08.01.2013 23:08
Sporin í sandinum
Á nýju ári er venjan að líta yfir farinn veg og líta á spor sín í sandinum og sjá hve langt þau leiða. Það er hinsvegar venja hér á "Briminu" að horfa enn lengra til baka og sjá hvers minnast má af sporum liðins tíma áður en alda gleimskunar máir þau út. Á þessu ári verða 40 ár liðin frá því að sr.Valgeir Ástráðsson stofnaði Æskulýðsfélag Eyrarbakkakirkju (Æ.F.E) og er sá félagsskapur eflaust mörgum hálfrar aldar Eyrbekkingum enn í fersku minni. Höfuðstöðvar félagsins voru í Brimveri, þar sem nú stendur leikskóli með sama nafni. En Brimver eldra var gömul vegasjoppa utan af landi sem U.M.F.E. fékk undir félagsstarfsemi sína. Þarna komu saman ungmenni til leiks og starfa. Um tíma var mikil gróska í þessu félagi en skammlíft varð það. Haldin voru m.a. kvikmynda og tónlista kvöld og skipulögð ferðalög víða um land. Húsið var fyrst staðsett austur á íþróttavelli, en síðan flutt þar sem leikskólinn stendur nú. Var það mikið afrek hjá litlu félagi að gera húsið upp og halda í því gróskumikla starfsemi á sínum tíma. Síðar var þetta hús notað sem fyrsti leikskólinn hér á Bakkanum og sjálfsagt að margir uppkomnir Eyrbekkingar eigi þaðan minningar, en því miður á ég ekki mynd af þessu ágæta húsi sem síðan vék fyrir nýjum leikskóla.
Þá eru einnig 40 ár síðan þorpsbúum fjölgaði skyndilega í einni svipan svo að segja, þegar allmargar fjölskyldur úr Vestmannaeyjum settust hér að í kjölfar eldgossins þar áHeimaey. Ungir Eyjapeyjar og Bakkameyjar, Bakkapeyjar og Eyjameyjar renndu hýru auga hvort til annars, er mæst var á stéttinni við Laugabúð.
70 ár eru liðin síðan hlutafélag um Hraðfrystistöð Eyrarbakka (H.E.) var stofnuð og Útgerðarfélagið Óðinn og urðu þessi félög lengi helstu máttarstólpar þorpsins þó ýmsir erfiðleikar væru þó alltaf handan við hornið. Flestar konur á Bakkanum og eldri karlar margir unnu hjá þessu ágæta fiskvinnslufyrirtæki á sínum tíma. Ungt fólk margt hóf þar sína fyrstu atvinnu, einkum þegar farið var að vinna humar, en mörg ungmennin unnu einnig í saltfiski á sumrin og ætið var einhver leyndardómsfull stemming yfir þessum vinnustað yfir há vertíðina. Yngri menn og frískari fóru margir til sjós á þeim bátum sem gerðir voru út héðan. Með tíð og tíma lagðist þessi starfsemi niður hér á Bakkanum.