hér yfir Þorpinu daginn eftir og lenti síðan á túninu við Stóra-Hraun. Vélin hélt héðan til Eyja, en þar reindist ekki lendandi er til kom og varð vélin að nauðlenda á Fljótshólum bensínlaus, með dauðann hreyfil. Var þá meira bensín sótt hingað til Eyrarbakka. Kom vélin svo hér daginn eftir og lenti heilu og höldnu við Stóra-Hraun eftir svaðilför þessa. Mótorbátar gengu af og til milli Eyrarbakka og Vestmannaeyja með fólk og farangur. Hingað kom einnig maður á mótorhjóli, reyndist það vera Guðmundur Ágústsson frá Birtingaholti.

[*bifr. Steingríms var ÁR-7 og Bifreið Sigurðar var ÁR-15.]

[**Um þetta leyti hafði "Flugfélagið" er ætlaði að halda uppi flugi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja fundið sér ákjósanlegan lendingarvöll á túninu við Stóra-Hraun og óskuðu íbúar hér á Eyrarbakka og Stokkseyri eftir því að fá einnig flug héðan, félaginu að skaðlausu. (Sjá Mynd af vélinni)]

Skóli: Barnaskólanum á Eyrarbakka var lokað 8. mars vegna sóttvarna, sakir inflúensu. Var skólahúsið læst og ekkert um það gengið. Einhverjir þá notað tækifærið, brotist inn og bramlað eitthvað innanstokks og skilið þar eftir dauðan hrafn. Umdeildur ungur atorkumaður, Aðalsteinn Sigmundsson var þá skólastjóri. Stofnaði hann ungmennafélag er tók aðsér íþrótta og sundkennslu* hér. Fótboltafélag var einnig innan þess, vel sótt. Að auki tóku ungmennafélagar aðsér að sinna dýraverndunarmálum hér. Kennarar voru þau Jakobina Jakobsdóttir, Ingimar Jóhannesson.

[*Sundkennarinn var Konráð Kristjánsson frá Litlu-Tjörnum í S.-Þing. Sundlaug var þó ekki hér, en tjarnir margar og sjórinn.]

Látnir: Þóra Sigfúsdóttir (79). Hún var fædd í Garðbæ á Eyrarbakka 12. nóvember 1841, en bjó að Vaðnesi í Grímsnesi. Magnús Ingvarsson, formaður frá Akri (79). Margrét Filippusdóttir frá Mundakoti (77). Ebeneser Guðmundsson, gullsmiður frá Skúmstöðum (76). Katrín Einarsdóttir frá Einkofa (74). Bjarni Halldórsson, Þurrabúðarmaður frá Túni (63). Guðjóna Þórdís Jónasdóttir frá Túni (57). Jóhann Pétur Hannesson sjómaður frá Blómsturvöllum, druknaði í lendigu hér (47). Vigfús Helgason þurrabúðarmaður frá Gamla-Hrauni (46). Oddur Snorrason sjómaður frá Sölkutóft,(Þurrabúðarmaður í Bráðræði) druknaði í lendingu hér (45). Jóhanna Margrét Jóhannsdóttir frá Sölkutóft (kornabarn) Guðmundur Ragnar Friðriksson frá kaupmannshúsi (kornabarn). Ingibjörg Pálsdóttir frá Skúmstöðum (kornabarn).

Tíðarfarið: Veður voru fremur válynd fyrstu mánuði ársins. 'Í byrjun mars var jarðlaust og allar skepnur á gjöf, en bændur heylitlir. Voru keyptar frá Ísafirði 1600 tunnur af síld til skepnufóðurs fyrir sýslubúa er koma átti hingað með skipi. Í maí var ófærð mikil á Hellisheiði. Sumarið og haustið með ágætum.

Hagtölur: Dollar gekk á 7 kr. og 25 aura, lækkaði síðar í 5 kr. og 75 aura. Síldartunna kr.40. Hálft rúgbrauð kostaði 90 aur. Fargjald frá Reykjavík til Eyrarbakka með bifreið var um 20 kr.

Heimild: Dagblöð frá 1920: Skeggi, Morgunblaðið, Alþýðublaðið, Ísafold, Ægir, Tíminn, Vísir, Rit frá 1920: Tímarit Verkfræðifélags Íslands. Templar. Skólablaðið. Tímarit Íslenskra Samvinnufélaga. Búnaðarrit 1920-1921. Dýraverndarinn 1921.

Flettingar í dag: 678
Gestir í dag: 187
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260968
Samtals gestir: 33814
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:18:00