07.02.2013 22:51
Sú var tíðin, 1915
Árið 1915 voru íbúar í Eyrarbakkahreppi 925 að tölu. -Sjóðliðsforingjar
tveir af danska varðskipinu "Valnum", voru um þessar mundir að mæla hafnargerð
hér á Eyrarbakka, fyrir stórkaupm. Lefolii, en hann var hér sjálfur staddur um lestirnar
eins og venja hans var, til að kaupa upp ull bænda. -Nokkra mánaða hlé var á
útgáfu fréttablaðsins Suðurland vegna pappírsskorts af völdum heimstyrjaldarinnar,
en með vorskipum barst loks nægur pappír til að halda útgáfunni áfram. -Ensk
herskip voru á sveimi hér skamt undan landi -Konurnar á Bakkanum fögnuðu
kosnngarétti sínum, hér sem og í Reykjavík og víðar í kaupstöðum landsins. -Í
þjórsárdal var höggvið mikið hrís til eldiviðar og fleytt ofan Brúará og Hvítá,
mest svo tekið upp á land nærri Útverkum á Skeiðum, en hrísið átti að spara
kolainnfluttning. -Erlendir ferðamenn voru óvenju fáir hér við sjávarsíðuna
þetta sumar af völdum styrjaldarinnar. Helstu umgangspestir voru "Rauðir hundar"
sem lögðust þungt á fullorðna, en þó vægar á börn og svo "Barnaveiki". Um
veturinn kviknaði í húsi héraðslæknisins Gísla Péturssonar og skemdist mikið,
en eldinn tókst að slökkva. Bifreiðar voru hér á ferð að vetrarlagi og þótti
tíðindum sæta, en færðin var með ágætum.
Skipakomur: Ekki eru til tæmandi upplýsingar um
skipakomur vorið 1915, en þó hafa að líkindum komið hér mörg er hingað komu
vorið áður en þó ljóst að styrjöldin hafi oft tafið skipaferðir hingað til
lands: "Vonin'', skip Einarshafnarverslunar
kom með vörur að utan og fór héðan með ull til Reykjavíkur. "Venus", skip Ingólfsverslunar á
Stokkseyri kom hlaðið kolum og fór aftur til útlanda með ull. Vestmannayjabáturinn,
"Óskar", kom að Stokkseyri og á
Eyrarbakka með eitthvað af vörum. Um mitt sumar kom skonnortan "Nauta" með timbur, steinolíu, sement,
tjöru og járn til Einarshafnarverslunar. -Í ófriðnum áttu bretar það til að
hertaka skip sem sigldu frá Íslandi með vörur út til Danmerkur og "kaupa úr
þeim ullina", sem var stríðandi þjóðum einkar verðmæt. -Tvö seglskip að
minnstakost komu um haustið auk strandferðaskipsins Ingólfs, en síðasta
haustskipið fór héðan 23.oktober áleiðis til Ameríku. -Fjórir smábátar komu hér
að vetrarlagi, hlaðnir vörum úr Reykjavík og var Faxaflóabáturinn "Ingólfur"
þeirra stæstur, hlaðinn steinolíu.
Verslun, þjónusta og
viðskipti: Hið víðfræga "Bakkavín" fékst ekki lengur. Áfengisbann hafði verið í lög leidd. Verslunin
fékk flestar aðrar vörur sem óskað var eftir, en vegna stríðsins voru vöruútlát
aðeins veitt gegn staðgreiðslu hjá mörgum verslunum hér. Verslunina skorti þó til
þess skiptimynnt, sem virtist vera hörgull á í landinu. -Á nokkrum liðnum árum
var verslun hér á Eyrarbakka í miklum vexti og siglingar stöðugt tíðari milli
landa, en með styrjöldinni kom mikill afturkippur í þessa atvinnugrein sökum
dýrtíðar. -Þessar voru helstu verslanir á Eyrarbakka og Stokkseyri 1915:
Verslunin Einarshöfn, Kaupfélagið Hekla, Verslun Andrésar Jónssonar og Verslun
Jóhanns V Daníelssonar á Eyrarbakka auk smærri höndlara, svo sem skartgripaverslun
Sigurðar Tómassonar úrsmiðs. Kaupfélagið Ingólfur var öflugasta verslunin á
Stokkseyri, en þar höndluðu einnig Sigurður Ingimarsson, Magnús Gunnarsson og
Jón Jónsson. Á Selfossi stofnaði Þorfinnur Jónson í Tryggvaskála, verslun þar
og keppti við Símon í Sigtúnum um viðskiptin. -Verð á útfluttningsvörum hækkaði
mikið vegna stríðsins og högnuðust framleiðendur, kaupahéðnar og útflytjendur oft
stórlega á þessum árum, t.d. hækkaði ull þrefallt í verði, verð á hrossum var
afar hátt, og sömu sögu má segja um saltfisk og lýsi. Fyrir almenning snerist
dæmið við. Verð á innfluttum kolum var afar hátt, sama gilti um sykur og
kornvöru. Vextir á lánsfé var einnig hátt og hamlandi framþróun í samfélaginu. Verkamenn
höfðu nokkra kauphækkun með tilliti til dýrtíðarinnar. Fyrsta smjörsendingin frá
Baugsstaðarjómabúinu 1915 vóg 820 pund, en smjörið var selt erlendis, en
verslanir hér fluttu hinsvegar inn smjörlíki (Margarine). Grammifónsplötur voru
nú líklega seldar í fyrsta skipti á Bakkanum, í verslun Andrésar Jónssonar, sem
var að mestu leiti vefnaðarvöru og krambúð. Þakjárn og Þakpappa var nú farið að
flytja inn í stórum stíl af verslunum hér ásamt ofnum og eldavélum. Af innfluttum
nauðsynjavörum er helst að nefna: Rúgmjöl, Hveiti, Valshafra, Grjón, Kaffi, Export, Kandís, Melis,
Púðursykur, Strausykur, Rúsínur, Sveskjur, Sagogrjón, laukur og saft. Góð færð af
Suðurlandi til Reykjavíkur langt fram eftir hausti dró til sín meiri viðskipti
þangað en venjulega og bitnaði það nokkuð á verslun hér við ströndina.
Atvinna,fiskveiðar og útgerð: Sjómenn héðan sækja veiðar daglega á
Selvogsbanka og öfluðu vel, en tilkoma mótorbáta gerir það mögulegt. Létu
sjómenn vel af aflahlut sínum þessa vertíð -Laxveiðar voru stundaðar af kappi í
Ölfusá og höfðu fengist suma daga allt að 40 fimmtán punda laxar, einkum við
Selfoss og þótti fiskurinn vera almennt stærri en hin fyrri ár, en
heildarveiðin var þó aðeins í meðallagi.- Um sumarið gekk einn bátur af Eyrarbakka og þrír af
Stokkseyri. Allir mokfiskuðu en aflinn var aðalega langa, þorskur og keila. Síld
höfðu sumir bátarnir veitt þetta 10-20 tn. í róðri. Síldin var seld jafnóðum
til Vestmanneyja, það sem ekki var notað til beitu í bráðina. Langræði var svo
mikið héðan þetta sumar, að bátarnir voru 2 sólarhringa i róðri, en allt gekk vel,
enda var gæðatíð til sjávarinns. Það mátti heita að ekki hafi sést brimboði allann
júlí mánuð. Frá Gamla-Hrauni var róið sem fyrr á árum. -Pál Jónsson vélsmiður úr
Reykjavík, settist upp á Stokkseyri til að sinna vélbátaútgerð þeirra.-
Daglaunamenn þóttust illa úti, þrátt fyrir hærri laun, en dýrtíðin var svo
mikil að ekki jafnaðist við verðlagshækkanir. Vörukarfa með algengustu
vörutegundum til heimabrúks hafði hækkað um 48,5% milli áranna 1913 og 1915. Sjómenn
sem greiddu vöru með þorski komu út á sléttu, en bændur sem greiddu í ull
högnuðust vegna hins háa ullarverðs. Sexpunda rúgbrauð kostaði hér 90 aura,(mjólkurpottur
22 aura í Rvík). -Atvinnuleysi um veturinn sem fyr. -Haustaflinn var góður og
mokfiskaðist oft á tíðum fram á vetur. -Um haustið voru smíðaðir 6 nýir
mótorbátar á Eyrarbakka og Stokkseyri, en aðeins eitt opið skip var smíðað á
árinu. -Fyrirhugað var að stofna hásetafélag hér og undirbúningur langt kominn,
þegar þessar fyrirætlanir runnu út í sandinn.
Menning og samfélag:
Þann 7. júlí 1915 fögnuðu kvenfélagskonur á Eyrarbakka auknum réttindum
kvenna, þar sem nýja stjórnaskráin veitti konum kosningarétt og kjörgengi til
alþingis. Um kveldið kl. 9 söfnuðust flestar konur þorpsins saman fyrir framan barnaskólann,
og þaðan lögðu þær svo í skrúðfylkingu. Gengu þrjár fremstar í íslenskum
skautbúningi og báru íslenskan fána - og fleiri íslenska smáfána mátti þar sjá.
Gengu þær sem leið liggur vestur að Einarshöfn, héldu þá til baka aftur og að
gisti og samkomuhúsinu Fjölni og staðnæmdust þar. Þá var sungið kvæði er ort
hafði Þröstur :
Nú er um landsins bygðir bjart,
nú blómgast dalur fagur.
Nú býst hann í sitt bezta skart
hinn bjarti frelsisdagur!
- - Hún móðir okkar fríkka fer
því fleiri hirða um skóginn:
Úr aldaloðing leyft oss er
að leggja hönd á plóginn.
Og fánann glaðar hefjum hátt
- það hitnar barmur okkar. -
Sjá! austur loftið er svo blátt
það út til starfsins lokkar.
- - Með nýjum kröftum, nýjum dug
skal nýjar brautir ryðja!
Með nýju frelsi, nýjum hug
að nýrri framsókn styðja.
Að söngnum loknum kom út á veggsvalirnar frú Guðrún
Torfadóttir og flutti ávarp. Þá var sungið: Eldgamla ísafold, og að því loknu
hrópað húrra fyrir kvenfólkinu. Síðan gengu konur inn í gistihúsið, og skemtu
sér þar við samræður og kaffidrykkju, eitthvað frameftir.-Ungfrú Karítas
Ólafsdóttir frá Stóra-Hrauni hélt hússtjórnarnámskeið í boði kvenfélagsins.-
Fyrsta ljósmyndin birt í vikublaðinu "Suðurland". Dönsk hjú héldu hér í
þorpunum fjölsótta myndasýningu ásamt töfrabrögðum ýmiskonar. Enskar húfur voru
að komast mjög í tísku hér um þessar mundir.
Skóli og fræðsla: Barna og unglingaskólinn voru settir að venju í oktober og voru þar kend íslenska, saga, náttúrufræði, landafræði, reikningur, söngur, leikfimi, danska, (enska ef óskað var). Unglingaskólinn stóð í 4 mánuði á meðan atvinnuleysið var mest yfir vetrartímann, en aðsókn ávalt dræm. Aðeins 15 nemendur sóttu þetta skólaár. -Námskeið var haldið á Stokkseyri fyrir vélamenn á bátum. -Sjómannanámskeið haldið hér á Eyrarbakka og kenndar siglingareglur. -Hússtjórnarnámskeið hélt Karitas Ólafsdóttir á Stóra-Hrauni. -Nielsen verslunarstjóri stýrði leikfimiflokk og kendi samskonar æfingar og ástundaðar voru í danska hernum. Jólatréskemtun var haldinn fyrir yngri og eldri börn í plássinu, en sá siður hafði lengi verið við líði hér áður fyr.
Eyrarbakkahreppur 1915: Íbúar 925. -Tekjur, 12,901. kr sem dreifðust þannig: Til
framfærslu fátækra kr. 4.717
- mentamál (barnask.) - 2.100
- vaxtagreiðslu .. - 1.450
-afborgana af skuldum 1.080
- ýmissa útgjalda , . - 1.100
Aðrir liðir voru undir 1000 kr.
Andlát 1915: Jónina Árnadóttir í Einarshúsi, kona
Guðmundar Jónssonar hreppsnefndaroddvita á Eyrarbakka. -Sigurður Árnason frá Hafliðakoti í
Hraunshverfi úr lungnabólgu, 68 ára gamall. Hann var 36 vertíðir formaður á
Stokkseyri. -Sigurður
Bjarnason frá Eyfakoti Jónssonar þar. -Hallfríður Guðlaugsdóttir 15 ára frá Nýjabæ. -Andrés Kristinn Bjarnason 7 ára frá
Brennu.- -Jóhanna Ingibjörg Valdimarsdóttir 3 ára frá Norðurkoti.
Konráð Ragnar Konráðssonar
læknis, hvítvoðungur.
Tíðarfarið, ræktun og
landbúnaður: Þann
11. og 12. júlí gerði ofsarok er hér á Eyrarbakka
og kulda mikinn. Nóttina á milli snjóaði á Reykjanesfjallgarðinn niður undir
bygð í ofanverðu Ölfusi. Lá snjór liður eftir öllu fram að hádegi. Stormurinn lamdi
niður kartöflugrös og annan gróður i görðum. -Slátturinn byrjaði um miðjan júlí
og voru túnin víða dável sprottin, en sumstaðar kalin og skemd. Mýrar voru þá flestar
illa sprotnar og óvænlega horfði með þær. -Þurkatíð í ágúst fór illa með
kartöflugrös í sandgörðunum hér en menn reindu að vökva öðru hvoru til að halda
þeim á lífi. Sendin tún fóru einnig illa í þurkunum og komu á þau bleikir
blettir. -Garðauppskera var með miklum ágætum þetta haust og höfðu sumir
þrítugfalda kartöfluuppskeru. Guðmundur Ísleifsson á Háeyri leigði nokkrum
mönnum land til jarðyrkju á flötunum austan Barnaskólanns, fékk þó ræktunin egi
frið fyrir skemdarvörgum. -Fáeinum sauðum var slátrað á Bakkanum þetta haustið,
þá aðeins sláturfé heimamanna. -Haustrigningar hófust í byrjun oktober. Ripsberjagræðling
hafði maður nokkur sett niður hér í garð sinn og þótti það til tíðinda þegar á
það kom eitt ber um haustið. Gæðatíð var til lands og sjávar haust og fram
eftir vetri. Eftir jól tók að brima hér við ströndina og veður öll að færast í
umhleypinga.
Heimild: Suðurland 1915