27.03.2012 23:15

Formannavísur

Guðfinnur Þórarinsson,(1867-1927) formaður af Eyrarbakka var sægarpur mikill. Bjó hann að Eyri.
Mótorskip hans "Sæfari" er áður hét "Framtíðin" fórst á Bússusundi 25.apríl 1927 með allri áhöfn.
Eftirfarandi vísa og þær sem á eftir koma voru samdar fyrir árið1916.

Stýrir flausti fengsamur.

fjarðar-roða-eiðir,

gætinn, hraustur Guðfinnur,

gegnum boðaleiðir.

Lætur þreyta "Fálkann" flug

flóðs um reiti kalda,

drengja sveitin sýnir dug,

sær þótt bleyti falda 

Ívar Geirsson, af Eyrarbakka: Bjó hann í Sölkutóft og réri fyrir Eyrarbakkaverslun.

Kafteinn ör á öldujó

Ívar Geiri borinn,

æ með fjöri sækir sjó,

seigur, eirinn, þorinn.

"Vonin" flýtur ferða-trygg,

- faldar hvítu boðinn -

sundur brýtur báru-hrygg,

byrjar nýtur gnoðin.

 
Jóhann Guðmundsson (f.1872), frá Gamla-Hrauni:

Jóhann eigi hefur hátt,
Hrönn þótt veginn grafi,
hleður fleyið fiski þrátt,
fram á regin-hafi.
Lætur skeiða "Svaninn" sinn
sels- um breiða móa,
hefur leiði út og inn,
oft með veiði nóga
.

 

Jón Jónsson, frá Norðurkoti á Eyrarbakka:

Jón við Norður- kendur kot,
kappa forðum jafninn,
ljet úr skorðum skríða á flot
skötu-storðar-hrafninn.
"Færsæl" hleypir hnýsu tún,
hjálmunvalar gætir,
ærið gneypur undir brún,
Unn þá fjalir vætir.

 

Jón Sigurðsson, af Eyrarbakka: Bjó hann að Neistakoti, en síðar að Steinskoti.

Heldur geyst um síla-svið
súða-teistu á floti,
jafn að hreysti og jöfrasið
Jón frá Neistakoti.
"Marvagn" hleður hetja kná,
- hlakkar voð í gjósti.
Syngja veður svignar rá,
sýður froða á brjósti.

 

Kristinn Þórarinsson, af Eyrarbakka.Hann var frá Neistakoti. Féll útbyrðis af vélbáti 1917 og druknaði.

Einn er Kristinn aflakló

af álma-kvistum haldinn,

kjark ei misti kempan, þó

Kári hristi faldinn.

"Margrjet" hryndir hart á mið

Hljes- und strindi breiða

Hamist vindur, hugað lið

herðir í skyndi reiða.

Heimild: Ægir 2 tbl.1916
Flettingar í dag: 996
Gestir í dag: 221
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261286
Samtals gestir: 33848
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:39:06