10.03.2013 21:42

Sú var tíðin, 1919


Árið 1919 voru íbúar á Eyrarbakka 965 talsins og höfðu fjölgað um 48 frá árinu áður. Bjartsýni ríkti um framtíðina þrátt fyrir erfiðleika ýmiskonar. Vikuritið "Þjóðólfur" hætti að koma út um tíma, en var endurvakin og prentaður á Haga í Sandvíkurhreppi, í prentvél sem var hið mesta skran. Prentsmiðjan var síðan flutt í nýja Landsbankahúsið* á Selfossi. Heilsufar var allgott síðan spanskaveikin gekk. Skólar voru að hálfu starfandi, því kennarar sóttu í aðra vinnu sem gaf betur af sér. Atvinnuhorfur voru þó daufar í vertíðarbyrjun. Helsta áhugamál Árnesinga voru hafnarmál, áveitan, spítalinn, skólamálin og járnbrautin. Kosið var til þings og reyndu verslunarmenn hér að hafa áhrif á gang mála. Þingmenn Suðurlands urðu þeir Eiríkur bankastóri Einarsson frá Hæli með 1032 atkv. og Þorl. Guðmundss. í Þorlákshöfn - 614 -aðrir í framboði voru Sigurður ráðun. fékk 335 -og Þorst. Þórarinsson Drumboddastöðum 317atkv. Pöntunarfélög voru stofnuð í mörgum hreppum sýslunar.

[*Timburhús 14x24 álnir. Þar er í dag m.a. blómabúð og lengi var myndbandaleiga í þessu húsi.]

Verslun 1919: Hinn rauðhvíti dannebrog var dreginn niður hinsta sinni á "Bakkabúðinni" gömlu þegar verslunin "Einarshöfn" á Eyrarbakka, var seld á vormánuðum. Kaupandinn var kaupfél. "Hekla" hér á Bakkanum og flutti hún starfsemi sína í Vesturbúðirnar. Verðið mun hafa verið um 200 þús. kr. Verslun þessi var um langan aldur aðal-kaupstaðurinn fyrir alt suðurlandsundirlendið vestan Kúðafljóts, og ein allra stærsta verslun landsins. Kf. Hekla sem nú var stærsta verslun Suðurlands þurfti að útvega sér kauptíðarvörur sínar úr Reykjavík, þar sem vélarbilun kom upp í vöruskipi þeirra í K. höfn. Verslun Andresar Jónssonar var önnur stærsta verslunin hér á Bakkanum, en nú einnig á Stokkseyri og þá var Guðlaugur Pálsson vaxandi kaupmaður hér auk fjölmargra annara smákaupmanna, svo sem J.D. Nielsen fv. verslunarstjóra Einarshafnarverslunar, sem opnaði sölubúð í "Skjaldbreið" þetta haust og Guðmund bóksala í Götuhúsum. Á Stokkseyri var öflugasta verslunin Kf. Ingólfur og Egill Thorarensen í Sigtúnum var aðsópsmikill kaupmaður á Selfossi um þessar mundir. Um mitt sumar var útflutningur allrar íslenskrar vöru gefinn frjáls á ný af landsstjórninni, að frátöldum hrossamarkaði, er stjórnin hefði enn í sínum höndum*. Bændur flestir afhentu ull sína kaupfélögunum og sláturfélaginu. Markaðurinn var daufur og seinn á sér. Í einu af Heklu-húsunum var nú innréttuð lyfjabúð (apotek), danskur maður K.C. Petersen, setti á fót, en hann seldi að auki ýmsar aðrar vörur. Samkeppnin í verslun hér var nú harðari en nokkru sinni fyr og stóru risarnir við ströndina byrjaðir að molna.

 [*Bandamenn höfðu allt verslunarvald íslendinga í hendi sér í stríðslok, og forkaupsrétt á allri íslenskri vöru, svo mörg útlend skip lágu aðgerðalaus í höfnum hér við land í lok stríðsins og vissu ekki hvert þau áttu að fara.]

Skipaferðir: Siglingar máttu aftur hefjast frá Eyrum, þegar friður komst á, en "Vonin" seglskip Einarshafnarverslunar fylgdi ekki með í kaupunum. Kf. Hekla hafði leigt gufuskip sem koma átti í maí fullfermt, en þá gerðist það ólán að skipið varð fyrir vélarbilun í Kaupmannahöfn og komst egi á kauptíðinni. Saltskip kom frá spáni til Stokkseyrar snemma í apríl, en önnur skip komu ekki yfir kauptíð. Þegar kaupfar kf. Heklu kom loks til Eyrarbakka, í lok ágústmánaðar, varð enn eitt ólánið uppvíst, því vörurnar voru meira og minna skemmdar og að einhverju leyti ónýtar, eftir langvint sjóvolk og vandræðaskap, er skipið hafði ratað í. Þann 8. september var uppboð á Eyrarbakka og þar selt mikið af rúgmjöli og sykri. Komst mikið af þessari vöru í ótrúlega hátt verð, stappaði nærri söluverði á óskemmdri vöru. Um miðjan september kom loks hingað timburskip, en þar til hafði varla fengist hér spíta í laupsrim um langan tíma.

Útgerð: Afli var ágætur hér við ströndina þá er vertíðin hófst seint í febrúar en treg veiði í fyrstu hjá Þorlákshafnarbátum, en síðan mokafli á köflum á öllum verstöðvum, þá er fiskur gekk nær landi en venja var til. Sjór var hlýrri hér við ströndina en oft áður fyrri hluta vetrar. Olíuskortur var orðinn mikill sunnanlands að áliðnu sumri og háði það vélbátunum svo að ekki komust á sjó, en róðraskipin öfluðu vel á haustvertíðinni.

Menning: Kvikmyndahús var sett á laggirnar hér í Fjölni og nokkuð um pólitísk fundarhöld. Eitt hús var byggt hér, Mikligarður sem hýsa átti verslun á komandi ári.

Sýslan: Settur sýslumaður Magnús Gíslason tvítugur að aldri*. Flóaáveitufélagið samþykti að taka 1,5 milj. króna láa til áveitunnar. Sparisjóður tók til starfa á Stokkseyri (okt 1918) og Landsbanki á Selfossi.

[*Megn ágreiningur varð á Eyrarbakka nokkru síðar út af meðferð sýslumannsembættisins í Árnessýslu. Síðan Sigurður ÓLafsson sagði því af sjér sumarið 1915, höfðu verið hér ýmsir sýslumenn settir. Upphaflega var Guðmundi Eggerz veitt sýslan vorið 1917, en hann hafði oftast verið fjarverandi síðan, ýmist í R.vk (í fossanefndinni) eða erlendis. þetta hafði héraðsbúum likað afar illa. Úr hófi keyrði  haustið 1918 þegar Bogi Brynjólfsson fór frá embætti. þá var enginn skipaður í staðinn, en einn hreppstjórinn látinn afgreiða brýnustu erindi. Síðast kom Magnús Gíslason lögfr og rjeðist til vors, en þá ætlaði Guðm. Eggerz að koma sjálfur. Svo varð þóekki heldur fjekk hann leyfi stjórnarráðsins til að skipa Pál Jónsson lögfr. fulltrúa sinn. þessu gátu hjeraðsbúar ekki unað, vildu ekki taka við Páli, en kröfðust, að sýslumaður kæmi sjálfur eða að annar yrði skipaður á eigin ábyrgð. Stjórnarráðið skipaði síðan þorst. þorsteinsson til að gegna embættinu á eigin ábyrgð fram á sumar.]

 Andlát: Gestur Ormsson Einarshöfn, þurrabúðarmaður (87) Katrín Hannesdóttir, húsfreyja Sandgerði (65). Guðrún Matthíasdóttir, Einarshöfn (52), Jón Stefánsson, Brennu (45). Tómas Þórðarsson, þurrabúðarmaður Sandvík (44).  Helgi Ólafsson, prests frá Stóra-Hrauni, druknaði í Hólsós í Ölfusi, var sjómaður (23). Júlía Guðrún Ísaksdóttir, Ísaksbæ (23). Ísleifur Haraldsson, Merkisteini (ungabarn).

Tíðin: Tíðafarið var misgott í byrjun árs. Ofsaveður gerði um miðjan mars og allmikið snjóaði. Sumarfuglar, spóar, lóur og stelkar, voru komnir fyrir pálmasunnudag, og flugu syngjandi um túnin og móana, en þá brast á snjór og kuldahret. Í júlí snjóaði í sunnlensk fjöll, um stund hlýtt mjög, en óþurkar yfirleitt þar til seint í ágúst. Veturinn ágætur og fénaður gekk úti fram í desember, en eitt óveður gerði þann mánuð.

Samgöngur: Bílferðir voru tvisvar í viku milli Eyrarbakka og Reykjavíkur, en um það sáu þeir Gunnar Ólafsson og Erling Aspelund, en síðan hóf fólksflutninga Steingrímur Gunnarsson hér á Eyrarbakka.

Hagtölur: Erlend Kol og sykur lækkaði mikið í verði eftir stríð*. Dagsbrúnarkaup var 90 aurar á rúmhelgum dögum, dagvinnu kaup hjá Drífanda í Vestm. var 1,15 á klst.  Steinolía var 300% dýrari en árið 1914. Á Eyrarbakka hafði smjörverð lækkað og kostaði kr. 2,85 pundið, þurrabúðarmönnum til góða. Laxpundið kostaði 90 aura til útsölumanna. Sparisjóður Árnessýslu átti 1.777.136 kr. sem var mikið fé. Verð á saltfiski til útfluttnings var afar hátt, en sveitavörur fóru lækkandi.

[*Landsstjórnin tók í sínar hendur einokun á alla verslun með erlend kol og kornvörur hér á landi. Kolaverslun öll var í höndum breta og olíuna áttu gróðabrallarar]

Ýmislegt: Vinnuvélar sáu dagsins ljós hér í Flóanum, þegar skurðgrafa kom til  Skeiða- og Flóa áveitanna, heljarmikið bákn,  Dráttvélar (traktorar) tvær, með 20 hesta afli. Grjótkvörn á hjólum til vegagerðar, valtari, til þess að þjappa mulningnum ofan í vegi, og trukkur, til þess gerður að flytja möl. Kf. Hekla hafði símanúmer 8. Vörubifreiðar voru að taka við af hestvögnum. Fyrsta flugvélin keypt til landsins.

Heimild: Skeggi 1919, Þjóðólfur1919, mbl.1919,eyrarbakki.is, gardur.is, brim123.is.

Flettingar í dag: 996
Gestir í dag: 221
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261286
Samtals gestir: 33848
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:39:06