29.01.2012 21:24

Kolbeinn kafteinn

Kolbeinn SigurðssonKolbeinn Sigurðsson (1892-1974) átti að baki langan skipstjóraferil. Hann byrjaði sjómennsku um fermingaraldur, fyrst á áraskipunum, svo á skútu og síðan á togurum mestan hluta ævi sinnar. Kolbeinn var Eyrbekkingur að ætt, og að honum stóðu ættir héðan. Móðir hans var Viktoría Þorkelsdóttir frá Óseyrarnesi, og faðir Sigurður Jónsson frá Litlu- Háeyri. Þau bjuggu á Akri á Eyrarbakka. Sigurður var formaður á Eyrarbakka og Þorlákshöfn meðan honum entist aldur, en lést á besta aldri, um fertugt. Systkini Kolbeins voru Jón, sem lengi var skipstjóri á bv. Hilmi, Hannesína, Þórdís og Ólafur.

Uppvaxtarár Kolbeins framanaf liðu á svipaðan hátt og jafnaldra hans, við leiki í fjöru og flæðarmáli, bíðandi með óþreyju eftir því, að sér yrði trúað fyrir því, að beita, eða ynna af hendi störf svipaðs eðlis. Og að því kom, að slík störf tóku við, þar til farið var að róa fyrir hálfum hlut fyrst og síðan fyrir fullum, sem var eftirsótt takmark allra hraustra stráka á þeim árum. Nokkrar vertíðir reri hann svo á Eyrarbakka og Þorlákshöfn. Leiðin lá síðan í kjölfar bróður síns Jóns, á skúturnar, eins og áður er að vikið hér í annari grein. Kolbeinn  lét sér fátt í augum vaxa, enda mjög eftirsóttur á þau skip. Kolbeinn lauk prófi frá stýrimannaskólanum í Reykjavík 1914. Gerðist hann brátt stýrimaður á togurum, og síðan skipstjóri á togurum Duusfélagsins Ásu og Ólafi. Þar næst á skipum Kveldúlfs, Þórólfi [Þórólfur kom 1920, smíðaður í Englandi, seldur til niðurrifs 1950. Gott happaskip.]í mörg ár og síðast Agli Skallagrímssyni, þegar það skip kom nýtt  og var á því þar til hann hætti skipstjórn. [Egill Skallagrímsson, var smíðaður 1915, en Bretar notuðu hann í stríðinu, og þótti herskár eins og nafni hans forðum. Kom til íslands 1919. Seldur til Svíþjóðar um 1950 og hét þá Drangey.]

Togarinn Þórólfur var mikið aflaskip.Kolbeinn var í fremstu röð sem aflamaður, hvort heldur var um að ræða botnvörpuveiðar, eða síldveiðar. Stundaði starfið af kappi, en þó með forsjá, bæði á friðartímum sem á stríðstímum, í báðum heimsstyrjöldunum. Hann var einn af skipshöfn Bb. Njarðar þegar hann var skotinn í kaf  við England [1918] en mannbjörg varð. "Njörður" var eitt af happaskipum íslendinga á sinni tíð, og þótti mikil eftirsjá að honum úr íslenska flotanum. Njörður var frá Fleetwood (áður Velia). Sökkt af kafbáti 1918.


Kolbeinn átti Ingileifu Gísladóttur frá Reykjavík 1926. Þau eignuðust fjögur börn: Sigurð, Gísla, Viktoríu og Kolbein Inga.

Heimild: Tímarit.is, Sigurður Guðjónsson /Sjómannabl. Víkingur 2.tbl.1974 og 6-7 tbl.1962. Skeggi 2.tbl.1918.
Flettingar í dag: 535
Gestir í dag: 162
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260825
Samtals gestir: 33789
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 19:14:30