29.08.2012 21:51

Ýmislegt smálegt

Staður. Húsið "Staður" stóð rétt við verslunarhúsin gömlu, þar sem samkomuhúsið "Staður" er nú, og hafði Ólafur faðir Sigurðar Óla alþingismanns reist það. Húsið "Staður" var síðar flutt til Selfoss. 

Eyrbekkingur nokkur segir svo frá: "Til skamms tíma var vindhani á turni kirkjunnar á Eyrarbakka. Var vindhaninn annað mesta stolt Eyrbekkinga á eftir "Húsinu". Illu heilli flutti svo hingað Snæfellingur af alkunnu  Axlarætt. Var þá vindrhaninn tekinn niður af kirkjuturninum og upp settur kross byggðarlaginu til sáluhjálpar. - Voru það slæm skipti á vindhönum".


Efnabóndi: Þorkell Jónsson skipasmiður á Gamla-Hrauni á Eyrarbakka bjó í Simbakoti á Eyrarbakka 1798-1802, á Stóru-Háeyri 1802-1812 og síðan á Gamla-Hrauni til dauðadags 28. des. 1820. Þorkell eignaðist 5 jarðir, Gamla-Hraun, Salthól, Syðsta-Kökk, Dvergasteina og Hárlaugsstaði í Holtum, var og allauðugur að lausafé, svo að hann var með efnuðustu bændum á þeim tímum. Hann var hreppstjóri um skeið með Jóni ríka í Móhúsum og fleiri trúnaðarstörf voru honum falin. Kona Þorkels var Valgerður Aradóttir frá Neistakoti.

Kindin: Jóhanna Sigríður Hannesdóttir frá Stóru-Sandvík í Flóa, f. 4.5. 1897, d. 26.12. 1971 og Ketill Finnbogi Sigurðsson frá Garði í Dýrafirði, f. 7.12. 1898, d. 19.7. 1959, sýsluskrifari, síðar bankafulltrúi.

Þau bjuggu í Suðurgötu á Eyrarbakka til skams tíma í kringum 1935. Jóhanna átti eina kind sem alltaf var kölluð "Kindin" og ekkert annað.

Boðaði komu rafmagnsaldar. Guðmundur Þorvaldsson bóndi á Bíldsfelli í Grafningi, virkjaði bæjarlækinn. Þar hlóð hann neðst í gilinu í hefðbundnum íslenskum byggingarstíl húskofa úr torfi og grjóti. Fór Guðmundur þar að ráðum Dana nokkurs, Rostgaard að nafni, sem einnig vildi selja honum efni í rafstöðina. Rafstöðin var svo gangsett í febrúar 1912, lýsti hann upp öll bæjarhúsin og auk þess útihús. Var það fyrsta bændabýlið sem rafvæddist á íslandi. 

Kartöflubransinn: Seint á sjöunda áratugnum ætluðu tveir ungir menn að gerast hinir stórtækustu kartöflubændur hér sunnanlands og létu plægja mikinn kartöflugarð á Eyrarbakka. Höfðu þeir keypt 50 tonn af útsæði sem öllu var potað niður. Svo var beðið uppskerunnar, en áætlanir gerðu ráð fyrir að upp úr garðinum fengjust 500 tonn af fyrsta flokks matarkartöflum sem selja mátti með góðum hagnaði í helstu matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Þegar grös féllu þá um haustið var hafist handa við úppúrtektina en heldur reindist hún rýr uppskeran. Þegar allt var talið og vegið, skilaði garðurinn aðeins 40 tonnum af kartöflum.

Flettingar í dag: 996
Gestir í dag: 221
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261286
Samtals gestir: 33848
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:39:06