18.10.2012 23:51

Sú var tíðin, 1910

Þetta var árið sem Þorleifur á Háeyri keypti Þorlákshöfn fyrir 32.000 kr, og Leikfélag Eyrarbakka sýndi í Fjölni gaman-sjónleikina: "Vinnukonuáhyggjur" og "Nábúarnir" við góðan orðstýr. Gripasýning fór fram að Selfossi þann 28. júní og vakti óskipta athygli áhugasamra. Þetta var líka árið sem Grímsnesvegurinn var lagður og sömu leiðis vegurinn upp á Dyrhólaey. Gróðrarstöð hafði Búnaðarfél. Íslands sett á stofn á Selfossi við Ölfusárbrú á þessu herrans ári. Að henni starfaði Kjartan Guðmundsson frá Hörgsholti. Þetta ár dó Magnús mormóni Kristjánsson í Óseyrarnesi og Ólafur söðlasmiður Ólafsson í Sandprýði, báðir ágætis menn.

Tíðarfarið: Bændur hér austanfjalls höfðu liðið fyrir harðan vetur sem varð þeim heyfrekur fremur venju og þegar leið að vori gerði hret  sem var vetrinum öllu verri. Næturfrostin hófust strax í ágúst. September var kaldsamur með snjó í fjöllum og einn dag snjóaði niður undir sjávarmál. Kom svo góður kafli með auða jörð fram til jóla. Öskufalls varð vart í Landmannahreppi þann 18. júní og víðar um sunnlenskar svetir.

Skipakomur og skipaferðir:  Sumarið 1910 komu óvenju mörg seglskip til Eyrarbakka, komu þá fimm allstór seglskip, þ.a.m. "Kong Helge" Höfðu mótorbátarnir þá í nógu að snúast með uppskipunarbátanna í togi. Verkafólkið vann nótt sem dag við vörulöndun og útskipun. Þá kom "Gambetta", aukaskip Thorefélagsins frá útlöndum með vörur til Ingólfsfélagsins. Strandferðaskipin sem sigldu á Sunnlenskar hafnir á þessum árum hétu "Hólar" og "Perwie" mestu dallar báðir. Seint um haustið kom járnseglskipið "Vonin", en það skip átti fyrrverandi Lefolii verslun og síðar Einarshafnarverslun. Var hún búin að eiga 49 daga útivist frá Bergen i Noregi vegna mótbyrs og óveðra, og var hún "talin af" bæði hér og i Kaupmannahöfn. Hér hitti hún þó á besta sjóveður og var með snarræði og dugnaði losuð á 5 sólarhringum, af duglegum Eyrbekkingum. Sorglegt var það hinsvegar að þá er skipið var komið hér í höfn, sendi stýrmaður símskeyti til konu sinnar í Kaupmannahöfn, um að hann væri hingað kominn heill á húfi, en fékk að vörmu spori það svar, að um sama Ieyti og hann náði höfn hér, hafði kona hans andast ytra og vakti það almenna hluttekningu þorpsbúa með stýrimanninum.

Íþróttir: Hið fyrsta sambands-íþróttamót ungmennafélaganna á Suðurlandsundirlendinu og kent er við Skarphéðinn, fór fram að Þjórsártúni 9. júlí 1910. Glímuþátttakendur voru 18, hvatlegir piltar, vænir á velli og vel á sig komnir; allir í einkennisbúningi og undu áhorfendur vel við að virða þá fyrir sér áður en byrjað var, enda var veður hið besta, lofthiti og logn. 1. verðlaun, silfurskjöldinn, hlaut Haraldur Einarsson, frá Vík. 2. verðlaun Ágúst Ándrésson, Hemlu. 3. verðlaun Bjarni Bjamason, Auðsholti. Grísk-rómverska glímu sýndu þeir Sæmundur Friðriksson, Stokkseyri og Haraldur Einarsson, Vík. Var hún allflestum nýstárleg íþrótt og klöppuðu áhorfendur lof i lófa. Einnig var keppt í fjölmörgum hlaupa og stökkgreinum.

Atvinna: Landbúnaður var stundaður að kappi á Bakkanum 1910 og vart litið við sjó um sláttinn, en nokkuð um að gert var út á síld frá Eyrarbakka og Stokkseyri þá um sumarið.

Götulýsing: Tvö gasljós voru til hér á Bakkanum 1910. Annað var úti við Einarshafnarverslun, en hitt ljósið var inni í Ingólfs búð, og nýttist til að lýsa vefarendum þar hjá, þegar hlerarnir voru ekki fyrir gluggunum. Annars voru steinolíu-luktir brúkaðar víðast úti við á dimmum vetrarkvöldum.

Heimild: Suðurland 1910

Flettingar í dag: 1296
Gestir í dag: 247
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261586
Samtals gestir: 33874
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 21:00:07