25.02.2013 21:21

Sú var tíðin, 1917


Árið 1917 voru íbúar í Eyrarbakkahreppi 942. Vikublaðið "Þjóðólfur", elsta blað landsins hóf að koma út á Eyrarbakka eftir nokkra ára svefn. Ritstjóri þess var sr. Gísli Skúlason á Stóra-Hrauni. Vikuritið "Suðurland" hafði þá nýverið hætt útgáfu og þóttust sunnlendingar illa geta verið án frétta úr héraði. Ýmsir erfiðleikar hrjáðu útgáfuna hér og svo fór að blaðið var flutt til Reykjavíkur. - Margir fundir voru haldnir vegna sjúkrahúsmálsins, en menn vonuðust eftir að sjúkrahúsið á laggirnar, þó skiptar skoðanir væru um stærð þess og byggingakostnað.

Atvinna: Þegar leið að vori fóru verkamenn að hafa áhyggjur yfir því að siglingar hingað myndu stöðvast sökum stríðsins og valda atvinnuleysi hjá þorpsbúum sem reiddu sig á vinnu við verslanirnar og vöruskipin. Þá betur rættist um vinnu í vegagerð við að bera ofan í veginn frá Selfossi til Eyrarbakka, og álmunar frá vegamótunum við Hraunsstekk að Hraunsárbrú.

Verslun & þjónusta: Verslun Andrésar Jónssonar flutti í nýbyggtt verslunarhús sítt "Breiðablik". Guðlaugur Pálsson fékk verslunarleyfi. Aðrar helstu verslanir voru eftir sem áður Einarshafnarverslun, Kf. Hekla, Verslun Bergsteinns Sveinssonar og verslun Jóhanns V Daníelssonar. Sigurður bóksali Guðmundsson, höndlaði nú einnig með nýlenduvörur, en 11 til 13 verslanir voru nú á Bakkanum.  Kolalaskortur var hér að áliðnu vori, og pappírsskorturinn var viðvarandi vegna tafa í siglingum. Fyrstu vörusendingar vorsins hingað austur hafa að öllum líkindum verið sóttar til Reykjavíkur, þegar skip Eimskipafélagsins komu þar snemma vors hlaðin vörum.  Verslun Andrésar Jónssonar var fyrst hér til að auglýsa nýkomnar vörur að þessu sinni. -Kaupfélagið Hekla hafði átt smjörsalt til rjómabúa geymt í Bretlandi á annað ár, en aldrei getað fengið það flutt, en nú stóðu vonir til að það kæmi með "Ara" leiguskipi Elíasar Stefánssonar í Reykjavík. -Haraldur Blöndal ljósmyndari hafði aðsetur í Barnaskólanum og bauð þar þjónustu sína. Guðmundur úrsmiður Halldórson setti upp vinnustofu sína í Nýjabæ, þá nýkominn frá þýskalandi (hafði hann einkaleyfi á egin uppfinningu, sem var endurbættur cylinder í úrum). (Húsi Magnúsar Magnússonar). Kf. Ingólfur á Stokkseyri fékk fyrstu vörur sínar á þessu ári um mánaðarmót maí, júní og aðrar verslanir hér nokkru síðar. Vöruúrval í verslununum hér var nú almennt orðið mun meira en áður, en dýrtíð enn mikil. Afsláttarkjör voru þó almennt viðhöfð í desember, fram til jóla.

Skipakomur 1917: Erfitt var um siglingar sökum stríðsins, þar sem bretar kröfðust þess að öll vöruskip kæmu við í breskri höfn og að auki kafbátahættan mikil. Dæmi voru um að skip á leið til landsins væru skotin í kaf (Sjá hér). Útlitið var því ískyggilegt á þessu vori. Ekki er getið um skipakomur á Eyrarbakka og Stokkseyri vorið 1917, þó líklegast að skip Einarshafnarverslunar hafi komið hér, en til Reykjavíkur var skipaumferð töluverð og voru sum hver stærri en áður hafði þekkst. Vélbátar Eyrbekkinga og Stokkseyringa voru hinsvegar talsvert notaðir til að sækja vörur til Reykjavíkur og var það nýlunda. Strandferðaskipið "Ingólfur" kom hér við í ágústmánuði með steinolíufarm (300 tunnur) til Einarshafnarverslunar. Spænskt seglskip "Espano" kom til Stokkseyrar 3. sept. hlaðið salti til Kf. Ingólfs og tók saltfisk frá þeim og Kf. Heklu hér á Bakkanum. (Það kom frá Cadiz, gömul hafnarborg á Spáni).

Sjávarútvegur 1917: Þrír vélbátar héðan stunduðu veiðar frá Sandgerði, fram í vertíðarbyrjun. Vertíðin byrjaði dauflega hjá róðrabátum, en mótorbátarnir öfluðu dável. Mótorbáturinn "Suðri" frá Stokkseyri fórst þann 3. febrúar og mótorbátur Jóns Sturlaugssonar á Stokkseyri fórst þar í september, á leið frá Reykjavík með kolafarm og fl. til Stokkseyrar, mannbjörg varð. Mótor-námskeið var haldið á Stokkseyri og tóku 10 nemar vélstjórapróf.

Eyrarbakkahreppur: Hæstu greiðendur aukaútsvars voru: Einarshafnar-verzlun, Kaupfélagið Hekla, Andrés Jónsson, kaupm. Jóh. V. Daníelsson, kaupm. sr.GísliSkúIason, StóraHrauni. Guðm.ísIeifss.óðalsb.St.Háey.  J. D. Nielsen, verzlunarstj. Bergsteinn Sveinsson, kpm. Guðm. Sigurðsson, verzlm. Gíslí Pétursson, héraðsl. Guðm. Guðmundss., kaupf.stj. Sigurður Guðmundss., bóksali Einar Jóns. þurrab.m.,Einarsh. Árni Tómasson, Stóra-Hrauni Friðr.Sigurðss. GamlaHrauni  Ásg. Blöndal, læknir, Búðarst. Jakob Jóns. þurrab.m.,Einarsh.  G. Jónson, verzlm.,Einarshöfn. Sveinbjörn Ólafsson, Hvoli. Ingvar Jónsson, verzlm.

Menning og samfélag: Skarlatsótt stakk sér niður í héraðinu og kom veikin upp í einu húsi hér (Nýjabæ). -Sjúkrasjóðurinn "Vinaminning" hlaut konunglega staðfestingu, en hann var stofnaður árið 1916. Tilgangur sjóðsins var að styrkja fátæka sjúklinga, er leituðu heilsubótar á sjúkrahæli í Árnessýslu. Stjórn sjóðsins skipuðu: Gísli Skúlason, P. Nielsen og  Gísli Pjetursson. -Það komst í tísku hjá ungu fólki hér og ungmennum sem höfðu ráð á, að kaupa sér líftryggingu. Flestir sem keyptu tryggingar þessar höfðu samning um, að þeir fái þær útborgaðar um sextugsaldur og þótti þetta góð lífeyristrygging. Flestir skiptu við lífsábyrgðarfélagið "Danmark" er  Þórður Jónsson, verslunarmaður á Stokkseyri var umboðsmaður fyrir.- Söngfélagið "17. júní" heimsótti Bakkann og stóð fyrir söngskemtun og Ólafur Magnússon í Arnarbæli hélt hér söngnámskeið um veturinn.

Andlát: Aðalbjörg Eyjólfsdóttir (87). Pétur Gíslason faðir Gísla læknis (86). Hannes Bergsson, þurrabúðarmaður Einarshöfn (64). Magnús Brynjólfsson, þurrabúðarmaður frá Björgvin, andaðist úr lungnabólgu (55). Katrín Jónsdóttir, Einarshöfn (54). Kristinn Þórarinsson, bóndi frá Naustakoti [Neistakoti], en hann drukknaði 12. janúar þ.á.(37). Ólafur söðlasmiður Guðmundsson í Einarshöfn (50). [hafði þar söðlasmíðaverkstæði til margra ára. Magaveiki hrjáði hann lengi og hugðist hann fá bót meina sinna á Landakotsspítala, en lést þar]. Sigríður Grímsdóttir, Ingólfi (44). Rósa María Brynjólfsdóttir frá Merkisteini á Eyrarbakka,druknaði norður í landi á leið til skips. Filipus Gíslason frá Stekkum, af slysförum (18). Sveinbarn Kristjánssonar í Stíghúsi (0).

Tíðarfarið 1917: Frost í janúar voru -14 til -16°C og stillur oft. Tíðin fram í mars var harðneskjuleg um allt land og mikið frost (6 til 19 stig). apríl var einnig kaldur um land allt, Ekki er getið um tíðarfarið hér við ströndina þetta ár.

Hagtölur 1917: Verð á rjómabúsmjöri var ákveðið af verðlagsnefnd 3,30 kr. pr. kg. Óslægður þorskur 28 au. pr.kg. ýsa 24 au. pr. kíló. lúða 40 au.pr.kg.- Ær seldust á 37-40 kr., kýr á tæp 400 kr. og hross um 300 kr. upp til hópa. Verð á innfluttum kolum voru 40 kr. skipspundið (Rvík).

Heimild: Þjóðólfur 1917, gardur.is, Ægir 1917. ofl.

Flettingar í dag: 1296
Gestir í dag: 247
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261586
Samtals gestir: 33874
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 21:00:07