24.11.2011 22:47
Viðurnefni fyrr og nú
Það hefur löngum tíðkast hér við ströndina sem og víðar að gefa mönnum viðurnefni og eða gælunöfn og jafnvel stundum uppnefni. Sumir eru kenndir við húsin, starfið, mæður, maka eða önnur einkenni. Þannig voru menn þekktir sem t.d. Siggi-skó, Jón-kaldi, Jón-halti, Gunnsi í Gistihúsinu, Sæmi á Sandi, Kalli á Borg, Bjadda á Sæfelli, Tóta Kristins, Inga Lalla, Reinsi Bö, o.s.fr.v. Til forna þótti mikil upphefð í viðurnefnum eins og alkunna er, t.d. Skalla-Grímur, Eiríkur-rauði o.s.frv. En allt frá þjóðveldisöld hafa nafngiftir af þessum toga verið bannaðar samkvæmt Íslenskum lögum. Um það mál segir svo í Grágás: "Ef maður gefur manni nafn annað en hann eigi áður, og varðar það fjörbaugsgarð,(3 ára útlegð) ef hinn vill reiðast við.
Á héraðsþingi sem haldið var á Stokkseyri 19. júní 1704 kom upp slíkt mál. Þannig hafði sr. Halldór Torfason verið kallaður Brúsi, en kona hans Þuríður Sæmundsdóttir, kölluð Lúpa; lögréttumaðurinn Jón Gíslason nefndur Harðhaus; lögréttumaðurinn Brynjólfur Hannesson kallaður Stúfur; Kvinna Jóns Guðmundssonar í Hólum, Guðný Sigurðardóttir, Langatrjóna; Þorlákur Bergsson á Hrauni Snarkjaftur; Helga Benediktsdóttir á Hrauni Ígrá; Jón Guðmundsson á Skipum Rosi; hans kvinna, Ingiríður Magnúsdóttir, Svingla; hans sonur, Hafliði, Stóri-Blesi; hans sonur annar, Páll, Minnavíti; Sigurður Bergsson á Hrauni Merarson; kona lögréttumannsins Þorsteins Eyjólfssonar, Svanhildur Sigurðardóttir, Lóðabytta; kvinna Þorláks Bergssonar á Hrauni, Guðný Þórðardóttir, Langvía; kvinna Sigurðar Jónssonar í Einarshöfn, Ingunn Brynjólfsdóttir,Ígrá.
Þeir sem voru kallaðir fyrir þingið vegna þessara uppnefna voru: Gísli Pálsson umferðardrengur í Stokkseyrarhreppi 19 ára, Ófeigur Jónsson í Skúmsstaðahverfi, Kári Jónsson í Einarshöfn, Brandur Sveinsson í Skúmsstaðahverfi, (Jón Eyjólfsson í Stokkseyrarhverfi, var fjarverandi) og Ormur Þórðarson í Traðarholti, en þeir neituðu að hafa fundið upp þessi viðurnefni. En fyrrnefndur Gísli Pálsson sagðist hafa heyrt úti á Eyrarbakka í nálægð kaupmannanna beggja, Páls Christianssonar Birck og Rasmusar Hanssonar Munch, ásamt velbyrðugs herra amtmannsins fullmegtugs, Seigr Pauls Beyer, framsagt hafa eftir þeirra spurn og eftirleitni, að yfirkaupmaðurinn Páll Christiansson hefði verið kallaður Ólöfarstreðill, en undirkaupmaðurinn Rasmus Munch Halldórustreðill. Frambar þá Gísli opinberlega, að haustið áður, 1703, þá Eyrarbakkaskip hafi verið afsiglt, hafi Kári Jónsson, Ófeigur Jónsson, Brandur Sveinsson og hann sjálfur verið allir til samans við stofugluggann á Skúmsstöðum, og sagðist hann þá heyrt hafa, að þeir hafi þar um hönd haft nafnagiftur nokkrar af þeim, sem hér eru nefndar.
Einginn hlaut dóm svo vitað sé en tilkallaðir látnir sverja eiðstaf fyrir utan Gísla Pálsson sem þótti ekki eiðtækur sökum óknittasögu.
Heimild: Blanda 1944/Guðni Jónsson