01.02.2012 01:29
Rysjóttur janúar
Hann byrjaði með 13 stiga frosti en dró svo hratt úr og hlýnaði með umhleypingum. Mikla hálku gerði er hlánaði en klakinn var víðast hvar lengi að fara. Snjór vetrarins hvarf þó með öllu við ströndina um sinn. Síðan tók við rysjótt tíð. Þann 10. brast á mikið éljaveður og var mesta hviða um 28 m/s. Umhleypingarnar héldu áfram næstu daga. Þann 18. gerði snjóstorm með hviðum um 26 m/s. Einnig snjóaði töluvert þann 20. og þann 22. gerði snjóstorm á nýjan leik með allmiklum skafrenningi. Töluverð snjókoma var einnig þann 24. og næstu daga með skafrenningi, en síðan kom asahláka í kjölfarið út mánuðinn svo alautt var orðið síðasta dag mánaðarins.