22.08.2012 23:21
Dáðadrengir
Að morgni 13.apríl 1926 reru 17 bátar
af Eyrarbakka og Stokkseyri. Þegar á daginn leið gerði landsynningsrok og brim svo mikið, að aðeins nokkrir
bátar gátu lent heima, (aðeins 5 bátar náðu höfn á Stokkseyri og 4 á
Eyrarbakka) en hinir urðu að láta
fyrirberast úti á rúmsjó. Þegar heimamönnum þótti sýnt, að bátarnir gátu
ekki náð landi var símað til stjórnarráðsins og það beðið að hlutast til um það,
að varðskipið Fylla og önnur skip, sem til næðist væru beðin að koma bátunum
til hjálpar. Var þá strax sent skeyti til allra skipa á þessu svæði og þau
beðin að líta eftir bátunum. Strax um kvöldið voru fimm íslenskir togarar
komnir á vettvang til hjálpar, þeir Skallagrímur, Belgaum, Hannes ráðherra,
Earl Kitchener og Gyllir. Tók Gyllir einn bátinn "Trausta" og dróg hann
til Reykjavíkur, en Skallagrímur bjargaði áhöfninni af "Öðlingi", bát frá
Eyrarbakka (ÁR 148 vélbátur Árna Helgasonar í
Akri). Liðaðist hann sundur og sökk, (skipsflakið rak á land við
Grindavík) en skipverjar komu með Skallagrími til Reykjavíkur. Belgaum, Hannes
ráðherra og Earl Kitchener fylgdu hinum 7 bátunum, sem eftir voru til
Vestmannaeyja.
Sveinn Árnason fyrrum nágranni minn í Nýjabæ minntist eitt sinn á
þennan atburð, en hann mun þá hafa verið 13 ára er faðir hans var með Öðling.
Eftir barning allan daginn berandi ótta og kvíða í brjósti á lítilli bátskel í
aftaka veðri handan við brimgarðinn, varð það þeim mikill léttir þegar þeir sáu
togarann Skallagrím sér við hlið. En þó höfðu þeir aldrei orðið eins hissa og
þakklátir þegar þeir þekktu manninn sem rétti fram höndina og kippti þeim um
borð, en það reindist vera nágranni þeirra feðga, Sigurður Guðjónsson frá
Litlu-Háeyri sem þá var háseti á Skallagrími, en átti síðar eftir að stýra því
skipi farsællega öll heimstyrjaldarárin. Við annað tækifæri átti þessi frækni
togaraskipstjóri eftir að fylgja þeim feðgum fyrir Reykjanesið, en þeir höfðu
þá keypt bát frá Akranesi og lentu í miklum barningi á hemleið.
Heimild: Aldan 1926
Mynd-Skallagrímur RE:http://www.mikes-place.connectfree.co.uk/icegal/skallagrimur.html
Eldri frásögn Brimið á Bakkanum: Hrakningar á miðunum