06.03.2013 20:10

Sú var tíðin, 1918








917 íbúar áttu lögheimili á Eyrarbakka árið 1918 og hafði þeim fækkað um 25. Kom þar til mannskæð Inflúenza og brottfluttir, flestir til Reykjavíkur. Meðal brottfluttra var Ásgeir Blöndal f.v. héraðslæknir og hans frú Kirstín, en þau fóru til Húsavíkur. Fyrstu laufin voru tekin að falla og blikur á lofti um framtíð kauptúnsins. Áætlanir um Flóaáveituna voru í bígerð og fundir haldnir um stofnun áveitufélags, og þar kosnir í stjórn: Sigurður Ólafsson fyrv. sýslum., Eggert Benediktsson bóndi í Laugardælum og Bjarni Grímsson verslunarm. á Stokkseyri. Hagur manna hér um slóðir þótti yfirleitt góður, þrátt fyrir dýrtíð mikla og ýmiskonar erfiðleika, því skepnuhöld voru ágæt og tíðin yfirleitt góð og heilbrigði með ágætum framanaf. Katla gaus þetta ár og "spánska-veikin" gekk yfir og felldi 8 fulltíða sálir hér á Bakkanum (einhverstaðar getið um 31. látna). Settur sýslumaður Bogi Brynjólfsson, settist að á Stokkseyri, en húsnæðisekla var mikil hér á Bakkanum.  Sambandslögin samþykkt og Ísland varð fullvalda ríki. Samninguinn við bandamenn hamlar verslun hér Heimstyrjöldinni lauk. Þorp að myndast á Selfossi, verðandi höfuðstað sýslunnar.

Verslun og Þjónusta: Ýmsir erfiðleikar hrjáðu nú verslunina hér, svo sem styrjöldin, viðskiptasamningur við bandamenn*, stærri skip, ný höfn í Reykjavík, Ameríkuverslun Eimskipafélagsins og landssjóðsverslunar gerði það að verkum að mun hagkvæmara og ódýrara var að flytja mikið magn af vörum til Reykjavíkur, heldur en með litlu skonnortunum frá dönskum höfnum hingað á Eyrarnar og víðar, þar að auki varð nú að tolla vörusendingar af suðurlandi frá Reykjavík eða Vestmannaeyjum*. Nýtt skip "Skaftfellingur" gat tekið vörur austanmanna frá Vík, beint til Vestmannaeyja og Reykjavík. Selstöðuverslanir hér á landi voru nú óðum að hverfa vegna samningana við breta og svo fór um Einarshafnarverslun**.

 Ákveðið er að reisa útibú fyrir Landsbankann á Selfossi, því á þessum krossgötum kaupstaðarfara, var að myndast vísir að þorpi um þessar mundir. Á Eyrarbakka var fyrir Sparisjóður Árnessýslu. Eitt brauðgerðarhús var hér í rekstri og eitt á Stokkseyri. Kornvörur voru skamtaðar og brauð þar með. Kola og pappírsskortur var landlægur enn eitt árið, m.a. vegna þess að pappírsskipið strandaði á Meðallandsfjöru og kolaskip hér nálægt Eyrarbakka.

[*Samningurinn við bretland ("bandamenn") um kaup á olíu og kolum, en það var í raun nauðasamningur, sem ella hefði kostað, eða jafngillt aðflutningsbanni á landið af hálfu bandamanna. þar fór  landsstjórnin ("Útfluttningsnefnd") með verslunarvald f.h. bandamanna og keypti með einokunarskilmálum og eignarnámi alla ull, kjöt, fisk ofl. sem framleitt var í landinu og seldi "bandamönnum" sem höfðu þá forkaupsrétt af öllum útflutningsvörum landsins á yfirstandandi ári og því næsta sk. þessum samningi. (r.g. 31. maí 1918. 3. og 11. júní 1918) og til frekari uppfyllingar á samningi við breta, mátti ekki flytja inn neinar vörur nema með samþykki "Innfluttningsnefndar" og öll viðskipti þurftu að fara um tilgreindar hafnir. Hafði stjórnaráð Íslands f.h. breta þannig yfirráð yfir öllu skipsrúmi og vöruverslun landsins. Það voru breyttir tímar, atvinnuvegirnir þurftu stöðugt meira utanaðkomandi eldsneyti til að halda úti fiskveiðum og flutningum. Fyrir selstöðuverslunina voru þessi lög dauðadómur.(Bretar afsöluðu sér síðar forkaupsrétti á íslensku kjöti)].

[**J. A. Lifolii, stórkaupmaður, hafði um sumarið 1918 gefið 10,000 kr. til  Eyrarbakka í minningu þess að verslun hans var 50  ára gömul 3. apríl þ.á. Helmingnum átti að verja til sjóðmyndunar er styrki verzlunar nemendur í Kaupmannahöfn og höfðu Árnesingar og Rangæingar þar forgangsrétt; hinn helmingurinn átti að ganga til sjúkrahúss í Arnessýslu.  Enn fremur sendi  hann Eyrarbakka kirkju vandaða turnstundaklukku].

Skipaferðir: Ferða flóabátsins "Ingólfs" hingað lagðist af um lengri tíma sökum vélarbilunar. Bátur verslunarinnar "Hjálparinn" hafði því í nógu að snúast. Litlar sögur fara af komu millilandaskipa hingað þó einhver hafi verið þetta ár, en útfluttningsvörur verslunarinnar hér þurfti nú að tollafgreiða annaðhvort frá Vestmannaeyjum, eða Reykjavík með ærnum tilkosnaði. Þó kom hingað seglskipið "Ludvig" en á leið frá Eyrarbakka til Danmerkur var því sökt af kafbáti. Flutti kafbáturinn skipverja upp undir Noreg og komust þeir þar á land eftir 32 stunda róður. Skipið hafði ekki haft farm***, en sandur notaður til seglfestu (ballest).  Stórt Rússneskt þrímastra seglskip fórst í febrúar, við Þorlákshöfn í óveðri og var tveim mönnum bjargað, [skipherrann og einn háseti er björguðust á sundi í land] en fjórir fórust. Skipið var hlaðið kolum.

[*** Það var seint um kvöld að skipverjar skyndilega heyrðu skot og sáu tundurskeyti, sem kom rétt fyrir aftan skipið. Rétt á eftir sáu þeir kafbát koma siglandi, og skipaði hann að stöðva "Ludvig". Gaf kafbátsforinginn siðan skipverjum 20 minútur til þess að komast i björgunarbátinn. Var skipinu siðan sökt. Kafbáturinn dróg björgunarbátinn spölkorn, en hann sigldi svo hratt, að vatnið streymdi inn í bátinn, svo skipverjar voru teknir yfir á kafbátinn. Þegar komið var 30 mílur undan Noregsströndum var þeim slept í bátinn, og komust skipverjar loks eftir 32 stunda róður að landi í Noregi, við Högholmene. "Ludvig" var 110 smálestir brútto, hið vandaðasta skip að smíði og útbúnaði öllum meðferðis.] (mbl.1918)   

Fiskveiðar og sjávarútvegur: Vertíðin byrjaði treglega sökum gæftaleysis en raknaði úr þegar á leið. Vermenn sumir héðan fóru til Vestmannaeyja á vertíð. Eitthvað af brimrotuðum þorski rak á fjörur við Stokkseyri. Í apríl var kominn ördeyða á heimamiðum, en rættist úr fyrir vertíðarlok. Mótorbátar öfluðu hinsvegar vel úti á "banka". Vorvertíð hófst hér seint í júní og aflaðist vel. Saltskortur gerði þá vart við sig og hamlaði vinnslu. Haustafli góður þá róið var og gekk svo fram á vetur. Laxveiðar voru óvenju góðar í Ölfusá, einkum við Selfoss.

Menning: Söngfélagið "17" júní kom hér austur fyrir fjall og hélt samsöng í kirkjunni. Um haustið og veturinn lögðust samkomur og messur af vegna spænskuveikinnar.

Steinn Guðmundsson skipasmiðurLátnir 1918: Guðrún Teitsdóttir frá Skúmstöðum (88). Styrgerður Filipusdóttir frá Einarshöfn (86). Elín Símonardóttir frá Gamla-Hrauni (80). Símon Símonarson sama stað andaðist á Landakotsspítala (?). Steinn Guðmundsson skipasmiður frá Steinsbæ (78) en hann var landskunnur. Guðrún Hansdóttir frá Norðurbæ (76) Valgerður Þórðardóttir frá Garðhúsum (67) í spænsku veikinni. Guðjón Ólafsson sparisjóðsgjaldkeri frá Hólmsbæ (66). Ragnhildur Jónsdóttir frá Sandvík (66) í spænsku veikinni. Bjarni Jónsson frá Eyvakoti (57). Margrét Eyjólfsdóttir frá Eimu (51) í spænsku veikinni. Halldóra Þorsteinsdóttir frá Björgvin (46) í spænsku veikinni. Siggeir Þorkelsson þurrabúðarmaður frá Merkisteini (37). Margrét Jóhannsdóttir frá Gamla-Hrauni (30) í spænsku veikinni. Magnús Guðmundsson frá Búðarhúsum (21) í spænsku veikinni. Sigurður Brynjólfsson, frá Nýhöfn, Eyrarbakka, fórst með "Frí" VE-101 frá Vestmannaeyjum. (sr. Gísli Jónsson á Mosfelli, druknaði í þverá, hjá Hemlu í Landeyjum. Hann var ættaður af Eyrarbakka.)

Tíðin: Miklir kuldar voru í byrjun janúar, en þýðviðri með Þorra og hagavænt í febrúar, en stórviðrasamt. Jörð var tekin að grænka um miðjan febrúar og mars var mildur og hagstæð tíð. Vorið var óvenju gott, en grasbrestur um sumarið, næturfrost oft í júní og tíð stirð, svo lítið spratt í kálgörðum. Kalt var í byrjun júlí. Óþurkar um sláttinn, en þurkar í byrjun september sem var óspart notað af fiskimönnum og búmönnum, þó sunnudagar væru. Kuldar snemma haustsins og kartöflugrös fallin fyrir réttir. Heyfengur með minsta móti. Þann 12 oktober gaus í Kötlugjá.

Hagtölur: Í Reykjavík voru 57 bifreiðar, bjuggu þar milli 15 og 16 þús. manns 1918. [Fastar bifreiðarferðir voru til og frá Reykjavík hingað á Eyrarbakka, tvisvar í viku og sinntu þessu tvær bifreiðar]. Dollarinn var skráður á 3. kr og 60 aura. Kornvörur höfðu hækkað um 59% á árinu og 279% frá upphafi heimstyrjaldarinnar 1914. Steinolíuframleiðsla í heiminum árið 1916 er talin hafa verið um 461 miljón tunnur, 159 litra hver. Töðugæft úthey var boðið í 30 kr. hvern hestburð (100 kíló) árið 1918. Hámarksverð á kartöflum úr búð var 35 aurar.pr.kg, en síðan 44 au. kg haustuppskeru. Lambasvið kostuðu 75 aura.

Ýmislegt: Pétur Sigurðsson stundaði trúboð hér á Eyrarbakka. Tvö hús voru byggð 1918, Steinsbær I. og II.  Land fengu Stokkseyringar undir kirkjugarð.

Heimild: Þjóðólfur 1918, Skeggi 1918, Fréttir 1918, Morgunbl. 1918. Gardur.is. Voröld 1918. Fram 1918. Norðurland 1918. Dagsbrún 1918.

Flettingar í dag: 1296
Gestir í dag: 247
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261586
Samtals gestir: 33874
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 21:00:07