18.11.2012 23:25

Sú var tíðin,1913

Þetta var árið sem óskabarn þjóðarinnar, Eimskipafélag Íslands braust úr eggi og íslendingar sáu í hendi sér þann möguleika að þjóðin gæti staðið á egin fótum þegar fram liðu stundir, eftir margra alda niðurlægingu undir erlendri stjórn. Nú máttu íslendingar stofna sinn eginn þjóðfána og var það tilhlökkunarefni, jafnvel hér í hálfdanska þorpinu við sjóinn þar sem "dannebrog" blakti ævinlega í hafgolunni til heiðurs konungi vorum Kristjáni IX.

Raflýsingarmálin voru efst á baugi í upphafi ársins 1913. Sveitafundir á Stokkseyri og Eyrarbakka lögðu dálítið fé til ransókna á mögulegri raflýsingu þorpana, en helst kom til greina að virkja Baugstaðarós ella sameiginleg Díselrafstöð á Stóra-Hrauni fyrir bæði þorpin. Kol og olía voru seld á afarverði hér í verslunum og þótti flestum nóg um. Fyrir héraðið þótti það vísa á framfarir þegar mælingum Indriða Reinholt á járnbrautarleiðinni frá Reykjavík austur að Þjórsá lauk og kostnaðaráætlun gerð, en þar var gert ráð fyrir að brautin kostaði 3½ miljón króna. Var frumvarp um járnbrautina lögð fyrir alþingi. Fyrirhuguð brautarleið frá Reykjavík lá um Mosfellsheiði - Þingvelli - niður með Þingvallavatni að austan og niður í Grimsnes, vestur yflr Sogið og niðureftir austan Ingólfsfjalls og yfir Ölfusá hjá Selfossi. Þaðan átti að leggja grein hingað niður á Eyrarbakka, en aðalbrautin héldi áfram beina leið að Þjórsárbrú. Þá hliðarbraut upp Skeið - Ytrihrepp og Biskupstungur til Geysis. Fyrr en varði hófust þó deilur um legu brautarinnar, því sumir vildu að brautin lægi um uppsveitir sýslunar, skemstu leið austur að Þjórsá. Sögðu þá aðrir að þegar bílarnir kæmu yrðu lestar óþarfar. Hér tóku menn sig hinsvegar til og máluðu kirkjuna hátt og lágt. Gestkvæmt var við ströndina, fyrirlesarar með fróðleik og tortryggilegir kaupsýslumenn úr Reykjavík að pranga með byggingalóðir þar í höfuðstaðnum, og svo hinsvegar útlendir betlarar sem gengu á milli manna hér um sumarið, eins og hin síðustu sumur. Þeim var hinsvegar minna fagnað og þóttu afar ógeðfeldir nágungar. Eyrarbakkahreppi var leyfð 6.000 kr. lántaka til nýrrar skólahússbyggingar og 3.450 kr. lán til endurbyggina sjógarða og þá var oddvita falið að selja fangaklefann á Eyrarbakka. Bifreiðar sáust nú ferðast um sunnlenska vegi, sem voru helst til þröngir og misjafnlega greiðfærir hestvagnabrautir. Hér voru byggð 4 íbúðarhús og veglegt barnaskólahús, stórt vörugeymsluhús og eitt hús fyrir fénað og hey - öll úr steinsteypu. Ekkert hús er bygt úr timbri hér á Eyrarbakka þetta sumar. Landsverkfræðingur kom hér til að athuga garðstæði fyrir garði til varnar jakaburði úr Ölfusá. Héðan fór hann út í Þorlákshöfn til að athuga lendingar og undirbúa væntanlegar endurbætur á þeim. Ekkert meira hafði frést af hafnarævintýrinu sem frakkar ætluðu að kosta í þorlákshöfn og höfðu kaupin líklega gengið til baka, því Þorleifur Guðmundsson hafði nú aftur selt Þorlákshöfn félagi einu fyrir 160 þús. kr. Formaður félagsins var P. I. Thorsteinsson, áður á Bildudal. Íbúar á Eyrarbakka og bæjum í kring árið 1913 voru samtals 879 manns.

Skipakomur: Venja var að flagga tveim rauðhvítum fánum (dannebrog) við skipakomur á Eyrarbakka og Stokkseyri. Fánanum danska var því óvenjutítt flaggað hér við ströndina árið 1913. Fyrsta vorskipið  kom 11. apríl, en það var strandferðaskipið "Hólar" með nokkuð af vörum til flestra verslana hér, kom það aftur tvívegis síðsumars. Einarshafnarskip komu tvö um vorið, "Svend" og "Irsa", með vörur til verslunarinnar. Þá kom "Elise" frá Halmstad  til Stokkseyrar með timbur og tvö skip önnur. Annað þeirra "Elin" með vörur til kaupfél. Ingólfur, hafði verið hér fyrir utan alllengi og ekki getað náð höfn vegna brims og storma fyr en í 9. viku sumars. Að áliðnu sumri kom til Stokkseyrar skonortan "Venus", hlaðin kolum til Ingólfsverslunar á Stokkseyri, kom hún aftur með kolafarm snemma hausts. Skonortan "Henry" kom með saltfarm til versl. "Einarshöfn" og "Vonin", seglskip til sömu verslunar, kom einig. "Ingólfur" kom að Stokkseyri og í Þorlákshöfn, til að sækja saltfisk. "Nordlyset" kom með olíu til verslananna hér á Eyrarbakka um miðjan ágúst. "Fanney", saltskip til Ingólfs á Stokkseyri og í Þorlákshöfn komu í sumarlok.  

Atvinna, sjósókn, landbúnaður og verslun: Vetrarvertíðin fór hægt af stað og lítið fiskaðist á miðum Eyrbekkinga í byrjun. Nýjum vélabáti [Búi ÁR 131] var hleypt af stokkunum, er Bjarni Þorkellsson hafði smíðað hér þennan vetur. Var báturinn stór og vandaður. Hann átti Ingólfsfélagið á Stokkseyri, en 23. febrúar slitnaði báturinn upp hér á Eyrarbakkahöfn og rak út í brimgarð, lögðu margir sig í hættu við að bjarga honum og tókst það slysalaust. Þá gerðist það í Gaulverjabæ, að maður gekk á reka, og sá hann þá sílatorfu mikla rétt við land i brimgarðinum, en mikil mergð þorska óð þar ofansjávar, hættu þorskarnir sér of nærri landi og skoluðu bylgjurnar þeim á land. Spurðist þetta út og náðu Gaulverjar í einni svipan 530 stórþoskum. Fengu þeir þar góðan "hlut á þurru landi", en þá tók líka að fiskast á öllum miðum hér við ströndina, þó dró talsvert úr afla hér á heimamiðum vegna gæftaleysis þegar á leið vertíðina sem var einhver sú lakasta fyrir sjósóknara hér. Sumar og haustveiðar urðu með lakasta móti og vart bein úr sjó að hafa og gekk svo fram á vetur. Magnús Gunnarsson frá Brú stofnaði til kramvöruverslunar á Stokkseyri. Andrés Jónsson stofnaði verslun í Kirkjuhúsi hér á Eyrarbakka, hafði áður verið verslunarmaður hjá versl. Ingólfi á Háeyri. Almennt gekk verslun ágætlega sunnanlands. Hey bænda hröktust talsvert í mikilli vætutíð sem gerði eftir sláttinn og brugðu sumir á það ráð að verka súrhey, en er á leið sumarið kom góður þurkakafli sem bjargaði mörgum en heyfengur var frekar rír. Vetrarverslunin var með daufasta móti og umferð lítil. "Nú sést ekki smjörögn fremur en glóandi gull", sagði kaupmaður nokkur.

Andlát: Tvö ung börn á fyrsta ári létust af veikindum sínum.

Menning og íþróttir: Ungmennafélagið á Stokkseyri var mjög virkt á árinu 1913 og hélt þar uppi fjölmennum skemtunum. Þá voru haldnar dansskemtanir í báðum þorpum hér á Eyrum um miðjan Þorra og var þar gnægð matar fram borinn. Sönglistin fékk líka að njóta sín hér við sjóinn, undir stjórn Guðmundu Níelsen. Sumir höfðu mestu skemtan af símahlerun, það var auðvelt fyrir þá sem áttu einkasíma, aðeins þurfti að lyfta tólinu og hlusta. Heldur dró úr íþróttaþáttöku almennt hér á þessu ári. Leikhús, hljómleikar og söngskemtanir voru hinsvegar stundaðar hér yfir vetrartímann og var verkið "Æfintýri á gönguför" m.a. sett upp í Fjölni. Hússtjórnarnámskeið var haldið hér á Eyrarbakka á haustmánuðum. Kensluna hafði á hendi ungfrú Halldóra Ólafsdóttir frá Kálfholti og voru nemendur 9 talsins.

Hamfarir og slys:  Þann 9. og 10. febr´ 1913 var hér afspyrnurok af suðri, gekk sjór mjög á land, svo ekki hafði um langa hríð jafn hátt gengið. Rofnuðu þá sjógarðar víða og sópuðust brott á löngum köflum í grunn niður. Voru menn naumast óttalausir í húsum inni, enda fyltust kjallarar á ýmsum stöðum og varð af tjón nokkurt. Kálgarðar skemdust og til muna. Tjón það er hér varð á Eyrum af sjógangi þessum, var áætlað þúsundir króna, en til allrar hamingju var smástreymt, ella hefði tjónið orðið meira. Rak í þessu flóði tré mikið í hinni svo nefndu Keflavík, sem er smá vogur, sem gengur inní strandbergið milli Þorlákshafnar og Selvogs.  Enskur togari bjargaði áhöfn Guðmundar Hannessonar í Túngu í Gaulverjabæjarhreppi, sem lokaðist úti í brimi og aftaka veðri. Kom togarinn að á Stokkseyri næsta dag. Fór þá Jón Sturlaugsson hafnsögumaður á vélbát sínum útí togarann og tókst honum að ná mönnunum og flytja í land. Í sumarbyrjun varð mönnum hér starsýnt til Heklu og þóttust sjá þar í grend gos mikið hafið. Fóru menn héðan austur, þeir Guðm. verslunarstjóri Guðmundsson, Kjartan Guðmundsson Ijósmyndari og Þorfinnur Jónsson i Tryggvaskála. Riðu þeir yfir Þjórsá á Nautavaði og síðan upp Land að Galtalæk og þaðan með fylgdarmann inn á Fjallabaksleið. Mætti þeim eldgos stórt vestur undir Hrafnabjörgum, austan við Heklu og hraun þar nýrunnið nefndu þeir "Hörpuhraun". Um sumarið fóru kaupmaður Lefolii og J. D. Nielsen austur að eldstöðvunum.

Náttúran og tíðarfarið: Umhleypingasamt var í byrjun ársins 1913 en þegar kom í febrúar urðu veður afar byljótt  svo sá ekki húsa á milli hér á Eyrum. Skóf mjög saman snjóinn i skafla, var ekki fært um veginn öðrum en karlmennum einum. Vepjur sáust upp við Laugarás um miðjan janúar og þótti markvert því fuglar þessir voru nær óþekktir hér austan fjalls, en höfðu sést sumstaðar á flækingi að vetri til og var fuglinn því oft nefndur "Ískráka".  [Um þessa fuglategund skráði P. Nielsen á Eyrarbakka: Haustið 1875 sáust nokkrir fuglar í Grímsnesinu og haustið 1876 var einn (karlfugl) skotinn í Mosvallahreppi í ísafjarðarsýslu. 1. jan. 1877 var einn (kvenfugi) tekinn lifandi í heygarði hér á Eyrarbakka, mjög aðfram kominn af sulti og kulda, og var hann drepinn samdægurs. Í maganum var ekkert annað en fáeinir smásteinar. Snemma í janúar 1879 kom hann í stórhópum og hélt sér um tíma við sjó hér sunnanlands. 2. febr. 1882 sáust 5 í Ölfusinu og var einn skotinn. 7. des. 1889 var einn (kvenfugl) skotinn hér við Eyrarbakka. Ennfremur var einn skotinn í Ölfusinu 17. febr. 1895 og seint í febrúar s. á. sáust þrír við Eyrarbakka. Áttunda mars 1901 sást einn við Stokkseyri og í miðjum desember s. á., hélt lítill hópur til við Gamlahraun. 6. marz 1907 var ungur karlfugl skotinn við Eyrarbakka og 17. jan. 1912 fanst einn með brotinn væng hér í þorpinu, hefir að líkindum flogið á símaþræðina. Norðanlands sést ísakrákan einstaka sinnum í janúar og febrúar... ]- Allan febrúar lágu á sífeldar hafáttir, sandbyljir, sjávarflóð og hregg og hrið, frostlaust þó. Fólki varla verið útkomandi fyrir ólátum í veðrinu og Spói kvað:

Ennþá Kári óður hvín,

æðir sjár á löndin. -

Ógna bára yfir gín,

Er í sárum ströndin.

Snjóalög voru mikil þegar vetur kvaddi og mesta frost var -18°C. Hettumáfurinn verpti hér í fyrsta sinn, gerði sér hreiður við tjörn hjá Stokkseyrarseli, en vorið var kalt og þurt og síðan tók við vætusumar og haustið rosasamt. Í nóvember hafði snjóað mikið milli fjalls og fjöru og hagbann orðið. Skömmu fyrir jól gerði ofsaveður mikið af útsuðri svo hús léku á reiðiskjálfi.  14 álna langan hval (andarnefju) rak á Skipafjöru, skamt fyrir vestan Baugstaðakamp svonefndan. Úr heimi skordýranna var fiskiflugan hér almennust.

Heimild: Suðurland 1913, Lögberg 1913 gardur.is, skátavefurinn. Skjal/Appendix F Population in Eyrarbakki 1910-1970

Flettingar í dag: 1296
Gestir í dag: 247
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261586
Samtals gestir: 33874
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 21:00:07