07.04.2012 00:25

"EOS" strandið

http://loregame.wikia.com/wiki/Naval_UnitsÍ janúar 1920 rak mannlaust skip inn fyrir brimgarðinn á Eyrarbakka og brotnaði í spón. Það var barkskipið "EOS" frá Hafnafirði og hafði áhöfnin yfirgefið skipið skömmu áður. Skipið fór frá Hafnarfirði 19. janúar og var förinni heitið til Svíþjóðar. Dró mótorskipið "Venus" það úr höfn og skildi við það um tveim tímum síðar. Barkskipið komst síðan klakklaust fyrir Reykjanes. En aðfaranótt 21. janúar um kl. 2 gerði svo mikið aftakaveður [Af suðaustri], að ekki varð við neitt ráðið. Mistu þeir þá stjórn á skipinu og virtist svo um tíma, sem skipinu væri mikil hætta búin. Tóku þá seglin að rifna, hvert af öðru, og reiðar gengu úr lagi. Seint um nóttina fór veðrinu heldur að slota og var þá farið að aðgæta, hvort leki hefði hefði komið að skipinu, og kom þá í ljós, að talsverður sjór var kominn í það. Vildu skipsmenn þá reyna að dæla, en dælurnar voru i ólagi, og vinddæla, sem mest var treyst á, hafði öll brotnað í veðrinu, svo að ekki var viðlit að gera við hana. Fleiri bilanir komu og í ljós og með því að enginn tiltök voru að gera við alt það í rúmsjó, sem bilað hafði, þá var siglt af stað, þegar stjórn náðist á skipinu og lensað austur, því að Vestmannaeyjar voru nú einasta höfnin, sem tök var að ná.

Í birtingu um miðjan morgun sáu þeir Vestmannaeyjar fyrir stafni og var þá veður tekið að hægja. Settu þeir upp öll segl, sem þeir gátu og stýrðu til eyja, en síðdegis lygndi og voru þeir þá skamt N.V. af Eyjum. En brátt fór að hvessa af suðaustri og var þá slegið undan. Undir kvöld reyndu þeir að vekja eftirtekt á sér með neyðarmerkjum (blysum), en enginn tók eftir því. Um kl. 8 var komið suðaustan rok og sigldu þeir þá undan' [á lensi vestur með landi], en brátt herti veðrið svo mjög, að segl þau, sem eftir voru, fóru í tuskur og fylgdi þessu veðri stjórsjór, þrumur og eldingar. Einni eldingu sló niður í skipið nálægt skipstjóra og tveim öðrum, en engan þeirra sakaði til muna, og má merkilegt heita.

Alt í einu datt í dúnalogn litla stund, en fór svo að hvessa af suðvestri. Var þá skipinu haldið upp að vindi. Um kl. 3 um nóttina var kominn álandsstormur, og rak skipið til lands, og voru þá gefin neyðarmerki seinni part næturinnar. Um kl. 6 árdegis kom enski botnvörpungurinn Mary A. Johnson (skipstjóri Nielsen) þeim til hjálpar og fylgdi þeim þar til bjart var orðið. Ekki treystist hann til að draga skipið til hafnar, en bauðst til að fara til Eyja og reyna að ná í björgunarskipið, en með því að skipið átti þá svo skamt til lands, sá hann, að enginn tími væri til þess og vildi að skipshöfnin yfirgæfi "Eos". Var þá ekki annað ráð vænna fyrir höndum og skaut hann út björgunarbáti til þeirra, (því að skipsbátur "Eos" hafði laskast), og gengu skipverjar af "Eos" allir í hann. Var það þó ekki auðsótt, því að sjór var mikill, en Englendingar heltu olíu i sjóinn og gerðu sér alt far um að hjálpa sem best. Sumum skipverja tókst að hafa nokkuð af fötum sínum með sér, en aðrir mistu alt, sem þeir höfðu meðferðis. Þetta mun hafa verið um hádegi á fimtudag og var svo beðið hjá barkinum, ef vera mætti, að honum yrði bjargað, en um kl. 4 var hann kominn upp í brimgarðinn við Eyrarbakka, og var þá haldið til Reykjavíkur. Skipstjóri á "Eos" var Davíð Gíslason. "Eos" var 456 smálestir að stærð (nettó). Eigendur h.f. Eos (þ. e. Jóhannes Reykdal, Guðm. Kr. Guðmundsson, Lárus Fjeldsted og Ásmundur í Hábæ).

Heimild: Ægir 1920. Austurland 1920. Alþ.bl.1920.

Flettingar í dag: 2163
Gestir í dag: 191
Flettingar í gær: 489
Gestir í gær: 178
Samtals flettingar: 266490
Samtals gestir: 34328
Tölur uppfærðar: 24.11.2024 11:10:52