19.06.2012 22:47
Þorlákshöfn, aldargömul veiðistöð
Staðurinn er kenndur við Þorlák
helga biskup Þórhallsonar í Skálholti en áður hafði þessi staður verið nefndur Elliðahöfn.
Þrautalending Eyrbekkinga, Stokkseyringa og Loftstaðarmanna var fyrrum í
Þorlákshöfn þegar hafnir lokuðust vegna brims. Lefolii verslun hafði þar einnig
einhverja aðstöðu fyrr á tímum. Einhver útvegur hefur verið frá Þorlákshöfn í
gegn um aldirnar [sbr. 1706 Skipstapi frá Elliðahöfn með 13 mönnum.] en regluleg
útgerð þaðan hófst þegar Jón Árnason kaupmaður og útvegsmaður hóf búskap í
Þorlákshöfn árið 1862 og keypti jörðina sama ár, fyrir 500 kr. Jón
Árnason andaðist í nóvember 1912 og bjó þar
stórbúi til dauðadags, og
ekkja hans til fardaga árið 1914;
Jón Árnason seldi Þorleifi
Guðmundssyni frá Háeyri á Eyrarbakka, jörðina árið 1910, fyrir 32 þúsund
kr. Árið 1913, seldi Þorleifur "Hlutafélaginu Þorlákshöfn" jörðina, en "bjó" þar frá
fardögum 1914, til fardaga 1928. Þá
voru orðnir eigendur Þorlákshafnar, þeir Magnús
Sigurðsson bankastjóri, Halldór
Þorsteinsson skipstj. o. fl. en eftir 1928, hafði maður nefndur Guðmundur Jónsson búið
þar, en þegar talað er um ábúð jarðarinnar frá 1911, er aðeins átt við grasnyt hennar, því frá þvi ári, nutu eigendur þess arðs,
er hún gaf af sér, sem fiskiver. Verstöðin fór þá smám saman að draga til sín
fólk frá Eyrarbakka, Stokkseyri, Ölfusi og vestan úr Selvogi sem hafði þar
viðveru í sjóbúðum um vertíðarnar.
Þegar Þorleifur Guðmundsson keypti
jörðina, munu hafa róið þaðan 14 áraskip, 10 og 12 róin, en róðraskipin urðu flest árið 1916 eða 29 skip,
en úr því fór þeim
smá fækkandi, þar til ekki var
orðinn eftir nema 1 bátur sem
gekk þaðan til fiskveiða. Það var síðan
eftir að Kaupfélag Árnesinga keypti jörðina 1937 að útgerð fór aftur vaxandi
frá Þorlákshöfn en fólksfjölgun og þorpsmyndun fór þó hægt af stað. [1951 voru
14 manns með lögheimili í Þorlákshöfn] Trillubátaútgerð hófst þar fyrst
árið 1928 og úr því var farið að gera
lendingarbætur, fyrir rikisfé, með tillagi frá Arnessýslu.
Árið 1912, voru helstu formenn í
Þorlákshöfn, þeir Guðfinnur Þórarinsson, frá Eyri á Eyrarbakka, bræðurnir Páll
Grímsson, og Bjarni Grímsson frá Óseyrarnesi, síðar fiskimatsmaður i Reykjavik.
Fyrir höfnina var á sínum tíma hlaðinn mikill sjógarður sem Jón Árnason lét hlaða um 1880, stóð Ásbjörn Ásbjörnsson frá
Brennu á Eyrarbakka fyrir hleðslunni. Hann var afarmenni að burðum og
hleðslumaður ágætur. Garðurinn var hlaðinn á mörgum árum, aðallega í landlegum á vertiðum.
Vorið 1919, sendi verkfræðingur N.P. Kirk, (f. 7.5.1882 d.
16.10.1919) fullkomna áætlun um hafnargerð í Þorlákshöfn, til stjórnarráðs
íslands, og var þar gert ráð fyrir 2 hafnargörðum, 850 og 500 metra löngum og 250 metra langri bryggju með bryggjuhaus. Í
athugasemdum sínum frá 1919,
kemst Kirk, verkfræðingur svo að orði: "Hversu
nauðsynlegt sé að hafa stór steypubjörg garðinum til verndar, sést vel af því, að á ferð
minni þar, mældi ég tvo steina; var annar 9 smálestir að þyngd,
en hinn 40 smálestir, og hafði brimið kastað
hinum fyrnefnda 25 metra og lyft honum 3 metra, en hinum hafði það kastað 15 metra og lyft honum 1,25 metra. Sýnir þetta best afl sjávarins, á þessum stað". Síðar var byggð
góð höfn í Þorlákshöfn og voru hugmyndir Kirks trúlega hafðar að leiðarljósi.
Vorið 1933 hófst vinna við steinsteypta bryggju og henni
haldið áfram næstu sumur og var
sú bryggja 74 m löng þegar gerð hennar lauk. Sumarið 1935, var steyptur
brimvarnargarður, sunnanverðu
við Norðurvör og við hann bætt nokkrum
metrum, 1936. Var sá garður 92 m. langur. Til að hlífa landi móti austri fyrir sjávargangi, var fyrrum hlaðinn öflugur sjógarður úr stórgrýti sem áður er getið. Hann var um
150 metrar á lengd, fláði
hann inn lítið eitt (c. 20°) og þótti
mikið mannvirki, hlaðinn á þeim
tímum, þegar aðeins var um að
ræða handaflið eitt. Samtímis og
byrjað var á bryggjunni var farið að
endurbæta sjógarðinn, þar sem
hann var genginn úr skorðum og sementslag steypt utan á,
þannig, að á c. 50 metrum var hann sléttur sem fjöl, á 3 m. hárri hleðslunni sem enn
stóð óhögguð. Árið 1949 var hlutafélagið Meitillinn H/F stofnaður og óx þá
hagur Þorlákshafnar jafnt og þétt.