29.01.2012 17:37

Jón á Hilmi

Jón Sigurðsson frá Akri.Jón Sigurðsson skipstjóri á Hilmi RE 240 var Eyrbekkingur að ætt, og að honum stóðu ættir héðan. Móðir hans var Viktoría Þorkellsdóttir frá Óseyrarnesi, og faðir hans Sigurður Jónsson frá Litlu-Háeyri. Þau bjuggu á Akri á Eyrarbakka. Börn þeirra voru Jón, Kolbeinn, Hannesína og Ólafur. Sigurður var formaður á Eyrarbakka og Þorlákshöfn, meðan honum entist aldur, en lést á besta aldri, rúmlega fertugur. Fyrstu uppvaxtarár Jóns munu hafa verið svipuð og annarra drengja á þeim árum, hugur þeirra og athafnir voru bundnar við sjóinn og sjávarnytjar. Fyrstu störf og sjóferðir voru bundnar við fjöruna og reynt að verða að gagni, með því að fara í sölvafjöru eða þangfjöru, með þeim fullorðnu, því þá voru fjörugögnin liður í því, sem afla þurfti til líf sframfæris. Um fermingaraldur öðluðust þeir þann vegsauka, að verða beitingadrengir, uppá hálfan hlut. Venjulega fylgdu þeir fjórir hverju skipi, meðan lóðin var aðalveiðarfæri áraskipanna. Á árunum báðumegin við síðustu aldamótin 1900var oftast nógur fiskur þegar á sjóinn varð komist. Var því oft róið oftar en einusinni á dag, fór það að sjálfsögðu eftir veðri og sjó. Urðu þá beitustrákarnir að hafa beitta línu tilbúna, þegar að var komið. Beitukofi tilheyrði hverju skipi og í þeim var beitt, en heldur var það kaldsamt verk, í frosthörkum, en þó heldur skárra í þeim, sem niðurgrafnir voru. En um það tjóaði ekki að fást, beitan varð að komast á önglana og línan að vera tilbúin í næsta róður. Menn börðu sér þá til hita, þegar fingurnir voru orðnir loppnir, en ekki var kvartað, það þótti lítilmannlegt, og ekki vænlegt til þess, að verða hlutgengur í skiprúm, sem fullgildur háseti, en til þess stóð hugur drengja á þessum aldri.

Ungur fór hann á skúturnar við Faxaflóa á sumrinu, þó kom fljótt að því, að hann var á þeim allt Hilmir RE 240úthaldið, enda eftirsóttur og lipurmenni, og sjómaður í fremstu röð. Jón var stýrimaður á skútu eftir að hafa lokið prófi í þeim fræðum. En um það leyti var botnvarpan að halda innreið sína í sjávarútveginn, og með henni var brotið blað í atvinnuháttum þjóðarinnar. Skúturnar voru lagðar niður og sú veiðiaðferð, sem við þær voru bundnar. Í þeirra stað komu togararnir, með sína miklu möguleika. Jóni fór, sem mörgum ungum og áhugasömum mönnum, sem hlýddu kalli tímans og framfaranna, og flutti sig yfir á þá, og varð brátt stýrimaður á ýmsum þeirra, svo sem Belgaum, Draupni og Apríl. Skipstjóri varð hann fyrst á B.v. Surprise, þeim fyrri með því nafni. Síðan tók hann við skipstjórn á B.v. Hilmi, og var meðeigandi að því skipi og stýrði því langt árabil og fram yfir heimsstyrjöldina síðari. Þá var skipið selt til innlendra aðila, (hét þá Kópanes RE 240 ) sem seldu það svo nokkru síðar til Færeyja [til Rituvikar Trawlers í Færeyjum og hét þá Skoraklettur VN 25.Örlög togarans urðu þau að hann strandaði við Færingehavn á vestur Grænlandi 15 maí 1955 og var rifinn á strandstað.]. Hilmir RE var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby Englandi árið 1913 hét þá T.R.Ferens H 1027. Hilmir var gufuknúinn og 307 tn. að stærð.

Jón kvæntist 1914 Jónínu Jónsdóttur frá Helluvaði á Rangárvöllum. Börn þeirra voru Viktoría, Elín og Sigurður.

Heimild: Sigurður Guðjónsson/Sjómannablaðið Víkingur 4.tbl.1973 og http://krusi.123.is/blog/record/400831/

Flettingar í dag: 573
Gestir í dag: 171
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260863
Samtals gestir: 33798
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 19:57:00