17.02.2013 22:01
Sú var tíðin, 1916
Íbúar í Eyrarbakkahreppi voru 931 árið 1916, en á sama tíma bjuggu í Reykjavík 14.200 manns. Fólksfjöldi á Íslandi var þá ríflega 87.000 manns. Hugmyndir um raflýsingu þorpsins komust aftur á dagskrá eftir 3ja ára hlé. Ákveðið var að stofna raflýsingarnefnd sem í sátu: Guðm. Guðmundsson, kaupfélagsstjóri í Heklu, J. D. Nielsen verslunarstjóri hjá Einarshafnarverslun og Páll Bjarnason kennari. -Sýslan undirbjó kaup á Þorlákshöfn og átti kaupverð að vera 150.000 kr. -Þetta ár var kosningaár. Kosið var í ágúst. Af 272 kjósendum á Eyrarbakka sóttu 92 kjörfund, þar af 35 konur. Flestir voru þó að heiman í vinnu út um land, þennan tíma árs. Á Stokkseyri kusu á milli 50-60 kjósendur, þar af 10 konur; þar voru á kjörskrá hátt á þriðja hundrað manns. Karlar urðu að vera 30 ára og konur 40 ára og ekki máti hafa þegið fátækrastyrk til að öðlast kosningarétt. Valið stóð um 6 flokka. A:Heimastjórnarmenn, B:Þversummenn, C:Verkamenn, D:Óháðir bændur, E:Langsummenn, og F:Þingbændur. Þá var kosið til hreppsnefndar hér á Eyrarbakka og hlutu kosningu, Guðmundur Jónsson, oddviti (Versl.m. hjá Kf. Heklu). Tómas Vigfússon, bóndi og formaður, og Eiríkur Gíslason, trésm.
Verslun og Þjónusta: Helstu verslanir árið 1916 voru hér
sem áður, Einarshafnarverslun stærst, þá Kf. Hekla. Verslun Andrésar Jónssonar,
Verslun Jóhanns V Daníelssonar og Verslun Bergsteins Sveinssonar í Nýjabæ.
Sérvöruverslanir voru nokkrar, svo sem bókaverslun Sigurðar Guðmundssonar og
Úraverslun Sigurðar Tómassonar, en sú verslun hætti um haustið er Sigurður
flutti erlendis. Haraldur Blöndal var hér með ljósmyndastofu. Páll Bjarnason á
Stokkseyri stundaði einhverja höndlun þar, aðalega með ræktunarvörur, fræ og
bækur og Magnús Gunnarsson með vefnaðarvörur o.fl. Þórður Jónson rak ritfanga
og bókaverslun, Sigurður Ingimundarson, vefnaðar og nýlenduvöruverslun og Jón
Jónasson matvöruverslun. Kf. Ingólfur var sem fyr stærst verslana á Stokkseyri.
Í júlí stóðu "lestirnar" sem hæst og voru ullarlestir óvenju miklar þetta
sumar. Um miðjan júlí voru verslanir hér þrotnar af nauðsynjavörum, en fyrstu haustskipa
var ekki von fyrr en í byrjun ágúst. Um haustið var Einarshafnarverslun orðin
vel byrg þegar lestað hafði verið úr tveim skipum félagsins og að auki fékk
verslunin vörur auk annara kaupmanna hér með gufuskipinu "Botníu" þegar það kom
til Reykjavíkur í vetrarbyrjun. Verr gekk Kf. Heklu að byrgja sig upp fyrir
veturinn, því eitt leiguskip þeirra "Venus" strandaði í Færeyjum.- Verðlag á innfluttum
nauðsynjavörum hafði nú hækkað um 70% frá því að heimstyrjöldin hófst 1914.
Innlend framleiðasla í landbúnaði og sjávarútvegi hafði hækkað í verði að sama
skapi. - Í vetrarbyrjun hóf Einar Jónsson bifreiðastjóri rekstur leigubifreiðar.
Fréttablaðið Suðurland hætti útgáfu að sinni eftir 6 ára sögu.
Skipakomur: Þó sjófarendum stæði stuggur af
styrjöldinni, herskipum og kafbátum, sem og tundurduflum, létu margir
skipstjórnarmenn það lítt á sig fá og héldu uppi siglingum sem áður. Faxaflóabáturinn
"Ingólfur" kom hér þann 17. maí og
síðan alls í 5 skipti milli Reykjavíkur og Eyrarbakka þetta sumar, en Kf. Hekla
annaðist hann hér. -Sund voru ófær þegar vöruskip kaupfélaganna og Einarshafnarverslunar
komu hér að síðla maímánaðar og lögðu þau til hafs á ný og biðu þess að fært
yrði. -Fyrra vorskip til Einarshafnarverslunar var seglskipið "Víking" með matvæli, nýlenduvörur,
járnvörur og vefnaðarvörur, en hið síðara var seglskipið "Vonin" með sement og timburfarm. -Um haustið kom skonortan "Bonavista" að Stokkseyri með timbur
ofl. til Ingólfsverslunar. - "Venus"
leiguskip kaupfélaganna "Heklu og "Ingólfs" strandaði í Færeyjum, hafði verið
hertekið af bretum, Skipið var að mestu hlaðið nauðsynjavörum og byggingarefni,
en á þilfari hafði það áhöld til rjómabúa og mótorbátaefni. Skipið var eign þeirra Johnsons og
Kaabers. Seglskipin "Vonin" og "Katrine" komu með haustvörurnar til
Einarshafnarverslunar, aðalega matvörur og byggingaefni.
Sjávarútvegur 1916:
Sjómenn komu í verið um miðjan febrúar, en vertíðin hófst síðan undir
mánaðarlokin og var þá unglingaskólanum slitið, enda biðu beituskúrarnir eftir
þeim. Mótorbátar sem gengu héðan af Bakkanum voru 7 að tölu og voru 5 þeirra
nýsmíðaðir, en opin róðraskip voru fjögur. Frá Stokkseyri gengu 17 vélbátar og
eitt róðraskip. Í þorlákshöfn var selstöðuútvegur og gengu þaðan 29 róðraskip
en enginn vélbátur. Vertíðin byrjaði vel hjá mótorbátunum sem sóttu stíft út á
"Selvogsbanka" en verr hjá róðraskipum sem sóttu hér á grunnið, en hjá þeim
aflaðist ekkert fyrri en í lok mars. Vermenn í Þorlákshöfn sátu auðum höndum
mun lengur og biðu eftir þeim gula fram í apríl, en áður en mánuðurinn leið að
fullu var orðið fisklaust á miðunum, bæði hér og fyrir Þorlákshöfn og lauk
vertíðinni þannig. -Um sumarið gengu nokkrir vélbátar héðan og eitthvað var róið
frá Gamla-Hrauni og Stokkseyri á opnum bátum, en djúpmiðin voru fengsæl þetta
sumar. Þrír vélbátar héðan gengu frá Sandgerði frá vertíðarlokum og fram á mitt
sumar. Sumaraflinn var mestmegnis þorskur, ýsa og langa og eitthvað af smálúðu
og skötu. Beituleysi hamlaði oft róðrum. Sjómenn vissu þó um síld á Selvogsbanka,
en þá vantaði net að veiða hana í.- Gæftarleysi og brim hömluðu veiðum þegar
leið á sumarið og var því sjósókn með minsta móti. Haustvertíðin byrjaði betur
og vel fiskaðist. Þá er gaf á sjó fram í desember fiskaðist ágætlega, helst ýsa,
væn.
Atvinnuástand: Atvinna fyrir verkafólk var oft
stopul hér við sjávarsíðuna. Helst var það verslunin sem þurfti á verkafólki að
halda og svo landeigendur um sláttinn. Margir fóru í vegavinnu út um landið á
sumrum, eða byggingavinnu, einkum í Reykjavík og einhverjar stúlkur í
fiskverkun á Kirkjusand við Reykjavík. Kaupamenn höfðu að jafnaði 30 kr.
vikulaun til sveita og kaupakonur að hámarki 18 kr. í vikulaun og því
augljóslega mikill kynbundin launamunur í landbúnaði. Almenn verkamannalaun við
sjávarsíðuna voru talsvert hærri, en vinnan þó stopulli hér eins og fyrr getur.
Sótti því fólk, héðan og þó einkum úr sveitum til Reykjavíkur þar sem
togaraútgerð var að stóreflast, þó skorti marga húsnæði er þangað fóru.
Menning og samfélag
1916: Samskot voru
haldin hér í hreppi og víðar til stuðnings héraðslækninum Gísla Pétursyni,
eftir að hús hans brann seint á síðasta ári. -Ungfr. Guðmunda Nielsen og Helgi
Hallgrímsson kennari voru hið söngelskasta fólk á þessum slóðum og stýrðu
fjöldasöng á mannamótum og stóðu fyrir tónleikum. J.D. Níelsen stóð fyrir
leikfimisýningu og skotæfingum eins og undanfarin ár. Verkamannafélagið "Báran"
hélt sína árlegu skemmtun og dansleik. -Bifreið kom hingað úr Reykjavík á
góunni hlaðinn fólki og tók ferðalagið 4 klst.-Gísli Pétursson héraðslæknir hóf
að byggja læknishúsið nýja og var það gert úr steinsteypu, (Innanveggjaplötur
voru steyptar úr vikurmöl að ráði Jóns Þorlákssonar, en hann hafði gert
tilraunir í þessa veru. Einar Finnson í Rvík var yfirsmiður) og Andrés Jónsson verslunarmaður
byggði einnig steinsteypt hús (Breiðablik) þetta sumar, bæði eru húsin á Háeyrarlóðinni.
- Vindlar og vindlingareykingar voru að komast mjög í tísku um þetta leiti og
margir fóru að ganga í tréskóm (klossum). -Mislingasótt kom hér upp og varð
hennar fyrst vart í Gunnarshúsi- Sumarhitinn var íbúum til baga, "Leggur nú
fiskýlduþefinn í hitanum um alt þorpið, götur og torg vaða út í allskonar
óþverra, rykið þyrlast inn umglugga og smugur allar í húsum og þá ofan í
lungun, vatnsból mörg illa hirt og vatnið lítið og mórautt, skolpi er helt út
fyrir húsdyrnar og aska og rusl borið rétt ofan í flæðarmál".- Barnaskólinn var
settur 1. nóvember og voru nemendur 80. Unglingaskóli var ekki þetta árið.-Einhverjir
höfðu það sér til dægrastittingar að híma í sölubúðum daginn út og daginn inn,
þó illa séð væri af kaupmönnum. Jólatréskemtun fyrir börn var hér haldin og
hefð var fyrir.
Andlát: Ingveldur Þorgilsdóttir í Hraungerði
Eb, en hún var háöldruð, (80) móðir Þorgerðar og Guðmundar úrsmiðs Halldórsbarna. Helga
Tómasdóttir í Nýjabæ (76). Jón Jakopsson frá Skipagerði í V-Landeyjum, háaldraður
maður (86). Valgerður Guðlaugsdóttir frá Neistastöðum, (50). Eugenía
Nielsen,(f.Thorgrímsen) andaðist
úr blóðeitrun (66), afleiðing gamallrar
gallsteinaveiki. Henni til heiðurs var samin drápa sem eftirfarandi vers eru
úr:
Eins og friðarengill þín
endurminning lifir,
hún í vina hjörtum skín
og "húsinu" gamla yfir.
Eyrarbakki þakkar þér
þína hjartagæzku,
sem þú öllum sýndir hér
síðan þú varst í æsku.
Göfuglynd og góð þú varst,
gæðakonan sanna!
Ættarmerkið á þér barst
íslands beztu svanna.
Tíðarfarið og
landbúnaður:
Aðfararnótt hins 21. janúar 1916 gerði óvenju mikið brim og sjógang við
suðurströndina og kom það mönnum að óvörum, því stillulogn var þá nótt. Braut flóðið
sjógarðinn milli Einarshafnar og Óseyrarness til grunna, svo að tjón það
taldist um 1000-1500 krónur að frátöldum skemdum á ræktarlandi. Sjór fæddi inn
í sjóbúðir í Þorlákshöfn og braut húsgafla og hleðslur. Tvö skip eiðilögðust á
Stokkseyri og olíuskúr Einarshafnarverslunar brotnaði niður. -Janúar var helst
til umhleypingasamur en snjóléttur, hvass á köflum og eitt sinn gerði mikið
þrumuveður og olli það foktjóni víða í uppsveitum. - Í febrúar fór frost niður
í -20°C - "Fjöruhross" voru þau kölluð, útigangshrossin hér sem gengu sjálfala
í fjörunni, heilu og hálfu daganna. -Í mars var einmunatíð og snjólaust með
öllu á Eyrum og gaf á sjó dag hvern, sem þótti með afbrigðum fátítt, en undir
lok mánaðarins brast á norðan stormur og lentu einhverjir bátar af ströndinni í
hrakningum, en engir mannskaðar urðu. -Snemma í apríl féll mesti snjór
vetrarinns og tíðin stirð, sást þá fyrsti vorboðinn, en það var skógarþröstur.
Ísingarveður gerði þá mikið og braut það niður 30 símastaura. Tók svo að brima
mjög svo ekki varð sjófært. Vorið var kalt, norðan skafrenningur og frost. Í
lok aprílmánaðar brast á með einmuna tíð, en stóð stutt og kuldinn tók við á ný
fram í maí.-Eftir miðjan maí tók jörð að grænka þegar sumarið hélt innreið sína,
og skin og skúrir skiptust um.- Um miðjan júní mældist 19 stiga hiti í forsælu,
en mánuðurinn var sólríkur nær hvern dag.-Þurkar miklir voru í byrjun júlí,
sólskín og hiti hvern dag á Eyrum fram á miðjan mánuð, en þá gerði dumbungs
veður. Gerði þá eitt mesta brim sem komið hefur að sumri, að sögn eldri manna.
Tíðin var stirð yfir sláttinn og brim stöðugt, rættist þó úr er leið á
ágústmánuð og menn hér náðu heyjum sínum. -Jarðskjálftakipp allsnarpann fundu
menn hér síðla ágústmánaðar. September byrjaði með blíðviðri sem hélst allann
oktober, brim þó stöku sinnum. Í fyrstu viku oktober snjóaði í fjöllin.
Nóvember var stormasamur í fyrstu en svo rættist úr svo fé var útigengt.
Desember var kaldur, stormar og stillur. Náði frostið iðulega í -14°C síðari
hluta desember.
Hagtölur úr sýslunni: Árið 1914 veiddust 2.365 laxar í ám
og vötnum Árnesinga. Árið 1915 veiddust 1.280 laxar og var u.þ.b. helmingur
aflans veiddur í Sandvíkurhreppi. Árið 1914 nam dúntekja 25 kg. Árið 1915 nam
dúntekja 29 kg. í sýslunni (Dúnninn var aðallega frá Laugardælum, og lítið eitt
frá Skipum og Baugsstöðum). Verkfærir karlmenn voru á þessum árum 1.196 að
tölu. Sauðfé 153.971 á Suðurlandi öllu.
Heimild: Suðurland 1916, Gardur.is, 1 óþekkt skjal.